Ættir Helgu í beinan kvenlegg
Helga Magnúsdóttir
Fædd 19. ágúst 1891 í Villingaholtssókn í Árnessýslu. Í manntalinu 1901 var Helga fósturbarn hjá föðursystur sinni Elínu Snorradóttur, sem bjó í Gerði í Garðasókn í Gullbringusýslu. Á því heimili bjuggu 3 börn Elínar og bróðir Elínar Guðmundur(föðurbróðir Helgu) og hans kona Þuríður Arnoddsdótttir. Helga var fermd 12. júní 1905. “Var jarðskjálftabarn” segir MJ í Vinnuhjú á Heiði, Vestmannaeyjasókn 1910, flutti til Vestmannaeyja 1908 segir í manntalinu 1910. Helga var sem ung vinnukona í Heiði, en húsfreyjan þar, Guðríður Jónsdóttir, var móðursystir Helgu. (Til gamans má geta þess að eitt af börnum Guðríðar var hinn mikili athafnamaður Einar ríki Sigurðsson) Helga var ljósmóðir í Laxnesi í Mosfellsdal, Kjós. 1930. Fluttist að Litlalandi í Mosfellssveit í kringum 1946 bjó þar til dauðadags. Hún lést á Landspítalanum í Reykjavík 28. desember 1962. Helga var gift Einari Björnssyni, bónda, sjá nánar um Einar aftar í skjali. Helga og Einar giftu sig 15.maí 1915. Þau eignuðust tvö börn.:
Magnús Einarsson
1. Magnús Einarsson fæddur
á Eiði í Mosfellshreppi, Kjós. 25. júni 1916, var í Laxnesi, Lágafellssókn, Kjós 1930, kennari í Reykjavík 1945. Magnús lést 28. mars 1995. Fyrri kona Magnúsar var
Lovísa Einarsdóttir 1907-1996, þau eignuðust tvö börn:
a. Einar Magnússon
b. Helga Magnúsdóttir
Seinni kona Magnúsar er Ingibjörg Sveinsdóttir fædd 1917-2009, þau eignuðust þrjú börn:
c. Sveinn Einar
d. Sigurbjörg Inga
e. Oddný Sigrún
Margrét Einarsdóttir
Fædd fimmtudaginn 10. ágúst 1922 í Lambhaga í Mosfellssveit. Hún ólst upp með foreldrum sínum, bróður og fósturbróður að Laxnesi í Mosfellssveit. Þar bjó fjölskyldan í 14. ár. Í kringum 1946 fluttist fjölskyldan að Litlalandi í Mosfellssveit, þar sem Margrét bjó í um það bil 40 ár. Margrét var starfsmaður hjá Landsímanum í Reykjavík, sem ung kona, síðar á símstöðinn í Brúarlandi í Mosfellssveit og síðustu mörg starfsárin sín hjá Pósti og Síma í Mosfellsbæ. Margrét fluttist 1985 frá Litlalandi að Urðarholti 3 í Mosfellsbæ og var, er hún lést 7. september 2005 nýflutt að Leirutanga 33 í sama bæ. Bjó þar í fjóra mánuði. Margrét Einarsdóttir var gift Jörundi Sveinssyni fæddur 2. sept. 1919 (sjá nánar um Jörund aftar í skjali) og áttu þau fimm börn:
- Hildur fædd 26. maí 1949,
- Helga fædd 7. mars 1952,
- Halla fædd 30. júni 1959,
- Sveinn fæddur 10. febrúar 1963,
- Einar fæddur 10. febrúar 1963.
Aðalbjörn Halldórsson
Helga Magnúsdóttir og
Einar Björnsson áttu einn fósturson:
Aðalbjörn Halldórsson fæddur 8. ágúst 1926 . Látinn
3. maí 1983.
Fyrri kona hans var Ásgerður Runólfsdóttir 1924-1993, hún átti tvo syni, sem voru og fóstursynir Aðalbjörns: Kristján Ingi Helgason 14. maí 1948 og Brynjar Þór Árnason Hafdal 7. september 1951, lést 17. júní 2010. Aðalbjörn og Ásgerður áttu einn son saman:
1. Einar Helgi 24. júní 1957. Hann var skírður í höfuðið á fósturforeldrum Aðalbjörns, Helgu Magnúsdóttur og Einari Björnssyni. Aðalbjörn og Ásgerður slitu samvistum og síðustu árin, sem Aðalbjörn lifði átti hann sambýliskonu er Lovísa heitir. Aðalbjörn var reyndar skyldur Litlalandssystkynum í föðurætt þeirra, í föðurætt Jörundar Sveinssonar. Aðalbjörn og Jörundur voru í 7. lið frá Ólafi “gamla” Jónssyni 1677 og Gróu Jónsdóttur 1673. Ásgerður kona Aðalbjörns var svo aftur á móti skyld í ætt fósturföður Aðalbjörns, Einars Björnssonar. Margrét Einarsdóttir og Ásgerður Runólfsd. Voru í 7. lið frá Egill Egilsson 1692 og Ragnhildar Runólfsdóttur 1690.
Helga Magnúsdóttir
Helga Magnúsdóttir var mjög félagslynd
kona og virk í félagslífi sveitarinn. Stofnaði hún m.a. ásamt annarri konu til svokallaðs “hjónaballs” , sem haldið er á vetri hverjum allt fram á daginn í dag. Þetta
voru böll fyrir húsráðendur sveitarinn með börn sín. Þessi hópur fór svo að efna til eins útreiðatúrs á sumrin og var það kölluð “hjónareið”.
Í bókinni “Mosfellsbær”, sem kom út veturinn 2005 segir m.a. í sambandi við símalagnir í sveitinni: “Vegalengdir heim á bæi voru þó sumst staðar miklar, til dæmis að Skeggjastöðum þar sem Helga Magnúsdóttir, ljósmóðir sveitarinnar bjó á 3. áratugnum. Talið var mikið öryggisatriði að hægt væri að ná í ljósmóður í síma og æskilegt að leggja símalínu að Skeggjastöðum”.
Kjör ljósmæðra á þessum tíma voru þau að vera til taks hvenær sem var og ferðast langar leiðir, gangandi eða ríðandi, og þá kom það sér vel, ef húsbóndinn var með eitthvað á gjöf eða hest í haga. Hér kemur ein lítil saga af Helgu Magnúsdóttur í starfi. Söguna segir eiginmaður Helgu, Einar Björnsson í viðtali sem tekið var við hann árið 1969 og birtist í bókinni “Leiftur liðinna daga”, þetta er þó bara lítill kafli úr löngu viðtali:
“Ég átti hest er Strákur hét og var mikið uppáhald á mínu heimili. Ég var aldrei svo illa hestaður, að ég tæki hann í smalamennsku og hlífði honum yfirleitt við vondri brúkun, en Helga mín reið honum mikið, en sjaldan þó illa. Þó bar einu sinni út af þessu, og ég held, að ég verði að segja ykkur ofurlitla ferðasögu, þar sem þau áttu samskipti Helga mín og Strákur. Þá vorum við í Laxnesi. Það er hringt til hennar um hávetur og miðja nótt austan úr Þingvallasveit og hún beðin að koma og taka á móti barni. Þetta var ekki í hennar umdæmi, en hún gegndi því, væri hún ekki upptekin annars staðar. Við klæðum okkur í snatri og svo er lagt á Strák handa henni, en ég legg á vel fóðraðan dráttarhest handa mér. En Strákur var alltaf vel undirbúinn. Hann var tekinn inn á haustin eins og kýrnar og gefinn matur og taða og það leið víst sjaldan sú vika, að hann væri ekki hreyfður. Svo ríðum við upp alla heiðina eins og ég þorði að leggja á dráttarhestinn, en ég var beðinn að koma á móti fylgdarmanninum. Á miðri Mosfellsheiði þar sem vötnum hallar mættum við honum. Hann er þar með tvo hesta, lítið fóðraða. Ég spyr hann, hvort hann vilji, að hún ríði hestinum sínum áfram og þiggur hann það. Svo segir ekki af ferðum þeirra annað en það, að þessa leið, sem eru 40 km, reið hún á 3 klukkutímum og kalla ég það vel af sér vikið um hávetur og miðja nótt á einum hesti og stíga þó af honum nokkurn veginn jafn góðum. Þegar á bæinn kom var engin manneskja til neins, fullt húsið af börnum og þarna verður hún að taka við húsmóðurstarfinu ásamt ljósmóðurstarfinu. Húsbóndinn reyndi að fá stúlku, en það vildi engin fara þangað, enda voru börnin ráðrík og fyrirferðamikil. Því til sönnunar má segja, að 5 ára gömul stelpa segir:” Það er áreiðanlegt, Helga, mér dettur ekki í hug að gegna þér”. En einhvern veginn fór það nú samt svo, að hún náði hylli barnanna og yfirráðum á heimilinu. Þegar hún var búin að vera þarna í viku, fer húsfreyjan að tala um það við bónda sinn, að hann verði að hafa einhver ráð með að taka þvottinn, en hann átti víst ekki gott um vik, en því til skýringar má segja að brunnurinn var þrotinn og ekkert vatn nema í Þingvallavatni, en þangað var hálftíma gangur aðra leiðina og ekkert um annað að gera en bræða snjó í öll vötn. Síðustu nóttina, sem hún er þarna, vakir hún og þvær allan þvottinn, ríður svo heim daginn eftir út yfir heiði í nokkuð miklum lausum snjó og reiðir töskuna. Slík voru hlutskipti íslenskra ljósmæðra fram yfir 1940. Seinna komum við á þetta heimili. Þá vorum við í skemmtiferð austur um sveitir með 4 gæðinga til reiðar. Hún ætlaði að líta aðeins inn til að sjá ljósubarnið sitt, en við vissum ekki fyrr en við vorum búin að standa við í 4 tíma, Slíkar voru viðtökurnar á þessu barnmarga einyrkjaheimili.
Um hestinn Strák orti Jón Sigurðsson í Heiðabæ vísur, sem voru afmælisvísur til eiginmanns Helgu, Einars Björnssonar:
Margan snjallan fékkstu fák,
frægan sem við köllum.
Helst ég mundi hampa Strák
hæst og mest af öllum.
Æfði tölt og öruggt skeið,
alla laus við galla.
Þar var klár, sem þoldi reið,
þá var glatt á hjalla.
Fylgiskjal: (jarðskjálfti) BJARKI laugardaginn 17. oktober 1896.
"Skal nú vikið að því, sem vera átti aðalefni þessarar frásagnar, jarðskjálftunum hér í Eyjum í ágústmánuði 1896. Jarðskjálftar þessir áttu upptök sín í nánd við Heklu og hófust að kvöldi 26. ágúst. Voru þetta hinar ægilegustu náttúruhamfarir. Gjörféllu nær allir bæir í Landssveit og fjöldi bæja á Rángárvöllum og í Holtum. Í Árnessýslu urðu miklir skaðar.
Fólk var víðasthvar að taka á sig náðir að loknu dagsverki, er þessar ógnir dundu yfir laust eftir klukkan 10 að kvöldi. Sumir héldu í fyrstu, að heimsendir væri kominn. Ótti manna á jarðskjálftasvæðinu var talsverður, segir Þ. Th., en þó miklu minni en búazt hefði mátt við. Bar jafnvel öllu meira á ótta þeirra, sem fjær voru, en bjuggust við öllu illu á hverri stundu.
Suður í Landeyjum urðu menn greinilega varir þessarar ölduhreyfingar. Að kvöldi 26. ágúst voru þeir bræður Jónas bóndi í Hólmahjáleigu og Sigurður Jónsson, nú í Hraungerði í Vestmannaeyjum, að ljúka við að ná heyi upp í sæti skammt norður af bænum. Var loft þungbúið og kepptust þeir bræður við að koma upp heyinu áður en rigndi. Allt í einu fer jörðin að ganga í bylgjum undir fótum þeirra. Gengu þeir þá til bæjar, en urðu að haldast í hendur til að missa eigi fótanna. Á Kanastöðum sáu menn, er stóðu við slátt, að bylgjur eða gárur nálguðust úr norðvestri. Vörpuðu þeir þá frá sér orfunum, svo að ekki yrði að slysi þá er bylgjan skylli á þeim. Þrátt fyrir þetta urðu ekki teljandi skemmdir á bæjum eða peningshúsum í sveitinni og var ástæðan sú, að mýrlend jarðvegstorfa er ofaná ægisandi. Því var það, að enda þótt bæir hristust harkalega, féll allt í sömu skorður er kyrrðist."(Heimaslóð-Vestmannaeyjar)
Þessi mynd þótti mér, sem barni, alltaf stórmerkileg. Á þessari mynd er verið að næla í ömmu Helgu merki Flugfélags Íslands og tilefnið var, að hún var 250. þús. farþegi Flugfélags Íslands. Í frétt í Morgunblaðinu laugardaginn 12. júní 1954 segir m.a.:”Í gærmorgun flutti ein af vélum Flugfélags Íslands 250 þúsundasta farþegann, sem ferðast hefur með flugvélum félagsins frá því það hóf starfsemi sína fyrir röskum 16 árum. Farþeginn var Frú Helga Magnúsdóttir til heimilis að Litla Landi í Mosfellssveit, og var hún á leið frá Reykjavík til Vestmannaeyja með Douglasflugvélinni “Gunnfaxa”. Áður en Helga sté upp í flugvélina færði flugfreyja henni blómvönd. Þá var henni tilkynnt af fulltrúa félagsins, að hún myndi fá fríar flugferðir og auk þess áletraðan minjagrip til minningar um ferðina. Þetta var í fyrsta skipti, sem Helga Magnúsdóttir fer flugleiðis til Vestmannaeyja, en hún hefur aðeins einu sinni flogið áður og ferðaðist hún þá til Öræfa með einni af flugvélum Flugfélags Íslands.”
Móðir Helgu Magnúsdóttir var:
Oddný Jónsdóttir
Fædd í Landeyjum, Rang. 9. júní 1864 (uppl.ísl.erfðagreining) samkvæmt ættartölu fjölskyldunnar er Oddný fædd 6. júní að Káragerði í Vestur-Landeyjum. (Samkvæmt kirkjubók er hún fædd 10. júní). Oddný var skírð 11. Júlí 1864. Í manntalinu 1870 býr hún með foreldrum sínum í Káragerði, Krossókn í Rangárvallarsýslu og þeim systkinum sínum, sem þá voru fædd þeim Einari og Guðrúnu. Með þeim búa einnig föðuramma og –afi Oddnýjar þau Einar Jónsson þá 72 ára og Guðrún Ísleifsdóttir 62 ára. Einnig er á heimilinu móðuramma Oddnýjar, Oddný Eyjólfsdóttir þá 77 ára. Þar að auki eru á heimilinu tveir vinnumenn og tvær vinnukonur.
1890 er Oddný gift kona með tvö börn og býr í Garðhúsum(sjá Magnús Snorrason), en hún giftist Magnúsi Snorrasyni 15. Ágúst 1885. Árið 1901 eru þau hjón búsett á Syðri-Sýrlæk og eiga þá 8 börn. Helga 10 ára dóttir þeirra er þá í fóstri hjá Elínu systur Magnúsar í Gerði í Hafnarfirði og Jón 8 ára sonur þeirra var í fóstri hjá Guðrúnu systur Oddnýjar í Káragerði.
Ellert Kristinn, sem fæddur var 1897 fór í fóstur til föðursystur sinnar Elínar Snorradóttur í Gerði en ólst þó að mestu upp hjá syni hennar Snorra Frímanni Friðrikssyni.
Árið 1903 deyr maður Oddnýjar og eru þá þegar nokkur börn þeirra í fóstri á öðrum bæjum og í öðrum sveitum. Í manntalinu 1910 leigir Oddný íbúð á Hverfisgötu 22a í Reykjavík og er með fjögur börn sín þar, Snjáfríði, Guðrúnu, Ásmund Jón og Magneu Láru.
Í sama húsi en í annarri íbúð er húsráðandi maður nokkur Bjarni Sigurðsson að nafni frá Litla-Lambhaga í Garðasókn, Gullbringusýslu hjá honum er ráðskona Nikólína Kristín Snorradóttir mágkona Oddnýjar og tökubarn á því heimili er dótturdóttir Elínar Snorradóttur systur Nikólínu, Friðrikka Petrea Guðmundsdóttir, dóttir Helgu Friðriksdóttur dóttur Elínar.(manntal 1910,)
Síðustu æviárin bjó Oddný hjá dóttur sinni Guðrúnu á Fjölnisvegi 3 og Hallveigarstíg 6. Oddný lést 11. Febrúar 1950, þá 85 ára gömul. og var jarðsett 21. Febrúar 1950 í Hólavallagarði við Suðurgötu, reitur T-0118 við hlið manns síns.
1. Snjáfríður Magnúsdóttir
fædd 1885-5.apríl 1961
2. Ásmundur Jón Magnússon fæddur 13.des 1888-24.nóv.1944
3. Helgi fæddur 13. ágúst 1890, hann lést 27. ágúst sama ár
4. Helga Magnúsdóttir fædd
19.ágúst 1891-1962, sjá framar í skjali.
5. Jón Magnússon fæddur 13. sept.1893-1967
6. Snorra Júlía Magnúsdóttir fædd 1.júlí 1895-28.mars 1980
7. Ellert Kristinn Magnús
fæddur 1.mai 1897-8.feb.1974
8. Guðrún Magnúsdóttir fædd 5.júni 1898-5.sept.1979
9. Marta Magnúsdóttir fædd 30. mars 1900-7.feb. 1990
10. Magnea Lára Magnúsdóttir fædd 11.mars 1903-24.júlí
1992.
Þau Oddný Jónsdóttir og Magnús Snorrason fluttust frá Syðri-Sýrlæk til Reykjavíkur árið 1902. Um þau er sagt:
“ Magnús var kunnur fyrir samviskusemi og dugnað meðan heilsa leyfði. Oddný var skarpgreind, harðdugleg og ósérhlífin”.
Systurnar Oddný Dóra og Helga dætur Magneu Láru og því barnabörn Oddnýjar og Magnúsar fræddu mig á ýsmu eitt árið, þegar þær komu í heimsókn til mín hér í Danmörku m.a.:
"Daginn eða kvöldinu áður en Magnús lést kom læknirinn að vitja hans og skammaðist hann yfir því, að það væri innilokað loft inni hjá sjúklingnum. Doktorinn reif alla glugga upp á gátt og þá nótt dó Magnús. Oddný varð lækninum afar reið húðskammaði hann og ásakaði hann um að hafa drepið Magnús. Ekki eru nú neinar sannanir fyrir því að læknirinn hafi kálað Magnúsi með því að rífa alla glugga upp á gátt, en svo mikið er víst að Oddný kenndi lækninum alla tíð um að Magnús dó"
"Oddný Jónsdóttir var sem ung stúlka kölluð "Eyjafjallasól" af því hún var með svo gríðarlega mikið og fallegt ljóst og krullað hár. Á þeim tíma, þegar Oddný var ung þótti ekki flott að vera með krullur, svo hún bar í það smjör eða aðra feiti til að slétta það"
Móðir Oddnýjar Eyjólfsdóttur var:
Ástríður Pétursdóttir
Fædd í Krossókn, Rang. 11. júlí 1835. Ástríður var gift Jóni Einarssyni fæddur í Evindarhólasókn 1833, hann var á Hrútafelli í Eyvindarhólasókn, Rang. 1835, var tökupiltur á Rauðafelli, Eyvindarhólasókn 1845, bóndi í Káragerði, Sigluvíkursókn, Rang. 1860 og 1870, bóndi í Káragerðishjáleigu, Krossókn, Rangs. 1880. Jón fórst með skipinu Hallgeirsey einhvers staðar á Álnum milli lands og eyja(Vestmannaeyja) 15 marts 1893.
Ástríður Pétursdóttir var skírð 11. Júlí 1835 i Krossi, Rangárvallarsýslu.. Árið 1840 bjó Ástríður með foreldrum sínum Pétri Magnússyni og Oddnýju Eyjólfsdóttur í Hólmahjáleigu í Krossókn, Rangárvallarsýslu, þá var hún fimm ára hnáta. Einn bróður átti hún þá Magnús 10 ára. Árið 1850 var hún samkvæmt manntali léttastúlka hjá móðurbróður sinum Sigurði Eyjólfssyni í Austur-Búðarhólshjáleigu í Krossókn, þá var Ástríður 15 ára gömul og bróðir hennar Magnús var vinnupiltur á sama stað. Móðuramma hennar Elín Ísleifsdóttir ljósmóðir bjó einnig á því heimili og var þá orðin 83 ára og ekkja. Hún lést á því heimili 7. Maí 1855.
Ástríður giftist Jóni Einarssyni 16. Júlí 1860 í Landeyaþingi í Rangárvallarsýslu. Virðast þau hafa átt dreng 3. Mars 1877, skírður Jón sama dag. Árið 1860 eru Ástríður og Jón nýgift bóndahjón í Káragerðis hjáleigu, Sigluvíkusókn, Rangárvallarsýslu og hjá þeim býr móðir Ástríðar, Oddný þá 68 ára gömul ekkja. Árið 1870 eru Ástríður og Jón búsett í Káragerði, Krossókn og eiga nú börnin Einar, Oddnýju og Guðrúnu. Á heimili þeirra býr enn Oddný móðir Ástríðar og tengdaforeldrar hennar Einar Jónsson og Guðrún Ísleifsdóttir. Þar að auki eru á heimilinu tveir vinnumenn og tvær vinnukonur.
Skv. Manntalinu 1890 búa þau hjón Ástríður og Jón enn í Káragerðu, hann 58 ára gamall og hún 55 ára. Foreldrar þeirra eru nú látnir að undanskilinni móður Jóns Guðrúnu Ísl., en hún bjó á þessum tíma hjá dóttur sinni Helgu Einarsdóttur og hennar manni á bænum Akurey í Sigluvíkursókn í Rangárvallarsýslu. Börn þeirra hjóna Ástríðar og Jóns eru nú heimabúandi Einar, Guðrún, Guðríður og Sigríður, en Oddný er flutt að heiman. Ástríður verður ekkja 1898, en býr enn í Káragerði 1901 en þá eru tekin við búinu dóttir hennar Guðrún og hennar maður Sigurður Ísleifsson, hjá þeim eru hjú systur Guðrúnar, Guðríður og Sigríður.
Í manntalinu 1910 eru Guðrún þessi og Sigurður flutt til Vestmannaeyja, nánar tiltekið að Merkisteini og flutti Ástríður með þeim þangað og lést þar 5. ágúst 1919 og var hún 84 ára, þegar hún lést. Ástríður Pétursdóttir var jarðsett í Vestmannaeyjarkirkjugarði, reitur A-15-35, 14. Ágúst 1919.
- Einar 1863-1941
- Oddný1864
- Guðrún 1866-1954
- Guðríður 1871-1944
- Sigríður 1878-1969.
Merkisteinn í Vestmannaeyjum stendur við Heimagötu 9. Það hús byggði Sigurður Ísleifsson fæddur 19. ágúst 1863 bróðursonur Jóns eiginmanns Ástríðar. Oddný langamma og Sigurður þessi voru því bræðrabörn, en á Merkisteini var Ástríður árið 1910 eins og fram kemur hér framar. Um Sigurð þennan Ísleifsson segir á Heimaslóð Vestmannaeyja, að Sigurður hafi verið smiður af Guðs náð.
Af Ástríði er sögð sú saga, að uppboð var í Káragerði, þar sem hún bjó.(Ég gæti ímyndað mér að það hafi verið í sambandi við flutning), en ekki veit ég nein nánari tildrög þess. Meðal muna, sem boðin voru upp var hinn glæsilegasti söðull, sem Ástríður átti. Ekki þótti henni nógu hátt boðið í söðulinn og segir sú gamla þá: "Það er best að ræfillinn fylgi ræflinum" og hélt sjálf söðlinum.
Móðir Ástríðar Pétursdóttur var:
Oddný Eyjólfsdóttir
Fædd í Búðarhóls-Austurhjáleigu 10. maí 1795. Lést í Káragerði 30. ágúst 1877. Var á Búðarhólshjáleigu nyrðri, Krosssókn, Rang. 1801. Húsfreyja í Hólmahjáleigu, A-Landeyjahr. Rang. Síðar húsfreyja í Káragerði , Eyrarbakkahr. Árnessýslu. Oddný giftist 29.07 1832 Pétri Magnússyni bónda í Hólmahjáleigu A-Landeyjahreppi, var á Búðarhóli 1 Krosssókn 1816. Pétur var fæddur á Lágafelli í Austur-Landeyjum 1801, hann lést í Hólmahjáleigu 17. júlí 1843. Pétur var fyrri maður Oddnýjar og áttu þau sjö börn saman:
- Magnús 1831-1855
- Eyjólfur 1832-1832
- Elín 1833-1833
- Ástríður 1835
- Eyjólfur 1836-1836
- Elín 1838-1838
- Pétur 1840-1840.
Seinni maður Oddnýjar hét Sigurður Jónsson 1805-1851, þau kvæntust árinu áður en Sigurður dó eða 3. júlí 1850. Fyrsta barn Oddnýjar virðist vera fætt fyrir hjónaband hennar með Pétri, og árið 1827 eignaðist hún dótturina Elínu , sem látist hefur það sama ár. Elínu átti hún með Árna Pálssyni (1803-1854). Oddný belssunin Eyjólfsdóttir hefur ekki átt barnaláni að fagna því 6 af börnum hennar átta látast á fyrsta ári eða í fæðingu. Er í raun bara ein, sem að nær einhverjum aldri og er það ættmóðir okkar Ástríður. Magnús sonur Oddnýjar nær því að verða 24 ára.
Bakki í Austur-Landeyjum
Móðir Oddnýjar Eyjólfsdóttur var:
Elín Ísleifsdóttir
Fædd í Bakkahjáleigu, Landeyjum, Rang. 1767. Látin í Austur-Búðarhólshjáleigu 7. maí 1855. Húsfreyja á Búðarhólshjáleigu nyrðri, Krossókn, Rang. Húsfreyja þar 1801. Ljósmóðir.
Í manntalinu 1816 eru Eyjólfur og Elín húsbændur í Austur-Búðarhólshjáleigu og búa þar með börnum sínum þeim Jórunni 25 ára, Oddnýju 21 árs, Ísleifi 17 ára, Helgu 14 ára, Sigurði 9 ára og Jóni 6 ára. Ekki eru fleiri í heimili þá. Í manntalinu 1835 er Eyjólfur skráður eignarmaður jarðarinn að A-Búðarhólshjáleigu, en samkvæmt upplýs. sem finna má í manntalinu virðist vera allavega tvíbýlt á jörðinni og er Sigurður sonur þeirra húsbóndi. Margmennt er þá á jörðinni. Í manntali 1840 er Eyjólfur látinn og Sigurður sonur þeirra húsbóndinn. Elín er skráð ekkja 77 ára móðir húsbónda og yfirsetukona. Sigurður og kona hans Guðný búa með börnum sínum tveimur, Elínu og Sigurði. Auk Elínar móður húsbónda býr á bænum tengdamóðir Sigurðar, Elín Þorsteinsdóttir 67 ára ekkja, ein vinnukona og niðursetningur.
Elín var gift Eyjólfi Guðmundssyni 1768-1838, bónda á Búðarhólshjáleigu Nyrðri Krossókn, Rang. Bóndi þar 1801. Húsbóndi í Austur-Búðarhólshjáleigu 1816, húsbóndi í Búðarhólshjáleigu 1835. Elín og Eyjólfur giftu sig 15.08 1790. Þau eignuðust tíu börn:
- Guðmundur 1790-1843
- Jórunn 1791-1827
- Helga 1793-1798
- Oddný 1795
- Ísleifur 1798-1893
- Helga 1800 - ?
- Helga 1802-eftir 1887
- Sigurður 1805-1805
- Sigurður 1807-1873
- Jón 1810-1889.
Móðir Elínar Ísleifsdóttur var:
Helga Oddsdóttir
Fædd 1732
Látin í Kirkjulandshjáleigu, Krosssókn, Rang. 23. apríl 1813 |
Húsfreyja í Bakkahjáleigu 1767 og 1769, í Austur-Búðarhólshjáleigu 1786. Flutti að Kirkjulandshjáleigu, Krosssókn, Rang. 1793 og bjó þar til 1800, var eftir það þar hjá syni sínum. Hún var gift Ísleifi Einarssyni fæddur 1726, látinn í Kirkjulandshjáleigu, Krossókn 9. apríl 1810, hann var bóndi í Bakkahjáleigu 1767 0g 1769, í Austur-Búðarhólshjáleigu 1786, flutti að Kirkjulandshjáleigu 1793 og bjó þar til 1800, var eftir það hjá syni sínum þar. Helga og Ísleifur eignuðust tvö börn:
|
Lengra kemst ég ekki í beinan kvenlegg frá Helgu Magnúsdóttur og aftur úr, en hef tekið hér smálykkju og set inn föður Helgu Oddsdóttur:
Oddur Helgason
Fæddur 1698, bóndi á Búðarhóli, Austur-Landeyjahreppi, Rangárvallarsýslu og síðar í Hellishólum, Fljótshlíðarhreppi, Rang. Var á Búðarhóli 1703. Fyrri kona hans er ókunn. Oddur átti tvö börn:
- Helga 1732
- Jón 1737-1817.
Seinni kona Odds var Sigríður Jónsdóttir 1722, svo virðist sem að þau hafi ekki átt börn. Hvort að Helga og Jón voru sammæðra kemur ekki fram.
Móðir Odds Helgasonar var aftur á móti:
Jórunn Gísladóttir
Fædd 1661, var á Búðarhól í Austur-Landeyjahreppi, Rang. 1703. Hennar maður var Helgi Jónsson 1651, bóndi á Búðarhólshjáleigu í A-Landeyjarhreppi, bóndi þar 1703, 1709 og enn 1712. Þeirra börn voru:
- Dómhildur 1684, var á Búðarhóli í A-Landeyjarhreppi 1703, húsfreyja í Kerlingardal í Mýrdal,
- Vilborg 1685-eftir 1729, var á Búðarhól í A-Land. 1703, vinnukona í Miðey í A-Land
- Arndís 1687
- Jón 1691
- Sólveig 1693
- Ingibjörg 1693
- Þorbjörg 1695
- Gísli “eldri” 1696
- Árni 1696 þessi sjö síðast upptöldu voru öll á Búðarhól í A-Landeyjarhreppi árið 1703
- Oddur 1698
- Gísli “yngri” 1702.
Móðir Jórunnar Gísladóttur
var:
Dómhildur Vigfúsdóttir
Fædd 1630. Hún var gift Gísla Eiríkssyni 1634. Þau eignuðust eina dóttur: Jórunn um 1660.
1. Jórunn 1661.
Bærinn Höfðabrekka í Mýrdal: Höfðabrekka er austasti bærinn í Mýrdal og næstur Mýrdalssandi. Bæinn tók af í Kötluhlaupi árið 1660 og var þá byggt á ný uppi á heiðinni. “Tvær kirkjuklukkur hanga uppi í klukknaportinu. Sú til hægri, þegar að er komið, er frá Höfðabrekku í Mýrdal. Síðast var hún geymd niðri í Skiphelli og þar afhenti Ragnar Þorsteinsson bóndi á Höfðabrekku mér hana. Þetta mun án efa vera önnur þeirra kirkjuklukkna sem sr. Jón Salómonsson bjargaði er Kötluhlaupið tók kirkju og bæ á Höfðabrekku árið 1660. Sr. Jón stökk með þær upp Tíðabrekku og upp í Klukknahelli, upp frá gamla bæjarstæðinu sem nú er sandi hulið við brekkurætur.” Hér er verið að tala um kirkjuna, sem byggð var á Skógasafni og hlutir úr ýmsum áttum voru notaðir í hana.
Móðir Dómhildar Vigfúsdóttur var:
Jórunn Guðmundsdóttir
Fædd um 1600 “Varð víðfræg bæði lifandi og dauð fyrir fordæðuskap” segir í Borgfirskum, sögð hafa gengið aftur sem “Höfðabrekku-Jóka”. Þriðja kona Vigfúsar Magnússonar um 1600-1677, bónda á Höfðabrekku í Mýrdal 1668, en bjó einnig á Kirkjulæk. Hyllti konung á Rangárþingi 1649. Þau eignuðust níu börn:
- Guðmundur um 1630-fyrir 1703
- Þorbjörg um 1630, húsfreyja á Borg undir Eyjafjöllum
- Dómhildur um 1630
- Magnús um 1630 “átti blinda konu”, segir Espólín
- Gróa um 1630
- Guðrún um 1630
- Ólöf um 1630
- Ragnhildur 1632, húsfreyja á Ketilsstöðum, Dyrhólahreppi, V-Skaft. 1703
- Sólveig um 1640.
HÖFÐABREKKU - JÓKA
Um miðja seytjándu öld bjuggu bræður tveir á Höfðabrekku - þar voru þeir í Kötluhlaupinu 1660 - eignarjörð forfeðra sinna, er hétu Ísleifur og Vigfús, merkilegir menn. Vigfús var klausturhaldari. Kona hans hét Jórunn Guðmundsdóttir Vigfússonar á Kalastöðum - bróðurdóttur Orms í Eyjum í Kjós. Jórunn var merkiskona að flestum hlutum, skörungur í bústjórn allri, gáfukona og söngmaður orðlagður, en þókti hörð í skapi, gestgjafi hinn bezti og að öllu kvenskörungur hinn mesti.
Það er til dæmis um það hvað vel Jórunn var að sér: Einu sinni kom gömul bók til alþingis sem enginn komst fram úr til muna. Þá var Runólfur Jónsson lögréttumaður á alþingi sem þá var búandi í Mýrdalnum, viðstaddur. Sagðist hann ekki vita mann sem læsi hana ef það gæti ekki Jórunn á Höfðabrekku. En er til hennar kom fór eftir tilgátu hans.
Þau Vigfús og Jórunn áttu nokkur börn saman, Vigfús og Kristínu og Jórunni og að líkindum Jón.
Þar hjá þeim Vigfúsi og Jórunni var vinnumaður sá er Þorsteinn hét. Hann lagði hug á Jórunni Vigfúsdóttir og fóru beggja hugir saman, en þetta var foreldrum hennar, einkum Jórunni, mjög á móti skapi. En þessi mótþrói þeirra var ekki til annars en glæða ást þeirra.
Allt um það varð hann að rýma vistina og fór til Magnúsar prófasts Péturssonar sem þá var prestur til Kirkjubæjarklausturs (frá 1640 til 1652, deyði 1687). En er þeim var stíað í sundur áttu þau því fleiri launfundi og fór svo að hún varð þunguð. Við það varð Jórunn svo gnæp að hún hét því að hann skyldi hana aldrei fá. Herti hún þá svo að Þorsteini að hann hét því að hætta fundum við hana.
Þá var haft í seli frá Höfðabrekku norðan undir Selfjalli - það selland fór af í hlaupinu 1721 - og var Jórunn þar selmatselja með öðru kvenfólki. Þangað kom Þorsteinn til barnsmóður sinnar þrátt fyrir loforð sitt, á laugardögum þegar hann kom því við. Þetta var Jórunni flutt og margvíslega orðum aukið af sögumönnum. Við þetta varð hún svo heit og reið að hún hézt og lofaði að verða honum að bana.
Jörðuð var Jórunn. En brátt urðu menn þess varir að Jórunn var á rjátli og sótti hún fyrst að Þorsteini, en svo gat síra Magnús verndað hann að ekki varð honum mein að henni. Samt réði hann honum að fara út í Vestmannaeyjar og vera þar í það minnsta full tuttugu ár, en varlegast væri honum að fara aldrei úr Eyjunum þó þau væru af liðin.
Þangað fór Þorsteinn og var þar svo lengi að komið var á hið tuttugasta ár. Var hann þá svo fús að fara til lands að hann skeytti að engu ummælum síra Magnúsar, heldur fór til landsins upp í Sandavarir. En er þeir komu undir sandinn þóttust nokkrir menn sjá Jórunni upp á kampinum í hnipri. Var hún þá að hagræða kögglunum í tánum á sér því svo var hún þá farin að rotna að kögglarnir skröptu lausir.
En er þeir voru landfastir sáu menn Jórunni hvar hún flaksaðist að skipinu, þreif Þorstein, kreisti hann og kramdi til dauðs. En í þeim sömu svifum kom þar síra Magnús í fluginu; hafði hann atlað að hjálpa Þorsteini.
Þá segir Jórunn: "Hart er riðið."
Því anzaði síra Magnús: "En of seint er komið. Samt skaltu ekki fleiri ferðir fara en þessa."
Hóf hann þá upp stefnu í ljóðum og stefndi henni norður á Grænafjall að keri því sem þar er. Brá Jórunn þegar við. En er hún kom að kerinu gekk hún umhverfis niður eftir því með þvílíkum hljóðum að allar kindur stukku í burtu af Grænafjalli nema einn meinahrútur. Segja menn að í það eina sinn hafi Grænafjall verið safnað sauðlaust.
Þetta jarðker kvað vera vaxið grasbrekkum niður eftir, aðdregið, en kolsvart er niður eftir kemur og vatn neðan til.
Eftir það Þorsteinn var kominn út í Eyjar var Jórunn á sífelldu sveimi og mátti svo að kveða hún væri eins og gömlu tröllin hvar sem hennar var getið. Fáum gjörði hún mein og var hún í því efni einkennileg afturganga nema hvað stöku menn ístöðulitlir fengu öngvit er hana sáu. Oft gekk hún um sýslur á Höfðabrekku, einkum búr og eldhúsgögn. Skammtaði hún oft, en blandaði mold í matinn svo hann varð óætilegur.
Einu sinni kom vinnumaður Vigfúsar að henni þar sem hún var að hræra mold saman við skyrið. Segir hann þá: "Hvað ertu nú að gera Jóka?" greip upp einn askinn og kastaði eftir henni.
Í Fjósum í Mýrdalnum vöktu tvær konur á eftir og höfðu það til skemmtunar að segja sögur og tala um hitt og þetta. Þá segir önnur: "Hvað ætla okkur yrði við ef Höfðabrekku-Jóka væri komin?"
Í þeim sömu svifum kemur Jóka inn í fjósið og segir: "Hvað ætla ykkur yrði við?" Þá greip hin sem þagði kollu sína og skvetti á Jórunnu, en hún þaut undan og út, en hin leið í öngvit.
Einu sinni mætti Magnús prófastur á Hörgslandi henni á förnum vegi og segir: "Jórunn! önnur var þá ævin er þú sazt fremst í innsta stól í Höfðabrekkukirkju með skautið og Grallarann, en vera nú orðin afturganga!"
Þá segir Jóka: "Og minnst' ekki á það Mangi; of seint er að iðrast eftir dauðann!" Og er það síðan að orðtæki haft.
Jórunn var jafnt á ferð daga sem nætur og eru þeir draugar nefndir "dagdraugar".
Oft slóst hún í ferð með mönnum og er það til dæmis sagt að þeir voru einu sinni allir á ferð út á Eyrarbakka, síra Magnús, Einar sýslumaður Þorsteinsson og síra Þorsteinn Jónsson í Holti, og riðu með keppni.
Þá segir síra Magnús: "Margur ríður nú vel, en þó ríður Jóka bezt á flókatrippi sínu."
Sumir segja hún hafi riðið trippi, en aðrir að hún hafi riðið á fjöl úr kistunni sinni á gandreið. Það er eitt til marks um kunnáttu Jórunnar er hún reið á fjölinni.
Við Höfðabrekku er kenndur þekktasti draugur Mýrdalsins, Höfðabrekku-Jóka sem var alræmdur draugur fyrr á öldum og ganga af henni ýmsar sagnir. Var Jóka áður húsfreyja á Höfðabrekku en mislíkaði, er vinnumaður hennar, Þorsteinn að nafni, gat með dóttur hennar barn, og heitaðist við hann. Þegar Jóka var dáin tók fljótlega að bera á henni m.a. sást hún oft í búri, skammtaði þar mat en lét jafnan mold saman við. Að Þorsteinni vinnumanni sótti hún svo, að hann varð að flýja út í Vestmannaeyjar og hélst hann þar við í 19 vetur. Er hann kom loks í land, þá beið Jóka hans í fjörunni og þreif hún Þorsteinn á loft og færði hann svo hart niður að hann var jafnskjótt dauður(Hótel Höfðabrekka)
Um Höfðabrekku-Jóku hefur einnig verið saminn kvæðabálkur, sem að settur verður inn hér síðar(ritsjt.)
Kvæði um Höfðabrekku-Jóku eftir Ólaf Jónsson ,ekki er á hreinu í hvaða röð vísurnar eiga að vera en hægt mun vera að finna kvæði þetta í heild sinni í bókinni “Fjöllin blá”.
Ég set inn hér einungis fyrstu vísuna í kvæði þessu:
Höfðabrekku-Jóka syngur við Bárð skælu
Nú er hann á norðan
með nóga brælu og reyk.
Útburðir og afturgöngur
allar fara
á kreik.
Blundaðu Bárður
byljir þjóta um tind.
Skal nú Jóka skemmta
skælukind.
Móðir Jórunnar Guðmundsdóttur var:
Guðrún Hannesdóttir
Fædd um 1580, húsfreyja á Mófellsstöðum, Skorradalshreppi “kenndi mörgum ungmenninum að lesa, skrifa og annað”, segir Espólín. Hún var gift Guðmundi Vigfússyni um 1570-fyrir 1654(einnig tengdur okkur í gegnum ömmu Hildi Jónsdóttur), bóndi á Mófellsstöðum, “var auðugur en ekki vinsæll af alþýðu manna” segir í Borgfirskum. Þau eignuðust eina dóttur
- Jórunni um 1600.
“Guðmundur var sonur Vigfúsar sýslumanns á Kalastöðum Jónssonar. Var Guðrún gift Guðmundi áður en skipt var efitr Hannes og var Guðmundur viðstaddur skiptin konu sinnar vegna. Meðal barna þeirra Mófellsstaðahjóna var Jórunn, skapmikil kona og stórlát, hún giftist austur að Höfðabrekku í Mýrdal. Síðar miklu tók Jórunn sér svo nærri hrösun dóttur sinnar að hún trylltist og sagt var að hún gengi aftur eftir dauða sinn, varð hún af þessu allfræg undir nanfinu Höfðabrekku-Jóka”(Kjósarmenn eftir Harald Pétursson)
Móðir Guðrúnar Hannesdóttur var:
Sesselja Ólafsdóttir
Fædd um 1565, dóttir Ólafs bónda á Leirá í Hvalfjarðarsveit Brandssonar(lögréttumanns á Leirá Guðmundssonar) og Helgu Böðvarsd. húsfreyju í Hvammi í Kjós og síðar í Stóra-Botni. Sesselja var tvígift. Sesselja giftist kornung fyrri manni sínum, sem hét Hannes Ólafsson(Hannes er einnig tengdur okkur í gegnum ömmu Hildi Jónsdóttur) um 1540-1609, lögréttumaður 1570-1590, bjó í Hvammi í Kjós frá því um 1560. Faðir Hannesar var einnig lögréttumaður og bjó í Hvammi í Kjós, hann var silfursmiður.( Langafi Hannesar, Sigurður Jónsson var hriðstjórasveinn hjá Birni “ríka” og bjó á Mosfelli. Bræður Sigurðar þessa Jónssonar voru m.a. Jón “príorbróðir”, munkur og var áður djákni eða prestur í Hólabiskupsdæmi,hinn bróðir hans Narfi var kirkjuprestur í Skálholti frá 1492-1496 og síðar fyrsti príor á Skriðuklaustri) Sesselja og Hannes eignuðust þrjú börn:
1. Guðrún um 1580,
2. Jón um 1585, dáinn 9. júni 1664, snikkari í Hvammi í Kjós, lögréttumaður “Jón sigldi ungur sér til menningar og lærði trésmíði erlendis. Hann tók við arfi eftir föður sinn og Gísla bróður hans um haustið 1609, eignaðist hann 48 hundruð úr jörinni Hvammi. Um þetta leyti mun Jón hafa sett saman bú í Hvammi, en nokkru síðar fluttist hann búferlum austur í Árnessýslu og bjó þar um skeið. Þaðan fluttist hann 1636 aftur að Hvammi og bjó þar til æviloka síðustu árin í sambýli við Ólaf son sinn. Hann var nefndur lögréttumaður á Kjalarnesþingi 1620-24,Árneþingi 1632-35, og öðru sinni úr Kjalarnesþingi 1636-62. Átti hann að baki óvenju langa þingsetu og kom mjög við dóma sem að líkum lætur,”guðhræddur og ærlegur maður” segir í annállinn er getur láts hans. Fyrri kona hansvar Guðný Jónsdóttir frá Kollabæ íFljótshlíð, Gunnlaugssonar, Jónssonar prests í Holti undir Eyjafjöllum, Gíslasonar, er talið að þau hafi verið barnlaus(E.B.Lögréttumannatal). Síðari kona hans var sögð vera Guðrún Bjarnadóttir að austan. Börn þeirr voru: Ólafur bóndi í Hvammi , Gunnhildur kona Einars Erlendssonar frá Suður-Reykjum í Mosfellssveit, Guðný kona Sigurðar Núpssonar á Esjubergi og Hvammi”.(Kjósaverjar)
3. Ólafur um 1585-1615, bóndi á Eyri og í Hvammi í Kjós.
Sesselja mun hafa búið ekkja á Hvammi í eitt ár en giftist þá seinni manni sínum Helgi Eyjólfsson um 1555-fyrir 1624, bóndi í Leirárgörðum og Stóra-Botni i Hvalfirði. Þau eignuðust einn son
Hannes um 1610-1653, bóndi í Kolsholti í Flóa, lögréttumaður, ráðsmaður í Skálholti, hyllti konung í Vælugerði, Árnesþingi 1649.
“Eftir lát Hannesar sonar síns mun Sesselja hafa farið til Jóns sonar síns í Hvammi, þá orðin háöldruð og gaf þar út yfirlýsingu dags. 24. maí 1654, um eignarrétt sinn á 5 hundruðum úr Narfastöðum í Melasveit, er hún ætlaði sér til uppeldis. Segir í yfirlýsingunni, að sá orðrómur gangi að hún hafi fargað þessum jarðarparti, en orðrómurinn sé byggður á misskilningi er muni vera sprottinn af því að hún hafi áður tiltekið að Hannes Helgason sonur hennar eignaðist nefndan jarðarpart, ef hann lifði hana, nú sé Hannes látinn og allt umtal um þetta úr sögunni(Hannes lést 1653)”. ( úr Kjósarmönnum )
Í Ísl.bók segir að Sesselja hafi átt fjögur börn með Helga Eyjólfssyni og þau voru:
4. Hannes um 1610-1653, bóndi í Kolsholti í Flóa, ráðsmaður í Skálholti
5. Guðrún fædd um 1610, Espólín nefnir móður hennar Sesselju Brandsdóttur
6. Gunnhildur fædd um 1610-fyrir 1628, ógift og barnlaus
7. Valgerður um 1610-fyrir 1628, ógift og barnlaus.
Samkvæmt Íslendingabók átti Sesselja Ólafsdóttir sem sé sjö börn með tveimur mönnum.
Móðir Sesselju Ólafsdóttur var:
Helga Böðvarsdóttir
Fædd um 1530, húsfreyja á Leirá. Hún var gift Ólafi Brandssyni (Ólafur Brandsson er tengdur okkur í föurætt í ætt ömmu Hildar Jónsdóttur)um 1530, bóndi á Leirá. Björn “ríki” Þorleifsson, hriðstjóri og bóndi á Skarði, var langafi Ólafs. Þau eignuðust eina dóttur:
1. Sesselju um 1565.
Hér kemur önnur lykkja á þessa grein ættarinnar og næstur á blaði er faðir Helgu Böðvarsdóttur, þar sem ekkert er vitað um móður Helgu, en faðir hennar var:
Böðvar Eyjólfsson
er tekinn hér með svo ég geti rakið
í beina línu eins langt og hægt er.
Hann er fæddur 1510 og látinn 1592(sagður hafa látist 1595 í Kjósverjar). Prestur á Reynivöllum og í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd 1567-1580. Bjó um tíma í Mjóanesi við Þingvallavatn. Flutti síðar að Botni í Hvalfirði. Gæti verið sá sem minnst er á í dómi um jörðina Háeyri árið 1573. Ekkert er vitað um kvonfang hans en hann átti þrjú börn:
- Helga um 1530 kona Ólafs Brandssonar á Leirá
- Páll um 1530, bóndi í Botni og á Miðfelli í Hvalfirði
- Pétur um 1530, bóndi í Borgarfirði, var dómsmaður þann 3.4. 1592 á Lækjarbug í Borgarfirði, faðir síra Teits í Norðtungu.
“Síra Böðvar kemur fyrst við skjöl 1535(1533 segir í íslenskar Æviskrár) og er þá talinn meðal presta, en djákn er hann nefndur við Skipti að Sjávarhólum á Kjalarnesi 1536, hverjar heimildir eru fyrir því eru ókunnar, því talið er að séra Bárður Jónsson hafi þá haldið Reynivelli, nema síra Böðvar hafi verið aðstoðarprestur hans, og er það líklegt. Síra Böðvar var síðar prestur á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd a.m.k.1567-80, skömmu síðar lét hann af embætti, fluttist austur í Þingvallasveit og bjó þar um hríð á eignarjörð sinni Mjóanesi og átti þar á árunum 1585-87 í þjarki við síra Orm Ófeigsson á Þingvöllum og síðar (1589) við sonu Alexíusar ábóta Pálssonar. Um 1590 hefur síra Böðvar látið af búskap í Mjóanesi og flutzt til Páls sonar síns í Botni í Botnsdal mun presur þá hafa verið elliær orðinn og ekki fjár síns ráðandi, því að 1591 fékk Páll sonur hans heimild með dómi til að selja 4 hundruð í Mjóanesi, er síra Böðvar átti, honum til framfæris(í íslenskar Æviskrár segir að af honum hafi verið dæmd fjárráð, vegna eyðslusemi). Árið 1592 á alþingi, gekk dómur um Guðrúnu nokkra, ómaga í Melasveit, var þeim bræðrum Böðvari og Ólafi gert að skyldu að tíunda eigur sínar ef þeir vildu forðast framfærslu Guðrúnar.Fylgikona eða eiginkona síra Böðvars er ókunn. talin”(Úr Kjósverjar)
Reynivellir er ævaforn kirkjustaður og í katþólskum sið var þar Maríukirkja. Saurbær er talin með landnámsjörðum en þekktust er kirkjan á Saurbæ fyrir að þar þjónaði frændi okkar Hallgrímur Pétursson, skáld og prestur.(Hallgrímur er skyldur Litlalandssystkynum í ætt Jörundar Sveinssonar)
15. janúar 1699 féll snjóflóð á staðinn Reynivelli og segir svo í Fitjaannál:” þann 15. janúar(1699), sem var sunnudagskvöldið fyrsta í þorra, eftir húslestur, skeði það voveiflega og hryggilega tilfelli á Reynivöllum í Kjós, að snjóflóð hljóp á staðinn og tók öll hús nema kirkjuna, smiðjuna og fjósið, sáluðust þar með 7 menn með prófastinum í Kjalarnesþingi, síra Oddi Jónssyni, er þann stað hélt. Hann var maður guðhræddur, vellærður, góður medicus, fastaði hvern föstudag árið um kring, af öllum elskaður og vel látinn; hans aldur var 46 ár, kvongaðist ekki, hafði áður verið kirkjuprestur og heyrari í Skálholti. Aðrar 7 manneskjur komust af, þó sumar limlestar, en flestar lerkaðar. Gamalla manna mál var að Síra Bárður, fyrrum prestur á Reynivöllum, reiknaður hinn sjötti firir síra Odd, hafi sagt að snjóflóð myndi koma yfir Reynivelli, sem aftæki staðinn, og gerði mikinn mannskaða.Síra Oddur Oddsson og svo prestur á Reynivöllum hvers nafn síra Oddur Jónsson bar, hafði tilgreint, að á þessu ári myndi hætt verða Reynivallastað og presti fyrir snjóflóði. Siðan hefur sjálfur heimastaðurinn ekki verið uppbyggður, heldur lítið nýbýli (Nýibær) skammt frá. Á sömu nóttu hljóp og snjóflóð á Hurðabaki í Kjós tók af allt fjósið með 14 nautum. Á Fremra-Hálsi var nautpeningi hjálpað undan snjóflóði en 2 hestar fórust í hesthúsi”
Guðný Einarsdóttir í Káranesi, kölluð Guðrún Ann., fórst í snjóflóðinu mikla 1699 er féll á Reynivelli. Sjá nánar um tengsl Guðrúnar í fylgiskjölum.(Ætt Einars Björnssonar)
Árið 1671 laugardaginn fyrir páska, hljóp skriða á Reynivelli, svo mikil að næstum tók af allt túnið, manntjón eða gripa varð ekki að því sinni, enda stóð jörðin óbyggð.
Og móðir Böðvars Eyjólfssonar var:
Ingibjörg Ólafsdóttir
Fædd 1480. Hennar maður var Eyjólfur Pétursson um 1470, bóndi á Hæli í Flókadal. Ættir hans eru ekki raktar lengra aftur í Ísl.bók. Þau eignuðust tvo syni:
1. Böðvar um 1510
2. Ólafur um 1525, lögréttumaður á Kjalarnesþingi eða Árnesþingi, getið á alþingi 1585-1598.
--------------------------------------------------------
Hér endar móðurætt Oddnýjar Jónsdóttur, móður Helgu
Magnúsdóttur, móður Margrétar Einarsdóttur, móður Hildar Jörundsdóttur. Við tekur föðurætt Oddnýjar Jónsdóttur í beinan karllegg:
Faðir Oddnýjar Jónsdóttur(1864):
Jón Einarsson
Jón var fæddur 20. Des 1833 skírður 21. Des. sama ár í Eyvindarhólum í Stórólfshvolssókn. Sem lítill snáði 2 ára er Jón búsettur með foreldrum sínum og systkinum á Hrútafelli Eyvindarhólasókn í Rangárvallarsýslu. Var á Hrútafelli í Eyvindarhólasókn 1835. Árið 1840 er Jón skv. Manntali tökubarn, þá 7 ára snáði, hjá Einari Einarssyni bónda á Rauðafelli í Eyvindarhólasókn, Rangárvallarsýslu og konu hans Guðríði Sigurðardóttur. Móðir Jóns og Einar bóndi voru þremenningar. Jón er enn hjá þeim hjónum árið 1845, þá 12 ára og 1850 þá 17 ára er hann nú skráður sem fóstursonur Einars bónda. Vinnumaður á sama stað, sem 22 ára. Í næsta manntali eða 1860 er hann orðinn herra í eigin húsi, Káragerði hjáleiga og giftur maður, Ástríði Pétursdóttur 1835-1919.
Þau eignuðust fimm börn, þar á meðal var Oddný Jónsdóttir móðir Helgu Magnúsdóttur. Sjá nánar um börn þeirra í tölu Ástríðar framar í skjali á bls. Ca. 35.
Jón Einarsson drukknaði 15. Mars 1893.
„Á öndverðu árinu 1893 flutti Jón bóndi Brandsson í Hallgeirsey skip sitt og skipshöfn til Vestmannaeyja til þess að stunda þar sjósókn á þeirri vertíð, er þá fór í hönd, eins og hann hafði gert um árabil, þessi dugmikli formaður þeirra Landeyinganna. Einn af hásetum hans þessa vertíð var Jón bóndi Einarsson í Káragerði, faðir Guðrúnar heimasætu(systir Oddnýjar Jónsdóttur.(hj)). Í Vestmannaeyjum lágu þeir við eða bjuggu í tómthúsinu Stíghús.
Hinn 15. Marz(1893)varð slysið mikla. Jón Brandsson fórst með skipshöfn sinni allri einhvers staðar á Álnum milli lands sérstaklega inni á Ál. Alls fórsut 14 menn af skipi þessu“ (Tekið út úr viðtali við Sigurð Ísleifsson tengdason Jóns á heimasíðunni Heimaslóð(Vestmannaeyjar) og fórst þar Jón Einarsson)
„Bæjarbruni. Miðvikudag. Í nót 9.þ.m. er mest var frost og harðneskjuveður á vetrinum(20 stig), kvað hafa brunnið baðstofa á Káragerði í Vestur-Landeyjum. Bjargað varð úr einu rúmu, en öðrum innanstokksmunum ekki.“
Faðir Jóns Einarssonar var:
Einar Jónsson
Fæddur í Stórófshvolssókn 6. október 1798. Látinn 29. mars 1876. Var í Króktúnum, Stórólfshvolssókn, Rang.1801. Bóndi á Hrútafelli, Eyvindarhólasókn, Rang. 1835. Bóndi á Hrútafelli. Bóndi á Stórólfshvoli 1845. Bóndi í Forsæti, Sigluvíkursókn, Rang. 1860. Einar var tvígiftur, fyrri kona hans var Helga Eyjólfsdóttir 1801-1829, þau giftust 31.10 1827. Þau eignuðust eitt barn: Björn 1828-1884. Seinni kona Einars var Guðrún Ísleifsdóttir 1808-1898. Einar og Guðrún eignuðust sjö börn:
- Ísleifur 1831-1906
- Jón 1833
- Helga 1835-1915
- Páll 1838-1881
- Jón 1841-1913
- Þórunn 1850
- Einar 1853-1853.
Faðir Einars Jónssonar var:
Jón Einarsson
Fæddur á Litla-Reyðarvanti á Rangárv. 1765. Látinn 8. júlí 1829. Bóndi á Litla-Reyðarvatni. Bóndi í Króktúnum, Stórólfshvolssókn, Rang.1801. Bjó á Efra-Hvoli. Húsbóndi á Efra-Hvoli 3, Stórólfshv/Sigluv.sókn, Rang.1816. Jón var giftur Guðrúnu Pétursdóttur 1768. Guðrún var önnur kona Jóns. Fyrri kona hans var Halldóra Kristjánsdóttir og áttu þau þrjú börn, einnig átti Jón eina dóttur með Jórunni Ólafsdóttur, en Guðrún og Jón eignuðust fjögur börn:
- Sesselja 1796-1866
- Guðrún 1797-1870
- Einar 1798
- Bergþór 1800-1829.
Faðir Jóns Einarssonar (1765) var:
Einar Erlendsson
Fæddur 1719. Látinn 13. ágúst 1797. Einar var orðinn bóndi á Litla-Reyðarvatni 1755 og bjó þar til 1794. Skv. Vitnisburi séra Jóns Hinrikssonar var Einar “dánumaður”(heiðursmaður,valmenni). Vel að sér”, en Þuríður “ráðvönd” og kunni “sæmilega” skv. Rangv. Einar átti þrju börn en barnsmóður var ekki getið:
- Þórunn 1754-1811
- Ingveldur 1755-1816
- Jón 1763.
Hver Þuríður, sem að umtöluð er hér fyrir ofan, hefur verið kemur ekkert fram, kannski móðir barnanna ( getgáta frá HJ).
Faðir Einars Erlendssonar var:
Erlendur Einarsson
Fæddur 1685. Látinn janúar 1741. Var á Stórahofi, Rangárvallahreppi, Rang. 1703. Bóndi á Litla-Reyðarvatni á Rangárvöllum. Bóndi þar 1729. Erlendur var giftur KristínuÓlafsdóttur 1688, sennnilega sú, sem að var ómagi í Rangárvallarhreppi, 1703. Ættir hennar eru ekki raktar lengar aftur í Ísl.bók. Þau eignuðust fimm börn:
1. Einar 1719-1797
2. Ingveldur 1720-eftir 1754
3. Guðrún 1722-1798
4. Jón 1724-1800
5. Helga 1725-1785.
Faðir Erlends Einarssonar var:
Einar Erlendsson *
Fæddur 1660. Látinn fyrir 1711. Bóndi á Stórahofi, Rangárvallahreppi, Rang.1703. Einar og Guðrún Andrésdóttir* eignuðust sjö börn:
- Erlendur 1685
- Gróa 1689
- Margrét 1690
- Ólafur 1693
- Guðrún 1694
- Halldóra 1696
- Jón 1701.
Ættir Einars Erlendssonar eru ekki raktar lengra aftur í Ísl. bók, við kíkjum hér aðeins á ættir konu hans Guðrúnu Andrésdóttur til að geta rakið ættina lengra aftur.
Eiginkona
Einars Erlendssonar og móðir Erlendar Einarssonar var:
Guðrún Andrésdóttir *
Fædd 1660. Látin 1741. Húsfreyja á Stórahofi Rangárvallahreppi, Rang. 1703. Búandi i Gröf í Rangárvallahreppi um 1711. Hún var gift Einari Erlendssyni fæddur um 1660 og eignuðust þau sjö börn. Sjá lið hér fyrir ofan.
Faðir Guðrúnar Andrésdóttur var:
Andrés Salómonsson
Fæddur um 1630. Látinn eftir 1691. Bóndi í Eystri-Kirkjubæ. Kona hans var Salný Jónsdóttir 1613, var á Geldingarlæk í Rangárvallarhreppi, Rang.1703. Þau eignuðust fjögur börn:
- Guðrún 1648, húsfreyja í Gunnarsholti í Rangárvallarsýslu 1703
- Salómin 1649-eftir 1711, bóndi Kirkjubæ eystra, Rangárvallarhreppi, Rang. 1703 og um 1711
- Una 1654, húsfreyja á Geldingarlæk, Rangárvallarhreppi, Rang. 1703
- Ingunn 1655, húsfreyja í Næfurholti Rang.1703.
Þar að auki átti Andrés eina dóttur
5. Guðrúnu 1660, móðir Guðrúnar var Gróa Bergsdóttir um 1630, hún var vinnukona í Rangárvallarsýslu, ættir Gróu eru ekki raktar lengra í Ísl.bók.
Faðir Andrésar Salómonssonar var:
Salómon Björnsson
Fæddur 1610. Salómon eignaðist einn son:
1. Andrés um 1630, en barnsmóður er ekki getið
Faðir Salómons Björnssonar var:
Björn Magnússon
Fæddur um 1580. Látinn 1635. Sýslumaður í Barðastrandasýslu. Bjó í Bæ á Rauðasandi. Fékk forna skinnbók að gjöf frá afa sínum, Eggerti Hannessyni, sem síðar endaði í fórum Árna Magnússonar handritarasafnara. Björn bjó vel um bókina, lét binda hana í “mesta viðhafnar band, og setja gullta stafi utan á spjöldum framan og aptan”, segir Jón Sigurðsson í fornbréfasafninu. Þykir ein af merkilegri bókum úr safni Árna. Fyrri kona Björns var Sigríður Daðadóttir 1580-eftir 1615, getið í jarðarbréfi 02.10. 1615, en Espólín segir hana hafa dáið 1609. Þau eignðuðust einn son
1. Eggert “ríka” 1612-1681, sýslumaður á Skarði, eigandi fjölmargra jarða árið 1681. Eggert var mjög eftirgangssamur í galdramálum, enda stóðu þau honum nærri þar sem séra Páll í Selárdal var hálfbróðir hans. Hlutur Eggerts í galdraofsóknunum á 17. öld virðist hafa verið vanmetinn af fræðimönnum, en ljóst er af heimildum að hann hefur gengið afar hart fram í að fá meinta galdramenn dæmda á bálið og samtímamenn hans telja hann oft hafa farið offari. Sjá Selárdalsmál.
Seinni kona Björns var Helga Arngrímsdóttir 1599-1646, húsfreyja í Saurbæ, þau eignuðust tvö börn:
2. Sigríður 1620-1688, prestsfrú í Odda, eigandi að Kvígindisdal og fleiri jörðum í Rauðasandshreppi V-Barð. 1681.
1. Páll 1621-1706, prestur í Selárdal í Arnarfirði frá 1645, stóð fyrir miklum galdraofsóknum, eigandi að Raknadal, Rauðasandshreppi V-Barð.1681.
Einnig átti Björn soninn:
4. Salómon um 1610, en móður hans er ekki getið.
Seinni kona Björns Magnússonar , Helga Arngrímsdóttir tengist Litlalandssystkynunum í föðurætt Jörundar Sveinssonar. Foreldrar Helgu voru Arngrímur “lærði” Jónsson 1568 og Sólveig “kvennablóm” Gunnarsdóttir um 1570. Arngrímur “lærði” var m.a. prestur á Hólum í Hjaltadal, rektor Háksóla og aðstoðamaður Guðbrands biskups. Reyndar er fyrri kona Björns Sigríður einnig tengd okkur í föðurætt pabba Jörundar Sveinssonar.
Helga þessi Arngrímsdóttir seinni kona Björns lifði mann sinn og giftist hún aftur Þorbirni Einarssyni prest í kirkunni í Sauðlauksdal frá 1632. Sagt er að Helgu hafi þótt prestur sér ósamboðinn sökum fátæktar. Legstein hennar má enn sjá í Sauðlauksdalskirkjugarði og hvu hann enn vera vel læsilegur. ( www.hnjótur.is )
F aðir Björns Magnússonar var:
Magnús “prúði” Jónsson
Fæddur 1525. Látinn 1591. Sýslumaður í Ögri, Ís. Og Saurbæ á Rauðasandi, Barð. Magnús átti son er Eyjólfur hét fæddur 1575-eftir 1615, hann bjó um tíma á Sveinseyri í Tálknafirði, móður Eyjólfs er hins vegar ekki getið í ísl.erfðagr. Magnús giftist 16.11 1550 Elínu Jónsdóttur húsfreyju á Rauðaskriðu, Þing., svo virðist sem að þau hafi ekki átt nein börn. Seinni kona Magnúsar var Ragnheiður Eggertsdóttir 1550-1642. Þau giftust 22.09 1565. Þau eignuðust 12 börn:
1. Jón “eldri” 1566-1641, sýslumaður í Dalasýslu, bjó í Haga á Barðaströnd,
2. Ragnheiður 1568-1631, húsfreyja í Ási í Holtum
3. Elín 1570-1638, sýslumannsfrú á Hóli í Bolungarvík, sum staðar nefnd Helena,
4. Sesselja 1570-eftir 1622, húsfreyja í Saurbæ á Kjalarnesi, getið í jarðarbréfið 7.7 1622
5. Ari 1571-16552, sýslumaður í Ögri. Hyllti konung á Hóli i Bolungarvík 1649 “Var og Ari allra manna höfðinglegastur, jötunn að burðum og vexti svo að sagt er, að þeir Oddur byskup og hann hafi veið hæstir menn á Íslandi og borið höfuð yfir þingheim allan á alþingi....Gerðist Ari síðan hinn umsvifamesti höfðingi, fjáraflamaður hinn mesti og þó skörungur um rausn alla, en harðdrægur mjög og héraðsríkur”, segir Páll Eggert. “Hélt Ísafjarðarsýslu og rausn sinni og höfðingsskap til dauðadags, þó ei væri hestfær”, segir Espólín. Í eftirmælum um Ara er þess getið að fyrir tvítugt hafi hann verið 9 ár við nám í Hamborg en þar átti hann frændur í móðurætt. Ari bjó ýmist að Ögri eða á Reykhólum. Hann var með hæstu mönnum, þótti harðdrægur mjög og hélt fast um sitt. Kona hans var Kristín dóttir Guðbrands Hólabiskups. Ari er einna þekktastur fyrir framgöngu sína í Spánverjavígunum, sem er talið eitt af mestu grimmdarverkum Íslandssögunnar. Spánverjavígin
6. Jón “danur” 1580-1651, bóndi á Eyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp, “var álitlegur ásýnum, sem hans fólk”, segir Espólín, hyllti konung á Hóli í Bolungarvík 1649,
7. Björn 1580
8. Þorleifur 1580-1652, sýslumaður á Hlíðarenda, “skynsemdarmaður mikill”, segir Espólín, hyllti konung á Kleifarþingi á Síðu 1649
9. Guðrún 1580-1652, húsfreyja á Innra-Hólmi, Borg.,
10. Kristín 1580-1652, ógift og barnlaus, getið í jarðarbréfi 26.04 1632, þar sem hún kaupir jörina Höfn í Sléttuhreppi N.-Ís. Og lætur í staðin Miðhús á Reykjanesi, A-Barð,
11. Pétur 1580 dó ungur og barnlaus
12. Katrín 1585-fyrir 1634, húsfreyja á Mörk og Keldum, Rang. Sýsl. Segja hana hafa dáið 1652.
Magnús Jónsson
(um 1525-1591) sýslumaður, kallaður prúði, bjó í Ögri á árunum 1565-1580. Hann var mörgum ágætum mannkostum búinn, vitmaður og skörungur, lögfróður,
skáld og auk þess héraðshöfðingi um sína daga. Magnús vildi taka upp vopnaburð að nýju meðal Íslendinga til verndar gegn erlendum ránsmönnum, sem oft komu upp að Íslandsströndum
og fóru með ófriði. Sjálfur reið hann til Alþingis ár hvert með 40 manna vopnað lið.
Ættartölubók Magnúsar “prúða” er ekki þekkt en hún var löggð
til grundvallar mörgum síðari ættartölubókum.
Magnús Jónsson (1525–1591) sýslumaður, skáld, þýðandi.
Fæddur 1532, sonur Jóns Magnússonar lögréttumanns á Svalbarði. Talinn hafa lært í Þýskalandi á yngri árum. Bjó fyrst að Skriðu í Reykjadal en varð sýslumaður í Þingeyjarþingi 1556–1563, seinna sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og enn seinna Barðastrandarsýslu. Magnús var glæsimenni um háttsemi og klæðaburð og kallaður hinn prúði, en stóð þó jafnan í deildum og jafnvel vopnaviðskiptum. Lést 1591.
Eftir Magnús liggur nokkuð af rímum og öðrum kveðskap, en framlag hans til íslenskrar heimspekisögu felst öðru fremur í þýðingu hans á Díalektík Ortholfs Fuchsbergers (1490–1510) úr þýsku á íslensku en þýðinguni lauk hann árið 1588(www.heimspeki.hi.is)
Rauðaskriða í
Suður-Þingeyjarsýslu. Landnámsjörð, fornt höfuðból og löngum sýslumannssetur í Aðaldal. Meðal stórmenna, sem þar hafa búið var Magnús prúði
Jónsson
Rauðaskriða var löngum ein af miðstöðvum veraldlegs valds í Suður-Þingeyjarsýslu og bjuggu á jörðinni bæði sýslumenn og lögmenn.
Magnús Jónsson (1525–1591) sýslumaður, skáld, þýðandi.
Fæddur 1532, sonur Jóns Magnússonar lögréttumanns á Svalbarði. Talinn hafa lært í Þýskalandi á yngri árum. Bjó fyrst að Skriðu í Reykjadal en varð sýslumaður í Þingeyjarþingi 1556–1563, seinna sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og enn seinna Barðastrandarsýslu. Magnús var glæsimenni um háttsemi og klæðaburð og kallaður hinn prúði, en stóð þó jafnan í deildum og jafnvel vopnaviðskiptum. Lést 1591.
Eftir Magnús liggur nokkuð af rímum og öðrum kveðskap, en framlag hans til íslenskrar heimspekisögu felst öðru fremur í þýðingu hans á Díalektík Ortholfs Fuchsbergers (1490–1510) úr þýsku á íslensku en þýðinguni lauk hann árið 1588(www.heimspeki.hi.is)
Rauðaskriða í Suður-Þingeyjarsýslu. Landnámsjörð, fornt höfuðból og löngum sýslumannssetur í Aðaldal. Meðal stórmenna, sem þar hafa búið var Magnús prúði Jónsson
Rauðaskriða var löngum ein af miðstöðvum veraldlegs valds í Suður-Þingeyjarsýslu og bjuggu á jörðinni bæði sýslumenn og lögmenn.
Úr Pontusrímum eftir Magnús
"prúða" Jónsson. Hér hef ég einungis 3.-5. vísu:
3. Finnist nokkur neisti hér
nýtur í kvæðum mínum,
það guði einum þakki þér,
er þetta veitir sínum.
4. Eg hefi hér við lítið lag
lagt á þetta kvæði
að vanda svo um breyttan brag,
beint sem efnið stæði.
5. Hrósun öngva ætla eg mér
að auka í þessu neina,
heldur öðrum gamna gjör,
ef guð vill ekki meina.
Svalbarðsætt(Svalberðingar) :
var ein valdamesta ætt Íslands á 17. öld afkomendur Jóns “ríka” Magnússonar og Ragnheiðar “á rauðum sokkum” Pétursdóttur. Ættin er kennd við bæinn Svalbarð í Eyjafirði, en heimaland hennar varð síðar á Vestjförðum og í Dölum eftir að Magnús “prúði” hafði lotið í lægra haldi fyrir Ásverjum(ætt Ásverja frá Ási í Kelduhverfi) um keppni um völd á Norðurlandi. Ýmisir meðlimir ættarinnar stóðu í miklum deilum við Guðrbrand biskup Þorláksson í hinu svokallaða “morðbréfamáli”[1] kringum aldamótin 1600. Svalbarðsætt kemur1600. Svalbarðsætt kemur mjög við sögu í galdramálum, ýmist sem ákærendur, ákærðir, vitni eða dómarar.mjög við sögu í galdramálum, ýmist sem ákærendur, ákærðir, vitni eða dómarar.
[1] Morðbréfamálið var mál sem kom upp í lok 16. aldar og varðaði nokkur bréf, sem komu fram um 1590 og hermdu upp á Jón Sigmundsson lögmann þrjú morð. Bréfin voru til þess ætluð að gera að engu kröfu afkomenda Jóns um eignir hans, sem Gottskálk Nikulásson biskup hafði haft af honum í málaferlum. Þau málaferli vörðuðu m.a. skyldleika hans við konu hans og þar með hvort börn hans teldust skilgetin. Eftir siðaskipti var Guðbrandur Þorláksson biskup fenignn til þess af fjölskyldusinni að endurheimta eignir Jóns Sigmundssonar afa síns. Í fyrstu varð honum vel ágengt, en þegar hann krafðist jarðanna Hóls og Bessastaða í Sæmundarhlíð í Skagafirði lennti hann gegn Jóni Jónssyni lögmanni og frændum hans afSvalbarðsætt. Fram komu fjögur morðbréf, sem ónýttu kröfu Guðbrands, en hann varðist með útgáfu svokallaðra morðbréfabæklinga þar sem hann hrekur bréfin og sýnir fram á að þau séu fölsuð. Þessi átök enduðu með því að Guðbrandur hætti embætti sínu og þurfti að lokum að greiða háa sekt fyrir rógburð.Þessi átök enduðu með því að Guðbrandur hætti embætti sínu og þurfti að lokum að greiða háa sekt fyrir rógburð.
Faðir Magnúsar "prúða" Jónssonar var:
Jón “ríki” Magnússon
Fæddur 1480. Látinn 1564. Lögréttumaður og bóndi á Svalbarði á Svalbarðsströnd við Eyjafjrð. Hann var giftur Ragnheiði Pétursdóttur 1494-fyrir1540, nefnd “Ragnheiður á rauðum sokkum” og var hún fyrri kona Jóns. Þau eignuðust sjö börn:
1. Steinunn um 1513(var kvennval mikið segir í Skarðsannál),
2. Sólveig um 1520
3. Magnús “prúði” um 1525
4. Þórdís 1525
5. Jón um 1536, lögmaður, sýslumaður og klausturhaldari, hélt Staðaumboð
6. Páll 1538 nefndur “Staðarhóls-Páll”, sýslumaður á Staðarhól og á Reykhólum orti til konu sinnar eftir að mesti ljóminn var farinn af hjónabandinu:
Lítið lunga
í lóuþræls unga
þó er enn minna
mannvitið kvinna.
7. Sigurður 1540, sýslumaður í Vaðla-og Múlaþingum og klausturhaldari á Reynistað í Skagafirði, lögréttumaður geið 1570-1575.
Seinni kona Jóns hét Guðný Grímsdóttir 1500-fyrir 1584, húsfreyja í Dunhaga. Svo virðist sem þau hafi ekki eignast börn saman en Jón átti tvö börnd, þar sem barnsmóður er ekki getið:
8. Guðrún 1520 og
9. Kolbeinn “klakkur” 1550-1619, bóndi á Einarsnesi á Snæfellsnesi, launsonur Jóns.
Galdramál:
Mestalla 17. öldina sátu Svalberðingar að embættum á Vestfjörðum og í Dölum. Ættin átti sinn þátt í því að langstærstur hluti þeirra galdramála er uppkomu á Íslandi tengdust þessum landshluta, einkum í Selárdalsmálinu, sem leiddu af sér sjö galdrabrennur eða þriðjung allra galdrabrenna á landinu. Þar komu við sögu Páll Björnsson prófastur í Selárdal, sonarsonur Magnúsar prúða, Helga kona hans og hálfbróðir Páls, Eggert Björnsson ríki, sýslumaður í Barðastrandasýslu. Á þessum tíma var Þorleifur Kortsson lögmaður norðan og vestan en hann var mægður inn í ættina giftur Ingibjörgu Jónsdóttur Magnússonar prúða. En ættin kom víðar við í galdramálum; Magnús Jónsson sýslumaður bróðir Ingibjargar var borinn göldrum vegna þess að hann þótti sýna galdramönnum linkind, hann hafði hugmyndir um að galdramenn yrðu látnir sæta sektum í stað húðláts. Hann sór galdraorðið af sér á Alþingi 1657. Brynjólfur Sveinsson biskup, dóttursonur Staðarhóls-Páls, þótti með eindæmum undanlátssamur, gagnvart þeim skólapiltum, sem uppvísir urðu að meðferð galdrastafa. Þannig mætti lengi áfram telja, svo segja má að óvenulega stór hluti ættarinnar tengist galdramálum með einum eða öðrum hætti
Faðir Jóns "ríki" Magnússonar var:
Magnús Þorkelsson
Fæddur 1440. Látinn 1518. Lögréttumaður, getið 1484-1512, sýslumaður í Vaðlaþingi 1482-90. Bóndi og lögréttumaður á Grýtubakka í Höfðahverfi, Grenivík og Svalbarði á Svalbrðsströnd, síðar í Rauðskriðu í Reykjadal. Hann var giftur Kristínu Eyjólfsdóttur 1450-eftir 1526. Þau eignuðust þrjú börn:
- Magnús 1475, dó 18 vetra
- Jón “ríki” 1480, lögréttumaður og bóndi á Svalbarði á Svalbarðsströnd í Eyjafirði
- Árni 1480.
Jón Hólabiskup, sem andaðist 1423, setti Þorkel fyrir dauða sinn sem ráðsmann að Hólum, olli það mikilli óánægju bæði með leikmönnum og lærðum. Jón biskup hafði skipað séra Michael officialem og kærði sá yfirgang Þorkels og setti sjálfur nýjan ráðsmann(Nýi Annáll bls.24)
Jón biskup Vilhjálmsson veitti Þorkeli Grenjaðarstaðaprestakall og árið 1430 skpaði hann Þorkeli að taka 3 jarðir norður þar þar sem séra Jón Pálsson nú var bannfærður og aðrar eigur Jóns hvar sem þær fyndust. Þetta skrifar Jón biskup á Hólum 5. júlí 1430. Árið 1447 afhendir Þorkell Jóni Pálssyni Grenjaðarstaði.(Skarðsannáll)
Árið 1431 rekur skip eitt að á Harðbak á Sléttu, Hólastaðajörðu og taldi
Jón biskup að skip þetta og góss tilheyrðu Hólum, en Rafn lögmaður dæmdi öðru vísi. Af þessu máli stefnir Jón biskup Þorkeli. Í þessarri stefnu/bréfi
segir biksupm.a. “..að hann hafi heyrt um séra Þorkel, að hann ríði optlega með marga vopnaða menn, aptur og foran um byggðir til lítilla nytsemda eða engra og þú sjáfur sé
vopnaður bæði heilaga daga og virka, sýnandi þig svo meir líkari einum ribbalda en presti”osfrv.(Skarðsannáll)
Faðir Þorkels Guðbjartssonar var:
Guðbjartur “flóki” Ásgrímsson
Fæddur um 1360, lærði í París og Þýskalandi. Prestur í Laufási við Eyjafjörð um 1391 og síðar á Bægisá á þelamörk. Fylgikona hans var Þorbjörg Þorsteinsdóttir 1360, húsfreyja í Laufási, Húsfreyja í Laufási. Hún er einnig sögð Magnúsdóttir, en kaupmáli þeirra frá 1383 sýnir að það er rangt. Þess hefur verið getið til að hún hafi verið dóttir Þorsteins Steinmóðssonar, en engin haldbær rök eru fyrir því og eru ættir hennar ekki raktar lengra aftur í ísl.bók.Guðbjartur og Þorbjörg eignuðust einn son:
1. Þorkell um 1400.
Bjarnfríður Gunnarsdóttir (Benna)
Frábær síða en ég þekki mikið til í Rangárvalla og Árnessýslu og hafði mikið gaman af að fara yfir þetta.