Fylkir

b.v.Fylkir – RE 161.

Togaranum Fylki „gamla“, eins og við kölluðum hann  eftir að nýr Fylkir kom til, var hleypt af stokkunum árið 1947 í Bretlandi. Það var fyrirtækið Fylkir h/f, sem átti togarann og skipstjóri var Aðalsteinn Pálsson, sem einnig var einn af aðaleigendum skipsins.

Kallmerki hans var TFCD

Fylkir varð einn af aflamestu togurum flotans og hvenær pabbi (Jörundur Sveinsson) hóf störf sem loftskeytamaður á Fylki er ég ekki alveg með á hreinu, en hann var allavega þar árið 1948. Hann lauk loftskeytakólanum árið 1946 og hóf sinn stafsferil á Rjúpnahæð, en ég á frá honum skeyti sent af Fylki „gamla“ árið 1948.

Við skipinu tók síðar Auðunn Auðunsson alkunnur aflakóngur. Man ég vel eftir honum og þeim bræðrum og voru þeir alltaf góðir við okkur krakkana, þegar við komum í heimsókn um borð.

Í viðtali við Rafn Kristján Kristjánsson í Víkingi árið 2007 kemur fram að ríkið tekur Fylki á leigu og fara þeir að kanna Grænlandsmið. Virðist, sem þessi ferð sé farin 1954. Í einni af ferðum Fylkis á Grænlandsmið orti pabbi þetta ljóð:


 

Góður orðstýr fór af togaranum Fylki, skipstjóra og áhöfn og vitna ég hér aftur í viðtalið við Rafn er spyrjandi spyr:

„Það hefur líklega þurft að standa sig í stykkinu fyrst  þú varst skráður á jafnfrægt skip  hjá nafntoguðum skipstjóra?“

Enn vitna ég í Rafn í sama viðtali, en Rafn var skráður á togarann 1954:

„...Fylkir var ágætt skip og Auðunn Auðunsson var góður karl en sérstakur, fiskinn vel eins og allir þeir bræður. Á skipinu var fínn mannskapur, allt klárir menn og líklega hefur Fylkir verið með eftirsóknarverðari skipum togaraflotans til að komast í skipsrúm á.“ 

Í Mars 1954 segir frá því í dagblaðinu Vísi, að Fylkir hafi strandað við Engey:

“ Fylkir lagði úr höfn í Reykjavík á miðnætti á laugardeginum og ætlaði á veiðar, síðar gerðist það á aðfaranótt sunnudags , að skipið strandar austast á Engey og var þá háflæði. Skipið komst á flot aftur um 11.30 eins og fyrr segir, með aðstoð b.v. Péturs Halldórssonar. Fylkir reyndist ekki lekur, en verður tekinn upp í slipp í dag til athugunar. Sjópróf vegna óhapps þessa verður í dag.“

Árið 1956 tók Sæmundur bróðir Auðuns skipstjóra við forstöðu Fylkis h/f eftir lát Aðalsteins Pálssonar skipstjóra. Í júlí sama ár fór Sæmundur í fiskileit á b/v Fylki til Austur-Grænlands. Í þeirri ferð fundust gjöful fiskimið segir Einar Thorddsen í minnigargrein, sem hann skrifar um

Sæmund í Sjómannablaðinu Víking 1. Október 1977. Ein þessara fiskimiða voru nefnd Fylkismið samkv. ósk Sæmundar og heita þau það enn þann dag í dag. Af Fylkismiðum hefur komið mikill og góður afli, en ekki ber öllum frásagnarmönnum saman um hvenær Fylkismið fundust.

Í viðtali við Árna Jón Konráðsson í Sjómannadagsblaðinu 1. Júní 1966 – (http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4810258) segir hann m.a.

“Mér bauðst pláss á Nýjum Fylki vorið 1957. Á Fylki unnum við þau afrek, að við fundum hin svonefndu Fylkismið við Grænland og einnig Nýfundnalandsmiðin árið 1958).“

Til viðmiðunar tek ég hér aftur smákafla úr minningargreininni um Sæmund Auðunsson skipstjóra:

“Í apríl mánuði 1958 fór Sæmundur til fiskileitar á nýja Fylki til Austur-Grænlands og fékk þá góðan afla af þorski á Fylkismiðum, en það var í fyrsta skipti, sem þorskur veiddist  að nokkru marki við Austur-Grænland.... Síðar um sumarið fór Sæmundur tvær ferðir til fiskileitar á Nýfundnalandsmiðum. Í þessum ferðum fundust  áður óþekkt mið, sem voru nefnd Sundáll og Ritubanki og fékkst þar feiknamikill karfaafli. Þau karfamið voru síðan um árabil stunduð af íslenskum togurum með mjög góðum árangri“.

Eftir þessu að dæma má ætla að á “ gamla“ Fylki hafi þeir fundið Fylkismið, en  nýju miðin á Nýfundnalandsmiðum á „nýja“ Fylki.Segir ekki af ferðum Fylkis „gamla“ fyrr en hinn örlagaríka dag 14. Nóvember 1956. Skipið var að veiðum 25 sjm norðan af Straumsnesi og var búið að vera á miðunum fyrir vestan í 8 daga, en allan þann tíma hafði verið hið versta veður. Þennan morgun var veður með besta móti, en þó um 10 vindstig og mikill sjór. Kl 7:20, þegar skipverjar voru að taka inn belginn á vörpunni, varð skyndilega mjög mikil sprenging undir síðunni.

Rafn Kristján Kristjánsson skipverji á Fylki „gamla“ segir svo frá þessum degi í Sjómannadagsblaðinu 1. Júní 1996:

„Við höfðum verið að skvera og bæta á nóinu. Þetta var ósköp venjulegur túr og vorum við í verál fyrir austan Halann 25 sjm norðan af Straumnesi. Við vorum búnir að fá afla í 6 stíur, um það bil 80 tonn og höfðum verið að slóa. Hafði verið bræla og helvítis sjór en var að lægja. Við köstuðum snemma morguns og var ég á vakt. Náðum við rétt að kasta fyrir vaktaskiptin. Eftir hálfan annan tíma var híft og voru þá flestir á vaktinni komnir í koju, þar á meðal ég og var sofnaður í efri koju í klefa mínum og var um 60 cm frá rúmbrík í vegg. Þá vakna ég við það að ég kastaðist úr kojunni í vegginn (ég man að pabbi sagði svipaða sögu af sér, að hann hentist úr kojunni) og þaðan af veggnum niður á bríkina á neðri kojunni þar sem ég ranka við mér og reyni að skilja hvað gengur á. Ljóst er að eitthvað mikið hefur gerst. Straks kemur slagsíða á skipið og ég dríf mig í einhver föt og hugsa með mér að þá drepist maður síður úr kulda. Kem ég mér síðan upp á þilfar. Ljós loguðu á skipinu er hér var komið og ég sé að þar er allt í uppnámi. Stjórnborðstrollið hafði verið úti og höfðu bobbingar kastast yfir á miðju skips og forvængur trollsins kastaðist yfir mann, sem lá bjargarlaus undir því og mátti sig ekki hræra. Vegna hallans á skipinu var sjór farinn að ganga yfir hann undir netaflækjunni. Enginn hafði veitt þessu eftirtekt í uppnáminu, enda hafði spilmaður og sá mannskapur annar, sem á dekki var kastast yfir á bakborðssíðuna, þar sem enn var þurrt, en komin var um 60 gráðu slagsíða á skipið, er hér var komið sögu. ............... Stjórnaði Þorbjörn Þorbjörnsson bátsmaður aðgerðum á bátaþilfari, en Jörundur Sveinsson loftskeytamaður og aðrir yfirmenn reyndu að koma skilaboðum til umheimsins úr brú og skutu að auki neyðarflugeldum. Ekkert var vitað um hvort til okkar hafði sézt eða heyrzt. Fórum við nú að fást við stjórnborðsbjörgunarbátinn en vonlaust var að eiga við bakborðsbjörgunarbátinn vegna slagsíðunnar. Davíðurnar (Upphengjur f. Björgunarbáta) stóðu á sér en okkur tókst að losa bátinn og fíra honum í sjóinn á réttum kili óskemmdum og má segja að það hafi verið einstök heppni. Allir komust þurrir í bátinn utan einn og annar hafði farið úr axlarlið. Þórður 3. vélstjóri fór síðastur í bátinn, en hann hafði klætt sig uppá í hvíta skyrtu, dökkt hálsbindi og jakkaföt. Eins gott að ganga á vit örlaganna þokkalega til hafður (Samvæmt munnlegri frásögn Steinunnar Sveinsdóttur fór Jörundur Sveinsson loftskeytamaður síðastur frá borði og sá til þess að allir kæmust í bát og fleka. Aths. HJ). Það liðu ekki nema 17 mínútur á milli þess að sprenging varð við stjórnborðssíðuna og að björgunarbáturinn var sjósettur. Pokamaður hafði séð dufl í vörpunni, en menn gáfu því ekki sérstakan gaum, dæmi voru um slíkt áður og hvarflaði ekki að neinum, að þau gætu verið virk eftir allan þennan tíma á hafsbotni. Það sem líklega hefur bjargað okkur og því að skipið fór ekki niður á skemmri tíma, var það að fiskur var kominn í öftustu stíurnar þar sem duflið sprakk. Nú var skipið orðið mikið sígið en hafði rétt sig nokkuð af. Ljós loguðu enn enda ljósavélin staðsett nokkuð hátt í skipinu yfir aðalvélinni. Sjó var verulega farinn að lægja. Nokkrir menn, sem voru á fleka (6 menn, þar á meðal Jörundur Sveinsson. Aths.HJ) voru teknir um borð í bátinn, sem nú var orðinn nokkuð siginn með 32 menn innanborðs. Var það einkennileg tilvera að vera þarna á opnu úthafinu eftir það sem á undan var gengið. Skipið seig æ meir og að lokum slokknuðu ljósin. Við höfðum róið nokkuð frá skipinu og tekið mennina úr flekanum í bátinn og fylgdumst allir þögulir með helstríði farkosts okkar. Hvalbakur Fylkis var það síðasta, sem við sáum af honum og svo var sögu hans lokið. Við vorum í úthafinu í opnum báti óvarðir fyrir veðrum og vindum. Eflaust hefur margt farið um huga manna á þessu andartaki er hið farsæla skip, Fylkir, var á leið niður á hafsbotn. Það er heldur ekki háttur sjómanna að bera áhyggjur sínar á torg eða fjalla um þær opinskátt. Það sem öllu skipti þó á þessari ögurstundu undir hausthimninum var að allir voru heilir, hverju sem það má þakka. Æðruleysi var það sem einkenndi þennan hóp á úthafinu í einum

troðfullum björgunarbát. Skelfing var víðsfjarri, allir voru rólegir. Eflaust hefur hjálpað að vitað var af skipum í kring að veiðum og því treyst að okkur yrði komið til hjálpar. Enginn maður var í björgunarvesti þótt þau hafi verið um borð. Enginn hafði neitt meðferðis nema fótin, sem hann stóð í . Eftir skamma stund kom togarinn Hafliði frá Siglufirði og bjargaði okkur. Þeir höfðu verið skammt undan og séð flugeldana. Blys voru í lífbátnum, sem við gátum kveikt á þannig að tiltölulega vel gekk að finna okkur. Fleiri skip komu síðan í kjölfarið...... Hafliði fór með okkur til Ísafjarðar og þar vorum við myndaðir í bak og fyrir og tekin við okkur viðtöl. Okkur var veitt aðhlynning á Hjálpræðishernum og síðan sótti varðskipið Þór okkur og fór með okkur til Reykjavíkur. Við vorum um hríð heimsfrægir um allt Ísland og það var mikið látið með okkur og forsjónin var okkur hliðholl.“

Í gegnum árin hefur áhöfn gamla Fylkis hitst með jöfnu millibili og þegar viðtalið við Rafn var tekið árið 1996 voru ekki nema 8 eftir á lífi af áhföninni. 7 mættu á samkomuna 1996.

Margar frásagnir hef ég rekist á af þessum atburði, en þetta er sú ítarlegasta, ég læt samt inn hér nokkrar þeirra.

 

M.a. stendur á blogsíðu Ólafs Ragnarssonar(http://solir.blog.is/blog/solir/entry/327942/):

Síðan tók ungur maður Auðunn Auðunsson við skipstjórn. ....... Var hún svo kröftugt (sprengingin) að allt færðist úr lagi um borð í togaranum: ljósavél hans stöðvaðist, loftnet slitnuðu niður, þungar hurðir í skipinu fóru af hjörum og þeir skipverjar sem voru í kojum sínum, köstuðust fram á gólf. Það leyndi sér ekki að það myndi hafa verið tundurdufl sem sprakk undir síðu skipsins. Hafði það tætt stórt gat á fiskilest  þess og fossaði sjórinn þar inn. Í fyrstu gerðu skipverjar sér vonir um að unnt yrði að bjarga skipinu með því að beita öllum dælum þess.

Strax eftir sprenginguna hafði Jörundur Sveinsson sent út neyðarkall en hann var ekki viss hvort nokkur hefði heyrt það vegna þess að loftnetin höfðu slitnað sem fyrr segir. Það var vitað af skipum ekki langt í burtu og því skotið upp neyðarflugeldum. Auðunn hafði eftir að menn höfðu komið björgunarbát og fleka skipað mönnum sínum að yfirgefa skipið. Flestir mannanna komust í björgunarbátinn, en nokkrir á flekann. Þeir voru síðan teknir um borð í bátinn. Allir mennirnir, að tveim undanskildum, voru ómeiddir..Ólafur Halldórsson, háseti, sem hafði farið úr axlarlið og Gunnar Eiríksson sem hafði fallið í sjóinn er hann ætlaði að stökkva um borð í björgunarbátinn. Náðist Gunnar brátt, en þá hafði hann sopið nokkurn sjó og var orðinn þrekaður. Stuttu seinna hvarf happaskipið Fylkir í djúpið.b/v Hafliði undir stjórn Alfreðs Fimbogasonar bjargaði nokkru seinna skipsbrotsnönnum.

Bátsmaðurinn á togaranum, Hafliða, Guðmundur Arason, segir svo frá björgun áhafnarinnar á „gamla“ Fylki, en hann hafði sjálfur lennt í að skip, sem hann var á strandaði: Tveimur árum seinna var ég á togaranum Hafliða. Við björguðum þá áhöfninni á togaranum Fylki sem sökk eftir að hafa fengið tundurdufl í trollið. Við vorum við veiðar og hífðum í hvelli og sigldum í áttina til þeirra. Ég var frammi á bakka ásamt fyrsta stýrimanni. Þetta var seint að nóttu í október(14.nóv.(hj)) og þarna byrjaði ég skyndilega að kjökra. Ég skildi ekkert hvað var að gerast með mér. Síðar meir skildi ég að þetta hefur bara verið einhver uppsöfnuð spenna sem ég hafði ekki getað losnað við síðan úr strandinu á Agli rauða. Sem betur fer var myrkur þannig að enginn sá hvernig komið var fyrir mér. Mér fannst það hin mesta skömm að standa þarna kjökrandi á leiðinni að bjarga heilli skipshöfn.

 

 

 

 

Nýji“ Fylkir – RE 171

Tveimur árum eftir að „gamli“ Fylkir sökk og 35 árum eftir að „gamli“ Fylkir var tilbúinn hljóp nýtt skip af stokkunum hjá Cook Welton&Gemmel í Hull í Englandi. Það hlaut nafnið Fylkir RE 171. Eigendur hins nýja skips var Fylkir h/f í Reykjavík. Við skipstjórn á hinu nýja skipi tók Auðunn Auðunsson. Hann var svo með skipið í nokkur ár þar til Gunnar Auðunsson bróðir hans tók við skipinu.

Ég man greinilega eftir þeim spenningi, sem var á mínu heimili meðan beðið var eftir að „Nýji“ Fylkir kæmi í höfn í Reykjavík og í langan tíma þar á undan. Pabbi ásamt áhöfninni fór til Hull að sækja nýja skipið. Við ásamt öðrum ættingjum áhafnarinnar stóðum svo prúðbúin á höfninn, þegar skipið sigldi inn í Reykjavíkurhöfn.

Í Þjóðviljanum 7. Júní 1958 stendur undir fyrirsögninni:

Fylkir, nýjasti togari Íslendinga, kom til Reykjavíkur í gær“.

„Íslenzka togaraflotanum hefur nú bætzt nýtt og glæsilegt skip b.v. Fylkir RE 171. Togarinn kom til Reykjavíkur árdegis í gær, en hann er keyptur af útgerðafélaginu Fylki h/f í stað samnefnds skips er félagið átti áður og sökk eftir að tundurdufl hafði spurngið við síðu þess í nóvember 1956.

Togarinn Fylkir er 644 brúttólestir að stærð en nettólestartalan er 222. Hann er því álíka stór og nýsköpunartogararnir, en lestarrýmið er þó meira, en í þeim flestum eða samtals 17500 rúmfet. Lengd nýja togarans er 166 og hálft fet, breidd 32 fet og dýpt 17 fet. Aðalaflvél skipsins er dísilvél að gerðinni Werkspoor, 8 strokka, 1400 hestafla og snúningshraðinn 245 á mín. Ganghraði í reynsluför var 14,2 sjómílur. Vélin er talin mjög sparneytin, meðal ganghraði skipsins á heimleiðinni var t.d 11 og hálf sjómíla og olíuneyzlan á sólarhring 2 og hálft tonn.

Fylkir er að sjálfsögðu búinn öllum nýjustu og bestu siglingatækjum: gýróáttavita, sjálfstýringu, ratsjá, tveim dýptarmælum, fisksjá osfrv. Loftskeytatækin og öll siglingatæki, nema þau tvö sem fyrst voru talin að framan, voru smíðuð í Englandi og er Fylkir fyrsti íslenzki togarinn, sem smíðaður er eftir stríðið og búinn slíkum enskum tækjum. Á togaranum er einn björgunarbátur af venjulegri gerð og rúmar hann alla skipshöfnina í einu, en auk þess eru um borð gúmmíbjörgunarbátar, sem rúma myndu tvær skipshafnir ef til kæmi. Björgunarbátinn, hinn stærsta, á að vera hægt að setja út á 20 sekúndum. Fylkir er smíðaður í Beverley i Englandi í sömu skipasmíðastöðinni og á sama sleðanum og gamli Fylkir. Smíðin hófst í september 1957. Skipstjóri á Fylki er Auðunn Auðunsson, 1. Stýrimaður Helgi Ársælsson og 1. Vélstjóri Viggó E. Gíslason. Togarinn mun halda á ísfiskveiðar fyrir innanlandsmarkað“.

 

Fylkir kominn aftur í tölu íslenzkra togara

-Ýmsar nýjungar eru þar um borð-

„Nafnið Fylkir, sem féll út af skipaskrá togaranna i nóvember 1956 hefur nú verið fært aftur inn á þá skrá með einkennisstafina RE 171. – Nýji Fylkir,eign hlutafélagsins Fylkis hér í Reykjavík sigldi inn á Reykjavíkurhöfn laust fyrir hádegi í gær. Er hinn nýji togari, sem byggður er í Bretlandi, hið glæsilegasta skip.

Hinn kunni togaraskipstjóri og síðan útgerðarmaður Aðalsteinn heitinn Pálsson stofnaði hlutafélagið Fylki og keupti, er nýsköpunartogararnir vouru byggðir, eldri Fylki, sem fórst á Halamiðum í nóvember 1956 í nóvembermánuði 1956, er tundurdufl sprakk í vörpunni undir skipinu. Aðalsteinn var þá fallinn frá, en áður var orðinn framkvæmdarstjóri hlutafélagsins, Sæmundur Auðunsson, skipstjóri, einn kunnasti aflamaður togaraflotans. Hóf félagið þegar í stað eftirgrennslan um kaup á togara, og varð það úr, að í febrúar 1957 fékk Fylkir h/f smíðasamning við Beverley skipasmíðastöðina, sem smíðaði eldri Fylki, um smíði á um 176 feta togara, rúmlega 640 tonna. Hófst svo smíði togarans í september síðastl.

Í gærdag bauð Sæmundur Auðunsson blaðamönnum að skoða togarann en á skipsfjöl bauð bróðir hans, Auðunn, gesti velkomna um borð í skipið. Fylkir er dieseltogari, og var ganghraði hans í reynsluför 14, 2 mílur, en vélin er 1400 hestafla. Á heimleið frá Hull var siglt með 11 mílna hraða, og var togarinn 3 sólarhringa og 15 klst. hingað heim.

Auðunn Auðunsson skipstjóri taldi það einna helst frásagnarvert um skipið, að vél þess væri mjög sparneytin, eða færi með 2 og hálft tonn af svonefndri gasolíu á sólarhring. Aðalvélin er þannig byggð, að enginn gír er milli hennar og skrúfunnar, eins og var í gömlu gufutogurunum. Aðalvélin knýr rafal á siglingu, sem er fyrir allt rafkerfi skipsins. Spilið, sem er rafknúið, er rúmlega 300 hestafla og er fyrir það sérstök vél.

Fylkir mun vera fyrsti togarinn hér í Reykjavík, sem er með sjálfvirkt stýri, sem hægt er að setja i samband í lengri siglingum og síðan þarf ekki að fást um stefnuna og aðeins einn mann þarf í brú til að vera á varðbergi. Getur sá án efa gripið í stýrið, ef eitthvað óvænt ber að höndum og skyndilega þarf að breyta stefnu skipsins. Þá er Fylkir fyrsti togarinn, þar sem aðeins einn björgunarbátur er á bátapalli. Hægt er að setja hann hvoru megin, sem vill og tekur aðeins 20 sekúndur. Hann getur borið alla áhöfn skipsins – en auk hans er á skipinu gúmmíbjörgunarbátar mjög burðarþolsmiklir hver um sig.

Fylkir er fyrsti togarinn, sem byggður er eftir stríð, þar se öll siglingatæki og loftskeytastöð eru að öllu leyti brezk smíði, en hann er búinn öllum þeim öryggis- og fiskveiðitækjum, sem nú tíðkast.

Auðunn skipstjóri skýrði frá því að togarinn væri nokkuð breiðari, en tíðkast hefði um smíði togara af þessari stærð. Væri það m.a. vegna þess að eftir að sjóslysið mikla varð hér á árunum út af Horni, er tveir brezkir togarar – annar nýbyggður – fórust, þá var talið að óstöðugleiki skipanna hefði átt sinn þátt í hversu fór. Var því stöðugleiki togaranna aukinn, og er Fylkir einn þeirra.

Þá sýndi Auðunn blaðamönnum dálitla möppu, þar sem gefnar eru nákvæmar upplýsingar um það hvernig togarinn hagaði sér undir mismunandi hleðslu. Sagði hann, að þetta væri nýmæli í brezkum skipasmíðum, að láta slíka möppu fylgja, til frekari glöggvunar fyrir skipstjórnarmenn, varðandi sjóhæfni skipsins undir hinum ýmsu kringumstæðum.

Athyglisvert er hversu brúin á Fylki er lítil, t.d. miðað við togara bæjarútgerðarinnar, Þormóð goða. Auðunn sagði að vegna þess þyrfti ekki að hafa hreifanlegt stýri, því auðveldlega sæist frá stýri, þegar verið væri að toga. Þar er og miðsöð hátalarakerfis, sem er um allt skipið og fram á þilfarið

Hinir kunnu bræður, sem báðir hafa víðtæka þekkingu á öllu, sem lýtur að hæfni togara og um góðan frágang á öllu handbragði, kváðust vera mjög ánægðir með hinn nýja togara, er kostaði kringum 260 þúsund sterlingspund, sem er tæplega 12 milljónir króna.

Þegar blaðamennirnir höfðu óskað bræðrunum til hamingju með skipið og voru að fara í land, mættu þeir ýmsum gömlum togaramönnum, t.d. kom þar léttur í spori Halldór skipstjóri frá Háteigi Þorsteinsson. Nokkru á eftir honum kom svo sjálfur fjármálaráðherrann, Eysteinn Jónsson, sem mun trúlega ákveða að hve miklu leyti hin nýju gjaldeyrisákvæði skuli taka til byggingarkostnaðar þessa glæsilega skips, sem senn mun halda á karfaveiðar fyrir innanlandsmarkað.“

Velgengni hins nýja togara Fylkis h/f var mikil og vitna ég hér í nokkrar sölufréttir:

Alþýðublaðið 3. Maí 1961:.

„Nú um mánaðarmótin hófust siglingar togaranna til Bretlands á ný eftir nokkurt hlé. Fyrsti togarinn, sem seldi í þessum mánuði var Fylkir er seldi í fyrradag. Seldi hann 219,5 lestir í Grimsby fyri 21.017 sterlingspund, sem er hærri sala en nokkur togari hefur fengið í Bretlandi fyrr eða síðar. Það er togaraverkfallið í Grimsby, sem veldur því, að verðið á fiski er svona hátt, þar eð framboð á fiski er mjög lítið í Grimsby núna. Landað var úr Fylki undir lögregluvernd, en ekki kom til árekstra.........Talið er nú í Grimsby að verkfalli togaranna þar fari að ljúka.“

Alþýðublaðið 10. Nóvember 1964:

„Togarinn Fylkir seldi í Cuxhaven í morgun(9.nóv) 126 tonn fyrir 104.782 mörk.“

Til gamans má geta þess að 45 skip voru strikuð út af skipaskrá á Íslandi árið 1966 þ.á.m. Fylkir RE 171.

Morgunblaðið 23.jan.1966:

„Nú hefir verið gengið frá sölu á togaranum Fylki, sem fyrir skemmstu fór í sína síðustu söluferð til Bretlands. Það er útgerðarfélagið Newington i Hull, sem fest hefir kaup á togaranum, en útgerðarfyrirtæki þetta hefir um langt árabil átt ýmsa aflahæstu togara Breta; átti aflahæsta skipið 1965 og 1963. Er það togarinn Summerset Maugham. Togarfyrirtæki þetta hefur nokkuð komið við sögu landhelgisgæzlunnar hér, en einn af skipstjórum þess, Richard Taylor, sem er kunnur aflamaður, afplánar nú dóm fyrir landhelgisbrot á Litla-Hrauni“.

Í kringum árið 1966 hófust  endalok síðutogaranna og var Fylkir m.a. seldur eins og fyrr segir til Bretlands til Newington Steam Trawling Co Ltd. Í Hull og fær togarinn nafnið „Ian Flemin“ H396. 25. Desember 1973 strandaði skipið á skeri inni á Havoysundfjord. Þrír menn drukknuðu og í kjölfarið missti skipstjórinn David Atkinson skipstjórnarréttindi sín í 2 ár. Skipið sökk svo við skerið 5. Janúar 1973.

 

Hér með lýkur endanlega ferli þessa ágætis skips, sem ég þekkti svo vel á meðan það sigldi undir nafninu Fylkir og var svo stór hluti af lífi okkar fjölskyldu og hvað mest að sjálfsögðu pabba.

Eftir að Fylkir var seldur úr landi var reiknað með að Fylkir h/f myndi kaupa nýtt skip í staðinn en samkvæmt frétt í Tímanum 16. Mars 1966 segir:

“ Sæmundur Auðunsson tjáði Tímanum í dag að hætt hafi verið við kaup á nýjum togara. Þær breytingar hafi orðið að Sæmundur hafi gengið úr félaginu, en aðaleigendur verða synir Aðalsteins heitins Pálssonar fyrrum skipstjóra og framkvæmdarstjóra félagsins. Enn er ekki ráðið á hvaða grundvelli Fylkir hf mun starfa, en líklegt að tilgangi félagsins verði eitthvað breytt. Félagið athugaði með kaup á skuttogara en hann reyndist dýrari í innkaupi en gert var ráð fyrir í fyrstu, og svo þykir ekki ástæða til að vera bjartsýnn í sambandi við togaraútgerð eins og horfurnar eru núna. Fylkir h/f var stofnsett 1925 og hefur jafnan þótt traust fyrirtæki“.

Ekki voru öll þessi Fylkisárin rósrauð eins og sjá má af því, sem skrifað er hér, heldur gekk þetta upp og niður eins og gengur. Verkföll, landhelgisstríð, fyrra skipið sekkur og hið síðara selt. Allt þetta hrysti upp í öryggistilfinningunni hjá foreldrum mínum, þegar pabbi þurfti í millibilsástandi að flakka í afleysingar á milli skipa. Um tíma var hann í afleysingum hjá Eimskip og eftir að Fylkir var seldur fór hann svo á togarann Víking.

 

 

 

Kommentarer

18.03.2015 21:00

helga Jörundsdottir

Yljar mér um hjartaræturnar að lesa þetta <3