Ættir Einars í beinan kvenlegg

Faðir Helgu Bjarnadóttur var:

Bjarni Eyjólfsson

Fæddur um 1610. Espólín nefnir hann einnig Ólafsson. Bóndi á Kúludalsá 1645-1656. Í bókinni íslenskum æviskrám V. Bindi á bls.9 segir að kona Bjarna hafi verið Þóra Teistdóttir en ekki verður annað séð en það sé eitthvað málum blandið því hún var tengdamóðir hans. Kona Bjarna var Gróa Jónsdóttir fædd um 1610. Þau eignuðust 10 börn saman. Bjarni er tekinn hér með sem tengiliður milli Ljótunnar og Helgu gaf það mér möguleika á að komast aðeins lengra aftur. Börn Bjarna og Gróu voru: Eyjólfur 1637, bóndi á Kúludalsá, Akraneshreppi, Borg 1681 og 1703, Jón “eldri” um 1637, barnlaus, Teitur um 1640-fyrir 1703, bóndi í Efraskarði, Borg.1681, Jón um 1640-fyrir 1703, líklega vinnumaður að Hurðabaki í Reykholtsdal um 1670, bóndi í Hurðarbakskoti uppúr 1671, bjó líklega í Brekkukoti í sömu sveit í fá ár, var bóndi í Reyni á Akranesi 1681, Kolbenn um 1640-eftir 1681, bóndi og koparsmiður í Stóru-Fellsöxli á Akranesi, var þar 1681, Pétur um 1640, bóndi í Kjalardal, Skilmannahr. Borg. 1681, Ingiríður um 1640-fyrir 1703, “Ingiríður mun hafa farið út fyrir Skarðsheiði til ættfólks síns eftir andlát Jóns, ásamt börnum þeirra”, segir í Borgfirskum, Teitur um 1645, “sigldi ógiftur” segir Espólín, Margrét um 1650-fyrir 1675, barnlaus, Ástríður 1653, húsfreyja á Katanesi, Strandahreppi, Borg. 1703.

Helga 1643, hún átti ekki sömu móður og hin börn Bjarna og er móður Helgu er ekki getið.


 

Móðir Bjarna Eyjólfssonar var:

Ljótunn Ásmundsdóttir

Fædd um 1590, húsfreyja í Leirárgörðum. Hennar maður var Eyjólfur Helgason, Eyjólfssonar, Grímssonar* prests í Skálholti 1530-1537, af ætt Gottskálks “grimma” Nikulássonar 1469, biskups á Hólum, Herborg móðir Gottskálks “grimma” var fædd í Jónsdal í Noregi). Eyjólfur var bóndi i Eystri-Leirárgörðum, í Leirársveit, var í Borgarfjarðarsýslu 1630. Þau eignuðust 10 börn:

1. Margrét 1610

2. Bjarni um 1610, bóndi á Kúludalsá

3. Magnús 1610, bóndi á Geitabergi

4. Úlfhildur um 1610

5. Guðrún um 1610, húsfreyja í Tanga á Akranesi

6. Ingibjörg, húsfreyja á Skógarströnd

7. Helga um 1610

8. Ásmundur um 1616-1702, aðstoðaprestur á  Helgafelli í Helgafellssveit 1647-1650, prestur á Breiðabólstað á Skógarströnd frá 1650 til dauðadags, varð prófastur í Snæfellsnesprófastdæmi 1690


 

Miklaholtskirkja


Móðir Ljótunnar Ásmundsdóttur var:

Sigríður Bjarnadóttir

Fædd um 1550. Hún var gift Ásmundi Nikulássyni 1550-eftir 1603, prestur á Setbergi í Eyrarsveit 1566-1568 og í Miklaholti í Miklaholtshreppi frá 1568. Þau eignuðust seks börn:

  1. Kristín 1580, húsfreyja í Hnappadalssýslu, óvíst hvort um er að ræða Kristínu eldri eða yngri
  2. Jón 1585, bóndi á Vesturlandi
  3. Helgi 1585
  4. Ljótunn um 1590
  5. Kristín 1590, húsfreyja í Borgarholti
  6. Brynjólfur 1600.


 

Miklaholtskirkja er í Staðarstaðaprestakalli  í Snæfellsnes- og Dalaprófastdæmi. Bærinn Miklaholt er kirkustaður og fyrrum prestssetur í Miklaholtshreppi. Elsti máldagur kirkjunnar, líklega frá 1181, er enn til. Katólsku kirkjurnar á staðnum voru helgaðar Jóhannesi skírara.

Nú verður rakið frá föður Jórunnar Þorsteinsdóttur, móður Margrétar Jónsdóttur, móður Einars Björnssonar, föður Margrétar Einarsdóttur, móður Hildar Jörundsdóttur.

Jórunn Þorsteinsdóttir

Fædd á Þorláksstöðum, Kjósarhr. Kjós. 26. september 1830. Látin 4. febrúar 1884. Sjá nánar framar í skjali.


Faðir Jórunnar Þorsteinsdóttur var:

Þorsteinn Torfason

Fæddur á Gullberastöðum í Lundareykjadalshr., Borg. 1790. Látinn á Þorláksstöðum 7. júlí 1882. Bóndi á Þorláksstöðum í Kjós. Vinnumaður á Sigmundarstöðum, Stóraássókn, Borg. 1801. Þorsteinn var ungur að árum, þegar hann missti föður sinn og var tekinn í fóstur af föðurbróður sínum Þórði hreppstjóra á Meðalfelli og dvaldist þar unz hann reisti sjálfur bú. Hann bjó á Þorláksstöðum frá 1824-1860, ekkill tvö síðustu árin, brá þá búi en átti heimili í skjóli dóttur sinnar til æviloka. Þorsteinn var giftur Margréti Guðmundsdóttur fædd 15. des 1802, dáin 3. júní 1858 á Þorláksstöðum  (hún getur rakið ættir sínar til Kjósarmanna marga ættliði aftur á einn veginn og á Suðurlandsundirlendið í hinn), Þau giftu sig 22.10 1823. Þau eignuðust seks börn:

1. Guðrún f.13.sept. 1824  kona Eyjólfs Guðmundssonar á Þorláksstöðum**

2. Guðmundur f. 12. júlí 1826, d. 7. september 1827

3. Margrét f. 6.des. 1828, heimasæta á Þorláksstöðum 22. júní 1851(þessi er ekki tekin með í Íslendingabók, en í Kjósverjar er hún sögð ein af börnum Þorsteins og Margrétar.

4. Katrín f. 26. ágúst 1829 , d. 13. júlí 1833 á 4. ári

5. Jórunn 26. september 1830, kona Jóns Jónssonar á Írafelli

6. Katrín f. 24. september 1837, d. 27. júní 1879 í Hækingsdal, hún giftist ekki en átti tvö börn við Guðmundi vinnumanni á Valdastöðum Jónssyni norðlenska bónda á Írafelli

7. Þórður 4. ágúst 1844, var lengi viðloðandi á Írafelli , dó þar 29. maí 1899.

 

**Eyjólfur Guðmundsson tengdasonur Þorsteins var fæddur 19. júni 1824, dáinn 16. ágúst 1904 í Eyrar-Útkoti. Foreldrar hans voru Guðmundur Eyjólfsson óðalsbóndi á Sandi og Kristrún Guðmundsdóttir. Kristrún þessi var systir Margrétar Guðmundsdóttur langalangömmu Einars afa Björnssonar. Eyjólfur reisti bú á Þorláksstöðum og bjó þar frá 1850-1890, fyrsta áratuginn í sambýli við tengdaföður sinn Þorstein Torfason og um skeið var þar einnig Ólafur Ólafsson(fjarskyldur afa Einari Björnssyni) , en frá 1861 hélt hann jörðina einn, þegar hann brá búi fór hann í dvöl til sona sinna og fyrri nágranna hann lést hjá Sigurði syni sínum í Eyrar-Útkoti. Kona Eyjólfs var Guðrún dóttir Þorsteins Torfasonar. Voru þau Guðrún og Eyjólfur hálfsystrabörn. Þau eignuðust 11 börn og sat þessi ætt áfram á Þorláksstöðum, við tók Ásgeir sonur þeirra fæddur 26. október 1861 og látinn 22.september 1935. (Til gamans má geta þess að þau áttu eina dóttur er hét Margrét Helga f.14. apríl 1866). Ásgeir bjó á Þorláksstöðum frá 1890-1930, en þá fluttist hann með konu sinni til Reykjavíkur, en eiginkona hans var Sigríður*** f. 27. oktober 1859, d. 3. júlí 1940 Sigurðardóttir bónda á Þykkvabæjarklaustri í Veri, Nikulássonar(í Garðhúsum á Miðnesi. Sigurðssonar) og konu hans Rannveigar Bjarnadóttur á Þykkvabæjarklaustri, Jónssonar. Sigríður var gerðarkona mikil og lauk hún prófi í ljósmæðrafræði 7. júni 1890 og var sama ár skipuð ljósmóðir í Kjósarsveit, því embætti gegndi hún uns hún sagði starfinu lausu 1918 eftir 28 ára þjónustu.

*** Sigríður þessi var móðursystir föðurömmu Litlalandssystkyna Hildar Jónsdóttur. Hún var systir Sigurveigar langömmu okkar, svona tvinnast ættirnar okkar skemmtilega saman víða.

Enn heldur þessi sama ætt áfram að búa á Þorláksstöðum og nú tekur við sonur Ásgeirs og Sigríðar, Einar Bjarni Ágúst f. 1. ágúst 1892, annan son áttu þau einnig er Sigurður hét f. 27.nóv. 1893, verkamaður í Reykjavík og Hafnarfirði.

Einar Bjarni Ágúst bjó í sambýli við foreldra sýna á Þorláksstöðum frá 1918-1931, en þá seldu þeir feðgar ábýlisjörð sína og fluttist Einar þá til Reykjavíkur.

Langömmubarn Guðrúnar dóttur Þorsteins Torfasonar, Guðmundur Björnsson f. 13. júlí 1914, sonur Björns Guðnasonar bónda á Írafelli og Guðrúnar Guðmundsdóttur, gerðist bóndi á Þorláksstöðum 1958 og bjó þar enn þegar “Kjósverjar” voru gefnir út.

 

Faðir Þorsteins Torfasonar var:

Torfi Þorsteinsson

Fæddur 1750. Bóndi á Gullberastöðum og á Reykjum í Lundarreykjadal. Hans kona var Magdalena Snæbjarnardóttir 1751, dóttir Snæbjörns prests í Lundi Þorvarðarsonar ríka á Kiðafelli og Brautarholti Einarssonar (hún getur m.a. rakið ættir sínar til Árna Ormssonar 1280 riddara og ríkisráðsmaður á Ask á Askey), vinnukona á Fitjum, Fitjasókn, Borg. 1801. Þau eignuðust fimm börn:

  1. Snæbjörn um 1790
  2. Þorsteinn 1790
  3. Þorbjörg um 1790
  4. Helga 1793
  5. Gísli 1794.
  6. Þar að auki átti Torfi soninn Ásgeir 1795, barnsmóðir var Þorgerður Ásgerisdóttir 1768-1856.

 

Faðir Magdalenu, Snæbjörn Þorvarðarson átti bróður er Oddur hét og var sá prestur á Reynivöllum í Kjós. Um Odd þennan er sagt í Kjósverjar: “ Oddur Þorvarðarson, fæddur 1744. Dáinn 13. febrúar 1804 á Reynivöllum . Foreldrar Þorvarður Einarsson, bóndi og lögréttumaður á Kiðafelli og Brautarholti og seinni kona hans Sólveig Kortsdóttir. Hann var útskrifaður úr Skálholtsskóla 1766, var síðan heima hjá foreldrum sínum unz hann hóf búskap í Brautarholti að föður sínum látnum, bjó þar 1769-80, vígðist 17. okt. 1779 aðstoðarprestur til síra Jóns Þórðarsonar á Reynivöllum og fékk það kall 1786, hann bjó á Reynivöllum frá 1780 til æviloka. Síra Oddur var vel látinn af sóknarbörnum sínum, en enginn höfuðklerkur kallaður. Hann var manna mestur á velli  og karlmenni að burðum og á skólaárum sínum góður glímumaður. Hann var fjárgæzlumaður og tók við miklum eignum eftir foreldra sína, m.a. erfði hann Brautarholtstorfuna og fleiri jarðir. Eftirlátnar eigur hans voru 90 hundruð í fasteignum, en lausafé nægði til að afgreiða morgungjöf ekkjunnar. Kona síra Odds var Kristín f.1747.d.15. júní 1815 á Hvítárvöllum, Hálfdánardóttir prests í Eyvindarhólum, Gíslasonar og konu hans Margrétar Jónsdóttur sýslumanns á Sólheimum í Mýrdal, Þorsteinssonar. Börn Odds og Kristínar voru Þorvarður bóndi í Brautarholti, Margrét 1771 dó úngabarn, Margrét 1773 dó ungabarn, Hálfdan 1774, prestur á Mosfelli í Grímsnesi, Gróa 1775 seinni kona síra Jóns Hjaltalíns á Breiðabólstað á Skógarströnd, Karitas 1777, kona Lofts Guðmundsssonar bónda á Neðra-Hálsi, Margrét 1778 dó ungabarn. Guðrún 1779 seinni kona Stefáns amtmanns Stephensen á Hvítárvöllum, Guðmundur 1784, dó ungabarn, Kristín 1785 Kona Jóhanns Bjarnasonar á Kaðalsstöðum í Stafholtstungum”(úr Kjósverjar)

 

Snæbjörn Þorvarðarson foreldrar: Þorvarður Einarsson og fyrri kona hans Agata Halldórsdóttir. Foreldrar Agötu voru: Sesselja Eyjólfsdóttir 1650 0g Halldór Þórðarson 1645-1721 bjuggu á Möðruvöllum í Kjós og um þau stendur í “Kjósverjar”:

“Halldór Þórðarson fæddur um 1645 dáinn 1721 á Möðruvöllum. Foreldrar: Þórður Ormsson á Möðruvöllum og kona hans Ingibjörg Guðmundsdóttir. Halldór bjó á Möðruvöllum frá 1680 til æviloka. Samkvæmt jarðarbókinni frá 1705 átti hann 7 og hálft hundrað að dýrleika í ábýlisjörð sinni og hafði laglegt bú, auk þess átti hann Melakot á Kjalarnesi. 7 hundruð, mun kotið hafa verið heimafylgja konu hans eða föðurleifð hennar. Kona hans var Sesselja f. U  1650 Eyjólfsdóttir bónda á Melum á Kjalarnesi, Ísleifssonar í Saurbæ, Eyjólfssonar(en kona Ísleifs var Sesselja Magnúsdóttir, prúða, systir Ara sýslumanns í Ögri.) Börn Sesselju og Halldórs voru: Pálll f. 1679, bóndi á Möðruvöllum, Agatha f.1681 fyrri kona Þorvarðar lögréttumanns á Kiðafelli Einarssonar, Eyjólfur f.1684, bóndi á Meðalfelli og Tindsstöðum, Ingibjörg f.,1686, átti barn ógift 1719 með Henrich Rolfsen(Hinriki Hrólfssyni) matros á kóngsskipinu Gothenborg, er hann dvaldi strandmaður á Möðruvöllum veturinn 1718-1719, hún giftist síðar Jóni Þórðarsyni, Valgerður f. 1690, dáin 1761 á Tindsstöðum, átti 1718 barn við Snorra Guðmundssyni á Þorláksstöðum, Sigurðssonar, en giftist síðar Þorkatli nokkrum Jónssyni, Anna


 

Faðir Torfa Þorsteinssonar var:

Þorsteinn Magnússon

Fæddur í Reynivallasókn, Kjós. 1. mars 1715. Látinn í Reynivallasókn, KJós. 26. júní 1791. Bóndi á Vindási í Kjós 1757-1772, Hurðarbaki 1746-1757 og fluttist búferlum að  Þyrli á Hvalfjarðarströnd og bjó þar frá 1772 til 1790 og er í frásögnum kenndur við þann bæ. Um 1790 fluttist Þorsteinn með konu sína til Þórðar sonar síns á Vindási og dó þar ári síðar. “Hann var í hjónabandi í 46 ár, átti 12 börn og lifðu hann átta, öll mannvænleg. Frómur sómamaður.” (Segir í Prestþjónustubók Reynivalla 1791)Hann var giftur Snjálaugu Þórðardóttur 1721(f.1722 samkvæmt “Kjósverjum”) bónda á Meðalfelli Gíslasonar og konu hans Svanborgar Björnsdóttur. (hún getur rakið ættir sinar m.a. aftur til Þórðar Víkingssonar 869) Þau giftu sig árið 1745 og eignuðust átta börn:

  1. Halldóra um 1746(f.1747 segir í Kjósverjum, kona Gamaliels Guðmundssonar í Skorhaga, en síðar giftist hún Helga Guðlaugssyni á Litla-Sandi og Höfn),
  2. Torfi 1750.
  3. Þórður 1751, bóndi á Vindási og Meðalfelli,
  4. Þórður fæddur 1751-1836
  5. Margrét 1752 kona Jörundar Gíslasonar hreppstjóra á Eystra Miðfelli á Hvalfjarðarströnd,
  6. Stefán um 1754 bóndi í Tungu í Svínadal, d. 1812 á Meðalfelli eftir að hafa verið þar 5 ár þungur ómagi Þórðar bróður síns,
  7. Ólafur 1756(f.1754 samkvæmt Kjósverjar) bóndi á Brekku á Hvalfjarðarströnd,
  8. Jón 1763(f.1765 samkvæmt Kjósverjar) bjó fyrst í Meðalfellskoti en síðar í Kalastaðakoti á Hvalfjarðarströnd,
  9. Guðrún 1766 kona Jóns Eiríkssonar í Gröf í Lundarreykjardal.

 


 

Faðir Þorsteins Magnússonar var:

Magnús Gunnlaugsson

Fæddur 1679. Bóndi á Hurðarbaki í Kjós. Var á Þorláksstöðum í Kjósarhreppi, Kjós. 1703. Espólín segir hann p.709 son Gunnlaugs Þorlákssonar. “Magnús bjó á Þorláksstöðum 1705-1713, en fluttist þá búferlum að Hurðabaki og bjó þar með vissu 1735”(Kjósverjar). Á vorþingi í Kjós 1726 var Magnús Gunnlaugsson kosinn hreppstjóri í stað Hjálmars sál. Jónssonar á Valdastöðum.Hann var giftur VigdísiÞorleifsdóttur 1670. Hún var þjónustustúlka á Sandi 1703. Þau giftu sig árið 1707. Vigdís var fyrri kona Magnúsar og eignuðust þau þrjú börn:

  1. Þóra 1711-1785, kona Björns Þórðarsonar á Hurðabaki í Kjós,
  2. Guðrún 1712-1787, kona Jóns Árnasonar á Fremri-Hálsi í Kjós. Ættmóðir Fremri-Hálsættar,
  3. Þorsteinn 1715 bóndi á Vindási

Seinni kona Mangúsar var Ólöf Sumarliðadóttir 1690, ættuð úr Borgarfirði og skild okkur í gegnum Björn Kaprasíusson. Þau giftu sig árið 1728 og eignuðust þrjú börn: Sumarliði um 1730 bóndi í Gröf á Akranesi(Í Kjósverjum er Sumarliði sagður sonur Magnúsar og Vigdísar og er seinni konu Magnúsar ekki getið þar né heldur dætranna Ingibjargar og Guðrúnar), Ingibjörg 1733, Guðrún 1736.

 


 

Faðir Magnúsar Gunnlaugssonar var:

Gunnlaugur Bárðarson

Fæddur 1647, bóndi í Hvammsvík í Kjós. Bjó á Þorláksstöðum Kjósarhreppi, Kjós 1703. Það leikur vafi á framættum Gunnlaugs sbr. Kjósarmenn bls.83. Í Kjósarmenn segir annars við Gunnlaug: “(Framætt Gunnlaugs er ekki getið í fornum ættartölum. Ýmsir yngri ættfræðingar telja að faðir hans hafi verið Bárður Bárðarson, Teitssonar prests á Reynivöllum Helgasonar.(Ísl.bók rekur ætt hans þannig. hj) En hvort sem menn vilja fallast á þessa ættfærslu eða ekki, má telja mjög líklegt að Gunnlaugur hafi verið afkomandi síra Teits. Bróðir Gunnlaugs var Oddur Bárðarson(d.fyrir1703), kona hans var Arnfríður Sighvatsdóttir, þau hafa búið eða verið viðloaðndi í Kjósinni 1688-96, sem sést af því að börn þeirra á ómaga aldri eru meðal þurfamanna sveitarinnar 1703) Gunnlaugur bjó á Neðra-Hálsi 1681, á Þorláksstöðum 1703, en í Hvammsvík 1705. Kona hans var Kristín f.1649 Guðmundsdóttir bónda á Neðra-Hálsi, Narfasonar”, Hann var giftur Kristínu Guðmundsdóttur 1649 (hún tengis líka Gunnlaugi og Randíði, sem getið er hér á öðrum stað i þessu skjali). Þau eignuðust sjö dætur og tvo syni:

 

  1. Guðrún 1678, kona Guðlaugs Ásmundssonar í Reynivalla-Vesturkoti, Kjós, 1703
  2. Magnús 1679 bóndi á Hurðarbaki
  3. Guðrún 1681, vinnukona á Þorláksstöðum
  4. Margrét 1682
  5. Ingveldur 1684
  6. Guðrún 1687 kona Jörins Guðmundssonar í Kollafirði
  7. Guðmundur 1690
  8. Þóra 1692
  9. Halldóra 1694, kona Jóns Grímssonar í Hvammsvík í Kjós.

 

 

Faðir Gunnlaugs Bárðarsonar var:

Bárður Bárðarson

Fæddur um 1615. Bárður eignaðist einn son, en barnsmóður er ekki getið. Sonur þessi hét:

1. Gunnlaugur 1647.


 

Reynivallakirkja í Kjós er í Reynivallaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Reynivellir eru ævaforn kirkjustaður, kirkjunnar er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200. Á Reynivöllum var Maríukirkja i kaþólskum sið. Kirkjustaður og prestssetur hefur verið á Reynivöllum frá því elstu heimildir herma. Þar var einnig lengst af miðstöð byggðarinnar. Um langan aldur var þar þingstaður sveitarinnar og þinghús.

( http://www.kjos.is/pages_sveitin_okkar/3grein_gunnars.html ).




Faðir Bárðar Bárðarsonar var:

Bárður Teitsson

Fæddur um 1560. Bóndi á Þorláksstöðum í KJós. Í Kjósarmönnum segir að móðir Bárðar hafi verið ónafngreind fyrri kona Teits og ennfremur sé ekki vitað með vissu um hvort hann hafi átt börn. ólíklegt er að hann hafi verið sonur síra Teits á Reynivöllum, nema hann hafi átt tvo sonu Hér er þó skrifaður sem sonur hans

  1. Bárður 1615, móður er ekki getið.

 

Á örðum stað í Kjósarmenn eða við Þorláksstaði I bls. 474, segir:”Bárður Teitsson fæddur nál. 1560. Foreldrar: Síra Teitur Helgason prestur á Reynivöllum og fyrri kona hans ónafngreind, líklega dóttir síra Bárðar Jónssonar á Reynivöllum. Líkur benda til að Bárður Teitsson hafi búið á Þorláksstöðum 1594-1623 eða lengur. Jón Pálmason, mágur Bárðar, stefndi honum fyrir margar sakir. Kom mál þeirra fyrir heimadóm lögmanns, er leiddi það til lykta með sætt aðila(Alþingisbók 1604). Bárður Teitsson gaf út vitnisburð dags. 13. setp. 1623 á Reynivöllum um réttindi Reynivalla til Seljadals í Fossárlandi(Bréfab. Br. Sv. IX, 365). Ekki er kunnugt kvonfang Bárðar og ekki heldur með vissu hvort hann hafi átt börn. Yngri ættfræðingar nefna son hans Bárð. Ekki hafa fundizt heimildir er staðfesti það.

 

 

Faðir Bárðar Teitssonar var:

Teitur Helgason

Fæddur um 1525. Látinn 1603. Prestur á Reynivöllum í Kjós frá 1581 til æviloka. Kom fram sýknu Randíðar Bjarnadóttur formóður sinnar á Alþingi 1578(Hallbjarnarætt, þessar upplýsingar eru fengnar á ættarsíðu Guðmundar Páls Jónssonar Blönduósi.)

Teitur var giftur Valgerði Eyjólfsdóttur um 1545. Þau eignuðust þrjú börn saman:

  1. Guðríður um 1563, kona Narfa Guðmundssonar á Neðri Hálsi
  2. Jón 1589, bóndi á Jarngerðarstöðum í Grindavík, um dauða Jóns segir í Skarðsannál:”Jón Teitsson bóndi á Járngerðarstöðum  skaðaði sig sjálfan með því móti, eldur komst í tjöru fyrir honum; hann var við skipðabræðslu og logaði svo allt á honum; lifði 2 nætur.” 
  3. Vilborg um 1590, kona Jóns Pálmasonar, síðar átti hana Tumi Jónsson í  Síðumúla.

     4. Bárður , bóndi á Þorláksstöðum 

Árið 1560 eignaðist Teitur son er Bárður hét 1560, en móður hans er ekki getið í ísl.erfðagrein. Bárður þessi var bóndi á Þorláksstöðum í Kjós. Í Kjósarmönnum segir, að móðir Bárðar hafi verið ónafngreind fyrri kona Teits og enn fremur að ekkert sé vitað með vissu um hvort hann hafi átt börn.

 

“Talið er að síra Teitur hafi verið prestur á Stað í Grindavík 1562-69, en síðar orðið aðstoðarprestur síra Bárðar á Reynivöllum og tók við staðnum 1581 og hélt til æviloka.Hann hefur vafalaust verið meðal merkustu klerka sinnar tíðar. Um 1480 hófust að tilhlutan Ólafs Rögnvaldssonar biskups á Hólum næsta ógeðsleg ofsóknarmálaferli á hendur feðginunum Bjarna Ólasyni og dóttur hans Randíði. Hafa það síðan veið nefnd Hvassafellsmál og lauk þeim um sinn með æru- og fémissi til heilagrar kirkju! Varð það hlutverk síra Teits Helgasonar að koma fram síknu Randíðar ömmu sinnar á alþingi 1574(Sjá Fornbr.safn VI, Alþingisb.1574 og Blöndu V-VI, ritgerð eftir próf. Einar Arnórsson)(úr Kjósverjar)

 

Alþingisdómur um Arndísarsatði í Bárðardal 30. júní 1571-Þingvellir .

Nikulás Þorsteinsson og séra Teitur Helgason eru skyldaðir til að koma til Alþingis að ári með skilríki sín um Arndísarstaði. 1. júli 1572 – Þingvellir Arndísarstaðir í Bárðardal dæmdir bræðrunum Jóni Helgasyni og séra Teiti Helgasyni. Alþingisdómur um Arndísarstaði í Bárðardal 1. júlí 1574 – Þingvellir. Arndísarstaðir í Bárðardal dæmdir bræðrunum Jóni Helgasyni og séra Teiti Helgasyni að hálfu en konungi að hálfu vegna dóms yfir ömmu þeirra Randíði Bjarnadóttur.

 

NB.Alþingisdómur um Arndísarstaði í Bárðardal

( forn skjöl úr safni Árna Magnússonar)

 


 

Faðir Teits Helgasonar var:

Helgi Gunnlaugsson

Fæddur um 1490. Helgi eignaðist tvo syni, en móður þeirra er ekki getið í ísl. Erfðagreiningu. Þeir voru:

  1. Teitur um 1525 og
  2. Jón um 1530. Jörðin Arndísarstaðir í Bárðardal var dæmd fullkomin eign Jóns og Teits bróður hans árið 1574 en konugi hálf jörðin til halds.

 


 

Faðir Helga Gunnlaugssonar var:

Gunnlaugur Helgason

Fæddur um 1460, bóndi í Kollabæ í Fljótshlíð. Faðir Gunnalugs var Helgi Teitsson, Helgsonar hriðstjóra á Krossi í Landeyjum(1420), Styrssonar í Noregi, Hallvarðssonar) Hans kona var Randíður Bjarnadóttir 1460 (dóttir Bjarna bónda á Hvassafelli í Eyjafirði Ólasonar og konu hans Margrétar Ólafsdóttur sýslumanns í Reykjahlíð, Lofssonar “ríka”)og eignuðust þau einn son

  1. Helga um1490.

 

Eins og fram kemur hér við Gunnlaug Helgason rekja “Kjósverjar” og “Kjósarmenn” ættir Gunnalugs lengra aftur en Ísl.bók gerir. Aftur á móti rekur Ísl.bók ætt Helga Teitssonar, en þar er hann einungis sagður eiga einn son er Jón hét. Ég set hér inn ættina eins og Ættarbækur Kjósarinnar ætla að hún sé.


 

Faðir Gunnlaugs Helgasonar: Helgi Teitsson

fæddur  um 1450, sonur Teits Helgasonar fæddur um 1410, hirðstjóri á Krossi í Landeyjum(1420), sonur  Helga Styrssonar fæddur um 1385 í Noregi,(í ísl.bók stendur um Helga þennan: “ Var kallaður sýslumaður í Vestmannaeyjum 1420 og er sama ár nefndur hirðstjóri en er ekki í hirðstjóratali. Bjó í Krossi 1430. Helga var dæmd jörðin Efridalur undir Eyjafjöllum af Guðrúnu Haraldsdóttur. Ætt óviss. Fyrri kona ókunn, þeirra sonur: Teitur. Seinni kona: Sigríður Þorsteinsdóttir, faðir hennar: Þorsteinn Styrkársson. Ættfærslan á Sigríði sem birtist í ÍÆ er hæpin tilgáta, og þau börn sem þar eru talin eru sennilega ekki börn Helga”) . sonur Styrs Hallvarðssonar fæddur um 1350, bjó í Noregi.(Kjósverjar)



Ætt þessi er ekki rakin lengra í Ísl.bók, en hér rek ég ætt Randíðar Bjarnadóttur eiginkonu Gunnlaugs Helgasonar:

Randíður Bjarnadóttir

Fædd um 1460, húsfreyja í Kollabæ í Fljótshlíð. Lýsti því “í sinni banasótt, heil ad allri sinne skinsemi, at hun vissi ei betur fyrer Gudi, en Helgi sonur hennar væri sinn löglegur Erfijngi” segir í Alþingisbókum. Randíður var kona Gunnlaugs Helgasonar

 

 

Móðir Randíðar Bjarnadóttur var:

Margrét Ólafsdóttir

Fædd um 1430, húsfreyja á Hvassafelli í Eyjafirði. Hún var gift Bjarna Ólasyni um 1430-fyrir 1499, bóndi á Hvassafelli í Eyjafirði. Bjarni var sakaður um misnotkun á dóttur sinni og urðu mikil málaferli út af því. “Hafði dóttir Bjarna sést ber í sænginni hjá honum, með fleirum öðrum atviksháttum ófögrum frá ungdómsárum þeirrar hans dóttur” seir í Annálum. Þau eignuðust tvö börn:

  1. Ólaf um 1460. Séra þorsteinn Gunnarsson lýsti því dómi 1572 um jörðina Arndísarstaði í Bárðardal að Ólafur “for a fatæki og vonarvöl, og hafi vert matur gefinn á holum fyrer Guðs skulld”, segir í Alþingisbókum
  2. Randíður um 1460.

 

Sauðlauksdalannáll segir við árið 1500 á bls. 261, tekið úr Ísl. fornbréfsafni: ”Fær Ólafur Bjarnason Gottskalki biskupi og Hólakirkju hálfa jörðina Hvassafell fyrir það hann hafði grafið móður sína, Margréti Ólafsdóttur, í kirkjugarði í forboði biskups og Bjarna Ólafsson, föður sinn, í biskups banni, en biskup lofar að hreinsa garðinn aftur.”


 

Eftirfarandi er m.a. sagt um mál Bjarna Ólasonar :

“ Maður nokkur auðugur að löndum og lausafé, Bjarni Ólason á Hvassafelli í Eyjafirði var borinn því illmæli að hann hefði samrekkt dóttur sinni og fyrir þær sakir gerði Ólafur biskup (Rögnvaldsson, norrænn maður) hann handtekinn, hafði hann í varðhaldi og setti honum skriftir hraðar. Hrafn (Brandsson, lögmaður fyrir norðan)vildi draga þetta mál biskupi úr höndum og skjóta skjóli yfir þau feðgin enda ætluðu margir þau saklaus. Varð biskup þá hinn reiðasti og forboðaði(bannfærði) lögmann, en lögmaður bannaði aftur öllum þegnum konuns, að búa á jörðum biskups eða að veita honum nokkra þjónustu, en prestum fyrirbauð hann, að sigja í dómum hans. Ólafur lét þá á alþingi um sumarið í lögréttu lesa upp forboðsbréf(bannfæringarbréf) sitt yfir Hrafni og forboðaði hann á ný, og sagði, að hann skyldi ekki skemma lögréttuna eða aðra dándismenn með nærveru sinni, en Hrafn og félagar hans börðu höndum saman og gerðu hark miki, svo að bréfin skyldi ekki heyrast, en lögréttumenn sumir buðu að skera sundur bréfin og draga prestana út úr lögréttunni. Lét Hrafns síðan dóm ganga um mál þeirra feðgina, og fóru þeir nú baðir utan sama sumar(1481) biskup og lögmaður, tið að flytja mál sín fyrir konungi og erkibiskupi, og hafði biskup sigur af málum þessum, en þó er þess

Ekki getið, að hann hafi komið fram neinum refsingum við lögmann varð sá endir síðar á Hvassafellsmálum, að Ólafur biskup og hirðstjórinn skiptu með sér jörðum Bjarna, en ekki vita menn um afdrif hans, en líkast þykir að hann hafi dáið í banni”. (skólaverfurinn.is). (Hrafn Brandsson lögmaður tenging frá Sigurveigu Sveinsdóttur 1814/Litlalandssystkyni).

 

Móðir Margrétar Ólafsdóttur var:

Guðrún Rafnsdóttir

hún var fædd um 1400, húsfreyja í Reykjahlíð við Mývatn. Hún var gift Ólafi Loftssyni f.um 1395 og áttu þau tvö börn:

  1. Jón fæddur um 1427, bóndi og sýslumaður í Klofa á Landi.
  2. Margrét fædd um 1430, húsfreyja.


 

Móðir Guðrúnar Rafnsdóttur var:

Margrét Bjarnadóttir

Fædd um 1370. Húsfreyja á Rauðaskriðu í Reykjadal. Hún var gift Rafni Guðmundssyni 1370-1432, hann var lögmaður á Rauðaskriðu í Reykjadal, var lögmaður norðan og vestan. Staðarhaldari að Grenjaðarstað í Aðaldal, sonur Guðmundar (8m 1340) bónda á Skriðu í Reykjadal. Margrét og Rafn áttu tvö börn:

  1. Ragna fædd um 1390, húsfreyja á Barði í Fljótum
  2. Guðrún fædd um 1400 húsfreyja í Reykjahlíð við Mývatn.

 

 

Ættir Margrétar og Rafns eru ekki raktar lengra aftur í Ísl.bók, en eiginmaður Guðrúnar Rafnsdóttur Ólafur Loftsson er af höfðingjum kominn, svo hans ætt rek ég aðeins áfram sögunnar vegna.


 

Eiginmaður Guðrúnar Rafnsdóttur er eins og áður segir:


Ólafur Loftsson

Fæddur um 1395 og látinn 1458. Bóndi og staðarhaldari á Helgastöðum í Reykjadal og í Reykjahlíð í Mývatnssveit. Móðir hans er ókunn. (Flestir annálarnir segja Kristínu Oddsdóttur viðhald Lofts ríka vera móður Ólafs, einn annállinn dregur það þó í efa HJ) Espólín segir hann sums staðar ranglega sagðan föður Þorgeirs nokkurs, föður Erlings, en sá Erlingur var Þórðarson. Þorgeir átti einnig að vera faðir Jóns, föður Guðna í Ögri, en sá Jón var Ásgeirsson. Engar heimildir eru til fyrir því að hann hafi búið á Víðimýri í Skagafirði eins og segir í ÍÆ.

Ólafur var giftur Guðrúnu Rafnsdóttur fædd um 1400, húsfreyja í Reykjahlíð við Mývatn. Þau eignuðust tvö börn:

  1. Jón um 1427-eftir 1471, bóndi og sýslumaður á Klofa á Landi, keypti árið 1471 alla Ásgautsstaði og hálfa Stokkseyri, en átti áður helming Stokkseyrarjarðarinnar, “Auðugur maður, stórbrotinn og fégjarn” segir í Longætt
  2. Margrét um 1430.

Ólafur Loftsson skrifaði Skálholtsbók, sem hefur númerið AM 557 4to í Árnasafni og er hún skrifuð um 1420. Um Ólaf segir að hann hafi verið efnaður bóndi  og átt eignir víða á Norðurlandi. Handskrift Ólafs finnst einnig í hluta af annarri bók, sem hefur númer AM 162 c.fol í safninu, en af þeirri bók eru aðeins til 11 síður. Skálholtsbók er illa farið handrit og hafa einungis varðveitts 48 síður af bókinni eða ca. helmingur bókarinnar. Kvalitet bókarinnar hefur frá upphafi verið lélegt og höfundur greinilega ekki komist yfir gott pergament og hefur neyðst til að nota lélegt skinn í bókina. Blöðin i bókinni eru misstór og hafa verið rifin eða/og með götum og hefur Ólafur skrifað í kringum göt og rifur, án þess að það vanti í orðin bókstafi. Skriftin er greinileg og vel læs en svolítið klunnaleg og misstór. Skálholtsbók þessi er einkum þekkt fyrir að hún er önnur af tveimur skinnbókum frá miðöldum með sögu Eiríks rauða, skrifað eftir handritum frá um 1200, sem ekki finnast lengur. Skálholtsbók er 12 frásagnir og sögur að mestu Íslendingasögur og riddara sögur. Árni Magnússon álítur bókina hafa tilheyrt Skálholtskirkju eða að hún hafi orðið eftir úr bókasafni Brynjólfs biskups Sveinssonar. Skálholtsbók kom aftur til Íslands í maí 1986. Upplýsingar þessar eru fengnar úr útstillingarkatalóknum Þorlákstíðir og önnur handrit frá Skálholti. www.hi.is/pub/sam/udstilling.html.


 

Faðir Ólafs Loftssonar var:

Loftur “ríki” Guttormsson

Fæddur um 1375. Látinn 1432. Hirðstjóri, sýslumaður og riddari á Möðruvöllum í Eyjafirði. Jón biskup Vilhjálmsson á Hólum veitti Lofti bónda Sauðanes í 3 ár árið 1429, segir í Skarðsannál. Enn fremur segir í Skarðsannál I bls. 55, að  árið 1431 gefur Jón biskup Lofti bónda kvittun um allt ráðsmannsdæmi Hólastaðar, kvittun þessi er útgefin á Hólum 10. janúar 1431, heima og annarsstaðar á búum um Fljót og skaga sem norður undan, um allar inntektir og útgjöld, en Loftur bóndi leggur biskupi 10 hundruð fyrir kostnað, er menn hans höfðu gert, og að auki hálft skipbrot, sem um haustið fyrir rekið hafði, hvað biskup tekur með góðvild og virðingu. Höfuðskáld sinnar tíðar skv. Æt.Js, og mjög kynsæll. “Mikið skáld, átti 80 stórgarða, en dó í slæmu koti”, segir í Annálum. Loftur átti þrjá syni með hjákonu sinni Kristínu Oddsdóttur:

  1. Ormur um 1400-1446, hirðstjóri norðan og vestan, bóndi á Staðarhóli í Saurbæ og í Víðidalstungu í Húnaþingi
  2. Skúli um 1407-um 1480, bóndi í Garpsdal
  3. Sumarliði um 1410, bóndi á Vatnshorni í Haukadal.

Loftur giftist síðan Ingibjörgu Pálsdóttur f. Um 1375-1432, þau eignuðust fjögur börn:

  1. Ólöf um 1410-1479, húsfreyja á Skarði (þegar hennar maður Bjarni var drepinn, líkami hans hogginn í stykki og sendur til Ólafar, sagði hún: “Ekki skal gráta Björn bónda, heldur safna liði”.),
  2. Þorvarður “ríki” um 1410-1446, stórbóndi á Möðruvöllum í Eyjafirði, átti einnig bú á Eiðum í Eiðaþinghá, Hlíðarenda í Fljótshlíð og Strönd í Slevogi, var einn þeirra er létu drekkja Jóni biskupi Gerrikssyni í Brúará 1433,
  3. Eiríkur “slógnefur” um 1415-1473, bóndi í Auðbrekku í Hörgárdal og á Grund i Eyjafirði, Soffía um 1418-1482.

Að lokum eignaðist Loftur “ríki” einn son um 1395 er Ólafur hét og barnsmóður er ekki getið.

 

Við árið 1436 í Skarðsannál I bls. 58 segir að Loftur Guttormsson andist og húsfrú hans Ingibjörg, en réttast þykir að Loftur hafi andast 1432 eins og fram kemur í Íslendingabók ísl erfðagr. Gottskálksannáll telur dánarár hans 1412 og Fitjaannáll 1416. Hvað sem því líður er 1432 talið réttast í dag og við þetta tækifæri skrifar Skarðsannáll að hann hafi verið mikið skáld, átt 80 stórgarða en dó í slæmu koti, eins og fram kemur hér fyrir ofan. Enn fremur segir að hann hafi átt eftir 4 börn, þau Þorvarð og Eirík, Ólöfu og Sophíu, einnig 3 sonu laungetna, þá Orm, Skúla og Sumarliða, hverjum hann gaf 9 hndr. í löggjafir sínar. Kristín Oddsdóttir var þeirra móðir, sem Loftur hélt við mjög frekt, að sinni konu lifandi, Ingibjörgu Pálsdóttur. Loftur orti um Kristínu háttalykil hinn dýra. Þá arfi var skipt eftir Loft hlaut hver sona hans hálft fimmtánda hundrað hundraða, og tvær dætur jafnt við annan þeirra, Ingibjörg kona hans andaðist og á sama ári.

 

Í Vatnsfjarðarannál segir í formála að í bók séra Sigurðar Jónssonar í Ögurþingum “Upphaf ýmissa ætta” frá 1664 sé elsta heimild um þá ættarrakningu Lofts ríka að hann hafi verið sonur Guttorms Ormssonar frá Skarði.

 

Nokkur brot úr sögunni, þar sem Loftur “ríki” og hans slægt kemur við sögu:

Ólöf dóttir Lofts “ríka ”:Ólöf var gift Birni “ríka” Þorleifssyni f.1408.látinn 1467. Hann var hirðstjóri og bóndi á Skarði á Skaðrsströnd. Veginn á Rifi undir Jökli.

“Á Skarði á Skarðsströnd eru til örnefni frá síðari öldum, en þó helst frá tíð Ólafar ríku Loftsdottur og Björns Þorleifssonar eru voru uppi á 15. öld.

Kristján hinn fyrsti kom til ríkis 1449, og sat hann  fyrstur Oldenborgarmanna á  veldisstóli Dana. Hann sendi hingað á hinum fyrstu ríkisárum sínum hina svo kölluðu löngu réttarbót, og tók hún mjög hart ámörgu, enda vildu Íslendingar ekki taka við henni. Fyrri hluta ríkisstjórnar hans voru hér tveir íslenskir hirðstjórar; var annar þeirra Björn hinn ríki Þorleifsson dóttursonur Bjarnar Jórsalafara ágæts höfðingja. Hann átti Ólöfu dóttur Lofts ríka og voru þær tvær ættir ríkastar hér á landi í þann tíma. Englendingar héldu áfram verslun sinni hér við land, en Kristján konungur vildi hindra það, enda fóru þeir oft óspaklega svo sem áður; bauð því konungur Birni, að reka réttar landsmanna við Englendinga og það lét hann ekki segja sér tvisvar, því að enskir víkingar höfðu áður hertekið hann og konu hans í Orkneyjum. Tók hann nú upp fyrir enskum kaupmönnum fé mikið og varð af því hinn mesti fjandskapur milli hans og þeirra. Nokkrum árum síðar (1467) lágu margir enskir kaupmenn í Rifi í Snæfellsnessýslu, og fór þá Björn þangað með

mönnum sínum, til að taka af þeim toll þann, er þeir skyldu gjalda konungi.Tóku kaupmenn sig þá til og lögðu til orrustu við hann, drápu hann og 7 af mönnum hans, en Þorleif son hans tóku þeir höndum. Hjuggu þeir líkama Bjarnar í stykki og sendu síðan konu hans Ólöfu. En henni varð það þá að orðum: ,,Ekki skal gráta

Björn bónda, heldur safna liði”. Leysti hún fyrst út Þorleif son sinn með ærnu fé, og að því búnu er sagt, að hún hafi látið taka 3 ensk skip á Ísafirði og drepa af þei margt manna, aðrir segja að hún hafi sjálf farið til hefnda og klæðst þá hringabrynju. Ólöf fór til Danmerkur og kærði skaða sinn fyrir konungi, er mælt að konungi hafi þótt hún kona væn og sköruleg og að hann hafi látið taka 4 ensk skip og selja í skaðabætur, og að af þessu öllu saman hafi orðið 5 ára óeirðir milli Englands og Danmerkur.

Fyrir handan ána gegnt bænum lét Ólöf gjöra skála og setti þar hina ensku menn, sem hún hafði tekið fangna í hefnd eftir Björn bónda sinn, sem enskir drápu í Rifi. Hélt hún þá sem þræla og lét þá hlaða garð í kringum allt túnið á Skarði, síðan heitir þar á Mannheimum. Suma af þeim er sagt að hún hafi látið höggva á Axarhóli milli Reynikeldu og Kross. Ólöf var auðkona; í túninu á Skarði heitir Smjördalshólar; þar hafði Ólöf smjörskemmur sínar og sjást enn rústir þeirra.”

 

“...Á fimmtándu öldinni hafi tvær hinar ríkustu ættir ráðið mestu hér á landi, þá er biskupar eru taldir frá, enda efldust þær við það að þær tengdust á svo marga vegu, en þetta eru ættir þeirra Bjarna Jórsalafara og Lofts hins ríka og mun þetta hafa stuðlað mikið að því, að þá var meiri friður með leikmönnum og víagerli minn en verið hafði fyrr.... “

 

 

“ ...Um sömu mundir óvingaðist biskup við tvo hina ágætustu menn á landinu, Teit hinn ríka Gunnlaugsson í Bjarnarnesi og Þorvarð son Lofts “ríka” á Möðruvöllum. Lét biskup taka þá höndum og færa þá heim að Skálholti og sættu þeir hinni óvirðulegustu meðferð, að lokum komust þeir þó úr fangavistinni og hugðu sem von var á hefndir....”

 

”…Þeir langfeðgar, Loftur, Ormur og Einar, hljóta allir að hafa notið hylli konungsvalds þegar þeim var falið að gegna störfum hirðstjóra. Meginátök á Íslandi um völd og áhrif voru því líklega ekki milli vina Englendinga og hinna sem voru á bandi með konungi. Átökin um miðja öldina og næstu áratugi fyrir og eftir voru auðsæilega einkum milli afkomenda Lofts Guttormssonar á aðra hlið og Þorleifs Árnasonar í Vatnsfirði á hina og báðar ættir sóttust eftir hirðstjóraembætti og riddaranafnbótum og vildu þóknast konungi. Líklega er mikilvægi utanlandsverslunar fyrir gróðafíkna höfðingja allýkt og möguleikar konungs til að beita sér voru etv. meiri en af er látið? Á þetta ætla ég að líta nánar…”

Frá 1496 er einnig Áshildarmýrarsamþykkt

 

Faðir Lofts "ríki" Guttormssonar var:

Guttormur Ormsson

Fæddur 1345. Látinn í Snóksdal 26. maí 1381. Bóndi , sennilega í Þykkvaskógi í Miðdölum og síðan að líkindum að Staðarfelli, er hann keypti hálft af foreldrum sínum 1382. Í þessum heimildum, sem gefa upp dánarárið 1382, vill maður meina að 1381 hafi verið ranglesið í ritum í sumum heimildum er Guttormi Ormssyni og Guttormi Örnólfssyni blandað saman) Var veginn í Snóksdal. Sums staðar ranglega nefndur Örnólfsson. Sagður veginn 1380 í Annálum. Hans kona var Soffía Eiríksdóttir fædd um 1345.( Faðir Soffíu var Eiríkur hinn ríki, sonur Magnúsar á Svalbarði á Svalbarðsströnd er utan var stefnt með öðrum höfðingjum úr Eyjafirði út af málum Orms biskups Álákssonar 1350.) Hún getur m.a.  rekið ætt sína til Graut-Atla Þóraðrssonar 870, landnámsmaður bjó í Atlavík á Hallormsstöðum og til Þorgeris Vestarssonar 830 ”göfugur maður í Noregi”, húsfreyja í Þykkvaskógi. Þau eignuðust tvo syni:

1.      Jón um 1370-1430, bóndi í Hvammi í Dölum og

2.      Loftur ”ríki” um 1375.

 

Faðir Guttorms Ormssonar var:

Ormur Snorrason

Fæddur um 1320. Látinn eftir 1401. Lögmaður á Skarði á Skarðsströnd. Var lögmaður sunnan og austan 1359-1368 og 1374-1375. Hans kona hét Ólöf f. um 1315, húsfreyja á Skarði. Þess hefur verið getið til að hún hafi verið dóttir Jóns Sveinssonar í Hvammi, en engin haldbær rök eru fyrir því, né heldur þeirri tilgátu að hún hafi verið Þorláksdóttir og ekkja fyrrnefnds Jóns. Ormur og Ólöf eignuðust tvo syni:

1.      Guttormur 1345

2.      Guðmundur um 1360-eftir 1394, sýslumaður syðra og vestra 1385-1388, hvarf í Færeyjum 1388.

Þar að auki átti Ormur sennilega eina óskilgetna dóttur: Þorbjörg um 1340- eftir 1394.

 

Faðir Orms Snorrasonar var:

Snorri Narfason

Fæddur um 1260. Látinn 9. mars 1332. Bóndi á Skarði á Skarðsströnd. Lögmaður norðan og austan 1320-1329. Sagður dáinn 1331 í Konungsannáli. Hans kona hét Þóra um 1270, húsfreyja á Skarði. Seinni kona Snorra. Þess hefur verið getið til að hún hafi verið dóttir Orms í Mörk undir Eyjafjöllum, Grímssonar, en engin haldbær rök eru fyrir því, Þau eignuðust tvo syni:

1.      Guðmundur um 1315-1354

2.      Ormur um 1320.

 

Faðir Snorra Narfasonar var:

Narfi Snorrason

Fæddur um 1210. Látinn 1284. Prestur á Kolbeinsstöðum. Fékk sérstaka undanþágu erkibiskups til að skilja ekki við konu sína, eins og öðrum prestum var gert að gera. Narfi var giftur Valgerði Ketilsdóttur um 1230, hún getur m.a. rakið ættir sínar til Hjörs Hálfsson 830, konungur í Noregi og til Eynvindur “austmaður” og Rafarta. Narfi og Valgerður eignuðust þrjá syni:

1.      Þorlákur um 1250-1303, lögmaður og riddari, bjó á Kolbeinsstöðum, var lögmaður norðan og vestan 1290-1291, 1293-1295

2.      Þórður um 1250-1308, lögmaður, bjó á Skarði á Skarðsströnd, lögmaður noran og austan 1296-1297 og 1300

3.      Snorri um 1260.

 

Faðir Narfa Snorrasonar(f.1210) var:

Snorri Narfason

Fæddur um 1175. Látinn 13. september 1260. Prestur á Skarði, nefndur “Skarðs-Snorri”. “Var manna auðgastr í Vestfjörðum. Hann var ok göfugr at ætt”. Segir í Sturlungu. Hann var giftur Sæunni Tófudóttur(dóttir Tófu Snorradóttur, föður hennar er ekki getið ), hún getur m.a. rakið ætt sína til Geirþjófur Valþjófsson 870 landnámsmanns í Arnarfirði sonur Valþjófs “gamla”. Snorri og Sæunn áttu þrjú börn:

1.      Bárður um 1200-1244, prestur á Stað á Reykjanesi frá því eftir 1238 til dauðadags

2.      Narfi um 1210

3.      Sigmundur um 1212, var særður til örkumls í Örlygsstaðabardaga

 

Örlygsstaðabardagi

Gissur hyggur á að koma hefndum fram á Sturlu og gera þeir þá samband árið 1238. Gissur  og Kolbeinn láta til skarar skríða með þeim og Sturlu. Gissur dró að sér lið af Suðurlandi, en Kolbeinn úr Skagafirði og Húnavatnssýslu. Sturla af Vesturlandi og Sighvatur úr Eyjarfirði og Þingeyjarsýslu. Flokkarnir mætast á Örlygsstöðum, rétt fyrir sunnan Miklabæ. Gissur og Kolbeinn höfðu 1300 en feðgarnir mun færri. Ráðist var nú grimmlega á lið feðganna sem voru hálfvopnlausir, alls létust á Örlygsstöðum nær 60 manns og þar af voru ekki nema 7 úr liði Kolbeins og Gissurar.

Einhverjir örlagaríkustu atburðir Íslandssögunnar áttu sér stað í Skagafirði auk mestu bardaga Sturlungaaldarinnar , og þar með Íslandssögunnar , sem leiddu til loka þjóðveldisins.   H inn mannskæðasti var Hauganesbardagi og síðan Örlygsstaðabardagi, sem háður var 1238. Að honum afstöðnum lauk valdatíð Sturlunga en þeir voru ein valdamesta ætt landsins.

Sturla Sighvatsson og Örlygsstaðabardagi

Lýsingin á Sturlu Sighvatssyni er alger andstaða við lýsinguna á Snorra. Hann er aðalhetja sögunnar. Samt gerði Sturla ýmislegt misjafnt t.d. þegar hann fór að Hvammi 27 eða 28 ára gamall og tók hús á Þórði föðurbróður sínum og föður söguhöfundarins Sturlu Þórðarsonar,42 réðst ásamt Sighvati föður sínum og her manns

á Guðmund biskup Arason og menn hans úti í Grímsey,43 drap syni Þorvalds Vatnsfirðings þó hann hafi heitið þeim griðum44 og lét meiða Órækju Snorrason.45 Þrátt fyrir þessi verk andar hvergi köldu til hans af síðum sögunnar heldur er þvert á móti gefið til kynna að hann sé afbragð annarra

 

Faðir Snorra Narfasonar var:

Narfi Snorrason

Fæddur um 1135. Látinn 1202. Prestur á Skarði. Hann var giftur Guðrúnu Þóðrardóttur um 1140, hún getur rakið ætt sína til Þórðar Víkingssonar, Úlfs “skjálga” og Eyvindar “austmaður” og á hinn bóginn til Már Naddoddsson, sem bjó á Másstöðum. Þau eignuðust fjögur börn:

1.      Þórður um 1170

2.      Guðríður um 1170

3.      Hallgerður um 1170

4.      Snorri um 1175.

 

Faðir Narfa Snorrasonar(f.1135) var:

Snorri Húnbogason

Fæddur um 1100. Látinn 1170. Goðorðsmaður. Prestur og lögsögumaður á Skarði. Var lögsögumaður 1156-1170. Hann var giftur Ingveldi Atladóttur um 1100. Hún getur rakið ætt sína m.a. til Sæmundar “suðureyska”um 855, landnámsmanns í Sæmundarhlíð í Skagafirði, einnig getur hún rakið ætt sína til Eyvindur “austmaður” og Rafarta. Snorri og Ingveldur eignuðust tvo syni:

1.      Þorgils um 1130-1201, prestur og

2.      Narfi 1135.

 

Faðir Snorra Húnbogasonar var:

Húnbogi Þorgilsson

Fæddur um 1070, bóndi á Skarði. Skráð faðerni hans hér er sennilegt, en alls ekki er víst að hann hafi í raun verið bróðir *Ara fróða. Samkvæmt Sturlungu mun Húnbogi vera sonur Þorgils (Oddasonar), fæddur um 1080, látinn 1151. Þessi Þorgils var goðorðsmaður, bjó á Staðarhól í Saurbæ. Gekk í klaustur 1150. Kona Húnboga var Yngveldur Hauksdóttir fædd um 1060, hún getur rakið ætt sína til Ingólfs Arnarsonar og Hallveigar Fróðadóttur. Í móðurætt getur hún rakið ætt sína til m.a. Melkorku Mýrkjartansdóttur. Húnbogi og Yngveldur eignuðust einn son

1. Snorra um 1100.

Afkomendur Húnboga hafa setið óslitið á Skarði nema í lok 20. aldar

Skarð er bær og kirkjustaður á Skarðsströnd í Dalasýslu.  Bærinn stendur á undir lágu felli á hjalla og neðan hans er sléttlendi niður að sjó.  Í jarðamatinu frá 1861 var Skarð talin þriðja hæsta jörð landsins og var meðal helztu höfuðbóla landsins um langan aldur.  Jörðinni fylgir fjöldi eyja og hólma með ýmsum hlunnindum en til þess að nýta þau þurfti margar hendur.  Einnig fylgdu hjáleigur og nokkur ítök.

Engin önnur jörð á landinu hefur verið í eigu sömu ættar lengur en Skarð.  Landnáma segir frá landnámi Geirmundar heljarskinns, sem gerði sér bæ og kallaði Geirmundarstaði  undir Skarði, en síðan fer fáum sögum af staðnum fyrr en í kringum aldamótin 1200.  Þá bjó þar Húnbogi Þorgilsson, bróðir Ara fróða (1067-1148).  Afkomendur Húnboga hafa síðan setið óslitið á Skarði nema í 20 ár í lok 18. aldar.

Björn Þorleifsson (1408-67), hirðstjóri, bjó þar.  Englendingar drápu hann á Rifi og ekkja hans, Ólöf ríka Loftsdóttir, dró að sér mannsöfnuð til að hefna bónda sins.  Sagt er, að hún hafi komið mörgum Englendingum fyrir kattarnef.  Suma tók hún höndum og flutti þá heim til þrælkunarvinnu og hafði jafnmarga til að gæta þeirra.  Enn þá sjást merki um mikla steinstétt, sem hún lét þá leggja að Skarðskirkju.  Hún er sögð hafa geymt smjör sitt í Smjördallshólum og gengið út í Paradís og Draumakletta til að gleyma áhyggjum sínum.  Þorleifur (-1486), sonur þeirra hjóna, varð hirðstjóri og Einari (-1494), bróður hans junkæri, stóð embættið til boða 1491, en hann dót áður en af yrði.

Torfi Bjarnason (1838-1915), skólastjóri og skólastofnandi í Ólafsdal, fæddist á Skarði.

Neðan Skarðs er Skarðsstöð, einhver bezta höfn í sýslunni.  Þar var byggð hafskipabryggja og stunduð verzlun um tíma.  Skammt þaðan voru unnin brúnkol á stríðsárunum fyrri.

Skarðsbók, ríkulegasta og fallegasta skinnhandrit Íslendinga, inniheldur Jónsbók, sem var lögbók landsmanna um aldir frá því hún var lögtekin 1281 er rituð í hana.  Skarðsbók II inniheldur postulasögur og var í eigu Skarðsbænda, þar til hún var seld til Englands.  Íslendingar keyptu hana aftur á uppboði árið 1965.

Faðir Húnboga Þorgilssonar var:

Þorgils Gellisson

Fæddur um 1030. Látinn um 1074. Bóndi á Helgafelli. Drukknaði á Breiðafirði, Hans kona var Jóreiður Hallsdóttur um 1045. Þau eignuðust tvö börn:

1.      Ari “fróði” prestur á Stað á Ölduhrygg, Snæf. Fyrsti íslenski rithöfundurinn, ritaði Íslendingabók

2.      Húnbogi um 1070

Ari fróði Þorgilsson eftir Boga Th. Melsted Af spjöldum sögunnar

Úr bókinni Íslendinga saga eftir Boga Th Melsted – útg. 1916 – 1930 í Khfn

 

Faðir Þorgils Gellissonar var:

Gellir Þorkelsson

Fæddur 1009. Látinn í Hróarskeldu 1073. Goðorðsmaður á Helgafelli. Hann var giftur Valgerði Þorgilsdóttur um 1015 Valgeðrur getur rakið ætt sína til Úlfs “skjálga”Högnasonar um 845. Gellir og Valgerður eignuðust þrjú börn:

1.     Þorgils 1030

2.     Ragnheiður um 1030, frá Helgafelli

3.     Þorkell um 1040.

Hér má sjá meira um Gelli Þorkelss.:

Gellir Þorkelsson kvongaðist. Hann fékk Valgerðar dóttur Þorgils Arasonar af Reykjanesi. Gellir fór utan og var með Magnúsi konungi hinum góða og þá af honum tólf aura gulls og mikið fé annað. Synir Gellis voru þeir Þorkell og Þorgils. Sonur Þorgils var Ari hinn fróði. Son Ara hét Þorgils. Hans son var Ari hinn sterki

 

Gellir Þorkelsson bjó að Helgafelli til elli og er margt merkilegt frá honum sagt. Hann kemur og við margar sögur þótt hans sé hér lítt getið. Hann lét gera kirkju að Helgafelli virðulega mjög, svo sem Arnór jarlaskáld vottar í erfidrápu þeirri er hann orti um Gelli og kveður þar skýrt á þetta. Og er Gellir var nokkuð hniginn á hinn efra aldur þá býr hann ferð sína af Íslandi. Hann kom til Noregs og dvaldist þar eigi lengi, fer þegar af landi á brott og gengur suður til Róms, sækir heim hinn helga Pétur postula. Hann dvelst í þeirri ferð mjög lengi, fer síðan sunnan og kemur í Danmörk. Þá tekur hann sótt og lá mjög lengi og fékk alla þjónustu. Síðan andaðist hann og hvílir í Hróarskeldu. Gellir hafði haft Sköfnung með sér og náðist hann ekki síðan. En hann hafði verið tekinn úr haugi Hrólfs kraka. Og er andlát Gellis spurðist til Íslands þá tók Þorkell son hans við föðurleifð sinni að Helgafelli en Þorgils, annar son Gellis, drukknaði ungur á Breiðafirði og allir þeir er á skipi voru með honum. Þorkell Gellisson var hið mesta nytmenni og var sagður manna fróðastur.

 

Faðir Gellis Þorkelssonar var:

Þorkell Eyjólfsson

Fæddur 979. Látinn 1026. Bóndi á Helgafelli. Drukknaði í Breiðafirði. Hans kona var Guðrún Ósvífursdóttir um 970, hún getur rakið föðurætt sína til Björn “buna” Grímsson 770 og til Þjóðólfur “lági” 910, bjó í Höfn, í móðurætt. Þorkell og Guðrún giftust 1008. Um Guðrúnu er m.a. sagt: “Hon var kvenna vænst, er upp óxu á Íslandi, bæði at ásjánu ok vitsmunum” segir í Laxdælu. Þau eignuðust börnin:

1.      Gellir 1009

2.      Rjúpa um 1010.

Bjarneyja er getið í Njálu. Þar segir að Þorvaldur Ósvífursson sem var fyrsti maður Hallgerðar langbrókar hafi átt eyjarnar og haft þaðan skreið og mjöl. Þar vó síðan Þjóstólfur Þorvald. Einnig er í frásögur fært í Laxdælu að Þorkell Eyjólfsson síðasti maður Guðrúnar Ósvífursdóttur drukknaði við Bjarneyjar við tíunda mann árið 1026. Þorkell var fjórði maður Guðrúnar, sá fyrsti hét Þorvaldur Halldórsson,engin börn,  annar Þórður Ingunnarson, með honum átti hún tvö börn, þriðji Bolli Þorkelsson, með Bolla átti hún fimm börn og svo tvö eins og frá greinir hér fyrir ofan með Þorkeli.

Guðrún Ósvífursdóttir mun vera fædd árið 974. Foreldrar hennar voru Ósvífur hinn spaki Helgason sem kominn var af Birni hinum austræna bróður Auðar djúpúðgu og Þórdís Þjóðólfsdóttir hins lága í Höfn. Bjuggu þau að Laugum í Sælingsdal. Átti Guðrún fimm bræður sem hétu Óspakur, Helgi, Vandráður, Torráður og Þórólfur.

Guðrúnar er fyrst getið í 32. kafla í Laxdælu. Þar er henni lýst á eftirfarandi hátt: „Hún var kvenna vænst er upp uxu á Íslandi, bæði að ásjónu og vitsmunum. Guðrún var kurteis kona svo að í þann tíma þóttu allt barnavípur það er aðrar konur höfðu í skarti hjá henni. Allra kvenna var hún kænst og best orði farin. Hún var örlynd kona.“ *

Höfundur er ekkert að draga úr verðleikum Guðrúnar, en sitt er hvað gæfa og gjörvileiki, eins og átti eftir að koma í ljós.

 

Faðir Þorkels Eyjólfssonar var:

Eyjólfur “grái” Þórðarson

Fæddur um 935, bóndi í Otradal. Var skírður gamall árið 1000, Hann átti tvo syni, barnsmóður ekki getið:

1.      Bölverkur um 955

2.      Þorkell 979.

 

Kommentarer

25.07.2011 12:59

Ivar Brynjólfsson

Góðan daginn - Margrét Jónsdóttir var langamma mín - mér þykir mjög forvitnilegt að sjá mynd af henni - er nokkur von til að þú vitir hver ljósmyndarinn er?

25.09.2010 18:13

Ágústa Kristófersdóttir.

Frábær síða og fróðleg.
Hafði mjög gaman að lesa og skoða.

14.05.2010 22:36

Einar

Jæja Hildur min, nú kom síðan að góðum notum. Ég var að leita að mynd af afa Einari á Google - og lenti auðvitað hér

15.05.2010 08:57

Hildur

Gott Einar minn, að hún nýttist einhverjum.