Ættir Hildar í beinan kvenlegg

Hildur Jónsdóttir

Fædd á Þykkvabæjarklaustri I, V-Skaft. 10. ágúst 1890. Látin 13. júlí 1981. Var á Þykkvabæjarklaustri I Langholtssókn 1910, var þar hjá foreldrum til 1912. Húsfreyja og húskona í Hlíð 1912-1913 og 1916-1919, húsfreyja á Þykkvabæjarklaustri frá 1913-1916 og 1920-1945. Húsfreyja þar 1930. Húskona á Borgarfelli, V-Skaft. 1919-1920. Flutti að Skeggjastöðum í Mosfellssveit 1945, var þar í sveit 1950, og svo í Reykjavík, komin þangað 1956. Ljósmóðir. Bjó að Pétursborg við Grafarholt. Lést á öldrunarheimili í Reykjavík, tiltölulega nýflutt þangað, þegar hún lést. Hún varð fyrir því ólani að detta og brotna, dó fljótlega upp úr því. Hildur var gift Sveini Jónssyni 1880-1959. Þau giftust 28.05 1912. Sveinn var bóndi. Hildur og Sveinn eignuðust sjö börn:

Sigríður Sóley 1913-2003, ólst upp með foreldrum sínum að Þykkvabæjarklaustri en var einnig í skemmri tíma að Borgarfelli og í Hlíð, húsfreyja í Vestmannaeyjum 1935-1946, húsfreyja að Skeggjastöðum í Mosfellssveit og að Grafarholti við Reykjavík frá um 1946-1957, bjó síðan í Reykjavík, síðast í Garðabæ. Sigríður var gift Karli Óskari Guðmundssyni fæddur 1911-1986.  Sigríður og Karl áttu fjögur börn: Viðar fæddur 1935, Svanhildur fædd 1941, Hrafnhildur fædd 1946 og Guðmundur fæddur 1952.

Signý Sveinsdóttir 1918-2005 var í Þykkvabæjarklaustri 1930, bjó að Ási í Mosfellssveit, síðast í Reykjavík, Signý var gift Gunnari Gunnarssyni listmálara fæddur 1914-1977. Signý og Gunnar áttu þrjú börn: Franzisca fædd 1942-2004, Gunnar fæddur 1945 og Katrín Selja fædd 1949.

Jörundur Sveinsson 1919-1968, sjá framar í skjali meira um eiginkonu og börn.

Sigurður Sveinsson   1922-1994, rafvirkjameistari var í Þykkvabæjarklaustri 1930, síðast búsettur í Reykjavík, Sigurður var giftur Sigríði Magnúsdóttir, þau áttu eina dóttur:  Sigurveig fædd 1959.

Jón Sveinsson 1925, vélstjóri,  var í Þykkvabæjarklaustri 1930, búsettur í Reykjavik. Jón er giftur Guðrúnu Jónsdóttur fædd 1925. Jón og Guðrún ólu upp systurdóttur Guðrúnar, Þórunni Ástþórsdóttur.

Einar Sverrir Magnús 1928 búsettur í Reykjavík og síðan í Hafnarfirði. Hann er giftur Ingveldi Óskarsdóttur fædd 1927. Einar og Inga eiga fjögur börn: Ingigerður fædd 1954, Óskar fædur 1954, Gyða fædd 1959, Hildur fædd 1962.

Steinunn Guðný 1931, búsett í Rangárvallarsýslu, nú á Hvolsvelli. Steinunn er gift Sigurði Jónssyni fæddur 1926-2009, þau eignuðust átta börn: Sveinn fæddur 1951, Þórunn fædd 1954, Sigurveig Þ. fædd 1957, Hildur fædd 1958, Bjarni fæddur 1961-1985, Guðlaug fædd 1965, Hjördís fædd 1969, Jóna fædd 1970.


 

Hildur Jónsdóttir bjó alls í 50 ár á Þykkvabæjarklaustri I, þar sem hún var fædd og uppalin. Hildur var ljósmóðir eins og fyrr er getið og var Álftaverið hennar umdæmi og síðar einnig Meðallandið. Fyrsta ljósubarn Hildar var Sigrún Eiríksdóttir í Þykkvabæjarklaustri, sem síðar var kona Páls Ísólfssonar tónskálds. Hildur stofnaði kvenfélagið “Framtíðin” í Álftaveri.

Þessi orð eru höfð eftir Hildi Jónsdóttur í viðtali í “Frúin” í janúar 1953:

”Álftaverið var strangur uppalandi, þar var enginn leikur að lifa. En lífið er eins og vötnin i Skaftafellssýslu. Það þýðir ekki að fara beint af augum, þá lendir maður í hyljunum. Haldi maður undan straumnum ber mann beint til hafs. Þess vegna er best að halda upp í strauminn, leita að vaðinu og vaða á brotinu”.

 

 

Hildur og Sveinn bjuggu að Þykkvabæjarklaustri I, þegar Katla gaus árið 1918, stóð gosið frá 12. október til 4. nóvember. Hlaupið kom snögglega og öllum að óvörum segir m.a. í samtýmalýsingum eftir Gísla Sveinsson sýslumann og Guðgeir Jóhannsson, kennara í Vík. Fólk varð að flýja bæji sína í Álftaveri og Meðallandi. Það olli miklum skemmdum á jörðum þar og fluttu allmargir ábúendur í burtu, en tvær jarðir í Álftaveri , Skálmabæjarhraun og Sauðhúsnes komust ekki í byggð aftur. Öskufall varð mest í Skaftártungu og farga varð miklum hlut béfénaðar á öllu svæðinu vegna fóðurskorts. Í hlaupinu myndaðist Kötlutangi , sem eftir miðjan vetur mældist 2000-3000 faðma frá gömlu ströndinni suður að Hjörleifshöfða og varð þá syðsti tangi landsins, en síðan hefur hann að mestu eyðst”

 

Þykkvabæjarklaustur I hefur verið í eyði síðan Hildur og Sveinn fluttu þaðan eða frá 1945.

 

Þykkvabæjarklaustur er kirkjustaðir í Álftaveri. Þar var munka klaustur í katþólskum sið, stofnað 1168, og hélst til siðaskipta. Nafntogaðasti munkurinn þar var Eysteinn Ásgrímsson. Hann var uppi á 14. öld og kom nafni sínu á spjöld sögunnar með hinu ódaulega helgikvæði “Lilju”, sem allir vildu ort hafa.

Stuðlabergssúla stendur þar, sem talið er að klaustrið hafi staðið. Margar sögur fara af samskiptum munkanna í Þykkvabæjarklaustri og nunnanna í Kirkjubæjarklaustri .


 

Sjá liðinn Myndaalbým/Úrklippur

 

Sjal, sem Hildur Jónsdóttir prjónaði.

Allt til æviloka má segja, að Hildur Jónsdóttir hafi unnið með ull frá því hún kom af rollunni og þar til úr því varð flík. T.d. þetta sjal, sem sést hér á myndinni og hún gaf  sonardóttur sinni. Sjalið er prjónað úr eingirni.

Ullarþvottur á Klaustri

Ullarþvottur.

 

Úr Viðtali við Hildi Jónsdóttur(1900-1981) sem kom í “Hugur og hönd” árið 1978.

 

Þegar hér er komið í viðtalinu er hún beðin um að lýsa ullarvinnunni í hennar heimabyggð þ.e.a.s. V-Skaftafellssýslu og segir m.a.:

 

“Áður en ullin var þvegin var hún vandlega þurrkuð úti, hrist úr henni allt rusl og sandur. Það voru búnar til sérstakar hlóðir við læk og potturinn settur ofan í hlóðina og hlaðið upp með honum svo hann kólnaði ekki að utan, og kynnt undir.

Ég hafði stóran pott að þvo ullina úr, hún var þvegin úr því sem við kölluðum hlandþvæli. Það voru látnar tvær fötur fullar af vatni og ein fata af keytu. Var byrjað á vetrin að safna í tunnu sem látin var standa úti með góðu loki svo að færi ekki vatn í, og þá var það best. Úr þessu þvæli þvoði ég betur en úr nokkrum þvottabæti. Ullin var mýkri og betri og hreinni úr þessu. Ef maður hafði sóda eða annað efni tók það of mikið fituna úr ullinni. Ég lét svona mátulega í pottinn og þvoði með spýtu, hafði kláf yfir pottinum, setti úr honum á kláfinn og lét síga ofan í aftur það mesta. Svo tók ég þetta og vatti upp úr hreinu vatni fyrst, til þess að halda utan um þvælið(spara) og hellti því aftur í pottinn. Síðan var þvegið úr læk. Það freyddi alveg eins og ég léti sápu, en það þótti vont að hafa nýtt hland, heldur bara keytu.

Vatnið mátti vera brennheitt. En ef það var sjóðandi þá var það eiginlega ónýtt því þá litaði það ullina.”

Spyrjandi spyr hér, hvernig á því standi og Hildur svarar því svo til, að ullin verði þá brúnleit eða gul. En snjóhvít ef þvælið var bara brennheitt, ekki sjóðandi.

“Svo dró ég upp úr og setti ullina á kláf og síðan í kyrnu eða balla og vatt úr henni það mesta, og nú var farið með ullina í lækinn og hún þvegin og skoluð, þangað til hún var tárhrein og engin lykt af henni.”

 

Um hvernig ullin var geymd segir Hildur Jónsdóttir ennfremur:

“Ef hún var mikil var saumuð utan um hana rekkvoð eða lak. Hún var sett í byng fyrst þegar verið var að þvo, og síðan breidd vandlega í fallegar breiður á túninu eða jörðina, og einmitt þá, þegar við fórum að taka ullina saman, höfðum við oft tækifæri til að taka bestu lagðana.”







Lýsing á Skaftfellingum.

“....Menn telja Austfirðinga og þá einkum Skaftfellinga vera sérkennilega. Þeir eru menn kyrrlátir og áburðarlitlir og tala fátt. Einnig er hugsunarháttur þeirra og lífsvenjur með sérstökum hætti, þar sem þeir lifa í afskekktum héruðum og hafa mjög sjaldan samneyti við aðra samlanda sína. Í stuttu máli sagt hefur mál þeirra og framburður, dagfar og kurteisisvenjur, klæðaburður þeirra að sumu leyti, ásamt ferðavenjum ofl. valdið því, að þeir koma öðrum landsmönnum svo undarlega fyrir sjónir,enda þótt þeir séu þeim í engu því frábrugðnir, sem máli skiptir, einkum um lundarfar”. (Úr ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar bls. 149).

Jörundur Sveinsson

Fæddur 2. september 1919 á Borgarfelli í Skaftártungu, V-Skaft. Látinn 29. september 1968 á Siglufirði. Var í Þykkvabæjarklaustri I, Þykkvabæjarklaustursókn, V-Skaft. Áríð 1941 fór Jörundur í Flensborgarskóla í Hafnarfirði og lauk þaðan prófi árið 1943. Eftir gagnfræðapróf var hann í vinnu á Skriðuklaustri og hjá Bjarna á Laugavatni.  Árið 1945 fór hann í Lofskeytaskólann og lauk þaðan prófi 1946. Starfsferill Jörundar sem loftskeytamaður hófst á Rjúpnahæð og á lofskeytastöðinni á Gufunesi, síðan fór hann á togara og var á togurum í nær 20 ár lengst af á Fylki gamla og Fylki nýja. Hann var á togaranum Víkingi frá Akranesi, þegar hann lést af slysförum. Árið 1949 giftist hann Margréti Einarsdóttur f. 10. ágúst 1922 og settust þau að á Litlalandi í Mosfellssveit, þar sem þau keyptu helming hússins af foreldrum Margrétar og bjuggu þau þar í tvíbýli. Jörundur og Margrét eignuðust fimm börn:

Hildur 1949,

Helga 1952,

Halla 1959,

Sveinn 1963,

Einar 1963.

Sjá má nánar um börn þeirra og Margréti konu Jörundar fremst í skjali. 

Fasteignamat og lýsingar árið 1919 eftir Kötlugösið 1918(“Undur yfir dundu” eftir Lilju Oddsdóttir)

 

Jörundur fæddur á Borgarfelli um þann bæ segir ma. Fasteignamat 1917 2000kr árið 1919 1500.

a. Í túnunum eru þykkir sand-og öskudyngjur í öllum lautunum, sem hafa verið það besta af túninu. Verður að líta svo á að eigi sé minna en helmingur þess eyðilagt á svipinn.

b. Útengjar sem nær eingöngu eru mýrar eru svartar af öskufallinu, einkum þar, sem fjær eru bænum og eru engin líkindi til að þær verði slægar í ár, en útlit er fyrir að slegið verði í mýri en liggur við bæinn.

c.  Allur norðurhluti beitilandsins er orpinn sandi og ösku, sem eigi hefir náð að fjúka af ennþá. Verður þar eigi nema rennslishagi fyrir sauðfje(svo) í sumar, en vetrarhagar engir. Af syðri hluta þess hefir fokið og er þegar kominn allgóður hagi og útlit fyrir að ná sér(svo) bráðlega.

Jörundur skrifaði mjög nákvæma dagbók fyrir einn dag á togara. Dagbókin er ekki dagsett en eftir því sem best verður séð er þetta skrifað á árunum 1949-1952. Sjá má dagbókarfærslu þessa undir liðnum “Togari”.

Móðir Hildar Jónsdóttur var:


Sigurveig Sigurðardóttir

Fædd á Þykkvabæjarklaustri, V-Skaft. 3. júlí 1863. Látin í Reykjavík 23. október 1946, húsfreyja í Þykkvabæjarklaustri I, Þykkvabæjarklausturssókn, Skaft 1910, var á sama stað 1930. Hún var gift Jóni Brynjólfssyni 1861-1948, bónda á Þykkvabæjarklaustri I. Þau giftu sig 3.10 1889. Þau eignuðust fjögur börn:

 

Hildur 1890-1981,

 

Rannveig 1892-1973 , var á Þykkvabæjarklaustri I, Langholtssókn 1910, húsfreyja á Laufásvegi 34, Rvík 1930, húsfreyja í Rvík 194

 5. Hún var gift Eiríki Ormssyni 1887-1993, þau giftust 23.09 1910. Þau eignuðust fjögur börn og Rannveig átti eina fósturdóttur.

Sigurður  fæddur á Þykkvabæjarklaustri í Álftavershr.V-Skaft. 10. apríl 1894. Látinn 4. júní 1938 í Reykjavík, vinnupiltur í Þykkvabæjarklaustri I 1910, rafvirkjameistari. 22.07 1916 giftist hann Vigdísi Önnu Gísladóttur 1893-1972. Þau eignuðust fimm börn og Sigurður átti þar að auki eina dóttur.

 

Guðrún Ágústa fædd á Þykkvabæjarklaustri I 23. júní 1899, látin 15. desember 1982. Var á Þykkvabæjarklaustri I 1910, húsfreyja í Víkurkauptúni, Víkursókn, V-Skaft. 1930. Nemandi. Húsfreyja í Vík í Mýrdal, Reykjavík og Kópavogi. Hún var gift Oddi Jónssyni 1894-1968, þau giftust 26.07 1919. Þau áttu þrjú börn.

Sigurveig og Jón voru einnig með fósturdótturina Lilju Jónsdóttir fædd 1907. Á heimilinu voru einnig í manntalinu 1910 Rannveig móðir Sigurveigar, Margrét Sigurðardóttir f. 1865 systir húsmóðurinnar,  Sigurveigar. Tveir vinnumenn þ.a.m. Eríkur Ormsson er síðar varð eiginmaður Rannveigar Jónsdóttur.
 

Sigurveig Sigurðardóttir og Jón Brynjólfsson


Minning um Sigurveigu Sigurðardóttur í Morgunblaðinu, föstudaginn 1.nóvember 1946

 

Í dag verður jarðsett frá Lágafelli í Mosfellssveit frú Sigurveig Sigurðardóttir frá Þykkvabæjarklaustri. Var hún fædd í Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri hinn 3. júlí 1863. Ólst hún þar upp í systkinahóp hjá foreldrum sínum Sigurði bónda Nikulássyni og Rannveigu Bjarnadóttur. Af þeim systkinum eru nú tvö á lífi: Bjarni skrifstofustjóri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og Guðrún ekkja Vigfúsar Ólafssonar Eystir-Skógum við Eyjafjöll. Árið 1889 hinn 3. október, giftist hún eftirlifandi manni sínum og samsveitung Jóni Brynjólfssyni, hinum tignarlegasta manni og vinsælasta, er fyrir öðrum þótti um ýmsa hluti. Varð þeim fjögurra barna auðið, er öll náðu þroskaaldri, og ólu auk þeirra upp eina fósturdóttur.

Nærfellt allan aldur sinn ól hún að Þykkvabæjarklaustri í Skaftafellssýslu. Við þann stað eru ýmsar minningar tengdar og slær engum fölva á þær af ævi Sigurveigar. Þar bjuggu þau hjónin allan sinn búskap og ólu upp börn sín. Voru þau vel látin meðal sveitunganna enda margt vel um þau. Sigurveig var kona í greindara lagi, vel vinnandi, fjelagslynd, tilfinninganæm og listfeng. Var hún söngvin eins og hún átti kyn til. Faðir hennar þótti hinn prýðilegasti söngmaður á sinni tíð, lengi forsöngvari í Klausturskirkju í Veri. Ljet hún sjer mjög annt um annarra hag, var hin viðkvæmasta gagnvart öllum þeim, er bágt áttu,  hvort heldur það var fyrir fátæktarsakir eða heilsuleysi., og fyrir öllu góðu og fögru hafði hún glöggt auga. Heimili þeirra hjóna var lengi í þjóðbraut. Bar þá marga gesti þar að garði, stundum illa verkaða og þreytta eins og gefur að skilja, þar sem Mýrdalssandur var á aðra hönd og Kúðafljót á hina, hvort um sig hinir mestu farartálmar. Var þá oft veitt af litlu og hlúð að mönnum og skepnum af svo miklum vilja, að fátæktar varð lítt  vart. Hún var kirkjurækin í besta lagi og var ekki lítil sú aðstoð, sem það heimili veitti við helgar tíðir í Klausturskirkju. Árið 1913 ljetu þau hjónin af búskap og lifðu að mestu eftir það í skjóli dóttur sinnar, Hildar ljósmóður og tengdasonar, Sveins Jónssonar frá Hlíð í Skaftártungu. Með þeim fluttust þau frá Klaustri fyrir 1 ½  ári að Skeggjastöðum í Mosfellssveit, hún þá farin að heilsu og kröftum. Sigurveig andaðist 23.f.m., fullra 83 ára að aldri. Eiginmaður og ættingjar nær og fjær  kveðja nú hana látna með orðum listaskáldsins góða:”Krjúptu að fótum friðarboðans og fljúgðu á vængjum morgunroðans – meira að starfa guðs um geim.”

Undirskrifað: E.

Móðir Sigurveigar Sigurðardóttur var:



Rannveig Bjarnadóttir

Fædd 1. ágúst 1823. Látin á Þykkvabæjarklaustir I 20. otkóber 1915. Húsfreyja á Þykkvabæjarklaustri, Þykkvabæjarklastursókn, V-Skaft. 1845, var á Þykkvabæjarklaustri I 1910. Hún var gift  Sigurði Nikulássyni 1830-1909, hann var á Búlandi, Ásasókn V-Skaft 1845, bóndi á Þykkvabæjarklaustri. Þau eignuðust fimm börn: Sigurður 1859-1940, Guðrún 1861-1946, Sigurveig 1863, Margrét 1865, Bjarni Magnús 1867-1957. Þar að auki átti Sigurður einn son.

Geirland í Kirkjubæjarhreppi

Móðir Rannveigar Bjarnadóttur var:

Sigríður Gísladóttir

Fædd á Geirlandi, Kleifahreppi, Dal. 1779. Látin 7. júlí 1829. Var í Geirlandi, Kirkjubæjarklausturssókn, Skaft.1801,húsfreyja í Skaftárdal Búlandssókn, V-Skaft. 1816. Hún var gift Bjarna Jónssyni fæddur á Eystri-Dalbæ, Dal.1781-1852. Þau giftu sig 7.10 1804. Hann var bóndi á Geirlandi og á Þykkvabæjarklaustri , umboðsmaður á Þykkvabæjarklaustri og bóndi í Skaftárdal, var á Arnardrangi Kirkjubæjarklausturssókn, Skaft.1801, húsbóndi í Skaftárdal Búlandssókn V-Skaft. 1816, bóndi á Þykkvabæjarklaustri 1845,húsbóndi í Skaftárdal, Búlandsókn 1816. Sigríður og Bjarni eignuðust 11 börn: Jón 1805, Oddur 1807, Einar 1809-1890, Jón 1810-1835, Gísli 1812-1847, Sigurður 1814-fyrir 1829, Þuríður 1815-1875, Guðrún 1817-fyrir 1829, Bjarni 1818-1888, Sigurður 1821-1899, Rannveig 1823-1915.


 

Sigríður Gísladóttir lést 7. Júlí 1829 eins og segir á fyrri síðu. Fjórum dögum eftir andlát Sigríðar var búið skrifað upp og um haustið fóru skipti fram, svo að börnin gætu fengið móðurarf sinn. Alls var búið virt á 53 ríkisdali að frádregnum skuldum. Hefur það verið jafngildi að minnsta kosti 50-60 kýrverð, svo að sjá má að hér var efnaheimili á þeirrar tíðar mælikvarða.

 

Þegar Sigríður dó var Bjarni maður hennar innan við fimmtugt. Hann hélt áfram búskap og kvæntist aftur. Seinni kona hans var ekkja, Ólöf Teitsdóttir frá Seli við Reykjavík. Bjarni andaðist á Þykkvabæjarklaustri 19. Júlí 1852  af „apoplexi“. Hann mun jafnan hafa verið talinn vel búandi, gestrisinn og góður heim að sækja. Um hann var kveðin þessi vísa, en höfundur er ókunnur:

 

-Að Þykkvabæjarklaustri um kvöld

Kom ég ferðamaður,

Drottinn blessi Bjarna höld,

Bóndinn sá var glaður.-

 

Í Lesbók Morgunblaðsins birtist grein þann 3. Júlí 1966 eftir séra Gísla Brynjólfsson, sem hann nefnir „Bóndinn sá var glaður“, sem ég ætla að prenta inn hér til gamans. Um Bjarna eignmann Sigríðar og bróður hans Jón er eftirfarandi frásögn í Sagna-þáttum Brynjólfs frá Minna-Núpi, segir Gísli og hér kemur sú frásögn í stórum dráttu:

„Bræður tveir eru nefndir Jón og Bjarni Jónssynir, ættaðir úr Öræfum. Þeir reistu báðir bú að Geirlandi á Síðu og kvæntust og áttu tvær dætur Gísla bónda í Arnardrangi. Hét Ragnhildur kona Jóns, en Sigríður kona Bjarna, báðar voru þær efnilegar, hraustar og heilsugóðar, greindar vel og þóttu hinir beztu kvenkostir. Menn þeirra voru og  miklir menn að ráðiog dáð.Þeir byrjuðu búskap með litlum efnum, höfðu eigi hjú nema eina vinnukonu báðir, og í öllu höfðu þeir félagsskap. Þeir vildu hafa selför um sumarið og byggðu um vorið sel upp með Geirlandsá þar sem hún kemur ofan úr heiðinni. Þar heitir Garnagil. Tildrög þess örnefnis eru sögð þau, að eitt sinn fyrir löngu hafði þar orðið það slys að mannugur graðungur hafi orðið stúlku að bana og hafi garnirnar úr henni verið um horn hans er menn komu til. Konur þeirra bræðra voru í seli um sumarið. Og er þær voru þangað farnar skiptu þeir bræður með sér verkum. Fór Bjarni kaupstaðarferð fyrir báða en Jón tók til sláttar fyrir báða. Vinnukonan átti að raka á eftir honum fyrir báða. Kenndi hún sér einskis meins er hún gekk út. En er hún tók að raka þótti henni undarlega við bregða. Henni heyrðist hrífudrátturinn sem hljóð, og það svo skerandi og sterkt að henni fannst sem höfuðið á sér ætlaði að klofna. Fór hún inn, og lagðist fyrir og sofnaði. Þá dreymdi hana, að kona kæmi að henni heldur reiðilega og mælir:“Þú skalt gjalda húsbænda þinna fyrir umrótið sem þeir gerðu í Garnagili. Á þeim sjálfum get ég ekki hefnt, því á Bjarna vinnur ekkert nema járnið, en Jón er fæddur í sigurkufli  og skírður í messu. Hefndin skal koma niður á þér og að nokkru leyti á konunum þeirra“. Þá er stúlkan vaknaði, sagði hún Jóni drauminn. Var hún þá fárveik, lá nokkra dag og dó síðan. Eigi þótti konunum gott í selinu, þóttust verða fyrir ýmsum dularfullum glettingum. Og þó þær væru kjarkmiklar að eðli, þá urðu þær þó smám saman hræddar, og þá er heim var flutt úr selinu voru þær orðnar svo úrvinda, að þær náðu sér aldrei aftur. Hvorug þeirra þorði að vera á Geirlandi áfram. Fluttu þeir bræður þaðan vorið eftir. Fór Bjarni að Þykkvabæjarklaustri og er hann úr sögunni.“

Eins og fyrr segir voru þeir bræður úr Fljótshverfi, en ekki úr Öræfum eins og Brynjólfur telur. Ekki fóru þau Bjarni og Sigríður beint frá Geirlandi niður í Álftaver, heldur að Skaftárdal á Síðu.(eru þar 1816(hj)). 1817 fluttust þau svo með 8 börn sín að Þykkvabæjarklaustri og bjuggu þar uppfrá því.

Sjá má grein þessa í heild sinni í blaðinu HÉR

 

 

Móðir Sigríðar Gísladóttur var:

Rannveig Þorgeirsdóttir

Fædd 1736. Látin á Geirlandi 17. ágúst 1786. Búandi ekkja í Arnardranga um 1770, síðar húsfreyja á Geirlandi , húsfreyja á Geirlandi Kirkjubæjarklausturssókn, V-Skaft 1785. Fyrri maður Rannveigar var Salómon Þorsteinsson 1743-1774. Þau eignuðust fimm börn: Þorsteinn 1762-1837, Þórunn 1766, Guðný 1768-1811, Sigríður 1769-1843, Ingibjörg 1771-1837.


Seinni maður Rannveigar var Gísli Þorsteinsson 1745-1825, hreppsstjóri á Arnardranga í Kirkjubæjarhreppi, V-Skaft., bóndi í Geirlandi, Kirkjubæjarklausturssókn 1801. Rannveig og Gísli eignuðust fimm börn: Rannveig 1775, Emerentíana 1776-1855, Ólöf 1777-1807, Ragnhildur(langamma Sveins Jónss.eiginmanns Hildar Jónsd.) 1778-1866, húsfreyja á Arnardranga, Kirkjubæjarklausturssókn, Skaft 1801, húsfreyja í Hlíð í Skaftártungu, Sigríður 1779-1829.

Móðir Rannveigar Þorgeirsdóttur var:

Sigríður Ólafsdóttir

Fædd 1708. Látin eftir 1762. Húsfreyja í Arnardranga í Landbroti. Hún var gift Þorgeiri Oddssyni 1704-eftir 1765, bóndi í Arnardranga í Landbroti 1735 og 1765. Þau áttu seks börn: Vigfús 1734-1784, Valgerður 1735-1793, Guðrún 1736-1821, Rannveig 1736-1786, Runólfur 1740-1785, Sigurður 1750-1834.

Móðir Sigríðar Ólafsdóttur var:

Gróa Jónsdóttir

Fædd 1763. Húsfreyja á Syðri-Steinsmýri, Leiðavallarhreppi, V-Skaft.1703. Hún var gift Ólafi “gamla” Jónssyni 1677-1756, bóndi á Syðri-Steinsmýri, Leiðavallarhreppi. 1703. Þau eignuðust átta börn: Guðleif 1700, Þorsteinn 1701, Ólafur um 1705, Skúli um 1707, Sigríður , Gísli 1712-1785, Hallgerður 1715-1763, Jón 1719-1783. 1708-eftir 1762.


Lengra hef ég ekki komist aftur með móðurætt Hildar Jónsdóttur í kvenlegg og hér er ég einungis með beinagrindina. Á eftir að finna frekari upplýsingar um þessa ætt.

Þá vindum við okkur í föðurætt Sigurveigar Sigurðardóttur móður Hildar Jónsdóttur.

Móðurætt Hildar Jónsdóttur, móður Jörundar Sveinssonar, föður Hildar Jörundsdóttur, feðranna meginn.

 

Eins og fram kemur hér framar var móðir Hildar Jónsdóttur Sigurveig Sigurðardóttir og faðir Sigurveigar var:

 

Sigurður Nikulásson

Fæddur í Kirkjuvogssókn V-Skaft. 1793 (fæddur í Garðhúsumí Höfnum segir í Blanda, Sögufélag ritað af dr. Jóni Þorkelssyni) Látinn 4. janúar 1909. Var á Búlandi Ásasókn, V-Skaft 1845, bóndi á Þykkvabæjarklaustri Álftaveri. Kona hans var Rannveig Bjarnadóttir 1823-1915. Þau eignuðust sjö börn: Sigríður 1859, Guðrún 1861, Sigurveig 1863, Margrét 1865, Bjarni Magnús 1867. Þar að auki átti Sigurður einn son: Gestur 1877, sem lést sama ár, barnsmóðir var Guðrlaug Björnsdóttir 1851-1934. Sjá nánar framar í skjali um börn Sigurðar.

 

Til Sigurðar og Rannveigar flutti móðir hans Guðrún og seinni maður hennar Bárður frá Hemru 1862 og þar andaðist Bárður 1863 og Guðrún miklu seinna eða 1899.

Faðir Sigurðar Nikulássonar var:

Nikulás Sigurðsson

Fæddur í Útskálasókn, Gull. 1793, var í Ytri-Njarðvík, Kirkjuvogssókn Gull. 1801 .(Frá Stokkhólma í Skagafirði segir í Blanda Sögufélagið, sem dr. Jón Þorkelsson ritaði)Nikulás fékk holdsveikina. Hann lést 30. júlí 1841.  Hann var giftur Guðrúnu Sæmundsdóttur fædd í Eystri-Ásum, Skaftártungu, V-Skaft. 1803, látin í Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri 2. júní 1899, var í Útskálum, Útskálasókn, Gull. 1816, húsfreyja í Hemru í Skaftártungu, V-Skaft. Þau eignuðust þrjú börn: Sigurður 1830, Sigríður 1839-1839, Sigríður Nikulásdóttir Báraðrdóttir 1840-1924.

Nikulás Sigurðsson var annar maður Guðrúnar. Guðrún giftist svo þriðja manni sínum Bárði árið 1848 þar af trúlega þessi tvö föðurnöf á Sigríði dóttur Nikulásar og Guðrúnar.

 

Í Blöndu, Sögufélagið gaf út (Rvík, 1932-35, bls.323-333, dr. Jón Þorkelsson ritaði) segir m.a. um Guðrúnu Sæmundsdóttur:

“Sumarið 1839 fór Guðrún, sem þá var kölluð “gift kona” með Sigurð son sinn í kaupavinna austur í Skaftafellssýslu, og réðist þá svo, að upp “úr kaupavinnuferð sinni” fóru þau frá Miðhúsum í Garði, -þar átti Guðrún heima,- “alfarinn um haustið” að Hemru í Skaftártungu til Bárðar (Jónssonar, Valdasonar).

Bárður og Guðrún giftust 26. október 1848. Þeirra börn voru Sigríður og Sæmundur.”

 


Foreldrar Guðrúnar Sæmundsdóttur 1803 eiginkonu Nikulás Sigurðssonar voru Sæmundur Einarsson fæddur 1767, látinn 4. júní 1826, aðstoðarprestur í Kjalarnesþingum, vígður til Kjalarnesþinga Sæmundur capellan árið 1790 skv. Vatnsfjarðarannál Yngsti og prestur í Stóra-Dal  undir Eyjafjöllum 1792, prestur í Ásum í Ásasókn og síðast í Útskálum, drukknaði(sjá frásögn af drukknun hans hér fyrir neðan)og móðir Guðrúnar Sæmundsdóttur var Guðrún “yngri”Einarsdóttir fædd 1761, látin í Útskálasókn, Gullbringusýslu, 6. apríl 1822.

Séra Sæmundur Einarsson á Útskálum drukknar

Síra Sæmundur Einarsson er fæddur að Kaldaðarnesi í Flóa, Eiríkssonar, Klængssonar, Eiríkssonar prests á Krossi í Landeyjum 1635-81, Þorsteinssonar. Hann fekk Útskálabrauðið 1812 og þjónaði þar til síns dauða er þannig að bar: Formaður sá er Einar hét og var Ásgrímsson hlóð sig í sjó. Um það kvað Jón prestur Hjaltalín:

 

Megnan skaða mörgum bjó

mikill auðs-ákafi

að ofhlaða sig í sjó

svoddan skeð þó hafi.

Þennan Einar rak upp og átti að jarðast þann 3. júlí 1826 og stóð fyrir því Jón dannebrogsmaður í Vörum - sem heldur vildi titilinn en launin. Dróst það fram eftir öllum degi að líkið kom ekki, en presturinn beið ferðbúinn til Reykjavíkur. Komst hann ekki á stað fyrr en um nón; atlaði þá að senda hestana með Erlendi mági sínum á Lambastöðum, Erlendssonar á Bátsendum, inn til Reykjavíkur.

En er það heyrði Kristján Finnsson sýslumanns að Erlendur atlaði landveg stökk hann af skipi og fór með honum. Skildi þar milli feigs og ófeigs. Með síra Sæmundi voru fimm menn úr heimili hans: Þorsteinn Snjólfsson uppeldis- og systursonur hans, Pétur og Jón sjómenn að norðan og tveir menn aðrir, Hólmfríður vanfær kvenmaður sem atlaði kynnisför til móður sinnar inn á Nes.

En er skipið fór úr vörinni var það ofhlaðið af háfermi, skreið og þess konar, og það svo ólánlega, að það lá á hnýfli, en skuturinn skrolldi. Mælt var síra Sæmundur hefði farið með mikið af peningum sínum. En er þeir komu inn á sjó sofnaði presturinn. Hvessti hann þá á landsunnan. En er prestur vaknaði voru þeir komnir inn á Skerjafjörð og reru inn með löndum. Vildi þá síra Sæmundur fara að slaga sig - þetta var um morguninn 4. júlí - en þar eð skipið var óliðlega og of hlaðið drakk það svo í sig sjó að framan að inn rann á milli allra keipa.

Segir þá Pétur svo frá - er einn komst af skipsbrotinu - að hann vissi ekki betur en Þorsteinn Snjólfsson gengi þá útbyrðis, en síra Sæmundur féll útbyrðis; sá hann ekki lengur til hans en svo að hann sökk á höfuðið og skaut ekki upp framar - eins og mælt er um alla drukkna menn er í vatn falla. Jón bróðir hans komst á árar og hrakti vestur eftir sjó, en Hólmfríður, vanfæri kvenmaðurinn, sökk ekki og bar sig mjög aumlega sem vonlegt var; eins er og sagt um allar óléttar konur að þær sökkvi seint. Hefir hann svo frá sagt að sér hafi mest fundizt um að heyra til konunnar.

Pétur losnaði aldrei til fulls við skipið og komst upp með stýrinu og stóð upp með mastrinu svo að hann var í sjónum upp að kné því skipið marði í kafi. Þannig var hann á sig kominn er Magnús Sigurðsson á Bakka - sá er átti Solveigu Kortsdóttir er getið er í Þjóðsögunum - fann hann, þá á ferð til Reykjavíkur. Voru þá liðin til vissu tvö dægur frá því þeir drukknuðu. Var hann þá svo ringlaður orðinn öðru hverju að hann vissi ekki hvort hann var á þuru landi eður votu. Það var fram undan Akranesi er hann fann hann.

Þessi Pétur heitstrengdi að fara ekki oftar til sjós eður sjóróðra. Hann drukknaði þó nokkrum árum seinna suður í Njarðvíkum. Enginn veit til vissu hvort hann hefir nokkurn tíma rekið. Þó er það mælt hann hafi rekið vestur á Mýrum höfuðlaus, en þekkzt af báðum fingurgullunum.

Eftir dauða Sæmundar prests var það ærið tíðrætt um það hér að hann hefði átt að ganga um híbýli heima á Útskálum svo að síra Brynjúlfur hefði ekki getað gengið þar um; hefði hann staðið við skáladyr, í skotum og göngum, en þó engum gjört mein, líkt og sagt er um Höfðabrekku-Jóku; áttu menn þó að falla í öngvit er hann sáu. En móðir mín er þar ólst upp heyrði samt ekkert um það getið fyrr en hún kom hingað austur, jafnvel þó hún væri þar á næsta bæ, Lambastöðum.

Sama er og að segja um svonefndan Hafna-Grána að hún heyrði ekkert um hann getið, jafnvel þó Þórunn húsmóðir hennar væri gagnkunnug þar í Höfnunum. En strax er móðir mín kom hingað austur heyrði hún mikilvægar sögur um hann og afreksverk hans ærið stórfengileg.

Hætt er við að afturgöngusögur sé ekki á meiri rökum byggðar velflestar en þessar. (Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Faðir Nikulásar Sigurðssonar var:

Sigurður Árnason

Fæddur í Ytri-Njarðvík, Gull. 1763. Bóndi í Ytri-Njarðvík, Kirkjuvogssókn, Gull.  1801. Hann var giftur Sólveigu Snorradóttur fæddist á Eyði á Seltjarnarnesi 1760, hún lést á Kálfatjarnarsókn í Gullbringusýslu 7. apríl 1837. Þau giftu sig 17.10 1788, hún var á Eyði Seltjarnarnessókn 1769, var í Narfakoti, Njarðvíkursókn, Gull. 1784, vinnukona í Keflavík Útskálasókn, Gull 1789, var á sama stað 1795, húsfreyja í Ytri Njarðvík 1801. Þau eignuðust sjö börn: Árni 1791-1871, Jóhannes 1792-1862, Nikulás 1793, Magnús 1794, Friðrik 1799, Ásgrímur 1800, Sólveig 1804-1868.

Faðir Sigurðar Árnasonar var:

Árni Ásgrímsson

Fæddur um 1712. Látinn í Mælifellssókn Skagafirði 12. apríl 1785. Bóndi á Ytri-Mælifellsá á Efribyggð 1762. Síðast bóndi á Vindheimum í Skagafirði. Espólín, nefnir einnig þrjár dætur, sem ekki voru sammæðra Sigurði: Helga, Guðrún og Ingibjörg. Árni var giftur Þuríði Jónsdóttur fædd 1726, látin 1782, húsfreyja á Ytra Mælifelli, Mælifellssókn, Skag.1762. Þau eignuðust tvo syni: Sigurður 1763, Arngrímur 1765-1785.

 

Faðir Árna Ásgrímssonar var:

Ásgrímur Nikulásson

Fæddur 1661. Látinn 1735. Bóndi í Djúpárdal, Blönduhlíðarhreppi, Skag. 1703, síðar bóndi á Syðstu-Grund og síðast á Uppsölum í sömu sveit. Hann var giftur Aldísi Brynjólfsdóttur fædd 1647, ættuð af prestum og lögmönnum frá Vestfjörðum. Ásgrímur og Aldís eignuðust engin börn. Seinni kona Ásgríms var Elín Árnadóttir 1681-1772, faðir hennar Árni fór til Hollands og móður hennar er ekki getið, hún var vinnukona á Ytribrekkum Blönduhlíðarhreppi, Skag. Forefeður Elínar voru prestar í Eyjafirði og afi henar var Eiríkur Hallsson, prestur og skáld í Höfða í Höfðahverfi. Ásgrímur og Elín eignuðust fjögur börn: Árni um 1712, Ásgrímur “stóri” 1713-1793, Margrét um 1715, Guðrún um 1720.

 

Eiríkur Hallsson 1614-1698, ein af vísum hans:

Suðra bál við gómagöng
geymir mála skorðan.
Þorradægur þykja löng
þegar 'hann blæs að norðan

Faðir Ásgríms Nikulássonar var:

Nikulás Jónsson

Fæddur 1620, lögréttumaður, getið 1650-1668. Hann bjó á Óslandi í Skagafirði. Hyllti konung á Hegranesþingi , Skag. 1649. Hann átti einn son, en barnsmóður er ekki getið: Ásgrímur 1661.

Nikulás var einn af þeim 6 leikmönnum sem báru herra Þorlák biskup til grafar miðvikudaginn 9. janúar 1656, svo segir í Valholtsannál. Árið 1652 eða fjórum árum fyir þennan atburð var hospitalið á Möðrufelli í Eyjafirði stofnað og gáfu margir þar til m.a. Nikulás, sem gaf 60 álnir, svo segir í Sjávarborgarannál.

 Álftaver í upphafi landnáms og Molda-Gnúpur.


Molda-Gnúpur.

Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:

Ek bar einn

af ellifu

bana orð.

Blástu meir!

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.

Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.

En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.

Álftaver og Molda-Gnúpur

Allöngu fyrir landnám hafði hraun mikið runnið úr syðri hluta Eldgjár fram um Mýrdalssand austanverðan allt til sævar. Á landnámsöld reis þetta hraun mun hærra yfir sandinn en það gerir nú og var þá ekki eins mikil hætta á að jökulhlaup færu yfir það og það  var orðið nógu gróið grasi til að vera byggilegt. Líklegt er að nokkur býli norður af Álftaveri hafi tekið af mjög snemma, þar á meðal Hofstaði. Kann hraunrennslið að hafa valdið og eitthvað að vera til í sögu Landnámum um þann ”jarðeld”, sem Landnámabók hermir að Álftveringar hafi flúið á dögum MOLDA-GNÚPS. Þar segir að Molda-Gnúpur hafi numið Álftaverið allt og selt land mönnum, sem síðar komu út(til Íslands) og hafi þá gerst fjölbyggt ”áður arðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur  til Höfðabrekku”(STurlubók ) Þorvaldur Thoroddsen taldi , að hér væri um að ræða Eldgjárhraunið, sem runnið hefði um 900, en það hraun er sem áður gat eldra en landnám. (Saga Íslands I efitr Sigurð Líndal bls.78).

 

Glefsur úr greininni:
”Fyrir austan Fúalæk” Dagblaðið Tíminn 10. janúar 1931:
Annan daginn, sem ég var þar, gekk ég yfir að Þykkvabæjarklaustri og skoðaði kirkjuna og legstein gamla ábótans, sem þar er í garðinum. Altarisklæði á kirkjan í Þykkvabæjarklaustri úr rauðu vaðmáli. Mun á því íslenzk vinn að öllu leyti og er það hið prýðilegasta. – Frú Hildur kona Sveins bónda í Þykkvabæjarklaustri sýndi mér kirkjuna og gripi hennar og virtist mér hún vel kunn að meta og vilja vernda það, sem þjóðlegt er.

”Mörg sjást sérkennileg andlit á meðal Skaftfellinga og sjá má þar menn svo stórvaxna að hálftröll mættu þeir kallast. Er mér einkum í minni einn gamall Álftveringur, Oddur Brynjólfsson(Langafabróðir okkar). Hann er með hæstu mönnum og prúður og stilltur í framkomu. Hann kom á fundinn báða dagana með syni sína tvo og svo voru þeir hávaxnir, að gamli maðurinn sýndist lítll þegar hann stóð á milli þeirra. Enda munu þeir báðir vera þó nokkuð á 4.alin, og eftir því breiðir um herðarnar. Hefðu þeir án efa sómt sér vel í stafni einhvers drekans forðum. – Sérkennilegri þóttu mér þeir Skaftfellingar vera, sem búa í lágsveitunum milli stórvatnanna, nálægt sjónum, en þeir sem sveitirnar byggja efra.

Jón Brynjólfsson

Föðurætt Hildar Jónsdóttur, móður Jörundar 

Sveinssonar, föður Hildar Jörundsd., í beinan

karllegg:

Jón Brynjólfsson

Fæddur í Hraungerði í Álftaveri, V-Skaft.16. nóvember 1861. Látinn í Reykjavík 16. mars 1948. Þegar Jón var 12 ára fluttist hann með foreldrum sínum að Þykkvabæjarklaustri. Um tvítugt stundaði Jón sjóróðra frá Suðurnesjum. Bóndi í Þykkvabæjarklaustri II, Þykkvabæjarklausturssókn, , Skaft, bóndi þar 1910. Jón var giftur Sigurveigu Sigurðardóttur 1863-1946. Þau giftu sig 03.10 1889. Árið 1945 fluttust þau að Skeggjastöðum í Mosfellssveit með dóttur sinni Hildi og hennar manni Sveini. Jón var sýslunefndarmaður Álftveringa hátt á fjórða áratug, auk þess var hann í skattanefnd og sóknarnefnd, kirkjuhaldari var hann lengst ævinnar. Þau eignuðust fjögur börn: Hildur 1890, Rannveig 1892, Sigurður 1894, Guðrún Ágústa 1899. Sjá nánar um börn Jóns og Sigurveigar framar í skjali.

 

Jón Brynjólfsson

Minningarorð um Jón Brynjólfsson í Morgunblaðinu sunnudaginn 21. mars 1948

Á morgun fer fram jarðarför Jóns Brynjólfssonar frá Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri í Vestur-Skaftafellssýslu. Þykkvabæjarklaustur er frægur staður í sögu þjóðar vorrar og þann stað sat Jón Brynjólfsson með rausn ef ekki ríkidæmi.

Jón var fæddur í Hraungerði rjett hjá Klaustri 16. nóvember 1864, og voru foreldrar hans Brynjólfur bóndi Eiríksson(náfrændi Markúsar í Hjörleifshöfða þess merka og sjerkennilega bónda) og Málfríður Ögmundsdóttir (ættuð úr Mýrdal). Tólf ára að aldri fluttist Jón með foreldrum sínum að Þykkvabæjarklaustri, en þau tóku þá við fjórðung höfðubólsins. Í kringum tvítugsaldurinn stundaði Jón sjóróðra á Suðurnesjum á vetrarvertíð, að hætti ungra Skaftfellinga þess tíma, og voru það svaðilfarir – einkum í “suður-leið”, um hávetur, gangandi, með þunga nestisskrínu á bakinu, en engan veginnhægt að leita skjóls eða beina á hvaða bæ sem var, og það jafnvel þótt í nauðir ræki. Þrjú ár, um þær mundir, var Jón í vist með sjera Kjartani Einarssyni í Holti undir Eyjafjöllum. Margt fræddist Jón um í þessum fjarvistum frá föðurgarðinum, því hann var eftirtektarsamru og íhugull, að þeirrar tíðar hætti. Var það seinna góð skemmtun að heyra Jón segja frá reynslu sinni og ævintýrum í þá daga, því hann var einn hinna skemmtilegustu frásagnarmanna, hafði mjög persónulegan sögustíl, skrúðmáll og leitinn og hnittnustu orðin og glaðvakandi í frásagnaráhuga sínum.

3. okt. 1889 kvæntist Jón Sigurveigu Sigurðardóttur Nikulássonar, bónda á hálflendu Þykkvabæjarklausturs, og voru fyrst í húsmennsku, en tóku brátt við jörðinni og bjuggu þar fram að Kötlugosi 1918 er dóttir þeirra Hildur, ljósmóðir Álftvetninga og maður hennar, Sveinn Jónsson frá Hlíð í Skaftártungu, tóku við, - en voru kyrr í sínu gamla heimili til ársins 1945, er allt þetta fólk, ásamt börnum yngri hjónanna, fluttist til Skeggjastaða í Mosfellssveit.

 

Þau Jón og Sigurveig eignuðust þrjár dætur og einn son og tóku sjer eitt fósturbarn. Sonurinn var Sigurður rafvirki hjer í borg og bæjarfulltrúi(fyrir Sjálfstæðisflokkinn). Hann dó árið 1938. Dæturnar eru auk Hildar, Rannveig, kona Eiríks Ormssonar, og Ágústa, gift Oddi Jónssyni starfsmanni hjá Eiríki. Fósturbarnið er Lilja dóttir Jóns Sverrissonar, yfirfiskimatsmanns í Vestmannaeyjum.

 

Jón var sýslunefndarmaður Álftvetninga á fjórða áratug og ljet ekki af því starfi fyrr en hann flutti úr hreppnum. Auk þess var hann í skattanefnd og mjög lengi í sóknarnefnd og einn af stólpum hins góða kirkjusöngs Álftvetninga. Kirkjuhaldari var hann lengst ævinnar. Á búskaparárum sínum, er þjóðvegurinn austur á Síðu lá lengstum yfir Álftaver og Kúðafljót, var Jón einn af fylgdarmönnum yfir það mikla og vandfarna vatn. Var þá, sem raunar alltaf, mikil gestakoma á Þykkvabæjarklaustri, en þau hjónin gestrisin og greiðvikin með afbrigðum.

 

Jón Brynjólfsson var stórvaxin maður, sem hann átti ætt til, fríður og fyrirmannlegur og hinn skörulegasti. Hjónaband hans var til fyrirmyndar og ástríki mikið með þeim hjónum, börnum þeirra og vandamönnum yfirleitt.


 

“Við endurmat var gert árið 1919 voru gerðar lýsingar á ástandi jarðanna eftir gosið og þar stendur m.a.:

12 Þykkvabæjarklaustur: ábúð Jóns Brynjólfssonar.

a. Túnið er óskemt(svo) að mestu. Lítilsháttar sandur af öskufallinu er í grasróttinni.

b. Engjar meðfram Landbrotsá eru nokkuð skemdar(svo) eftir hlaupið, en munu brátt gróa upp.

c. Skemdum(svo) á beitilandi er þegar lýst við jörðina Sauðhúsnes.

((við Sauðhúsnes) Hlaupið fór yfir nokkurn hluta svokallaðra Suðurhaga, sem er sameignarland allra Þykkvabæjarklaustursjarða og skemdi(svo)þar talsvert, einkum lautir. En líklegt er að þær grói upp inna (svo) fárra ára) “

Úr endurminningum Gunnars Ólafssonar (f.1864):

Þegar hér er komið sögu er kosningabárátta í ráðherratíð Hannesar Hafsteins rétt eftir aldamótin 1900. Gunnar ásamt ráðherra og fleirum eru á ferð austur í Skaftafellssýslu í kosningarundirbúningi og segir hann hér m.a. um Jón Brynjólfsson á bls. 261:

 

“Þeir ráðherrann og þingmannsefnið hans höfðu látið fundarboð ganga um Álftaverog boðað kjósendur á fund að Þykkvabæjarklaustri þennan dag, sem var þriðjudagur, og skyldi hann hefjast kl.12 á hádegi. Annar bóndinn á Klaustri, Jón Brynjólfsson, hafði um Jónsmessuleytið farið til Reykjavíkur og hitt þar marga og góða heimastjórnarmenn, sem tóku honum tveim höndum og réðu hann sér til aðstoðar og umsýslu við Álftveringa við í hönd farandi kosningar til Alþingis. Jón Brynjólfsson var góður bóndi, bjó við fremur góð efni og var, ef ég man rétt, bæði í hreppsnefnd og sýslunefnd. Hann var prúður maður í framkomu og vel metinn, hvar sem hann kom, eins og svo margir aðrir eða allir þar um slóðir. Ég vissi ofur vel, að “klausturhaldarinn”, eins og hann var stundum í gamni nefndur, var öruggur heimastjórnarmaður og þar með kjósandi Jóns í Hemru. Við það var í sjálfu sér ekkert að athuga. Hann átti að gæta atkvæða hreppsbúa, að þau fykju ekki út í veður og vind, og hafði honum nú verið falið að kalla háttvirta kjósendur á fundinn.........Á Klaustri var allt tilbúið, fjórir eða fimm kjósendur setztir inn í þinghús hreppsins albúnir til þess að taka á móti öllu því andlega fóðri og fóðurbæti, er þarna mundi framreitt, jafnskjótt og ráðherrann tæki til máls og svo þingmannsefnin. En aðsóknin var í minnsta lagi. Þarna voru “klausturhaldarinn”, fulltrúi ráðherrans á þessum stað, Oddur bróðir hans, einnig bóndi á Klaustri, Gísli hreppstjóri í Þykkvabæjarklausturs-Norðurhjáleigu, venjulega nefnt Norðurhjáleiga, síra Bjarni Einarsson á Mýrum og einn eða tveir, sem ég man nú ekki að nefna. “Klausturhaldarinn”(Jón Brynjólfsson) var sjálfkörinn fundarstjóri.”

 

 

Brynjólfur Eiríksson

Fæddur í Sólheimasókn 27. febrúar 1834. Látinn í Þykkvabæjarklaustri 1. júní 1894. Bóndi í Hraungerði og á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri, V-Skaft. Var í Hraungerði 1845. Hann var giftur Málfríði Ögmundsdóttur 1838. Þau eignuðust seks börn: Jón 1861, Þóra 1862-1948, Guðný 1865-1951, Oddur 1867-1949, Ragnhildur 1873-1952Helgi 1878-1949.

“ Kötlugosinu 1860 lýsir Markús Lofsson, bóndi í Hjöleifshöðfa í bók sinni “Rit um jarðelda á Íslandi”. Hlaupið kom aðallega fram vestan Hafurseyjar og skar sundur hálsinn mili Seljafjalls og Höfðabrekkuheiðar, þar sem Múlakvísl og Sandvatnið renna nú. Múlakvísl var brúuð árið 1935 og lá þjóðvegurinn þar til ársins 1955. Hlaupið hófst 2. maí og stóð í 16 sólarhringa. Þann dag ætlaði ungur bóndasonur Brynjólfur Eiríksson í Hraungerði að koma heim af vetrarvertíð í Reynishverfi í Mýrdal með unga kærustu sína, Málfríði Ögmundsdóttur, fædda á Rofum en uppalda í Reynisholti í sömu sveit. Nú voru góð ráð dýr. Kötluhlaup nýafstaðið og Mýrdalssandur engum fær nema fuglinum fljúgandi, en unga fólkið átti að taka við búsforráðum i Hraungerði um fardaga. Þá brugðust nágrannar hennar í Reynishverfi þannig við, að þeir mönnuðu áttæring, réru í vorblíðunni með kærustuparið austur í Álftaver og fóru sjálfir til baka sama sólarhringinn. Unga parið gekk átta km leið til bæjar með búslóðina undir hendinni/www.nat.is)

Eiríkur Guðmundsson

Fæddur í Holti í Mýrdal 4. júlí 1800. Hann var í Holti, Sólheimasókn, skaft. 801. Bóndi í Holti og í Hraungerði í Álftaveri. V-Skaft. Eiríkur var þrígiftur. Fyrsta kona hans var Þórhildur Gísladóttir fædd í Pétursey 14. júní 1804. Látin í Holti í Mýrdal 8. ágúst 1836. Hún var í Pétursey IV , Sólheimasókn, V-Skaft 1816, húsfreyja í Holti. Eríkur og Þórhildur giftu sig 28.05 1831 og eignuðust þau fjögur börn: Ástríður 1829-1829, Guðmundur 1832, Einar 1833-1833, Brynjólfur 1834.

Önnur kona Eiríks hét Halla Bjarnadóttir 1799-1846. Eiríkur og Halla giftu sig 22.07 1837. Þau eignuðust fimm börn: Steinunn 1836, Þóra 1838, Hallbra 1839-1895, Oddrún 1842-1843, Halli 1843-1844.

Þriðja kona Eiríks hét Guðrún Árnadóttir. Þau giftu sig 20.01 1847 og eignuðust tvö börn: Einar 1848-1849, Guðrun 1851-1922.

Guðmundur Loftsson

Fæddur 1744. Látinn 15. september 1805. Bóndi í Holti Sólheimasókn, Skaft. 1801, bóndi á Meðalfelli í Kjós um tíma. Guðmundur var tvígiftur. Fyrri kona hans var Þorbjörg Jónsdóttir 1756-1785. Þau eignuðust þrjú börn: Sesselja 1773, Jón 1776, Ragnhildur 1782. Seinni kona hans var Ástríður Pálsdóttir fædd á Breiðabólsstöðum í Reykholtsdal 1762 hún lést í Holti í Mýrdal 30. ágúst 1833. Þau áttu elleftu börn: Oddrún 1785, Sigríður 1789-1839, Guðmundur 1790, Loftur 1791-1856, Þorbjörg 1793-um 1811, Páll 1795-1811, Vigdís 1797, Steinunn 1789-1824, Eiríkur 1800, Jón 1801-1811, Gísli 1805-1811.

Loftur Vigfússon

Fæddur 1710. Bóndi á Reyni í Mýrdal. Hann átti einn son Guðmund 1744, barnsmóður ekki getið.

Vigfús Björnsson

Fæddur 1670. Bóndi í Reynisholti , Dyrhólahreppi, V-Skaft.1703. Hann var giftur Vilborgu Ólafsdóttur* 1675. Amma Vilborgar var hin víðfræga “Höfðabrekku-Jóka” alias Jórunn Guðmundsdóttir.  Þau eignuðust einn son: Loftur 1710.

 

Héðan fylgjum við ætt Vilborgar Ólafsdóttur eiginkonu Vigfúsar Björnssonar:

 

Móðir Vilborgar Ólafsdóttur var:

Þorbjörg Vigfúsdóttir

Fædd um 1630. Húsfreyja á Borg undir Eyjafjöllum. Hennar maður var Erlendur Eiríkssonf. Um 1620, bóndi líklega á Borg undir Eyjafjöllum. Þau áttu fjögur börn: Steinunn 1657 húsfreyja í Skarðshlíð , Eyjafjallasveit 1703, var í Ysta-Skála, Eyjafjallasveit 1729, Guðlaug 1664 húskona á Barkastöðum Fljótshlíðarhreppi 1703, Eiríkur 1669 bóndi á Barkarstöðum í Fljótshlíðarhreppi 1703, 1710, 1729, Sigurður um 1669 sennilega sá sem er 34 ára vinnumaður á Keldum Rangárvallarhreppi 1703 var í Eyjum í Kjós 1710, Kristín um 1670, Guðrún 1671-1707 húsfreyja á Voðmúlastöðum, A-Landeyjarhreppi, Einar 1676-1707 lausamaður á Barkarstöðum Fljótshlíðarhreppi

Vilborg Ólafsdóttir , faðir ótengdur, húsfreyja í Reynisholti, Dyrhólahreppi V-Skaft.

 


 

Jórunn Guðmundsdóttir

Fædd um 1600 “Varð víðfræg bæði lifandi og dauð” fyrir fordæðuskap segir í Borgfirskum. Sögð hafa gengið aftur sem “Höfðabrekku-Jóka” (Sjá nánar um Jórunni og Höfðabrekku Jóku framar í skjali við móðurætt Helgu Magnúsdóttur).Hennar maður var Vigfús Magnússon um 1600-1677 bóndi á Höfðabrekku í Mýrdal 1668, en bjó einnig á Kirkjulæk. Þau eignuðust níu börn: Guðmundur um 1630-fyrir 1703, Þorbjörg um 1630, Dómhildur(tengjumst í gengum hana upp að ömmu Helgu Magnúsd.)Magnús um 1630, Gróa um 1630, Guðrún um 1630, Ólöf um 1630, Ranghildur um 1632, Sólveig um 1640.

Guðrún Hannesdóttir

Fædd um 1580. Húsfreyja á Mófellsstöðum “kenndi mörgum ungum að lesa skrifa og annað”. Hún var gift Guðmundi Vigfússyni um 1570-fyrir 1654, bóndi á Mófellsstöðum, “var auðugur en ekki vinsæll af alþýðu manna” segir í Borgfirskum. Þau eignuðust bara dótturina Jórunni um 1600.

Hannes Ólafsson

Fæddur um 1540. Látinn 1609. Lögréttumaður 1570-1590. Bjó í Hvammi í Kjós frá 1560. Í Kjósverjum segir m.a.“Hannes hefur án efa borið nafn Hannesar hriðstjóra Eggertssonar á Núpi í Dýrafirð, stjúpföður móður hans Sólveigar í Hvammi. Ungur að aldri gerðist Hannes sveinn móðurbróður síns Eggerts lögmanns í Bæ á Rauðasandi. Þar vestra komst hann í kærleika við Ingu dóttur síra Jóns í Vatnsfirði Þorleifssonar, gátu þau saman barn, en Eggert lögmaður bætti presti meyjarspjöllin fyrir Hannes frænda sinn. Tilgáta hefur komið fram um að sonur Hannesar og Ingu prestsdóttur hafi verið Jón bóndi á Fæti við Ísafjarðardjúp, d. 1648. Skömmu síðar hefur Hannes flutst suður og sest að búi í Hvammi. Hann var meðal dómsmanna að Reynivöllum 30 nóv. 1566 og nefndur lögréttumaður úr  Kjalarnesþingi 1570-90. Skipti efitr Hannes í Hvammi og Gísla bróður hans fóru fram að Reynivöllum 30. sept. 1609. Erfingjar Hannesar voru skilgetin börn hans, en ekki eiginkona hans, sem hefur verið málakona(málakona=kona sem er áskilin séreign við giftingu) í garði bónda síns. Erfingjar Gísla voru skilgetnir synir Hannesar. Fasteignir er til skipta komu voru: Hvammur 60 hundruð, Hækingsdalur 20 hundruð, hálf jörðin Þrándarstaðir, hálf jörðin Botn í Botnsdal, hálf jörðin Fossá og ónafngreind jörð á Vesturlandi” Barnsmóðir Ingu Jónsdóttur um 1540-fyrir 1603, húsfreyja í Selárdal. Þau áttu soninn Jón um 1560. Eiginkona Hannesar var Sesselja Ólafsdóttir um 1565, húsfreyja í Hvammi í Kjós og síðar í Stóra-Botni.

Þau áttu þrjú börn: Guðrún um 1580 “konaGuðmundar bónda á Mófellsstöðum í Skorradal Vigfússonar, sýslumanns á Kalastöðum, Jónssonar. Var Guðrún gift Guðmundi áður en skipt var eftir Hannes og var Guðmundur viðstaddur skiptin konu sinnar vegna. Meðal barna þeirra Mófellstaðarhjóna var Jórunn, skapmikil kona og stórlát, hún giftist austur að Höfðabrekku í Mýrdal. Síðar miklu tók Jórunn sér svo nærri hrösun dóttur sinnar, að hún trylltist og sagt var að hún gengi aftur eftir dauða sinn, varð hún af þessu allfræg undir nafninu “Höfðabrekku-Jóka””(úr Kjósverjar), Jón um 1585-1664 snikkari í Hvammi í Kjós lögréttumaður, Ólafur um 1585-um 1615, bóndi á Eyri og í Hvammi í Kjós.

 

Í Ölfusvatnsannál er sagt að ætt þessi í Hvammi í Kjós hafi verið alkunn stórbænda- og valdsmannaætt.

Ólafur Narfason

Fæddur um 1490. Látinn 1554. Lögréttumaður í Hvammi í Kjós getið 1530-1539. Silfursmiður. Það að Ólafur er nefndur silfusmiður bendir til þess að hann hafi numið iðnina erlendis, segir í Kjósverjar.Hann var framan af ævi í þjónustu Ögmundar biskups í Skálholti, en settist síðan að búi á eignarjörð sinni að Hvammi og bjó þar til æviloka. Hann var lögréttumaður úr Kjalarnesþingi. Skipti á eftirlátnum eigum Ólafs fóru fram að Hvammi 21. maí 1554. Meðal eigna dánarbúsins voru eftirtaldar jarðir: Hvammur (60hundruð), Hvítanes, Þrándarstaðir og hálf Fossá allar í Kjós, ennfremur Stóri-Botn í Botnsdal. Með því að kona Ólafs var málakona í búi bónda síns voru hennar eigur ekki teknar til skiptameðferðar að því sinni.

 Hann átti einn launson Gísla um 1525-1609 hann lét ekki efitir sig skilgetin börn og tóku bræður hans allan arf eftir hann. Ólafur var giftur :

Sólveigu Bjarnadóttur um 1508-eftir 1555, húsfreyja í Hvammi í Kjós, rænt að heiman 1528 af sr. Filippusi Jónssyni, getið í jarðarbréfi 10.11.1555. Hún var dóttir Bjarna ríka á Brjánslæk á Barðaströnd Andrésson(bónda á Felli í Kollafirði, Guðmundsonar ríka á Reykhólum, Arasonar) og konu hans Guðrún “eldri” Björnsdóttir sýslumanns í Ögri við Ísafjarðardjúp, Guðnasonar sýslumanns á Kirkjubóli, Jónssonar. Hún bjó í Hvammi eftir lát bónda síns að líkindum uns Hannes sonur hennar tók jörðina Kaupmáli var gerður í Skálholti á milli þeirra hjón 29. jan 1531. Um samband Sólveigar og síra Filippusar Jónssonar  ofl. segir í Kjósverjum:”Á unglingsaldri komst Sólveig í kærleika við síra Filippus Jónsson á Látrum, er nam hana að heiman 1528 og gerði að fylgikonu sinni að óvilja ættingja hennar, og áttu þau börn saman. Bráðlega varð síra Filippus að sleppa Sólveigu, en ekki vildi Guðrún móðir hennar veita henni viðtöku eða sjá hana þótt sættir væru svokallað komnar á með þeim. Í þeim vandræðum komst Sólveig austur í Skálholt til Ögmundar biskups er skaut yfir hana skjólshúsi. Hefur það væntanlega verið að ráði biskups að Sólveig giftist Ólafi skömmu síðar(1531). Sólveig var auðug vel að löndum og lausafé. Taldi Ögmundur biskup henni 1 hundrað hundraða til giftingar, þ.á.m. voru jarðirnar Stakkar, Lambavatn og Kollsvík, síðan eignaðist hún Brjánslæk og fleiri jarðir vestur þar.(Í Sýslumannaævum II 569 segir frá því að Sólveig hafi flúið í Skálholt á náðir Katrínar hálfsystur sinnar, biskupsfrúar, það er rangt, Sólveig lauk veru sinni í Skálholti 1531, en Katrín giftist Gissuri biskupi Einarssyni 12 árum síðar(1543). Bróðir Sólveigar sammæðra var Eggert Hannesson, lögmaður, er varð einna ríkasti maður hér á landi, en lauk ævi sinni í Þýskalandi. Eggert var Sólveigu systur sinni hjálplegur á ýmsan hátt, t.d. stóð hann fyrir skiptum á dánarbúi Ólafs mágs síns í Hvammi. Síðar (1555) gerði Sólveig Eggerti “það tillæti” að selja honum óðalsjörð sína Brjánslæk fyrir fullt verð, en í þakkarskyni og til uppbótar á jarðarverðið lofaði Eggert systur sinni að kosta brúðkaup tveggja dætra hennar, sem komnar hafa verið að giftingu”.

 

Sólveig og Ólafur áttu tíu börn: Guðleif um 1530 kona Eyjólfs Magnússonar á Hóli í Bíldudal, Kristín um 1539 fyrri maður hennar var Jón Erlingsson í  Stóra-Laugardal í Tálknafirði síðar átti hana Ari Einarsson þau munu hafa búið vestra, Ívar um 1530 hann erfði 25 hundruð úr Hvamminum eftir föður sinn, Narfi um 1530 erfði 11 hundruð úr Hvammi, hálfa Þrándarstaði  og hluta úr Fossá, Gísli um 1530,Bjarni um 1530-1554 lifði föður sinn en voru látin þegar skipti á eigum hans fóru fram, Þóra um 1530-1554 lifði föður sinn en var látin þegar skipti á eigum hans fóru fram, Jón um 1535-1585 óðalsbóndi í Hvítanesi í Kjós sennilega lögréttumaður getið 1569-1579, gefur syni sínum í testamentisgjöf jörðina Hvítanes í Hvalfirði skv. Bréfi dags.18.10 1585 þannig að hann hefur líklega látist um það leyti, Hannes 1540 bóndi í Hvammi, Þórey um 1540 kona Arngríms Björnssonar á Breiðavaði.

Narfi Sigurðsson

Fæddur um 1455. Látinn um 1533. Sýslumaður á Meðalfelli í Kjós og í Fagradal í Dalasýslu. Espólín telur ýmis af börnum hans vera börn Narfa ábóta Ívarssonar. Hann var giftur ónefndri Bjarnadóttur dóttur Bjarna á Meðalfelli Ívarssonar Hólmsum 1450- um 1494. Börn þeirra voru: Soffía um 1470 húsfreyja í Þernuvík Espólín telur hana dóttur Narfa ábóta, Ívar um 1480-1524 sýslumaður í Strandasýslu Espólín segir hann son Narfa ábóta, Sigurður um 1480l ögréttumaður í Ytri Fagradal í Saurbæ Espólín segir hann son Narfa ábóta, Ingibjörg um 1480 sýslumannsfrú í Reykjavík Espólín segir hana dóttur Narfa ábóta, Þórey um 1480, Ólafur um 1490-1554 lögréttumaður í Hvammi í KJós, Bjarni um 1490 bóndi á Meðalfelli í Kjós og síðar á Mýrum í Dýrafirði var sennilega lögréttumaður. Jón Sigurðsson telur að þessi Bjarni hafi í raun og veru verið sonur Narfa ábóta Ívarssonar eins og Espólín telur.

 

Hér greinilega vafi um faðerni flestra þeirra barna sem kennd eru Narfa Sigurðssyni en um Ólaf virðist ekki leika neinn vafi að hann sé hér rétt feðraður Ölfusvatnsannáll, sem er skrifaður af Æmundi lögréttumanni gussurarsini á Ölfusvatni, en kona hans var Guðný dóttir Ólafs Jónsssonar, sem var langafabarn Narfa Sigurðssonar  og segir í annáli þeim að Ólafur hafi ekki verið sonur Narfa ábóta Ívarssonar.

Sigurður Jónsson

Fæddur um 1430. Hirðstjórasveinn Björns ríka og Þorleifs sonar hans, bjó á Mosfelli. Hann átti einn son Narfa en móðir er ótengdí Íslandsbók.

Jón Narfason

Fæddur um 1400. Umboðsmaður. Hann átti þrjá syni en móðir er ótengd í Íslandsbók: Sigurður um 1430 hirðstjórasveinn Björns ríka og Þorleifssonar hans, Jón “príórbróðir” um 1450, munkur var áður djákni eða prestur í Hólabiskupsdæmi, Narfi um 1450-1506 kirkjuprestur í Skálholti frá því fyrir 1492 og fram undir 1496, síðar fyrsti príor á Skriðuklaustri.

Narfi Sveinsson

Fæddur um 1350 Lögmaður og bóndi á Saurbæ á Kjalarnes. Var lögmaður sunnan og austan 1387-1405. Kom út ásamt Eiríki Guðmundssyni árið 1386. Árið 1405 sigldi Vilchins biskup og Björn Einarsson úr Vatnsfirðir með .eim Sigldi Njarfi Sveinsson lögmaður austan og sunnan á Íslandi, létu þeir út úr Hvalfirði segir í Nýja Annál. Gekk Narfi þá til Rómar ásamt Einar Herjólfssyni* er með þeim hafði siglt. Hann átti tvo syni móður er ekki getið: Jón um 1400 umboðsmaður, Guðmundur um 1420-eftir 1474, prestur á Gilsbakka í Hvítársíðu 1455-1463 og síðar á Hrepphólum Hrunamannahreppi til 1474.

 

*Einar Herjólfsson var sagður hafa komið með sóttina miklu, svartadauða til Hvalfjarðar 1403 og vildi hann fá syndaaflausn hjá páfa í Róm.

 

Föðurætt Hildar Jónsdóttur, hér á eftir er rakin móðurætt föður Hildar Jónsdóttur, Jóns Brynjólfssonar:

Málfríður Ögmundsdóttir

Fædd í Reynissókn, V-Skaft. 13. apríl 1838. Húsfreyja í Þykkvabæjarklaustri,var á Herjólfsstöðum II Þykkvabæjarklausturssókn, V-Skaft. 1910. Hún var ættingi húsráðenda á Herjólfsstöðum II. Málfríður var gift Brynjólfi Eiríkssyni 1834.Þau áttu seks börn: Jón 1861, Þóra 1862, Guðný 1865, Oddur 1867, Ragnhildur 1873, Helgi 1878. Sjá nánar framar í skjali við Brynjólf Eiríksson.

 

Þóra Jónsdóttir

Fædd á Hraðastöðum i Mosfellssveit 7. september 1814. Látin í Reynissókn , V-Skaft. 14. apríl 1860. Húsfreyja í Reynisholti í Mýrdal. Húsfreyja þar 1845. Hún var gift Ögmundi Árnasyni fæddur í Kerlingardal í Mýrdal 10. okt. 1809, látinn 10. janúar 1888, bóndi í Reynisholti í Mýrdal. Þau áttu seks börn: Málfríður 1838, Jón 1840, Hugborg 1842-1929, Ögmundur 1848-1932, Steinþór 1849, Arnbjörn 1853.


Steinunn Loftsdóttir

Fædd 1776. Látin í Reykholtssókn Borg. 29. ágúst 1860. Húsfreyja á Hraðatöðum í Mosfellssveit, vinnukona á Reynum, Reynissókn. Skaft. 1801, húsfreyja á Hraðastöðum í Mosfellssveit, Kjós. 1822. Hún var gift Jóni Helgasyni fæddur í Mosfellssókn 1759, látinn í Mosfellssókn , Kjós. 8. júni 1836, bóndi í Stardal í Mosfellssókn 1801 síðar bóndi að Hraðastöðum í sömu sókn. Steinunn og Jón eignuðust sjö börn: Guðrún 1808-1863, Herdís 1810, Herdís 1812, Hugborg 1812-1834, Þóra 1814, Loftur 1815-1863, Ragnheiður 1817.

Guðríður Árnadóttir

Fædd 1739. Látin 1778. Húsfreyja í Ytri-Ásum í Skaft. Hennar maður var Loftur Ólafsson fæddur 1740 og látinn 1801, bóndi í Reynisholti, Reynissókn, Skaft. 1801, bóndi á Ytri-Ásum í Skaftártungu og á Giljum í Mýrdal. Þau áttu átta börn: Árni 1770-1837, Elín 1771-1844, Hjörtur 1773-1854, Guðmundur 1775-1857, Ólafur 1775, Steinnunn um 1776, Þorgerður 1776-1859, Guðríður 1778-1862.

Ingibjörg Sveinsdóttir

Fædd 1718. Var á Ysta-Skála, Eyjafjallasveit, Rang.1729. Ættuð frá Ysta-Skála. Hennar maður var Árni Loftsson og var hún seinni kona hans. Hann var fæddur 1711, bóndi á Hrútafelli. Þau áttu fjögur börn: Guðríður 1739, Jón 1742, Guðrún 1747-1812, Þorvarður 1747

Halldóra Gísladóttir

Fædd 1692. Var í Vallnatúnum, Eyjafjallasveit, Rang. 1703, húsfreyja á Ysta-Skála, Eyjafjallasveit 1729. Hennar maður var Sveinn Oddsson fæddur 1689, var á Lambafelli, Eyjafjallasveit, Rang. 1703, bóndi á Ysta-Skála 1729. Þau áttu fimm börn: Margrét 1717, Ingibjörg 1718, Hallbera 1720, Jón um 1727-1793, Árni um 1731.

Þórunn Gísladóttir

Fædd 1665. Húsfreyja í Vallnatúnum, Eyjafjallasveit Rang. 1703. Hennar maður var Gísli Sveinsson 1665, bóndi í Vallnatúnum, Eyjafjallasveit 1703 og 1709. Þau áttu þrjú börn: Gísli 1691, Halldóra 1692, Sveinn 1696, bóndi í hjáleigu á Holtsstað í Eyjafjallasveit 1729.

 

 

Bæjarþula

Norðarlega eru Nauthús.

Drengir jafnan drekka úr krús.

Þrjár eru Merkur,

Og þrættu ekki klerkur.

Dalur og Dalsel

Og annar Dalur nærri.

Telja vil ég Tjarnir.

Traustur er hann Bjarni

Í Hamragörðum býr fátækt fólk,

frúin gaf mér skyr í hólk.

Seljaland og Sandar

sínum görðum granda.

Mæli ég allt til Nýjabæjar.

Melar eru farnir.

Fátt er að telja Fit og Hala.

Sauðhúsvöllur er sæmileg jörð.

Í Hvammi vil ég skjala.

Á Núpi er svo nauðahvasst,

Þar má kuldans kenna.

Ég nenni ekki að renna

yfir Skálanna þrenna

Holt er á hæðum,

hossar sér á glæðum,

Víkur sér til Vesturholta,

Þar má haf á skæðum

með gögnum og gæðum.

Óljótt er Ormskot.

Vallatún og Gerðakot.

Kot eru í kransi,

kæran er í dansi.

Votsamt er í Varmahlíð,

voðaleg á Núpakoti,

svöðugt er í Svaðbæli,

hvasst er í Hlíð.

Steinar og staðirnir snjallir

standa þeir undir fjallinu bæirnir allir.

Berjanes og Borgaslot,

brjóta vötn á Ystabæli.

Merkilegt er á Minniborg,

Miðbæli og Leirum.

Skýri ég þar ekki af bæjunum fleirum.

Hólar og Hörðuskáli,

hark, hark í Klömbru.

Býð ég óð um Bakkakot,

kóngsjör er Lambafell.

Sittu í friði silkilín,

syndalaus er höndin þín.

Seimgrundin í Selkoti

signi hana Drottinn,

hreppi hún allan heiðurinn

sæll sé hennar bóndinn,

og settu á hann hattinn.

Bruna sér á svellum

þeir á Rauðafellum,

þrætast um þúfnareit

þeir á Hrútafellum.

Drangurinn í Drangshlíð

datt ofan fyrir Skarðshlíð.

Guðmundur lunti

og Jón bróðir hans,

dansa þeir í Drangshlíð

detta niður í Skarðshlíð.

Skart er í Skógum

með skríkjunum nógum.

Langa þulan aftur úr því

og allt austur í Mýrdal.


Skráð eftir Guðrúnu Runólfsdóttur á Fossi á Rangárvöllum fædd 10.9 1862. Guðrún lærði þuluna í Árkvörn í Fljótshlíð um 1877. Þula þessi hefur verið alþekkt undir Eyjafjöllum og víðar, en mjög í molum og orðaval nokkuð á reiki. Um aldamótin 1600 gengu vitnisburður um svonefnda Hólaodda í Hrútafellslandi, sem Eyvindarhólaprestur vildi halda undir Eyvindahóla. Féll  dómur í því máli 1618(Úrskurður konungs um að engjalandið Hólaoddar skyldu tilheyra Hrútafelli en ekki Hólakirkju). Má af því marka aldur þulunnar. Ekki er loku fyrir það skotið, að eitthvað kunni að hafa glatast úr henni á liðnum tíma, öðru kann að hafa verið aukið við hana. Bærinn Melar mun hafa staðið á gljánni fram af Sandhólmanum undir Vestur-Eyjafjöllum. Sandblástur hefur eytt þar byggð. Hali eyddist af Markarfljóti á 17. öld. Um Nauthús segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1709: “Enginn veit þess fyrstu byggð eða eyðilegging”. Um marga Eyjafjallabæi, sem ekki eru nefndir í þulunni, er vitað, að þeir byggðust fyrst á 17. öld. Ber allt að þeim brunni, að þulan sé ort um aldamótin 1600 eða aðeins fyrr.(Eyjafjoll.is)

Hildur Jónsdóttir við ullarvinnu í Pétursborg


Hér  lýkur færslu á ættum Hildar Jónsdóttur, móður Jörundar Sveinssonar, föður Hildar Jörundsdóttur

Kommentarer

14.04.2022 20:27

Þorvaldur Karl Helgason

Sigurður Nikulásson
Fæddur í Kirkjuvogssókn V-Skaft. 1793 (fæddur í Garðhúsumí Höfnum segir í Blanda, Sögufélag ritað af dr. Jóni Þorkelssyni) - Ath. Kirkjuvogssókn er í Höfnum, ekki í V-Skaft.