Jörundur Sveinsson loftskeytamaður við vinnu sína um borð í Fylki

 

Skrifað upp eftir frumriti. Frásögn Jörundar Sveinssonar loftskeytamanns ódagsett, en eftir öllu að dæma skrifað einhvern tíma á árunum frá júni 1949-mars 1952, þar sem fyrsta barn Jörundar fæðist síðast í maí 1949 og barn nr.tvö fyrst í mars 1952, en hér á hann greinilega bara eitt barn. Sennilegast að hér sé um togarann Fylki að ræða.(Hildur Jörundsdóttir)

 

“Einn dagur um borð í togara”

eftir Jörund Sveinsson

 

Ég er vakinn kl. 07.40. Ég velti mér fram úr kojunni furðu lítið úrillur og ekki alveg sofandi, kveikti á viðtækjunum og setti sendinn í gang. Síðan tíni ég utan á mig nokkuð af spjörunum, sezt niður og skrifa niður coda-skeytið, sem senda skal út. Skipin mæta á tímunum eftir sömu röð og þau koma út á veiðar. TFXX byrjar og svo koll af kolli, unz komið er heildaryfirlit yfir afla skipanna eftir nóttina. Aflinn er misjafn, yfirleitt lélegur, en tvö skip hafa fengið dágóðan afla. Við erum heldur í betri hópinn. og hressir það talsvert upp á sálina og blæs dálitlu lífi í hálfsofandi líkamann. Ég lít yfir skeytin, fletti upp codanum, þýði og krota við, ef eitthvað er, sem ég kann ekki utan að, fer síðan með skeytin fram í brú og les þau fyrir stýrimanninn, en hann er á vakt, hress og léttur í lund eins og venjulega og þó heldur betur, því hann er ánægður með árangur næturinnar og væri sennilega dálítið grobbinn, ef hann ætti nokkuð slíkt til. Þegar ég kom inn í klefann aftur, heyri ég lágt urr frammi í brú. Ég kannast mætavel við hljóðið, fer aftur fram og les skeytin fyrir skipstjórann. Hann er að koma úr draumalandinu. Sennilega hefur hann dreymt þorsk, því hann er venju fremur léttur á brúnina, heyrir sæmilega og bölvar ekki nema í öðru hverju orði. Áreiðanlega hefur hann ekki dreymt kvenmann, því að slíkir draumar eru sjómönnum aldrei fyrir góðu, oftast fyrir slæmu veðri eða einhverjum óhöppum, því verri, sem draumadísin er blíðari á manninn. Og ég tala ekki um vonbrigðin, þegar sálin kemur aftur úr næturflakki sínu og er á ný bundin við búkinn innan upp og ofan hlýlegra klefaveggja um borð í togara jafnvel, þótt “Nýsköpunartogari” sé.

Nei, hann XY (skipstjórinn, hér hefur Jörundur verið búinn að skrifa nafn skipstjórans inn, en strikað yfir og setur XY í staðin.hj ) er sennilega vaxinn upp úr öllu slíku draumarugli, eða niður úr því liggur mér við að segja, því hann hugsar sennilega um ekkert annað en þorsk.  Hann veit líka nokkurn veginn, hvar þorskurinn er á hverjum tíma og hefur sett sig ótrúlega vel inn í sálarlíf hans, duttlunga hans og klæki,  og um það stendur styrinn millum þeirra sálufélaga að stinga hvor öðrum ref fyrir rass, og gengur á ýmsu, nema hvað sumar orusturnar enda með því, að þorskurinn liggur í hrúgum dauður á dekkinu, en hinn hefur ennþá sloppið lifandi úr þeim blóðuga hildarleik.

 

Ég sný inn í klefann aftur og hreinskrifa skeytin til þess að þau séu aðgengilegri, ef þyrfti að fletta upp í einhverjum fróðleik í þeim síðar. Nú er ég orðinn svangur og þyrstur og fer afturí til að fá mér snarl. Matsveinninn hefur tekið frá fyrir mig skyrhræring og slátur frá morgunmatnum, en hann er kl.06.00-07.00. Ég geri hinni alíslenzku og vinsælu fæðu full skil, fer síðan inn í borðsal og fæ mér kaffisopa og rabba við “karlana” , en þeir koma í kaffi kl.08.30. Nú rignir yfir mig spurningunum um fréttir, fyrst og fremst um afla hinna skipanna o.fl. Ég svara þeim ýmist sönnu eða lognu eftir því, sem mér finnst við eiga, en enda oftast á sannleikanum samkvæmt mínu fróma hugarfari. Ýmislegt ber á góma yfir rjúkandi kaffinu. Þar er rökrætt um landsins gagn og nauðsynjar, stjórnmál, fiskveiðar og jafnvel landbúnað. Oftast fara umræður fram af mestu stillingu, þótt alvara fylgi máli jafnvel, þegar rætt er um stjórnmál, enda eru hér samankomnir yfirleitt mjög rólyndir menn, en þó glaðlyndir. Oftast verður léttara hjal efst á dagskrá, enda hæfir það best kaffiylminum í stuttum hvíldartíma frá erfiðu starfi.  Yngri mönnum einkum verður stundum á að víkja að því, sem hjartanu er kærast og verður því tungunni tamast, miði og fögrum konum. Við eldri mennirnir erum ekki allir fráhverfir þeim unaðsemdum lífsins heldur og finnum okkur skilda til að miðla hinum ungu og upprennandi af gnægð vizku okkar og lífsreynslu, en þeir láta sjaldanst koma þar að tómum kofunum og þykjast ekki vera fæddir í gær. Þá hristum við gráu kollana okkar og tautum hin algildu sannindi allra tíma og kynslóða: Ja, ungdómurinn nú á dögum, drottinn minn; Það var öðruvísi í okkar ungdæmi, og átakanlegur- og vandlætingar (svipur) færist yfir gráskeggjuð andlitin. – Í miðju kaffisamsætinu er öskrað inn í borðsalinn, að loftskeytamaðurinn eigi að koma upp í brú tafarlaust. Það er ekkert óvenjulegt og gefur mér kærkomið tækifæri til að minna viðstadda á mikilvægi stöðu minnar á skipinu. Þarna sjái þeir, aldrei friður, ekki einu sinni til að tæma kaffibolla á kristilegan hátt. Segi þeir svo að ég geri ekkert annað en slæpast, djöflarnir þessir, já: Það var einhver að kalla í einhvern og hann svaraði með svo veiðilegri röddu, að hann hlaut að búa yfir einhverjum fiskifréttum, sem reyndust þá vera harla lítlvægar.

Þá er komið að veðurfregnum í útvarpinu. Ég skrifa allan vísdóminn niður af vísindalegri nákvæmni. Hún Þeresía ætlar að gefa okkur gott veður í dag, þessi elska. Hún er reyndar búin að láta okkur hafa logn í eina fjóra daga í röð, sem er alveg óvenjulegt á þessum vetri. Já, hún Þeresía er oftar nefnd á nafn um borð í togurunum en nokkur annar kvenmaður og ekki alltaf vandaðar kveðjurnar, þegar skipstjórarnir koma upp á morgnanna, úrillir og illa sofnir í vitlausu veðri og fá kannski beint framan í sig það, sem þeir ætluðu að læða út á brúarvænginn. Öldur hafsins og vindar loftsins dansa eftir boði hennar og banni, hafís, snjór og frost eru vægðarlaust talin afkvæmi hennar. En Þeresíu er aldrei þakkað lognið og sólskinsstundirnar.

 

-         Nú er ekkert sérstakt að gera um tíma annað en hlusta á allt og ekkert. Það er ófullnægjandi til að halda sér vakandi. Ég tek því ljóðabók eftir Jóhannes úr Kötlum og les nokkur hjartnæm kvæði. Þau vekja ýmis óútreiknanleg geðhrif, sem erfitt er að gera sér grein fyrir í fljótu bragði. Ég legg bókina frá mér, legg mig upp á bekk og brýt heilan um leyndardóma og staðreyndir mannlífsins. Karlinum hefur víst fundist ég vera ótilhlýðilega makindalegur, því ég er varla fyrr búinn að stilla hugann inn á rétta bylgjulengd, en hann öskrar eins og graðungur. Það þýddi að dýptarmælirinn hafði rifið pappírinn. Það var fljótlagað. Svo les ég af mælinum meðan karlinn kastar. Lítið bættist við aflann þetta holið. Það var þó poki af góðum fiski, sem gefur fyrirheit um nokkra shillinga í vasann, þótt lítið sé. Ég skýst út um dyrnar og beint aftur í eldhús að heilsa upp á matsveinana, sem bogra heitir og sællegir yfir pottum og pönnum. Matarlyktin lofar góðu um miðdagsmatinn, enda sunnudagur í landi og sætsúpa til sjós. Það eru dreggjar í kaffikatlinum. Þeim eru gerð góð skil, þótt kaldar séu. Matsveinarnir eru í góði skapi eins og venjulega þrátt fyrir annríkið og losa mig blessunarlega við allar heimskulegar hugrórar, en víkja huganum inn á beinar brautir efnisheimsins, að hinu hlutbundna og áþreyfanlega, því sem lifir og hrærist og því, sem skeður.

 

Ég fer upp í brú aftur og sezt við tækin. Útgerðamaður er að biðja um samtal við skipstjóra eins togarans. Svo fer fram langt samtal um ástand og horfur. Skipstjórinn barmar sér af mikilli leikni og kunnáttu yfir fiskileysi, slæmri veðráttu og afleitum gangi yfirleitt. Maðurinn við hinn endann ber sig hetjulega yfir öllum óförunum, er sennilega farinn að þekkja á svínið og gleðst áreiðanlega í hjarta sínu yfir eyðslusemi skipstjóra, einkum þegar hann segist vera búinn með 100 tonn af salti. Í hvern fjandann skyldi líka allt þetta salt hafa farið, ef aldrei hefði komið fiskur yfir borðstokkinn, eins og helst hefði mátt ætla eftir ræðu skipperans. – Nú kemur dautt tímabil. Ég nenni ekki að lesa. Ég hef lesið svo mikið af andríkum bókmenntum undanfarna daga, að hugurinn er orðinn mettaður í bili, hausinn úttúttnaður af gáfum, og munaði minnstu, að ég færi sjálfur að yrkja, til að gefa auðlegð andans útrás. Guð forði mér frá slíku. – Ekkert að heyra í loftinu, sem púður er í. Ég hef alltaf þrjá móttakara opna, tvo fyrir skipaviðskiptin og einn fyrir músík, en frá honum eru háttalarar víðsvegar um skipið. Mússík-móttakarinn er alltaf stilltur á músík milli dagsskrárliða íslenzka útvarpsins fyrir þá, sem hafa tíma til og ánægju af að hlusta á slíkt. Jazzinn er vinsælastur meðal yngri kynslóðarinnar, en harmonikkan fellur betur við smekk öldunganna. Kl.11.30 byrjar sá fyrsti að senda. Morsið lætur misjafnlega í eyrum eftir því, hver er við lykilinn. Sumir senda illa, aðrir sæmilega og enn aðrir vel og nokkrir glæsilega skrautskrift, svo að manni finnst maður vera að lesa letur með logagylltum stöfum. Ekki er útlitið glæsilegt eftir fréttunum að dæma. Sum skip hafa rekið í sæmileg hol, hinir fá skaufa, slöttung og allt niður í fiðrildi og reiðuleysi. Hörmulegt ástand hjá hinum glæsta fiskiflota okkar. Verst af öllu, að nú er engan hægt að skamma persónulega, ekki einu sinni Þeresíu, því að nú er veðrið ekki til baga, en guð nýtur þess, að næst ekki til hans. Veðrið er alveg dásamlegt, slétta logn, sjórinn eins og rjómatrog, og margra stiga hiti hér norður í Íshafi. Mikil viðbrigði eftir tuttugu stiga frost. Það er líka einhver léttleiki yfir mannskapnum, allir í sólskinsskapi og brosa í bak og stjór. Meira að segja heyrist nú varla æmta eða skræmta í næsta nágranna mínum, sem er þó vanur að minna nærstadda á tilveru sína með hressilegu orðavali og þrumuraust. Hann er líka að slá þeim gula við núna, var að enda við að innbyrða 2 poka af spriklandi þorski.

-         Loks rennur upp hin langþráða stund líkamans, matartíminn. R hefur framreitt höfðingjafæðu eins og góðum matsveini sæmir á sunnudegi. Þeir, sem koma úr koju, eru letilegir á svipinn, eins og þeir beri allar raunir heimsins á herðum sér, og hafa litla matarlyst. Hinir, sem eru að koma af dekkinu, eru eins og hungraðir úlfar og sporðrenna hverju kjötstykkinu af öðru, hlægja og masa, eins og lífið hafi aldrei verið annað en leikur. Sumir þeirra eiga líka að fá að halla sér eftir góða máltíð. Ég er orðinn pakksaddur af öllum kræsingunum, labba upp og læt fara vel um mig á bekknum. Líkamleg vellíðan. Andlegt jafnvægi. Ég hugsa ekkert, ligg aðeins og nýt þess að vera latur. En Adam var ekki lengi í Paradís. Karlinn opnar hurðina og biður mig að spyrja TFXX, hvar hann sé og hvað hann hafi fengið í síðasta holi. Sjálfsagt. Ég kalla, en fæ ekkert svar, því miður. Aftur á bekkinn. Eftir nokkra stund, einmitt þegar ég er að missa meðvitundina og byrjaður að sjá sýnir, er kallað á mig. Það er TFXX. Við gefum hvor öðrum umbeðnar upplýsingar, sem komu þó hvorugum að gagni, og afgreiðslunni er lokið. Næsti klukkutími líður við stöðuga hringrás, af stólnum á bekkinn, af bekknum í stólinn. Ekkert að gera, en aldrei friður. Karlinn hrópar “hífop” . Vírarnir þeytast úr blokkinni og skella með skvampi í sjóinn. Vindurnar skrölta og skella og vinda vírana upp á keflin jafnt og þétt. Það tekur talsverðan tíma, því að út eru 625 faðmar af vír. Loks koma hlerarnir upp, fyrst afturhlerinn svo forhlerinn. Hleramennirnir standa hvor á sínum stað reiðubúnir til að taka á mótu hlerunum og festa þá í gálgana. Höfuðlínan kemur í ljós, pokinn skýst upp úr sjónum og nokkuð af belgnum flýtur uppi, sem þýðir gott hol. Inn með netið: Saman með það: Lagó snörlu og híf í gils: Pokarnir eru hífðir inn hver af öðrum einn, tveir, þrír, fjórir: Ég stend frammi í brú og horfi hugfanginn á hrúguna út um gluggann. Þorskurinn er yndi augna okkar fiskimanna. Í spriklandi þorskinum eygjum við árangur starfs okkar, von um eitthvað í aðra hönd, vissuna fyrir því, að brátt fáum við að sjá aftur unnustur okkar, konur og börn, allt, sem gefur lífinu gildi og gerir það þess virði að lifa því og leggja á sig útilegur langar og strangar með öllum þeirra hrakningum, erfiði og áhættum. – Nú er trollinu kastað aftur og aðgerðin hefst af fullu fjöri. Fiskurinn er hausaður, slægður, þveginn upp og gengið frá honum í lestinni eftir kúnstarinnar reglum. Vinnan leikur í höndum mannanna í góða veðrinu, og brátt er allur fiskurinn kominn á sinn stað ofan í lest. Eftir hæfilegan tíma er híft upp aftur. Góðir tveir pokar, dágóður reytingur. Þetta ætlar að verða góður dagur. – Skipin mæta kl.15.30 og bera saman afla sinn. Við erum á toppinum. Það kitlar dálítið hégómadýrðina, án þess, að við fögnum áberandi yfir óförum annarra.

 

Tíminn líður fram að kl.18.00, kvöldmatartíma, við dagbókarskrift með smátöfum við mors og kjaftæði í loftinu, lesa af dýptarmælinum meðan kastað er, skipta um pappír o.s.frv. Kvöldmaturinn er borðaður af bestu lyst og gerir gott í kroppinn, að minnsta kosti þeim, sem eru og hafa verið á vakt. Hinir, sem eru að vakna, aka sér hálfólundarlega, geispa og smábölva, en þó af talsverðri guðrækni. Það gerir veðurblíðan.

kl.18.25 eru veðurfregnir lesnar í útvarpinu, veður á einstökum stöðum. Blíða um allt land nema í Vestmannaeyjum, þar eru átta vindstig. Það er ekki oft, sem Þeresía veitir Vestmannaeyingum blíðu sína. Svo kemur barnatíminn. Hann er vinsæll hér um borð, en nú er hann með allra lélegasta móti. Gamlinginn var að læða inn þrem pokum enn. Hann gefur sér varla tíma til að borða fyrir veiðihug. Tvisvar var hann kominn aftur að eldhúsdyrum, en sneri við í bæði skiptin upp í brú aftur til að dást að við stýrimanninn, sem leysti hann af, hvað trollið lægi vel í botninum. Loks kemst hann alla leið aftur í borðsal og gefur sér fimm mínútna matfrið. Þá er hann kominn upp í brú aftur og gengur á milli glugganna, horfir ýmist fram á dekk og gerir nauðsynlegar athugasemdir við vinnubrögðin eða aftur til að fullvissa sig um,að trollið sé í botninum. Milli þess hrofir hann á áttavitann og dýptarmælinn og gengur úr skugga um, að stefnan sé rétt með tilliti til dýpisins. Þetta verður allt að vera hárnákvæmt, því að nú er hann búinn að finna felustað gula andstæðingsins og gefur honum engin grið. Hann fer að þessu öllu með heimspekilegri ró og litlum hávaða, íbyggnum slægðarsvip og öruggri sigurvissu í öllu fasi. Það er varla von, að þorskurinn sjái við þessum kænskubrögðum, ekki gáfaðri en hann er talinn vera, enda hefur hann ekki staðist Karlinum snúning í dag. Loks fær skipperinn sér sæti með stóran Havanavindil í munninum og lætur stýrimanninn halda stefnunni á meðan undir nákvæmu eftirliti.

 

Kl.19.30 eru enn fiskifréttir. Sama reiðuleysi hjá flestum. Við höfum sagt rétt til um aflann í dag, eins og lög gera ráð fyrir, samt er ekkert skip sjáanlegt í nánd. Þeir virðast forðast okkur eins og fjandann sjálfan. Kannski þeir telji okkur enga fiskimenn þrátt fyrir allt og haldi, að við séum aðeins með fullan kjaft, en tóman vasa. Þeir um það, því betra fyrir okkur. – Útvarpsfréttir á venjulegum tíma. Ekkert markvert. Kaffi kl.20.30. Það er skemmtileg tilbreyting fyrir mig, því að ég hef frekar lítið saman við venjulega menn að sælda utan kaffi- og matartíma. Mannskapurinn er fróðleiksþyrstur eins og fyrri daginn. Vill fá að vita um aflabrögðin, hverjir séu að hætta veiðum og með hve mikinn afla, nýjustu aflasölur, hverjir séu að byrja veiðar, hvort þeir séu á salti eða ísfiskveiðum, hvort Bretar séu að fiska við Noreg og í Hvítahafinu, nokkuð að frétta úr útvarpinu o.s.frv. o.s.frv. Lestarmennirnir gefa skýrslu um, hvað sé komið í lestina. Nú fer að líða að því, að spurningunni sé snúið við og spurt, hve mikið rúm sé autt. Lifrarskyttan gefur upp lifrartunnurnar. Svo er gerður samanburður við síðasta túr. Samanburðurinn er að verða hagstæður, því að nú er kominn næstum eins mikill afli og þá og enn eru eftir nokkrir dagar af tímanum, sem við megum vera. Menn eru allbjartsýnir á niðurstöðuna, einkum þar sem lítur út fyrir sæmilegan markað í Englandi eftir nýjustu fréttum að dæma. – Kl.21.30 hef ég samband við enskan togara, sem er á veiðum við Norður-Noreg. Sambandið virðist vera þolanlegt, þrátt fyrir lofttruflanir. Við skiptumst á coda-skeytum um aflabrögðin á lykilinn fyrst, síðan tala skipstjórarnir saman í mæltu máli. Það gengur allt vel til að byrja með, en svo dettur sambandið niður allt í einu vegna lofttruflana. Við Jim segjum því “good night” á lykilinn.

 

Ég set radarinn í gang, til að ganga úr skugga um, að allt sé í lagi, og læt hann snúast í eina klukkustund. Það er ekkert að sjá, ekkert skip nálægt og landið langt utan skotmáls. Enn koma veðurfregnir með seinni fréttum í útvarpinu. Sama veður fram undan, segir Þeresía, og henni er trúað. Lítið að gera í bili,  nema hvað ég les af dýptarmælinum fyrir Karlinn meðan hann kastar. Við höldum áfram að reyta. Það hækkar smátt og smátt í lestinni, þótt enn vanti mikið á fullfermi. – Danslögin duna og svella í útvarpinu. Ég hef opið fyrir til hálfs og hlusta á rælana og valsana með öðru eyranu. Það liggur við að mig langi á ball, það er orðið svo langt síðan ég hef fengið mér ærlegan snúning. Ég held næstum, að ég sé búinn að týna sporinu. – Kl.23.40 hefst síðasti coda-tíminn. Veðurfregnir eru lesnar kl.24.00. Að þeim loknum fer ég aftur í og fæ mér te og brauð hæfilega mikið fyrir meltingarfærin til að vinna úr í svefninum.

 

Nú er dagsverkinu lokið. Létt verk og löðurmannlegt. – Klukkan orðin eitt, þegar ég hef þvegið mér og gert þægilegt hvílurúm úr legubekknum.

 

Ég bíð elskunum mínum góða nótt. Ég sé í andanum litlu telpuna mína, þar sem hún liggur sofandi í rúminu sínu heima hjá mömmu. Mér hlýnar um hjartaræturnar af að horfa á himneskan sakleysissvipinn á litla andlitinu hennar, kyssi hana á bústna kinnina og bíð henni góða nótt.

 

 

 

 

Á bls. 3 í “Einn dagur um borð í togara” segir Jörundur m.a.

“Nú kemur dautt tímabil. Ég nenni ekki að lesa. Ég hef lesið svo mikið af andríkum bókmenntum undanfarna daga, að hugurinn er orðinn mettaður í bili, hausinn úttúttnaður af gáfum, og munaði minnstu, að ég færi sjálfur að yrkja, til að gefa auðlegð andans útrás. Guð forði mér frá slíku.”

 

Guð hefur kannski forðað honum frá því að yrkja þennan daginn, en á öðrum tímum fékk Jörundur útrás fyrir auðlegð andans t.d. í kvæðinu

 

“Á Grænlandsmiðum”

Hann Varði bauð mér í villtan dans

og vakandi þráði ég komu hans

í svefninum dreymdi mig drauma um hann,

ég dáði hinn litfríða trollaramann.

Ég stóð uppí fjalli og horfði til hans,

Í hyllingum eygði ég trollarafans.

Á einum stóð Varði að vinda upp garn,

hann var ekkert pelabarn,

hann Varði. Hann Varði,

hann skal verða nallagak.

 

Hún Júddagenibba svo nett og fín

var næstum því orðin konan mín.

Ég send’ ‘enni bónorð í símskeyti

og svarið kom óðara játandi.

Ég ætlað’ í land til að sækja salt

og Símon lofað’ að kenna mér allt,

en Norsarinn sagð’ ekki saltið falt.

Já, svona er lánið valt.

Hún Júddagenibba,

er mórauð á litinn og les ekk’ á bók

hún Júddagenibbe,

og labbar í selskinnsbrók.