Inngangsorð
Hér á eftir rek ég, mér til gamans og vonandi öðrum til nokkurar skemmtunar, einn lið ættar okkar frá Burra konungi í Ásalandi, en hann var afi Óðins.
Ég er búin að rekja þennan lið fram til ársins 1400, en meiningin er að ljúka þessu við tækifæri og rekja fram á vora daga. Mér finnst sjálfri gaman að fá eitthvað samhengi í allt þetta ættingjaflóð og sjá um hvaða lönd þeir hafa farið áður en til Íslands kom.
Ég bendi á liðinn hér í Menu, "Vangaveltur um Óðinn"
Lífsins tré
Yggdrasil er tré alheimsins og lífsins. Það hefur þrjár rætur, ein þeirra liggur niður til helvítis önnur í jötnaheim og sú þriðja til Miðgarðs, sem er jörðin, bústaður mannna. Hæðstu greinarnar ná alveg inn í himininn og skyggja á Valhöll. Það visnar fyrst og hverfur þann dag, sem síðasta barátta milli hins góða og hins illa fer fram. Þá mun líf tími og rúm, eins og við þekkjum það, hverfa.
Yggdrasli er gríðarlega stór askur, króna þess er alltaf græn. Í krónu trésins búa fjórir hirtir þeir Dain, Dvalin, Dunör og Duratro, sem éta blöð trésins. Á toppnum situr örn og á goggi hans situr haukurinn Veðurfölnir og kíkir út yfir heiminn. Lítill íkorni Ratatosk þýtur upp og niður trjábolinn og flytur fréttir frá rótum og upp á topp.
Sem barn hafði ég ekki miklar áhyggjur af eða áhuga á hvaðan ég kom eða hverjir forfeður mínir voru. Minn heimur var ÉG, mamma, pabbi, afar, ömmur og síðar systkyni, mikið stærri var hann ekki og ég var ánægð með heiminn eins og hann var í mínum huga. Litlalandið og garðurinn, móarnir, lækir og á. Ég var heimurinn á þeim tíma og ég var í nútímanum, deginum í dag. Ég eltist að sjálfsögðu, en heimurinn minn stækkaði ekki að sama skapi, afi og amma sögðu sögur frá æsku, mamma og pabbi sögðu sögur frá æsku, svo að ég vissi að sjálfsögðu að það hafði verið eitthvað fyrir mína fæðingu, en það vakti ekkert sérstaklega áhuga minn. Ég hlustaði ekki, það festist allavega ekki almennilega, þó ég hafi ugglaust haft gaman af frásögnunum, þegar þær voru sagðar. Gamla fólkið hafði gaman af að tengja fólk og atburði og rekja ættir Jóns Magnússonar, Jónssonar, Magnússonar, Jónssonar osfrv. Mér fannst það ótrúlega leiðinlegt og tilgangslaust og mér var hjartanlega sama um hvaða Jónar voru synir Mangúsar og vise versa. Ég varð fullorðin, eldri og eldri og enn gat ég ekki skilið fólk, sem var að rekja ættir sínar, finna frænkur og frændur hér og þar. Mér fannst það aldeilis tilgangslaust og leit þannig á, að eingöngu gamalt fólk gæti haft áhuga fyrir þessu efni. Hina sögulegu hlið sá ég ekki fyrr en allt í einu, að ég varð trúlega “gömul” og áhugi minn vaknaði fyrir því hvaðan ég væri komin og í kjölfarið á því, hvernig lifði þetta fólk og hvar og við hvaða skilyrði.
Í dag er þetta mitt aðaláhugamál og hefur það opnað fyrir mér algjörlega nýja veröld. Það skemmtilegasta við það er, að ég get nýtt mér þá vinnu, sem ég hef lagt í ættfræðina á öllum sviðum , þegar ég hlusta á erindi, þegar ég les um pólitík, þegar ég horfi á bíómyndir eða heimildarmyndir. Alls staðar get ég nýtt mér æfinguna í að tengja saman atburði og fólk, hugmyndir og líferni. Það er ótrúlegt hvað heimur minn hefur stækkað á sl. tveimur árum.
Hvar hófum við svo göngu okkar, ja það er nú náttúrlega gríðarlega stór spurning, því við sem erum alin upp í kristinni trú höfum álitið Adam og Evu vera fyrstu mannverurnar hér á jörðu og að Guð hafi skapað heiminn, aðrir trúa á kenningu Darwins. Ég hef þetta algjörlega opið í dag og hver og einn verður að ákveða fyrir sig hvað réttast getur talist. Í raun skiptir það engu máli , allavega ekki í þessu samhengi, hver hinn eini sannleikur er um uppruna mannkynsins, eins og það skiptir ekki öllu hvað af ættfræðinni er þjóðsaga og hvað er raunverulegt. Eina grein ættar Litlalandssystkynanna hef ég rakið aftur til Adam og Evu, kannski er það bara saga eða kannski voru þau ósköp venjulegt bændafólk, sem af einhverjum ástæðum hafa vakið athygli og um þau hafi spunnist sagnir. Hver veit.
Jettestue
Svona er álitið að þeir hafi búið þessir elstu forfeður okkar, sem hér er getið. Hvert heimili framleiddi á þeim tíma það sem til þurfti af fatnaði og matur voru ber og rætur og dýr, sem maðurinn veiddi og aðrar þær afurðir, er þeir gátu komist yfir. Teningaspil dunduðu þeir sér við í þeim fáu frístundum, sem hægt var að næla sér í.
Þessir fyrstu forfeður okkar voru uppi á járnöld og í td. Danmörku var það kallað járnöld frá
|
Eftir því, sem ég best veit hófst ganga einhverra af okkar forfeðrum í Tyrklandi, þar sem Burra frændi vor réði ríkjum. Burra þessi var afi Óðins Ásakonungs, hann var höfðingi í Ásalandi/Ásgarði, sem var fyrir austan Tanakvísl í Asíu. Ásgarður var blótstaður mikill, en Óðinn frændi var hinn fræknasti hermaður og eignaðist hann mörg ríki. Burr sonur Burra og faðir Óðins var í goðafræðinni talinn kynjavera, sem átt hefði Óðinn með jötnakvinnunni henni Bestlu. Óðinn átti m.a. son er Freyr hét og Freyr átti son er Njörður hét, Njörður átti son er Freyr hét, Freyr átti son er Fjölnir hét og Fjölnir átti son er Sveigde hét. Svo segir frá í Heimskringlu. Ýmsar sögur fara af þessum persónum/guðum, en ættfræðin telur þá hafa verið menn sem um hafa myndast ýmsar sagnir. Sumar heimildir álíta Óðinn vera fá indóevrópskum myrkvatíma og hafa náð statsus, sem guð/goð á Víkingatímanum.
Járnaldarbær
Reisulega bjuggu þeir þessir forfeður okkar eins og glæsilegustu villur nútímans. Þetta er endurgerð á járnaldarbæ.
Sveigde þessi Fjölnisson var fæddur um 100, sumir segja hann fæddan um 277, en hverju skipta hálft annað hundrað ára á milli frænda. Sveigde fór til ættingja sinna í Tyrklandi og náði þar í konu sína Vönu frá Vanheimum, sem fædd var um 80. Hjónin Sveigde og Vana eignuðust soninn Vanlande fæddur um 120. Sveigde var konungur Uppsala og Vanlande eftir hann. Vanlande giftist Drífu Snæsdóttur, dóttur Snæs hins gamla, þess merka manns, konungs í Kvenlandi(Finnlandi). Þau eignuðust soninn Visbur, sem fæddur var um 150 í Finnlandi og tók hann við af föður sínum. Visbur giftist dóttur Auða hins auðga og átti með henni tvo syni en ekki eru þeir ættfeður okkar í beinni línu heldur er það sonurinn Dómaldi, sem hann átti með ónefndri konu. Hér fer ætt okkar straks út á hliðarspor og heldur sig þar oft á tíðum, þar sem ættmenni okkar oft koma í beinan legg frá lausaleiksbörnum hinna ýmsu höfðingja. Synir Visburs frá hjónabandi hans með dóttur Auða hins auðga reyndust honum þó ver en lausaleikssonurinn og kemur þar fram okkar frábæra eðli, ekki satt, sem einkennt hefur ætt okkar í gegnum aldaraðir. Synir hans tveir hálfbræður Dómalda brenndu föður sinn inni vegna erja um móðurarf þeirra. Það varð því Dómaldi sem erfði ríki föður síns. Dómaldi blessaður karlinn átti þó í erfiðleikum í ríki sínu, því á tíma þessum svalt fólkið heilu hungri í Svíþjóð. Þegnar landsins gerðu það, sem þeir kunnu til ráða og það var að blóta guðina og í frystu atrennu blótuðu þeir uxum en ekki uxu matarbirgðirnar við það, svo næsta haust hófu þeir mannblót. Sama saga, ekkert bötnuðu kjör manna nema síður væri. Þeir tóku þá það ráð að fórna konungi sjálfum og urðu það endalok Dómalda.
Eftir dauða Dómalda tók sonur hans Dómar við, en hann kom í þennan heim árið 210, svona um það bil. Með hann við stjórnina batnaði árferðið og var friður á meðan hann sat við völd. Hann dó einnig friðsamlega á sóttarsæng, var brenndur og honum reistir bautasteinar á Fyrirsvöllu, sem eru fyrir sunnan gömlu Uppsali.
Dyggvi sonur Dómars eða Tryggvi á okkar máli fæddist um 240 og tók við af föður sínum, ekki fara af honum margar sagnir, sem bendir til að friður hafi ríkt á hans stjórnartíma og dó hann á sóttarsæng. Kona Tryggva var Drótt, dóttir Dnaps konungs Rigssonar, sem fyrstur var konungur kallaður á danskri tungu. Dyggvi/Tryggvi var fyrstur af sínum ættmönnum kallaður konungur en áður höfðu þeir verið kallaðir drottnar. Drótt kona Dyggva/Tryggva var systir Dans konungs hins mikilláta, sem Danmörk er kölluð eftir. Má því segja að ég sé komin aftur á heimaslóðir, Danmörku.
Dagur sonur Dyggva tók við ríkinu að föður sínum látnum og þótti hann óvenjulegur maður sem meira að segja skildi fugls rödd. Hann átti spörfugl nokkurn merkan mjög, en sá var drepinn á Vörva á Reiðgotalandi(Jótlandi). Fór Dagur þangað til að hefna fuglsins, drap marga og tók marga til fanga, en féll að lokum sjálfur fyrir hendi verkþræls, sem henti heytjúgu í hausinn á honum. Ekki fengu þeir allir jafn hetjulegan dauðdaga, blessaðir forfeður okkar.
Agni sonur Dags tók við ríki af föður sínum. Hann fæddist um 300. Hann var hinn ágætasti maður hermir sagan, hermaður mikill og atgervismaður . Hann fór m.a. til Finnlands og herjaði en þar var höfðingi annar frændi vor Frosti konungur. Féll Frosti fyrir hendi Agna, en Agni laggði undir sig Finnland, hafði herfang mikið mér sér og þar á meðal börn Frosta þau Skjálv og Loga. Hann gerði Skjálv að konu sinni, en hún endaði með að hefna dauða föður síns og varð Agna að bana og er það langt og mikið mál, sem lesa má um í sjálfri ættartölunni. Agni var brenndur og er þar síðan kallað Agnafit vestanfrá Stokksundi í Noregi. Börn Agna hétu Alrekur og Eiríkur og er Alrekur okkar forfaðir og fæddist hann um 330. Drápust þeir báðir í kappreið, en þeir bræður kepptu einatt um hvor gæti riðið hraðar.
Synir Alreks hétu Yngvi og Álfr og var Yngvi ættfaðir vor hermaður mikill en Álfr tók við konungsríkinu Svíþjóð eftir föður sinn. Yngvi var velliðin og glaðlyndur, en Álfr algjör andstæða hans. Álfr átti konu er Bera hét og var hún hinn mesti drykkjarvargur og sat langt fram á nætur með mönnunum og skemmti sér, en Álfr fór snemma til rekkju. Það fór vel á með Beru og Yngva mági hennar, en Álfr var lítt hrifinn og stakk að lokum bróður sinn niður með sverði, sá svaraði með að höggva Álf til bana og drápust þeir báðir þar.
Yngvi karlinn eignaðist tvo syni Jörund og Eirík. Eins og við getum kannski getið okkur til var það Jörundur sem færði ættina okkar áfram og var hann fæddur um 380, hann kallaðist einnig Jörmunfróður. Þeir bræður voru hermenn miklir og urðu frægir, þegar þeir drápu Guðlaug Háleygja konung í orrustu. Þeir handtóku konung færðu hann til Straumeyja og hengdu hann þar.(sumar heimildir telja það Strömö í Danmörku). Jörundur var konungur í Uppsölum, en Haki í Svíþjóð og nú fara bræður í orrustu við Haka . Haki og hans menn drápu allt sem þeir komu nálægt og huggu niður m.a. Eirík bróður Jörundar, en þá flúði Jörundur með sitt lið. Nú fer Jörundur að herja á Jótlandi, en þar kemur þá Gýlaugur sonur Guðlaugs konungs, sem þeir bræður áður höfðu drepið. Endar bardagi þessi með því að Gýlaugur hengir Jörund, svo Jörundur konungur endaði ævi sína í gálga á Jótlandi.
Jörundur átti son er Aun hét og var kallaður “hinn gamli” hann tók við ríkjum eftir föður sinn. Hann var vitur maður og mikill blótmaður, en lítill hermaður. Ekki var skrítið þó Aun fengi viðurnefnið “hinn gamli” því hann varð víst eldri en flestir, ef sagan segir rétt frá. Hann fórnaði sonum sínum fyrir langlífi, hverjum á fætur öðrum, en áður en það gerist fara frændur okkar í Danmörku í stríð við Aun og áttu auðvelt með að ná af honum ríkjum. Aun flýr til Gautlands en Hálfdan Danakonungur sest að í Uppsölum. Hálfdan var frændi vor en á annarri grein í ættartré okkar og var hann afkomandi Dans hins mikilláta, sem getið er hér framar. Heilmargt er frá Auni hinum gamla sagt í Ynglingasögu, sem ekki verður upp talið hér en endalok hans urðu þau, að hann ætlaði að blóta síðasta syni sínum, svo hann gæti lifað lengur, en Svíar bönnuðu það, svo Aun konungur andaðist og guð má vita hversu gamall hann var þá, en heygður var hann í Uppsölum og er það síðan kallað Ána-sótt er maður deyr verklaus af elli. Aun er sagður hafa látist árið 500.
Þessi eini sonur Auns, sem lifði föður sinn af því Svíar björguðu honum frá að vera blótað, hét Egill tunnudólgur og varð hann konungur eftir föður sinn í Svíþjóð. Egill var fæddur árið 430 og hvu hafa orðið 86 ára. Frá Agli er margt sagt í Ynglingasögu en í stórum dráttum átti hann í mörgum orrustum við þræl sinn er flúði, stal frá honum fjársjóði miklum, safnaði liði, rændi og ruflaði um héruð öll. Varð Egill að flýja, en fékk að lokum aðstoð frá Fróða Danakonungi og náði aftur landi sínu. Endalok hans urðu þau að naut stakk hann og særði mikið og dó Egill af sárum sínum. Hann var heygður í Uppsölum.
Nú fara að vandast málin, því ættfræðin mín og heimskringla eru ósammála um hver næsti ættliður sé, því á ættartré okkar er Angantýr “skilfingur” sagður sonur Egils en Heimskringla hleypur yfir einn ættlið og segir Óttar vendilkráku(”vendikápa”) vera son Egils en ættfræðitréð mitt segir Óttar vera barnabarn Egils. Eins og þetta lítur út á trénu okkar gott fólk, þá fæddist Angantýr “skilfingur árið 450 en ekki hef ég af honum neinar sögur og vindum við okkur þá í Óttar vendilkráku, sem fæddur var um 470 mun hafa orðið um 50 ára gamall, en um hann segir m.a. í Ynglingasögu, að hann hafi herjað á Danmörku og féll hann í orrustu við Dani. Danir lögðu lík Óttars konungs á haug og létu dýr og fugla rífa hann í sig. Gerðu þeir trékráku og sendu hana til Svíþjóðar og sögðu konung þeirra ekki meira virði en sem svo. Ja illa var nú farið með blessaðan karlinn hann Óttar, sem fékk að eftirmæli viðurnefnið vendilkráka.
Aðils “ríki” sonur Óttars varð konungur eftir föður sinn og var hann fæddur um 530. Hann var lengi konungur og mjög auðugur eins og viðurnefnið bendir til, hann var og nokkur sumur í víking. M.a. fór Aðils í herferð til Saxlands og hafði með sér þaðan undurfagra konu er Yrsa hét og ekki var hún ein af ambáttunum Hún var vitur, vel orði farin og á alla lund hafði hún mikla þekkingu. Það kom að því að Aðils gerði hana að konu sinni og varð hún drottning Svía og þótti hún hinn mesti skörungur. Yrsa er sögð Helgadóttir í ættartrénu og var hún fædd um 500. Helgi hét konungur Hálfdánarson á Hleiðru(sem heitir Lejre i dag og er bær í Danmörku, á Sjálandi) og réðist hann inn í Svíþjóð og tók Yrsu drottningu og gerði að konu sinni. Helgi og Yrsa eignuðust einn son er hét Hrólfur kraki, en er Hrólfur var þriggja ára kom Álof drottning til Danmerkur og hún fræðir Yrsu á því að í raun sé Helgi konungur maður hennar, faðir Yrsu og að hún sjálf Álöf drottning, væri móðir hennar. Fór Yrsa þá aftur til Svíþjóðar til Aðils manns síns og var drottning þar á meðan hún lifði. Aðils “ríki” var hestamaður mikill og átti marga góða hesta. Dauði Aðils “ríka” var dramatískur mjög. Hann var á dísarblóti(framin af kvenpresti kölluð blótgyðja, sumar heimildir segja að hesti hafi verið fórnað á dísarblóti) og reið inn dísarsalinn(dyngja kvenna), hesturinn missti fótanna og datt og konungur datt fram af honum og lenti höfuð hans á steini svo hauskúpan fór í tvennt en heilinn lá á steininum. Það varð bani hans. Hann dó í Uppsölum og er þar heygður. Þannig fór um sjóferð þá, en ekki erum við enn búin að gera ættingjum okkar af Ynglingaætt skil.
Sá er næstur kemur til sögu var sonur Aðils “ríka” er Eysteinn hét og fæddur var um 560. Hann hvu hafa dáið um fertugt. Hann réði Svíaveldi, en á þeim árum var mikill ófriður og féll m.a hálfbróðir hans Hrólfur “kraki” á Hleiðru. Konungar herjuðu mjög á Svíaveldi á þessum tíma, bæði Norðmenn og Danir. Margir af innrásarmönnum voru sækonungar, er hvergi áttu ríki. Sækonungur einn er Sölvi hét, sonur Högna í Njarðey og bróðir Hildar hinnar mjóvu, kominn af Fornjóti konungi í Finnlandi, herjaði þá í Austurveg, hann átti ríki á Jótlandi. Hann réðist inn í Svíþjóð og var Eysteinn konungur þá í veislu í Lofund(Svíþjóð), er Sölvi kemur þar að og brennir konung inni með öllu hans liði. Söfnuðu Svíar þá liði og vilja verja land sitt fyrir Sölva. Varð þarna orrusta mikil, sem sagt er að hafi staðið sleitulaust í 11 daga. Sölvi fór með sigur af hólmi og var konungur í Svíaveldi lengi eða þar til Svíar sviku hann og hann var drepinn.
Eysteinn konungur átti son er Yngvar hét og kallaður var “hái” hann var fæddur um 590 og er talið að hann hafi ekki orðið mikið eldri en 30 ára. Hann tekur nú við Svíaveldi. Hann var hermaður mikill og oft úti á herskipum. Mikill ófriður var enn milli Svía, Dana og Austurvegsmönnum. Yngvar “hái” semur frið við Dani. Eitt sinn fer Yngvar “hái” með her sinn til Eistlands og herjar þar um sumarið sem heitir að Steini. Þá komu Eistlendingar ofan með mikinn her og varð af bárátta mikil. Landher Eistlendinga var svo góður að Svíar gátu ekkert að gert. Þar féll Yngvar “hái” konungur en lið hans flýði. Hann var heygður á Aðalsýslu (Estonia).
Önundur sonur Yngva tók nú við ríkjum, hann var fæddur um 620. Í hans stjórnartíð var friður í ríkinu og varð hann mjög auðugur á lausafé. Hann fór með her sinn til Eistlands að hefna föður síns, herjaði þar víða um land og hafði með sér herfang mikið. Önundur konungur var allra konunga vinsælastur. Hann laggði mikið kapp á og kostnað í að ryðja marka og byggja, hann lét og leggja vegi um eyðimerkur og fundust þá víða á mörkunum skóglaus lönd og byggðust þar stór héruð. Byggðist þá landið og Önundur lét byggja vegi um land allt, á ökrum, mýrum og fjallendi, af því var hann kallaður Brautönundur. Önundur setti bú sín í öll hérðu í Svíþjóð og fór um allt land í veislur. Svo var það haust eitt að Önundur fór með hirð sinni þangað er kallað var Himinheiðar. Það eru þröngir fjalladalir með háum fjöllum sitthvoru megin við. Það voru gríðarlegar rigningar, en áður hafði snjóað í fjöll, féll niður skriða mikil með grjóti og leir og urðu konungur og mikið af hirð hans undir skriðunni. Þetta varð bani Brautönundar konungs.
Kæru ættingjar, ekki veit ég hversu stolt við getum verið af þeim frænda okkar er næstur er í röð Ynglingakonunga. Heldur illskeyttur virðist mér hann hafa verið og valdagráðugur, en hann hét Ingjaldur og fékk síðar viðurnefnið “illráði”, sonur Önundar konungs og fæddur var hann um 650 og kona hans var Grauthildur Algrautsdóttir dóttir Algrauts konungs. Svíaríki hafði á þessum tíma marga héraðskonunga, en æðstur yfir öllum var konungur er í Uppsölum sat, eins og Ingjaldur og hans forfeður. Ingjaldur bauð til veislu í Uppsölum til að erfa föður sinn og bauð hann til öllum seks héraðskonungum með liði. Lét hann byggja sal sérstaklega fyrir þessa athöfn með sjö hásætum. Til veislunnar var einnig boðið öllum jörlum og hinum ýmsu heiðursmönnum. Um kvöldið, þegar menn voru orðnir drukknir mjög sagði Ingjaldur við Folkviðar og Hulviðar syni Svipdags(fóstri Ingjalds), að þeir skyldu vopnast svo og menn þeirra. Þeir gengu út og að hinum nýja sal og báru eld þar að. Þar brunnu inni héraðskonungarnir 6, en sá sjöundi Granmarr konungur af Suðurmannalandi hafði ekki komið til veislunnar, en héraðskonungarnir brunnu sem sé inni með allt sitt lið og þeir sem reyndu að komast út voru drepnir um leið. Síðan lagði Ingjaldur konungur undir sig öll héruð konunga þessa og krafði þegnana um skat. Langt mál er um Ingjald, hans afhafnir og orrustur í Heimskringlu en ég tek hér bara nokkur atirði út. Á milli Ingjalds konungs og Granmar konungs, þess er ekki mætti í veisluna, var mikill ófriður, en að lokum sættust þeir. Ingjaldur átti tvö börn þau Ólaf trételgja og Ásu, sem síðar fékk viðurnefnið illráða. Ása líktist föður sínum í skap sveik og drap eftir eigin geðþótta, m.a. mann sinn Guðröð konung. Áður hafði hún talið Guðröð á að drepa bróður sinn Hálfdán, sem var faðir Ívars víðfema. Ívar þessi víðfemi, sem reyndar var frændi vor líka í annarri grein ætta okkar fór nú með fylktu liði til Svíþjóðar, en Ása hin illráða var þangað farin á fund föður síns Ingjalds konungs illráða. Þegar Ingjaldur frétti að Ívar víðfemi væri kominn til landsins með her sinn, gafst sá gamli upp og kveikti í veislusal þeim, sem hann var staddur í og brunnu allir þar inni og þar á meðal feðginin Ingjaldur “illráði” konungur og dóttir hans Ása “illráða”.
Ingjaldur “illráði” var búinn að hleypa illu blóði í Svía og voru þeir nú lítt hrifnir af þessarri konungaætt, en Ívar „víðfemi“ lagði undir sig allt Svíaveldi og lagði undir einnig sig Danaveldi, mikinn hluta Saxlands, Austurríki og fimmta hluta Englands. Af honum eru komnir Danakonungar og Svíakonungar. Eftir dauða Ingjalds “illráða” hvarf Uppsalaveldið og Ynglingaætt það er langfeðgum mætti telja.
Sonur Ingjalds “illráða” Ólafur “trételgja”, sem fæddur var um 680 og giftist konu er Sólveig hét eða Sölva. Hún var dóttir Hálfdánar gulltannar vestan af Sóleyjum, en afi hennar í móðurætt var Ólafur hinn skyggni konungur í Nærríki í Svíþjóð, sem í dag heitir Nãrke, hann var ríkur og hermaður mikill. Ólafur “trételgja” og Sólveig eignuðust tvo syni þá Ingjald og Hálfdán. Hálfdán var alinn upp í Sóleyjum hjá móðurbróður sínum Sölva, hann var kallaður Hálfdán hvítbeinn og frá honum kemur þessi grein ættar okkar. Ólafur “trételgja” varð að flýja Svíþjóð undan Ívari víðfema, en náði sér í landkosti góða á Vermalandi. Þangað safnaðist saman svo mikið af fólki að of margt varð fyrir afurði þessa lands og varð þar hallæri mikið og sultur. Ólafur var lítill blótmaður og líkaði Svíum það illa, þeir gerðu för að Ólafi konungi og brenndu hús hans niður og Ólaf konung inni. Blótuðu þeir konungi fyrir Óðni. Þetta átti sér stað við Væni. Nú komust gáfumenn Svíþjóðar að því að hallærið í landinu stafaði af að fólskfjöldinn var meiri en landið gat borið, en konung væri ekki hægt að saka um. Svíar söfnuðu nú her sínum saman og fóru vestur yfir Eiðaskóg(Vermalnd i Noregi) og komu fram í Sóleyjum(i Hedmark i Noregi) öllum að óvörum. Þar drepa þeir Sölva konung og taka með sér Hálfdán hvítbein og taka hann til höfðingja yfir sig og gefa honum konungsnafn. Lagði Hálfdán hvítbein þá undir sig Sóleyjar og fór með her sinn út á Raumaríki og herjaði þar.
Hálfdán konungur var ríkur og hann giftist Ásu dóttur Eysteins harðráða konungs Upplendinga, hann réði yfir Heiðmörk. Hálfdán og Ása eignuðust tvo syni Eystein og Guðröð. Hálfdán hvítbein eignaðist mikið af Heiðmörk, Þótn(Toten í Upplöndum í Noregi og þýddi nafnið þótn eitthvað sem að manni líkar)Haðaland og mikið af Vestfold í Noregi. Hálfdán hvítbein varð gamall maður og dó hann á sóttarsæng í Þótn, var síðun fluttur út á Vestfold og heygður þar sem heitir Skæreið í Skíríngsdal(sem í dag heitir Huseby og þar býr Sveinn Jörundsson)
(Huseby, eller Skiringssal som gården den gang het, har vært en naturlig møteplass sentralt plassert i forhold til historiske handelsruter både på land og til sjøs. Hit kom impulser både fra Europa og, som beskrevet av sjøfareren Ottar, fra de nordlige handelsruter langs den langstrakte norskekysten på vei mot handelssteder på kontinentet. På 700-tallet, da ynglingekongene Halfdan Kvitbein og Øystein Fert regjerte, var Skiringssal det sentrale maktsentret som kontrollerte og beskyttet vikingenes handelsplass på Kaupang. (frá heimasíðu Huseby gaard))
Eysteinn sonur Hálfdánar varð konungur eftir hann í Raumaríki og á Vestfold. Hann var giftur Hildi Eiríksdóttur, dóttur Eiríks Agnarssonar konungs á Vestfold, sem var aftur sonur Agnars Sigtryggssonar, en Sigtryggur þessi var konungur á Vindli(Vendsyssel í Danmörku). Eysteinn konungur fór eitt sinn með herskip nokkur yfir á Vörnu og herjaði þar, en Skjöldur konungur á Vörnu kom til strandar með her sinn. Þá er þeir sigldu inn Jarlsey sat Eysteinn konungur við stýrið, annað skip sigldi nær þeim báruskot nokkuð var í og laust beitássinn af öðru skipi Eystein konung fyrir borð og varð það bani hans. Menn hans náðu líkinu og var það flutt inn á Borró ok orpinn haugur eftir á röðinni út við sjó við Vöðlu.
Nú fer að versna í því aftur hér, því nú fylgjum við ekki karlleggnum lengur heldur kvenþjóðinni. Eysteinn konungur og Hildur eignuðust fimm börn 3 syni og tvær dætur. Þau voru Haraldur fæddur um 750 og hann lést í Írska hafinu, næst er ættmóðir okkar Æsa “hin-ljósa” fædd um 750 og var hún gift Hjörleifi “kvensama” Hjörssyni, síðan kom Hálfdán “mildi” og “matarilli” fæddur um 760 og hann tók við ríkjum eftir föður sinn, þá er það Sigurður fæddur um 750 og að lokum Geva fædd um 755.
Æsa “hin-ljós” giftist eins og áður segir Hjörleifi “kvensama” Hjörssyni konungi í Hörðalandi í Noregi. Ekki hefur mér tekist að finna neinar nánari upplýsingar um þau né heldur sögur af þeim aðrar en þær að fólkið í landinu dæmdi Æsu hina-ljósu til dauða, drekkja átti henni í mýri, en Hjörleifur sendi hana upp á land með heimafylgju sina. Hjörleifur konungur dó í víking. Nú vindum við okkur að syni þeirra sem hét Hálfur og var fæddur um 790, tvo aðra syni áttu þau og hét annar Utsteinn og hinn Innsteinn. Hjörleifur tók sér aðra konu Hildi hina mjóvu dóttur Högna hins auðga í Njarðley við Naumudalsmynni. Heimskringla segir Hildi hina mjóvu móður Hálfs, en að Æsa og Hjörleifur hafi átt einn son saman Óblauð. Óblauður færir ættir okkar áfram á öðrum stað, en sé þetta rétt kemur eitthvað rugl á genin hjá okkur í þessarri frásögn minni og þó kannski ekki því Hildur hin mjóva var einnig frænka vor. Hálfur þessi var forfaðir okkar og hann giftist konu er Hagný Hauksdóttir(=Haki Hámundarson konungur) hét. Hálfur var þekktur sækonungur. Margt annað er ekki vitað um líf þessa sækonungs, en saga er þó til af dauða hans og hún hljómar svo: hann hafði verið á sjó í 18 ár og í bardaga áður en hann kom aftur til Hörðalands. Sjúpfaðir hans Ásmundur er stjórnað hafði á landi í fjarveru konungs, bau Hálf og helming hers hans til veislumáltíðar, en Ásmundur drap Hálf með sverði og hálfan her hans og brenndi þá inni í veislusalnum. Aðeins tveimur af hermönnum Hálfs tókst að flýja, það voru Usten og Hrok svarti. Þeir allíeruðu sig með Svíanum Sölva og í sameiningu drápu þeir Ásmund og hans her. Þar á eftir gerðu þeir Hjör son Hálfs að konungi yfir Hörðalandi.
Um kvonfang Hjörs gætir nokkurs efa og ber heimildum ekki saman. Margar heimildir segja Luvinu Bjarmarsdóttur hafa verið konu hans og svo segir í ættartré okkar. Sagt er að Hjör hafi herjað á Bjarmalandi, en Bjarmar var nafn á ættflokk í Garðaríki(Rússlandi) og að þar hafi hann tekið herfangi Ljúvínu dóttur Bjarmakonungs Aðrar heimildir segja hann hafa verið giftan Hagnýju Hauksdóttur, sem ættartré okkar segir að hafi verið móðir hans og enn aðrir hafa greinilega ekki treyst sér til að skera úr um hvort væri réttara og hafa sleppt því að nefna konu hans. Hvernig svo sem því er öllu á botninn hvolft þá telur Heimskringla að Hagný hafi verið kona hans. Með konu sinni átti Hjör allavega tvo syni það ber öllum þeim heimildum, sem ég hef kynnt mér saman um og sagan um synina er eins hjá öllum. Hjör var í konungastefnu og á meðan fæðir kona hans tvo syni og voru þeir báðir svartir og ljótir mjög, annar fékk nafnið Hámundur og hinn Geirmundur. Hámundur er sá, sem ber ættir okkar fram í þessarri grein. Á sama tíma og kona Hjörs fæðir, fæðir ambátt undurfallegt og ljóshært sveinbarn, sem fékk nafnið Leifur. Drottning skipti við ambáttina og sýndi konungi Leif, en eftir því sem árin liðu hvarf ljómi Leifs, en Geirmundur og Hámundur voru bæði sterklegir og orðvísir, þá þriggja ára. Hjör konungur fór í annan leiðangur og áður en hann kom heim aftur hafði drottning skipt aftur á drengjum og sýndi honum nú synina tvo og sagði þá vera hans syni. Ber þá í burtu kona sagði Hjör ekki vil ég svona heljarskinn. Báru þeir heljarskinn sem viðurnefni eftir það. Þeir voru mikilir afreksmenn að afli og er mikil ætt af þeim komin á Íslandi.
Hér með fer þessi grein ættar okkar að flytja um set og Hámundur heljarskinn, sem giftist Ingunni dóttur Helga magra landnámsmanns í Eyjafirði fluttist til Íslands með tengdaföður sínum og þeirri fjölskyldu. Helgi gaf Hámundi land milli Merkigils og Skjálgdalsár og bjó hann á Espihól hinum syðri. Hámundur og Ingunn eignuðust soninn Þóri sem þar bjó síðan. Þórir var fæddur um 900 e.kr. Geirmundur bróðir Hámundar varð hins vegar konungur á Rogalandi eftir föður sinn en missti landið í hendur Haraldi hárfagra, sigldi hann þá til Íslands og nam land á Skarðaströnd og bjó á Skarði. Ingunn og Hámundur “heljarskinn” eignuðust aðeins þennan eina son og er hann ættfaðir okkar, hins vegar fékk Hámundur aðra dóttur Helga magra er Helga hét eftir andlát Ingunnar og eignuðust þau eina dóttur Yngveldi “allrasystir”.
Þórir eignaðist konu er Þórdís Kaðalsdóttir hét, hún var dóttir írsks manns. Þórir og Þórdís eignuðust soninn Þórarinn er seinna bjó á Espihól hinum nyrðri, Þorvald krók, sem búsetti sig á Grund í Eyjafirði og dæturnar Ingunni og Vigdísi. Þar fyrir utan átti Þórir son er Þorgrímur hét og búsetti hann sig á Möðruvöllum í Eyjafirði, Þorgrímur þessi var sonur fyrri konu Þóris. Á efri árum missti Þórír sjónina. Þorvaldur sem seinna fékk viðurnefnið “krókur” er sá sem við teljum okkar ættir til. Þorvaldur var hólmgöngumaður mikill og þótti heldur ódæll. Hann var fyrsti ábúandi á Grund í Eyjafirði og giftist hann Otkötlu Þorgilsdóttur(nefnd Þorkatla í Víga-Glúmssögu). Þau eignuðust dótturina Þorkötlu, en Þorvaldur “krókur” átti einnig soninn Ketil. Otkatla kona Þorvalds var ættuð úr Þjórsárdal. Esphælingar og Möðruvellingar þóttu bæði lögvitrir og hugdjarfir menn. Þeir bræður áttu í erjum miklum og baráttu við Glúm(Víga-Glúm), en Helgi magri var langafi Glúms, barnabarn Ingjalds bróður Ingunnar ömmu þeirra bræðra. Fremstir af bræðrum í baráttu þessarri við Glúm voru Þórarinn og Þorvaldur “krókur” frændi vor. Glúmur varð Sigmundi manni Vígdísar systur þeirra bræðra að bana og af því upphófust illindi þessi. Þótti bræðrum, að þeir yrðu að hefna vígs Sigmundar og má lesa meira um þetta mál í Víga-Glúmssögu. Enn eru mál þeirra óútkljáð, þegar faðir þeirra Þórir andast. Fyrir lokabaráttu þeirra bræðra við Glúm, flytja þeir bæði búin af Grund þar sem Þorvaldur bjó og af Möruvöllum heim að Espihóli til Þórarins, svo þeir gætu saman staðið geng Glúmi. Barátta þessi spannaði yfir það mörg ár að nú eru synir bræðranna uppvaksnir og taka þátt í bardögum. Í síðasta bardaga þeirra bræðra við Glúm, sem átti sér stað í kringum Þverá, nánar tiltekið á Hrísateigi, féll forfaðir okkar Þorvaldur “krókur” ásamt fleiri góðum mönnum og þar á meðal var annar ættfaðir vor Eyvindur “austmaður”. Þórarinn bróðir Þorvalds særðist mjög en kona Glúms bjó að sárum hans og var Glúmur lítt hrifinn af. þannig endaði æfi Þorvalds “króks” og við tekur nú búi á Grund sonur hans og ættfaðir okkar Ketill.
Ketill þessi var nefndur Ketill “eldri”, hann var bóndi á Grund og Goðorðsmaður í Eyjafirði, fór hann með Esphælingagoðorð hálft. Hann var giftur Vigdísi Einarsdóttur. Nú förum við að nálgast 1000. árið, því Ketill “eldri” var fæddur um 966. Þau hjón eignuðust einn son er Einar hét og fer annars ekki mörgum sögum af syni kappans Þorvalds “króks”. Einar sonur þeirra giftist Steinunni Bergsdóttur en hún var langafabarn Víga-Glúms, sem afi Einars hafði fallið fyrir. Einar tók við búinu á Grund að föður sínum látnum, en virðist annars ekki hafa komist á spjöld sögunnar svo við vindum okkur að næsta ættlið, Einar og Vigdís eignuðust soninn Þorstein, sem síðar fékk viðurnefnið “ranglátur”. hann var fæddur um 1060 og tók hann við búi af föður sínum á Grund. Þorsteinn “rangláti” var giftur Steinunni Þorbjarnardóttur og áttu þau sjö börn. Við erum afkomendur elstu dóttur þeirra hjóna, sem hét Guðrún. Einn sonur þeirra er Ketill hét var prestur og bjó hann áfram á Grund, sem varð kirkjustaður, annar hét Ólafur og var hann kanoki á Saurbæ í Eyjafirði. Guðrún frænka vor giftist manni, sem hét Jörundur Gunnarsson og var hann bóndi á Keldum á Rangárvöllum. Guðrún og Jörundur eignuðust fjórar dætur og er það dóttirin Halla, sem er ættmóðir okkar og er þar komin alnafna Höllu Jörundardóttur sem er ein af Litlalandssystkynunum. Ættir Jörundar eiginmanns Guðrúnar eru ekki þekktar, en það er hins vegar bærinn, sem hann bjó á. Fyrstu heimildir um búsetu á Keldum var um 974. Nafnið Keldur þýðir í gamalli merkingu uppspretta eða lind og stendur bærinn á gömlum gervigígjum umkringt hrauni og sagt er að hann liggi á mörkum auðnar og alsnægtar. Í Kelndahraunum og næsta nágrenni Keldna hafa fundist 16-17 bæjarrústir. Halla kerling er sú sem færir okkar ætt áfram og var hún fædd um 1120 hún var gift Bjarna Bjarnasyni presti og samkvæmt heimildum hvu hann hafa verið 20 árunum yngri. Þau eignuðust seks börn þrjá syni og þrjár dætur. Elsti sonur þeirra Flosi er ættfaðir okkar.
Flosi var fæddur um 1162 og var hann prestur og goðorðsmaður á Baugsstöðum. Hann var giftur Ragnhildi Barkardóttur og þau eignuðust sjö börn. Elsta barna þeirra var Valgerður ættmóðir okkar. Flosi gekk seinna á æfinni í klaustur. Langafi Flosa í föðurætt var Flosi sonur Þorbjarnar gaulverska Ormssonar hersis af Fjölum í Noregi. Fjalir eru við Bredvatnið og hinummegin við er Gaular. Flosi langafi Þorbjarnarson drap 3 sýslumenn Haralds hárfagra og fór eftir það til Íslands og nam land fyrir austan Rangá í Rangárvöllum eystri. Til gamans má geta þess að Ragnhildur Barkardóttir kona Flosa er komin af Hásteini Atlasyni landnámsmanns í Ölfusi í beinan karllegg.
Valgerður dóttir Flosa og Ragnhildar var fædd um 1200 og fer ekki mörgum sögum af henni en hún var gift Ólafi “tottur” af sumum talinn sonur Þormóðs freysgoða. Ólafs er getið í Sturlungu við árin 1238 0g 1242. Valgerður og Ólafur áttu aðeins einn son hann hét Erlendur og segir sig sjálft, að hann var ættfaðir okkar. Erlendur þessi fékk viðurnefnið “sterki” , hann var fæddur 1235 og var lögmaður norðan og vestan. Erlendur “sterki” bjó á Ferjubakka í Borgarfirði og má benda á það til gamans að nú hafa ættfeður okkar, frá því þeir fluttu til Íslands, fært sig frá Norðurlandinu á Suðurlandið og svo nú upp í Borgarfjörð. Erlendur “sterki” var velstöndugur maður og taldist til höfðingja þeirra tíma, hann átti og í deilumálum við kirjuleg yfirvöld, nánar tiltekið Árna biskup í Skálholti um yfirráð kirkjunnar.
Það má raunar segja, að Erlendur lögmaður hafi verið höfuð andstæðingur Árna biskups í staðamálum. Honum nægði meira að segja ekki að berjast við biskup hér innan lands heldur lagði á sig ferð til Noregs til þess að geta á þinginu í Niðarósi 1282 greitt atkvæði með útlegðardómi yfir Jóni erkibiskupi - vígsluföður Árna biskups. Erelndur “sterki” bjó einnig í Selvogi á Nesi og átti þar að auki jörðina Strönd og sjálfsagt fleiri jarðir. Sumar heimildir álíta að það hafi verið Erlendur “sterki”, sem að reisti Strandakirkju, en enn þann dag í dag árið 2008 þrefa menn um það mál og eru ekki sammála, en á þeim tíma voru bændakirkjur að verða algengar. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 og að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða.
Erlendur “sterki” var giftur Jórunni, en föður hennar er ekki getið, hins má aftur geta að hún var komin af ætt Eíríks “hvíta” Högnasonar. Jórunn var fyrri kona Erlends og þau eignuðust synina Hauk og Jón. Haukur var riddari og lögmaður m.a. í Noregi og skrifaði hann Hauksbók. Jón var ættfaðir vor og var hann búsettur á Ferjubakka. Seinni kona Erlends hét Járngerður og átti hann eina dóttur með henni. Lítið er vitað um þennan ættföður okkur hann Jón Erlendsson annað en hvar hann bjó og að hann eignaðist einn son, sem Flosi hét, konu Jóns og móður Flosa er hvergi að finna.
Nú nálgumst við óðfluga okkar tíma og næsti ættliður Flosi Jónsson, sem fæddur var um 1300. Hann var prestur á Kolbeinsstöðum í Hnappadal og síðar á Stað á Ölduhrygg í Snæfellsnesi. Flosi eignaðist tvo syni en hverjar mæður þeirra voru hef ég ekki getað fundið út úr, annar hét Þórður og varð sýslumaður í Snæfellssýslu, hinn var ættfaðir okkar og að sjálfsögðu launsonur Flosa að því er sagt er og hét hann Vigfús. Kona Flosa hét Oddný Ketilsdóttir en ekki virðast þau hafa átt börn saman.
Vigfús sonur Flosa varð bóndi í Krossholti í Kolbeinsstaðarhreppi, hefur trúlega haft einhver sýsluvöld, en ekki fer gott orð af þessum færnda okkar. Sagt er að hann hafi verið ofstopamaður og hafi jafnvel átt í illdeilum við son sinn. Vigfús var giftur en nafn konu hans þekki ég ekki, hins vegar er hún sögð hafa verið dóttir Einars Þorlákssonar bónda á Kolbeinsstöðum og saman áttu þau einn son er Narfi hét. Narfi var fæddur um 1365 og hann varð bóndi á Kolbeinsstöðum. Hann var giftur konu er Þuríður hét en önnur deili veit ég ekki á henn,i en þau eignuðust tvö börn Halldóru og Ketil. Þar að auki átti Narfi einn son er Erlendur hét og er það okkar ættfaðir. Hann var fæddur um 1400 og var bóndi á Kolbeinsstöðum og sýslumaður í Teigi. Fyrri kona Vigfúsar var Oddný Ketilsdóttir. Samkvæmt öllum þeim heimildum, sem ég hef skoðaða virðast faðir og sonur hafa verið giftir sömu konunni eða Oddnýju.
Bjarnfríður Gunnarsdóttir (Benna)
Frábærar síður þetta er æðislegt. Takk fyrir.
Snjólaug Bragadóttir
Frábær síða. Ég er einmitt að þýða bók um Yrsu drottningu og þarna fæ ég að vita meira um fólk sem þar er nefnt.
Hildur
Takk fyrir kommentið Snjólaug og gangi þér vel með verkefnið