Ættir Helgu í beinan kvenlegg
Faðir Magnúsar Þorkelssonar var:
Þorkell Guðbjartsson
Fæddur um 1400. Látinn 1483. Prestur frá 1423 eða 1424, hélt Múla í Aðaldal til 1430-40, Helgastaði í Reykjadal 1440-49 og Laufás 1449-83. Varð mjög auðugur og kallaður “Galdra-Keli”. Nefndur Þorkell Guðbrandsson í bréfi, sem greinir frá kaupmála Guðrúnar dóttur hans og Eyjólfs Böðvarssonar. Líklega sá sem var skipaður ráðsmaður á Hólum árið 1423. Hann átti fylgikonu er ÞórdísSigurðardóttir hét 1410. Þau eignuðust þrjú börn:
- Ásgrímur 1435, bóndi á Norðurlandi
- Magnús 1440, lögréttumaður
- Þorbjörg 1440,
þar að auki átti Þorkell fimm börn, þar sem barnsmóður er ekki getið:
- Oddur um 1415 , bjó á Grýtubakka í Höfðahverfi og víðar
- Jón um 1440 bóndi á Þverá í Laxárdal
- Þorkell um 1440
- Guðríður um 1440
- Steinunn um 1440.
- Guðrún um 1430 barnsmóðir var Valgerður Magnúsdóttur um 1400-eftir 1465.
Hér læt ég fljóta með eina litla sögu af Guðbjarti “flóka”
“Guðbjartur prestur flóki í Laufási var mestur kunnáttumaður á sinni tíð, en gjörði engum mein með kunnáttu sinni, því hann var góðmenni mikið. Þó ýfðist Hólabisup við hann sökum galdraorðs þess, er lagðist á hann og ætlaði sér að setja hann af embætti. Fór hann að heiman í því skyni með nokkra presta og sveina, en þegar þeir voru komnir skammt að heiman, villtust þeir og vissu ekki hvar þeri fóru. Könnuðust þeir ekki við sig fyrr en þeir voru komnir aftur heim að Hólum og gengnir til stofu. Biskup réði samt til ferðar í annað sinn. Komst hann þá og menn hans norður á Hjaltadalsheiði. Gjörði þar að þeim fjúk með stríðviðri og gaddi, þó var ratljóst. Varð þá öllum þeim, er í ferðinni voru, snögglega mál að bjarga brókum sínum, en þegar þeir ætluðu að standa upp aftur gátu þeir það ekki. Lá þeim brátt við kali og sáu sér loks ekki annan kost en að heita því fyrir sér til lausnar sér, að snúa heim aftur og urðu þeir þá lausir og snéru heim aftur. Ekki var laust við að menn gjörðu gaman að ferðum biskups, en það henti séra Guðbjart aldrei. Kvaðst hann ætla að biskup hefði ekki ætlað að finna sig því til þess hefði hann ekki þurft að hafa fjölmenni.
Nokkru seinna var biskup á ferð við annan mann norður í Eyjafirði og gjörði þá ferð sína um leið heim til séra Guðbjartar. Tókst honum það greiðlega og hitti svo á að enginn var úti. Biskup gekk þegar til stofu. Sá hann að prestur sat þar við borð og studdi hönd undir kinn og haðfi bók fyrir sér. Biskup þreif bókina, en hvernig sem hann fletti henni sá hann ekkert nema óskrifuð blöðin. Biskup spurði prest, til hvers hann ætlaði þessa bók, en hinn kvaðst ætla hana undir prédikanir. “Þú held ég ætlir það”, svarar biskup reiðulega, “sem dýrkar djöfulinn”. En varla hafði hann sleppt orðinu, fyrr en hann sá gröf með bláleitum loga, og stóð hann sjálfur tæpt á barminum, en grá hönd greip i kápulaf hans og ætlaði að kippa honum í logann. Rak þá biskup upp hljóð og mælti: “Fyrir guðs skuld, hjálpið mér, herra prestur”. Rétti séra Guðbjartur honum þá hönd sína og sagði:”Slepptu honum kölski”. Færðist þá allt í samt lag aftur. Prestur mælti þá:”Það er von, að óvinurinn sé nærri þeim, sem bera nafn hans í munni sér og biðja ekki um frið drottins yfir það hús, er þeir komu í. Það er ég vanur að gjöra og þó berðu mér á brýn að ég hafi sleppt réttri trú”. Biskup mýktist nú nokkuð í máli. Töluðust þeir þá lengi við tveir einir og skildu síðan með vináttu. Sagðist biskup vilja óska þess, að allir væru jafnguðhræddir menn og Guðbjartur sinn. Aldrei var á því endranær, að prestur beitti kunnáttu sinni, en undarlega þótti fara eftir forspá hans og fyrirbænum”. (Sagnakver Skúla Gíslasonar).
Faðir Guðbjarts "flóki" Ásgrímssonar var:
Ásgrímur Guðbjartsson
Fæddur um 1323-1399. Prestur á Bægisá frá því um 1379 til 1399. Espólín og Ann. segja hann son Guðbjarts Vermundssonar úr Færeyjum. S.D. getur þess til í Blöndu VII, 362-366 að hér hafi verið um mislestur í fornhandriti að ræða og hann hafi verið Ögmundsson, Þórðarsonar, Böðvarssonar í Bæ. Vermundur þessi skal hafa verið Loðinsson, Vermundarson, Steinsson, Höskuldsson, Hauksson, Þorkelssonar, en sá Þorkell var giftur Helgu "vænu" Þorsteinsdóttur. Vel má vera að þessi ættartala sé öll seinni tíma tilbúningur, því samtímaheimildir geta ekki þessara manna. EB. dregur þessa ættartölu í efa í ÍÆ. Hann átti tvo syni, en móður er ekki getið;
- Guðbjartur “flóki” um 1360 og
- Erlendur fæddur um 1370.
-------------------------------
Hér með lýkur ættartölu Oddnýjar Jónsdóttur, móður Helgu Magnúsdóttur, móður Margrétar Einarsdóttur, móður Hildar Jörundsdóttur.
--------------------------------
Faðir Helgu Magnúsdóttur var:
Magnús Snorrason
Magnús er fæddur í Gaulverjabæjarsókn 5. nóvember 1854 og skírður sama dag í Gaulverjabæ í Árnessýslu. Hann bjó á Syðri-Sýrlæk í Flóa(bjó þar frá 1891-1902), Árn. Síðast í Reykjavík. Hann giftist Oddnýju Jónsdóttur 1864-1950. Þau eignuðust níu börn þar á meðal Helgu.
Skv. Manntalinu 1870 er Magnús búsettur með foreldrum sínum og fjórum systkinum á Eyði-Sandvík, Kaldaðarnessókn, Árnessýslu.
18. nóvember 1881 giftist Magnús, á Stokkseyri í Árnessýslu, fyrri konu sinni Snjáfríði Jónasdóttur, fædd 1852. Magnús og Snjáfríður eignuðust tvö börn, son 25. Október 1881, hann var skírður Jónas 26. Október 1881 á Stokkseyri. Hann mun hafa látist ungur, en hvenær hann lést veit ég ekki. Dóttur eignuðust þau svo 1.ágúst 1882, hún var skírð Jarþrúður, en hún dó 9. ágúst og eiginkona Magnúsar, Snjáfríður, lést þann sama dag eða 9. ágúst 1882.
Foreldrar Snjáfríðar voru Jónas Jónsson og Jarþrúður Guttormsdóttir frá Neistakoti á Stokkseyri. (Jón bróðir Snjáfríðar var hreppstjóri og verslunarmaður á Stokkseyri og reisti hann Jónshús, Guttormur bróðir Snjáfríðar fór vestur um haf 1889).
15. Ágúst 1885 giftist Magnús Oddnýju Jónsdóttur í Krossasókn í Rangárvallarsýslu.
Skv. Manntalinu 1890 eiga Magnús og Oddný þá tvö börn, Snjáfríði fædd 23. Október 1885 í Landeyjum, skírð 24. Okt. sama ár í Krossi og Ásmund Jón fæddan 13. Desember 1888, skírður 17. Desember sama ár. Þau eru á þeim tíma búsett í Garðhúsum í Gaulverjabæ og vinnumaður hjá þeim er yngsti bróðir Magnúsar er Þorgils hét. Magnús er þá bóndi í Garðhúsum.
1901 býr Magnús með konu sinni og börnum , sem þá eru orðin sjö, á Syðri-Sýrlæk í Villingaholtssókn og er hann húsbóndi þar. Nú hafa sem sé bætst við fimm börn og þau eru Helga fædd 19.ágúst 1891, Jón fæddur 13. September 1893, Snorra Júlía fædd 1. júlí 1895, Ellert Kristinn fæddur 1. Maí 1897, Guðrún fædd 5. júní 1898, og Marta fædd 30. Mars 1900. Á milli Ásmundar og Helgu fæddist drengur 13. Ágúst 1890, skírður 16. Ágúst í Gaulverjabæ og fékk hann nafnið Helgi. Hann mun hafa látist mjög ungur eða trúlega sem ungabarn(hans er ekki getið í Ísl.bók).
17. sept. 1887 hafa þau hjón eignast dreng, sem skírður var 20. sept. sama ár í Gulverjabæ. Hann hefur trúlega látist á fyrsta ári en hann fékk nafnið Ásmundur Jón.
26. Júlí 1903 deyr Magnús, 48 ára gamall, og er þá sagður búsettur í Reykjavík, en það sama ár eignuðust þau Oddný og Magnús sitt yngsta barn Magneu Láru fædd 11.mars 1903. Árinu áður eða 1902 fluttu þau Magnús og Oddný til Reykjavíkur.
Magnús er jarðsettur í Hólavallagarði v/Suðurgötu í Reykjavík. Reitur T-0118.
Faðir Magnúsar Snorrasonar var:
Snorri Bjarnason
Fæddur í Stokkseyrarsókn, Árn. 1809. Látinn í Eyði-Sandvík 20. janúar 1881.
Snorri var fæddur 1809 í Stokkseyrarsókn, búsettur í Vestra Stokkseyrarseli 1818 og fara síðan ekki sögur af honum fyrr en 1835 en þá er hann búsettur í Stokkseyrarseli austra, Stokkseyrarsókn með foreldrum sínum þeim Bjarna Guðmundssyni og Vigdísi Símonardóttur og yngri bróður er Nikulás hét. Snorri er þá 25 ára og Nikulás 22 ára. 30 ára gamall er Snorri ráðsmaður hjá ekkjunni Þórunni Bjarnadóttir í Gljákoti hjáleigu í Gaulverjabæjarsókn.
Árið 1845 er Snorri bóndi í Votmúlahjáleigu, Laugardælssókn í Árnessýslu og er með grasnyt. Hjá honum er vinnumaður eldri bróðir hans Símon og bústýru hafði hann einnig. Bjó í Ásakoti í Flóa og flutti þaðan 1848 að Eystra Stokkseyrarseli og bjó þar til 1856.
Þegar komið er fram til ársins 1850 er Snorri giftur maður og bóndi i Eystra-Stokkseyrarseli hjáleigu í Stokkseyrarsókn. Kona hans var Helga Jónsdóttir, en þau giftu sig 11. nóvember 1849. Helgaer fædd í Voðmúlarstaðarsókn í Rangárvallarsýslu 6.febrúar 1829 og því 20 árunum yngri en Snorri. Ingveldur Björnsdóttir er fyrrum var bústýra hjá Snorra í Votmúlahjáleigu er nú vinnukona hjá þeim hjónum Helgu og Snorra. Á heimilinu eru einnig Þuríður Arnoddsdóttir móðir Helgu og seinni maður Þuríðar, Magnús Guðmundsson fyrrum bóndi á Arnarhóli (árið 1855?) og einn son eiga þau þá Helga og Snorri, en það er Magnús, sem þá er eins árs. Einn vinnumann eru þau með og eina vikastúlku 12 ára (vinnukonur, sem gerðu allt sem til féll á heimili).
Stokkseyrarsel var greinilega tvíbýli og bjó bróðir Snorra, Nikulás(f.1812), einnig á Stokkseyrarseli hjáleiga með konu sinni Vilborgu Jónsdóttur og þremur börnum þeirra hjóna Bjarni Nikulásson 5 ára, Vigdísi Nikulásdóttir 2 ára og Snjáfríði Nikulásdóttur 3 ára.
Árið 1860 eru þau hjón Snorri og Helga flutt á Krók í Kálfholtssókn og er Snorri bóndi þar. Nú eru börn þeirra orðin þrjú og við hafa bætst Elín 5 ára og Guðmundur 5 ára. Enn búa á heimilinu móðir Helgu, Þuríður og hennar maður Magnús, einnig er miðaldra vinnukona á staðnum.
Árið 1870 hafa þau hjón Snorri og Helga enn flutt sig um set og búa nú á Eyði-Sandvík, Kaldaðarnessókn í Árnessýslu. Þuríður móðir Helgu er nú látin en hún lést 1864 og trúlega er maður hennar Magnús einnig látinn, allavega er hann ekki á heimilinu lengur. Börnin eru hins vegar orðin fimm og eru þau Magnús, Elín, Guðmundur, Nikólína Kristín og Þorgils. Einn niðursetningur er á heimilinu, 9 ára gömul stúlka, en ekkert vinnufólk.
Snorri lést á Eyði-Sandvík 20. janúar 1881, en Helga kona hans lifir til ár 1900. Hvar hún hefur verið þessi síðustu 19 ár er ekki alveg á hreinu hjá mér og manntalið 1890 er eilítið dularfullt í mínum augum, trúlega vegna þess að ég þekki ekki vinnuhætti þeirra er það tók. Það sem ég kemst næst er að Helga hafi verið staðsett í Sandprýði í Stokkseyrarsókn árið 1890, en er skrifuð hjá syni sínum í Garðhúsum Magnúsi Snorrasyni. Hún er þó ekki skráð undir því bæjarnafni í manntalinu 1890, en þar hafði hún þó lögheimili sitt. Hún er aðeins ein af fleiri heimilismönnu í Sandprýði sem eru með lögheimili annars staðar jafnvel í öðrum sýslum. Húsið Sandprýði er byggt árið 1889.
Helga lést 30. Apríl 1900 í Hafnarfirði og geri ég ráð fyrir að hún hafi þá verið til heimilis hjá dóttur sinni Elínu Snorradóttur án þess þó að hafa neinar sannanir fyrir því, en Elín var búsett í Gerði í Hafnarfirði í mörg ár.
(Manntölin eru stundum erfið viðureignar, því þau virðast ansi ónákvæm bæði í nöfnum og ættartengslum. Er þá ekki annað að gera en leita í sem flestum heimildum til að reyna að komast að réttri niðurstöðu. Svo er um heimilisfólkið á heimili Snorra og Helgu árið 1855 en þar eru sögð í heimili Þuriður Arnadóttir(Þuríður Arnoddsdóttir eftir því sem ég kemst næst móðir Helgu) og er hún þar sögð fósturmóðir Helgu og maður Þuríðar er þar sagður Magnús Guðmundsson fósturfaðir Helgu. Sannleikurinn mun fremur vera sá að Þuríður er móðir Helgu, en Magnús fósturfaðir. Ekki kemur fram í Íslendingabók að Þuríður hafi gifst aftur eftir að maður hennar Jón Filippusson lést. Það virðist þó vera reyndin og í manntalinu 1835 er Þuríður Arnoddsdóttir gift bóndanum á Arnarhóli í Voðmúlastaðasokn Magnúsi Guðmundssyni, sem er níu árunum eldri en Þuríður.)
sjá má nánar um Helgu konu Snorra á bls. ca. 80 Þau eignuðust fimm börn:
1. Magnús 1854, sjá meira um Magnús hér fyrir ofan.
2. Guðmundur er fæddur árið 1856 í Stokkseyrarsókn. Samkvæmt síðu, sem heitir „Iceland Baptisms, 1730-1905” er hann fæddur 25. janúar og skírður sama dag, skv.Íslendingabók er hann fæddur 24. Janúar 1856.
Skv. Manntalinu 1890 er Guðmundur bóndi og húsbóndi í Árnatótt í Stokkseyrarsókn og kona hans Þuríður húsfreyja á sama stað.
8. júlí 1888 giftist Guðmundur Þuríði Arnoddsdóttur, hún var fædd í Voðmúlastaðasókn 8. Apríl 1851 og skírð 14. Apríl sama ár. Faðir hennar Arnoddur var eina systkini Helgu Jónsdóttur móður Guðmundar Snorrasonar.
Í manntalinu 1901 er hann hjú hjá systur sinni Elínu Snorradóttur í Gerði í Garðasókn, Þuríður kona Guðmundar var einnig hjú hjá Elínu þetta ár.
Í manntalinu eru þau sögð hafa átt 3 börn en þau voru öll látin árið 1901. Skv. Annarri heimild fæddist þeim sonur 28. Okt. 1884 og var hann skírður sama dag á Stokkseyri, og fékk nafnið Guðmundur, en hann mun vera eitt af þremur látnum börnum þeirra.
Skv. Manntalinu 1910 býr Guðmundur með konu sinni Þuríði í húsi G.Gíslasonar&Hay í Hafnarfirði og stundar hann þar ýmsa landvinnu. Þau hjón eru enn skráð sem foreldrar 3ja látinna barna og ekkert á lífi.
Þuríður lést 13. Mars 1921(skv. Kirkjugörðum.15. mars) og jarðsett 21. Mars. Þau hjón voru þá búsett á Hverfisgötu 83 í Reykjavík “Bjarnaborg“.
Guðmundur lést 25. Mars 1930, þá 75 ára að aldri. Guðmundur var við andlát sitt búsettur á Hverfisgötu 83 í Reykjavík.
Guðmundur er jarðsettur í Hólavallagarði v/Suðurgötu í Reykjavík-reitur B-13-0008, kona hans Þuriður er jarðsett í sama garði reitur-B-13-0009.
3 . Elín er fædd í Stokkseyrarsókn 25. Janúar 1856 skv.Íslendingabók, hins vegar er hún skv. Manntali 1901 fædd 1846 og skv. Heimasíðu Brúsaættar er hún fædd um 1846. Og skv. Iceland Baptisms, 1730-1905 er Elín fædd 1856 og sögð hafa verið skírð sama dag. Veit ekki hvað er réttast hér.
Elín giftist 9. febrúr 1876(eða 1877, heimildum ber ekki saman um það) Friðrik Friðrkssyni Welding fæddur 31. janúar 1846, sjómaður, hann lést 1891 Þau eignuðust tvö börn:
Snorra Frímann fæddur 15. febrúar 1881-22.janúar 1961
Helgu fædda 5. maí 1888-31.ágúst 1941
Elín átt þar að auki einn son Helgi Thorlacius Einarsson fæddur 4. Janúar 1886, látinn 10. Sept.1962. Faðir Helga var séra Einar Thorlacius prestur að
Saurbæ. Helgi giftist Sigríði Jónsdóttur frá Stöpum og bjuggu þau hjón lengst af á Tjörn á Vatnsnesi.
Í manntalinu 1890 og 1901 er hún húsfreyja í Gerði í Garðasókn.
Elín lést 6. september 1909 og er þá skrifuð á Hallveigarstíg 6(Helga Jónsdóttir segir það ekki getað passað þar sem ekki hafi verið búið að byggja þar þá, en upplýsingar um bústað við andlát er frá gardur.is) Hún var jarðsett í Hólavallagarði v /Suðurgötu í Reykjavík, reitur V-0229 og þar sögð 54 ára er hún lést.
4. Nikólína Kistín fædd 5. Desember 1863, skírð 19. Desember 1863 í Kálfholti í Rangárvallarsýslu.
Í manntali 1901 er Nikólína Kristín bústýra í Bjarnabæ, Garðasókn, Gullbringusýslu, þá 38 ára gömul, hún átti eina dóttur sem hét :
Álfheiður Ágústa Sveinbjörnsdóttir , fædd 7. ágúst 1891, hún lést aðeins 27 ára gömul 13. nóvember 1918 á heimili sínu Lindargötu 40 í Reykjavík.Dánarorsök þekki ég ekki, en á þessum tíma geysaði drepsótt mikil í Reykjavík, spánska veikin. Í manntalinu 1910 er Álfheiður sjúklingur á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum í Garðasókn. Faðir Álfheiðar var Sveinbjörn Ágúst(Nb. Ágúst eða Ásgeir??) Þorsteinsson Egilson fæddur 21. Ágúst 1863, hann lést 25. Október 1946. Nikólína Kristín og Sveinbjörn Ágúst voru ekki gift.
Í manntalinu 1890 er Nikólína vinnukona í Gerði í Garðasókn hjá systur sinni Elínu Snorradóttur
Nikólína Krístín flutti í Garðasókn 1890 og er Álfheiður Ágústa fædd í sömu sókn.
Nikólína Kristín lést 17. Október 1942 og er jörðuð í Hólavallagarði við Suðurgötu í Reykjavík, reitur M-0128, þá 78 ára að aldri. Álfheiður Ágústa dóttir hennar var jarðsett í Hólavallagarði við Suðurgötu í Reykjavík, reitur M-128.
5. Þorgils er fæddur 20. Janúar 1868 í Eiði í Kaldaðarnessókn í Suðuramti og skírður 21. Janúar 1868 í Kaldaðarnesi. Í manntalinu 1890 er Þorgils vinnumaður hjá bróður sínum Magnúsi Snorrasyni í Garðhúsi , Gaulverjabæjarsókn í Árnessýslu. Þorgils er þá 22 ára og ókvæntur.
Árið 1898 giftist Þorgils, Elísabetu Einarsdóttur fædd 30. Sept. 1869 í Tungu í Ísafjarðarsókn
Skv. Manntalinu 1901 er hann búsettir á Króki í Selárdalssókn og vinnur við heyskap og að ró í skiprúmi og kona hans Elísabet er skráð, sem húsfreyja. Þau eignuðust eina dóttur , sem hét Helga Snorra og er fædd á Helli í Selárdalssókn 7. Janúar 1905.
Þau hjón bjuggu með dóttur sinni í Tjarnargötu 4 í Reykjavík skv. Manntalinu 1910. Þá er Þorgils skráður sem atvinnulaus eyrarvinnumaður.
Þorgils lést 7. Júní 1921 þá 53 ára að aldri og var þá búsettur í Bjarnaborg v/Hverfisgötu í Reykjavik. Hann er sagður hafa druknað við veiðar á hafi úti. Hann er jarðsettur í Hólavallagarði v/Suðurgötu í Reykjavík-reitur B-27-0016.
Eftir því sem ég kemst næst fer kona hans Elísabet með dóttur þeirra hjóna Helgu Snorra til Kanada árið 1921 þar sem þær setjast að í Churchbridge í Saskatchewan í Kanada. Elísabet lést á elliheimili í Yorkton 23. Júní 1960 þá 91 árs.
Helga Snorra Þorgilsdóttir giftist þar vestra Helga Narfasyni Vigfússyni og áttu þau 7 börn. Þau voru búsett í Tantallon í Saskatchewan í Kanada. Helga Snorra lést 23. Desember 1980.(Virðist hafa gengið þar vestra undir nafninu Helga Snorradóttir Vigfússon )
Bjarnaborg við Hverfisgötu (við Vitatorg, Hverfisgata 82)byggði Bjarni Jónsson snikkari árið 1902, timburhús á hlöðnum kjallara og voru upphaflega 15 íbúðir i húsinu, var það fyrsta eiginlega fjölbýlishúsið á Íslandi. Það var í einkaeikn til 1917, en þá keypti borgin það og fékk fátækranefndin það til umráða.
Faðir Snorra Bjarnasonar var:
Bjarni Guðmundsson.
Fæddur 1777. Látinn í Eystra-Stokkseyrarseli 27. ágúst 1845. Ekki er ljóst hvort/hvar hann er í manntali 1801. Húsbóndi í Vestra-Stokkseyrarsókn, Árn. 1818. Bjarni var giftur Vigdísi Símonardóttur 1772-1855. Afi Vigdísar var Eyjólfur “sterki” Símonarson, bóndi á Litla-Hrauni, sá er glímdi við “blámanninn”. Hún var í Syðraselinu Stokkseyrarhreppi 1801. Þau eignuðust fimm börn saman:
- Guðmundur 1801
- Benedikt 1802-1834
- Símon um 1803
- Snorri 1809
- Nikulás 1812-1863
- Nikulás 1812-1863.
Bjarni eignaðist síðan eina dóttur með Vigdísi Alexíusdóttur 1789 og hét hún Sigríður 1819, hún dó sama ár.
Á allhárri hæð vestan við vatnið stóð um margar aldir býlið Litla-Hraun
, en nú eru þar fjárhús frá Vinnuhælinu á Litla-Hrauni. Búskapur var oft með hinum mesta myndarbrag á Litla-Hrauni, t.d. var það um tíma sýslumannssetur.
Faðir Bjarna Guðmundssonar var:
Guðmundur Magnússon
Fæddur 1746. Látinn 1783. Bóndi á Litla-Hrauni , Eyrarbakkahrepp. Árn. Hann
var giftur Sigríði Bjarnadóttur fædd 1745. Þau eignuðust tvö börn:
- Ólöf 1777-1862
- Bjarni um 1777.
Ættir Sigríðar Bjarnadóttur eiginkonu Guðmundar Magnússonar::
Foreldrar Sigríðar Bjarnadóttur eiginkonu Guðmundar Magnússonar voru Bjarni Magnússon fæddur 1718, móður ekki getið. Bjarni lést litlu eftir 1775, hann var hafnsögumaður og hreppsstjóri á Litlu-Háeyri, hann drukknaði í sölvafjöru á Eyrarbakka, sonur Magnúsar Beinteinssonar fæddur um 1670, bóndi í Simbakoti í Eyrarbakkahreppi í Árnessýslu, Simbakot var hjáleiga frá Háeyri á Eyrabakk og var hann bóndi þar 1708, móður Bjarna og eiginkonu Magnúsar er ekki getið, en Magnús var sonur Beinteins Ólafssonar fæddur um 1630, hann var hreppstjóri á Ragnheiðarstöðum í Bæjarhreppi í Árnessýslu árið 1681, sonur Ólafs Beinteinssonar fæddur um 1600, hann var á Rangheiðarstöðum í Bæjarhreppi árið 1681. Ætt þessi er ekki rakin lengar aftur í Ísl.bók.
Faðir Guðmundar Magnússonar var:
Magnús Þórðarson
Fæddur 1705. Látinn eftir 1773. Bóndi á Litla-Hrauni á Eyrarbakka. Magnús var giftur Valgerði Sturlaugsdóttur 1713. Þau eignuðust eina dóttur :
- Ása 1743-1827.
Magnús átti þar að auki einn son:
2. Guðmundur 1746, móður hans er ekki getið í ísl.erfðagr.
Faðir Magnúsar Þórðarsonar var:
Þórður Pálsson
Fæddur 1668. Bóndi í Norðurkotinu, Stokkseyrarhreppi, Árn. 1703. Húsmaður í Vatakoti, tómthúsi við Skúmsstaði Stokkseyrarhreppi 1708. Húsmaður á Skúmsstöðum, Stokks. Árn. 1729. Kona hans var Guðrún Magnúsdóttir 1667, hennar ættir eru ekki raktar lengra aftur í Ísl. bók. Þórður og Guðrún eignðuðust tvö börn:
- Páll 1694, hann var í Norðurkotinu 1703
- Magnús 1705.
Lengar kemst ég ekki með föðurætt Magnúsar Snorrasonar, föður Helgu Magnúsdóttur, móður Margrétar Einarsdóttur, móður Hildar Jörundsdóttur, í beinan karllegg. Móðurætt Magnúsar Snorrasonar verður hins vegar rakin hér á eftir, í beinan kvenlegg:
Móðir Magnúsar Snorrasonar var:
Helga Jónsdóttir
Fædd í Voðmúlastaðarsókn, Rang. 1829. húsfreyja í Króki Kálfholtssókn, Rang. 1860. Húsfreyja í Eyði-Sandvík, Kaldastaðarnessókn, Árn. 1870 og 1880. Eiginmaður hennar var Snorri Bjarnason 1809-1881. Þau eignuðust fimm börn þar á meðal var Magnús 1854. Sjá nánar um börn við Snorra Bjarnason á bls. ca. 77.
Móðir Helgu Jónsdóttur var:
Þuríður Arnoddsdóttir
Fædd í Breiðabólsstaðarsókn í Fljótshlíð, Rang. 1790. Látin í Kálfholtssókn, Rang. 15. nóvember 1864. Var á Torfastöðum, Breiðabólsstaðarsókn í Fljótshlíð, Rang. 1801. Þuríður var gift Jóni Filippussyni fæddur á Arnarhóli í Landeyjum um 1792, þau giftu sig 1. nóvember 1822, hann lést 20. nóvember 1828, Þau eignuðust
- Helga 1827
- Arnoddur 1827-1916.
Móðir Þuríðar Arnoddsdóttur var:
Helga Einarsdóttir
Fædd í Breiðabólstaðarsókn í Rangárvallarsýslu árið 1755. Hún lést 18.júní 1820. Hún var húsfreyja á Torfastöðum I, Breiðbólsstaðarsókn í Fljótshlíð, Rang. 1793 og 1801. Hennar maður var Arnoddur Erlendsson fæddur 1739, þau Helga og Arnoddur giftu sig 06.11 1772 og áttu saman tvö börn:
- Erlendur fæddur 1773, dáinn sama ár
- Þuríður fædd 1790
Helga Einarsdóttir var dóttir Einars Guðmundssonar fæddur 1719, látinn 16.mars 1794. Hann var á Torfastöðum í Fljótshlíð 1793, hann bjó í Vatnsdal skv. Espólín. Hann átti tvær dætur, þær Helgu og Þuríði 1765. Móður þeirra eða eiginkonu Einars er ekki getið, svo lengra kemst ég ekki með beinan kvenlegg en rek hér á eftir ættir Arnodds Erlendssonar eiginmanns Helgu og föður Þuríðar.
Faðir Arnodds Erlendssonar var:
Erlendur Einarsson
Fæddur 1706. Látinn í Breiðabólsstaðarsókn í Fljótshlíð, Rang. 16. september 1767. Bóndi á Austur-Torfastöðum i Fljótshlíð. Rang. Hann var giftur Guðrúnu Magnúsdóttur um 1705 og eignuðust þau þrjú börn:
- Arnoddur 1739
- Hallbera 1741-1794
- Arnfríður 1744.
Faðir Erlends Einarssonar var:
Einar Jónsson
Fæddur 1662. Látinn 1707. Bóndi á Voðmúlastöðum , Austur-Landeyjahreppi, Rang. 1703 dó í bólunni. Einar giftist Guðrúnu Erlendsdóttur 1671-1707. Þau eignuðust fimm börn:
- Grímur 1969
- Sigmundur 1698
- Kristín 1702-1783
- Arnoddur um 1705
- Erlendur 1706.
Stórabóla
Stórubóluárin voru 1707-1709. Stórabóla og Móðuharðindin eru talin vera alveg óvanalegir atburðir, ekkert þeim líkt er þekkt í Íslandssögunni. Stórabóla var sótt, sem að kom miklu harðar niður á Íslendingum en íbúum hinna Norðurlandanna.
Í Mælifellsannál segir: Um sumarið 1707 “kom út mannskæð bólusótt á Eyrum suður úr fötum og kistu þess stúdents Gísla Bjarnasonar, er úr bólunni dó fyrir Noregi; var kista að gerð og síðan í sjóinn kastað. Bólan kom í Skagafjörð með þingmönnum að sunnan og lá hér fram yfir jól. Dóu margir.”
Ættir Einars Jónssonar eru ekki raktar lengra aftur í Ísl.bók, svo
hér á eftir verða raktar ættir Guðrúnar Erlendsdóttur í beinan karllegg:
Faðir Guðrúnar Erlendsdóttur var:
Erlendur Eiríksson
Fæddur um 1620. Bóndi líklega á Borg undir Eyjafjöllum. Hann var giftur Þorbjörgu Vigfúsdóttur um 1630. Þau eignuðust sjö börn:
- Steinunn 1657, húsfreyja í Skarðshlíð, Eyjafjallasveit 1703, var í Ysta-Skála, Eyjafjallasveit, Rang. 1729
- Guðlaug 1664, húskona á Barkastöðum,Fljótshlíðarhreppi, Rang. 1703, Búandi á Barkastöðum 1710
- Eiríkur 1669, bóndi á Barkastöðum Fljótshlíðarhreppi, Rang.1703, 1710 og 1729
- Sigurður um 1669, sennilega sá sem er 34 ára vinnumaður á Keldum, Rangárvallarhreppi 1703, var í Eyjum í Kjós 1710
- Kristín um 1670
- Guðrún 1671
7. Einar 1676-1707, lausamaðurá Barkastöðum 1703
Sjá nánar um Höfðabrekku-Jóku móður Þorbjargar Vigfúsdóttur á bls. ca 24. Móðurætt Þorbjargar er rakin í kvenlegg hér framar í skjali, en þar er systir Þorbjargar Dómhildur, í beinan kvenlegg frá Margréti Einarsdóttur 1922.
Faðir Erlends Eiríkssonar var:
Eiríkur Erlendsson
Fæddur um 1580, Bóndi á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum. Hugsanlega sá sem átti merka bók, sem síðar komst í hendur Árna Magnússonar handritasafnara. Með sömu rithönd og nafn Eiríks er ritað á bók þessa er einnig rituð staka. Hann var giftur Helgu Þorleifsdóttur um 1590. Þau áttu seks börn:
- Erlendur 1620
- Jón um 1620, bóndi á Egilsstöðum í Flóa,
- Einar um 1620
- Herdís um 1620
- Jón um 1620-1683, bóndi á Barkastöðum Fljóshlíðarhreppi, Rang.
- Gísli 1634.
Árið 1580, árið sem Eiríkur er fæddur gekk Kregðu(krefðu)bóla samkvæmt Skarðsannál og var það kallað Krefðusumar eða Kregðuár.(Kregða þýðir skv.Ísl.orðabók 3. útgáfu 2002 “sá sem borðar lítið” aðallega átt við börn , kregðulegur=Veiklulegur) “segja og útlenzkir annálar, þá hafi landfarasótt gengið um alla Norðurálfuna. Engingarsótt á Íslandi; dóu margir úr henni”
Faðir Eiríks Erlendssonar var:
Erlendur Hjaltason
Fæddur um 1540. Bóndi á Borg undir Eyjafjöllum. Getið í jarðarbréfi dags.8.8. 1587. Hann var giftur Guðrúnu Árnadóttur um 1550. Þau áttu fimm börn:
- Eríkur um 1580
- Björn um 1580
- Guðmundur um 1580
- Hjalti um 1580, bóndi á Stóru-Hildisey snemma á 17. öld.
- Guðrún um 1585 húsfreyja á Sólheimum í Mýrdal.
Faðir Erlends Hjaltasonar var:
Hjalti Magnússon
Fæddur um 1500. Látinn eftir 1570. Bóndi á Stóru-Borg og Teigi í Fljótshlíð, Rang. Nefndur “Barna-Hjalti” “Lítillra manna”,segir Espólín. Hann var giftur Önnu Vigfúsdóttur um 1500-fyrir 1572. Um hana hefur Jón Trausti skrifað bókina “Anna á Stóru-Borg”. Á lífi 1570. Þau áttu fimm börn:
- Kristín um 1530-1603, húsfreyja í Fíflholti, barnlaus,
- Magnús um 1535, lögréttumaður í Teigi í Fljótshl.,
- Vigfús um 1535, bóndi í Hildisey,
- Hjalti um 1535,
- Erlendur um 1540.
Um "Barna-Hjalta" og Önnu hafa ýmsar
sögur verið ritaðar og hér er hluti af því, sem skrifað hefur verið:
Anna á Stóruborg og Barna-Hjalti Pálsson
Þetta er væntanlega sagan sem Jón Trausti byggir skáldsögu sína um Önnu og Hjalta á. Þar er reyndar ýmis mál með öðrum hætti, enda hafa verið til mismunandi útgáfur af sögunni um þau. Hjá Jóni Trausta bjargar meðal annars Hjalti Vigfúsi með því að stökkva á stöng yfir fljótið.
Vigfús Erlendsson á Hlíðarenda, lögmaður og hirðstjóri 1515, var maður ákaflega ríkur og mikill höfðingi. Hann átti Guðrúnu Pálsdóttir lögmanns á Skarði Jónssonar. Þeirra dætur voru tvær; Guðríður kona Sæmundar í Ási og Anna var önnur. Hún fór ógift frá föður sínum og að Stóruborg undir Eyjafjöllum, eignarjörðu sinni sem þá var einhver mesta jörð undir Fjöllum. Heyrt hefi ég að þar hafi verið sextíu hurðir á hjörum; er það oft talið um stærð bæja hvað margar voru hurðir á hjörum.
Anna gjörðist auðkona hin mesta og er það talið til marks um búrisnu hennar að hún hafði þrjú selstæðin: eitt í Seljunum, annað á Ljósadíla og þriðja á Langanesi. Sagt er að margir hafi beðið hennar, en hún verið mannvönd og engum tekið.
Hjá henni var smaladrengur sá er Hjalti hét Magnússon, lítilsigldur, en félegur. Einu sinni í kalsaregni um sumar eitt hafði Hjalti verið yfir fé og kom heim húðhrakinn og votur. Voru þá piltar hennar að nota rekjuna. Slógu þeir nú upp á glens við Hjalta og buðu honum ærið fé til að fara nú heim eins og hann var hrakinn og upp í hjá húsmóðurinni. Hjalti fór nú heim og upp í loftstigann, en er hann rak upp höfuðið leit Anna við honum. Varð hann þá einurðarlítill og dró sig í hlé. Þannig fór í þrjár reisur. Anna tók eftir þessu óvanalega einurðarleysi Hjalta og segir: „ Hjalti! Hvað er þér? “ Hann segir henni hvað vinnumenn hennar hefði lofað honum. „ Tíndu þá af þér leppana, drengur minn, og komdu upp í, “ segir hún. Afklæðir hann sig nú og fer upp í. Sofa þau nú fram eftir deginum eins og þeim líkar og er mælt henni hafði líkað drengurinn allvel er honum fór að hlýna. Svo sendir hún til piltanna og biður þá sjá hvar Hjalti var; heimtar nú af þeim það þeir lofuðu og máttu þeir til að inna það af hendi, svo var hún ráðrík.
Oft hafði Anna haft það um orð hvað fögur væri augu í Hjalta. Eftir þetta sænguðu þau saman og fóru að eiga börn. Þessu reiddist Vigfús faðir hennar svo ákaflega að hann sat um líf Hjalta og setti allar þverspyrnur við veru hans þar sem hann kunni. Hafðist Hjalti við í ýmsum stöðum. Mælt er að hellrar væru fyrir framan Stóruborg og væri þaðan stuttur sprettur heiman úr Stóruborgarhólnum. Voru þessir hellar kallaðir Skiphellrar því þar settu menn skip sín inn í. Þar hafðist Hjalti við um stund. Hest átti hann brúnan að lit, mesta afbragð; var það lífhestur hans. Þetta frétti Vigfús faðir hennar og fór þangað með margmenni. Kom hann að Hjalta þarna í hellirnum. Hafði hann ekki annað ráð en hlaupa á bak Brún og hleypti undan. Eltu menn hann, en Brúnn var svo góður hestur að enginn sá á eftir honum. Þá bjó Eyjólfur í Dal frændi hennar Einarsson og Hólmfríður Erlendsdóttur, systir Vigfúss hirðstjóra. Eyjólfur skaut skjólshúsi yfir hann. Sumir segja hann kæmi honum til Markúsar Jónssonar á Núpi - sem átti Sesilíu Einarsdóttir á Múla, systur Eyjólfs, en Markús keypti trúnað bónda þess er bjó á Fit og kæmi hann honum í Fitjarhellir og skammtaði honum mat. Mátti hann vitja hans á vissum stað. Þarna var hann svo árum skipti, en er hann varð sýkn nefndi hann hellirinn i virðingarskyni Paradís. Hann er nú ýmist nefndur Paradísar- eða Fitjarhellir. Svona var mér sagt þegar ég var ungur. Aðrir segja hann hafi haft aðsetur sitt í helli þeim á Seljalandi er kallaður er Kverkarhellir og verið undir vernd Seljalandsbóndans. En þó hann væri svona ofsóktur var hann þó alltaf með annan fótinn í Stóruborg og var að eiga börn með Önnu. Sagt hefir mér verið að þau hafi átt svona saman átta börn.
Einu sinni kom Vigfús lögmaður faðir hennar svo að henni er Hjalti var hjá henni að hún sá ekki annað undanbragð en læsa hann í kistu sinni. Kom þá Vigfús að og leitaði Hjalta þar honum kom til hugar. Sat Anna á kistu sinni og gaf sig ekkert að því. Vigfús spurði hana hvað væri í kistu þessari. Hún kvað það barnaplögg sín. Svo varð faðir hennar reiður þessu öllu saman að hann gjörði hana arflausa.
Einu sinni kom Vigfús erinda sinna utan yfir fljót með sveinum sínum. Fljótið féll þá á millum skara og lítt færilegt. Voru allir sveinar hans komnir yfir á undan honum. Ís var báðumegin háll sem gler. Losnaði Vigfús við hestinn og barst að skörinni fyrir framan Hamragarða. Varð sveinum hans ráðafátt að ná honum. Í því kom maður að ríðandi í fluginu á brúnum hesti, stökk af baki og renndi sér fótskriðu fram að vatninu greip í lurg Vigfúsi og kippti honum upp á skörina; renndi sér svo skóbrunu til sama lands og á bak með sama og í burtu. „ Hver hafði svo karskar hendur í hári mínu, sveinar? “ segir Vigfús. „ Það var Hjalti mágur þinn, “ gellur einn þeirra við. „ Þegja máttir þú, “ segir Vigfús, „ því þögðu betri sveinar, “ og rak honum löðrung. Áfram hélt hann ferðinni og að Stóruborg. Sagt er að Anna hafi búið börn sín í skrúð og skart og léti þau öll ganga fyrir afa sinn og biðja hann að gjöra móður sína arfgenga. Karli gekkst hugur við bæn barnanna, leizt þau heldur féleg; þess og annars að Hjalti var búinn að gefa honum líf með öðru eins snarræði gjörði hann eins og þau báðu.
Eftir þetta giftust þau með góðu leyfi Vigfúsar. Seinna buggu þau að Teig í Fljótshlíð, langfeðgaeign hennar. Magnús í Teig var sonur þeirra; átti Þórunni Björnsdóttir offícíalis í Saurbæ Gíslasonar. Þeirra synir: 1) Árni á Heylæk faðir Þuríðar konu síra Gísla Bárðarsonar á Skúmsstöðum, föður Erlendar, föður Þrúðar konu séra Ólafs í Dal, föður Ingiríðar, móður Jóns Guðmundssonar eldra í Mörk er dó 1820. 2) Páll í Heynesi er átti Þórunni Einarsdóttir frá Hólum í Eyjafirði Grímssonar. Þeirra börn: a) Björn og b) Þórunn, átti Hallgrím lögréttumann í Kerlingardal, föður Jóns á Borg í Meðallandi, föður Hallgríms í Kerlingardal er átti Dómhildi Helgadóttir úr Landeyjum Ólafssonar. Þeirra börn: aa) Klémus í Kerlingardal og bb) Hólmfríður á Ketilsstöðum langamma mín og [cc)] Guðrún er átti Jón Runólfsson á Höfðabrekku afa síra Jóns Austmanns. ( Heimildir: Jón Árnason, íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, Reykjavík, 1955, IV, 200)
Ættir Hjalta Magnússonar virðast óþekktar, svo hér
rek ég ætt eiginkonu hans Önnu Vigfúsdóttur:
Faðir Önnu Vigfúsdóttur var:
Vigfús Erlendsson
Fæddur um 1466. Látinn 1521. Hirðstjóri og lögmaður, bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð. Hirðstjóri 1507-9. Lögmaður 1513-20 sunnan og austan, lögmannsbréf hans er dagsett 25. apríl 1513 en sennilega um land allt eftir 1517. Um hann segir í ÍÆ “Læknir góður, mikilhæfur maður, bráðlyndur en þó vinsæll”. Hann var giftur Guðrúnu Pálsdóttur um 1480-eftir 1511. Óskilgetin dóttir Páls Jónssonar lögmanns norðan og vestan, hann var veginn á Öndverðareyri af Eiríki Halldórssyni. Vigfús og Guðrún eignuðust fjögur börn:
- Guðríður um 1495-eftir 1570, húsfreyja í Ási í Holtum
- Anna um 1500(Anna á Stóruborg)
- Kristín um 1510-fyrir 1550, prestsfrú á Grenjaðarstað.
- Páll um 1510-1570, lögmaður á Hlíðarenda, hann var barnlaus.
Seinni kona Vigfúsar var Salgerður Snjólfsdóttir stundum nefnd Valgerður um 1480, “Var hjónaband þeirra dæmt ógilt vegna sifjaspella og er ekki ætt frá þeim” segir í ÍÆ. Vigfús átti tvær laundætur:
- Ingveldur um 1495 og
- Guðrún um 1515, húsfreyja á Hjalla í Ölfusi.
Faðir Vigfúsar Erlendssonar var:
Erlendur Erlendsson
Fæddur um 1435. Látinn 1495. Sýslumaður í Hlíðarenda. Hann var giftur Guðríði Þorvarðardóttur um 1440-um 1495, gift 1460. Þau áttu fjögur börn:
1. Þorvarður um 1466, lögmaður á Strönd í Selvogi og Möðruvöllum í Eyjafirði,
2. Vigfús um 1466
3. Jón um 1470, bóndi í Teigi í Fljótshlíð
4. Hólmfríður um 1477, húsfreyja í Stóradal og Eyvindarmúla “Hólmfríður var skörungur mikill á sinni tíð og við mart brugðin”, segir Jón Sigurðsson “ en þó merkiskona”.
Erlendur átti einn óskilgetin son og var hann jafnframt fyrsta barn hans:
5. Narfi um 1460, lögréttumaður í Teigi.
Í Skarðsannál við árið 1463(1460 talið vitlaust) hélt hústrú Margrét Vigfúsdóttir(hirðstjóra) á Möðruvöllum brúðkaup þriggja dætra sinna í einu Guðríðar, Ingibjargar og Ragnhildar. Hittust allir hjá Miklagarði laugardaginn fyrir. Varð það mektugt hóf og fjölmenni mikið.
Erfðamálið milli Möðruvellinga og Hlíðarenda manna :
Guðríður kona Erlends var dóttir Þorvarðar “ríka” eins og fram kemur hér aftar í skjali, en í plágunni 1494 mikilli, sem gekk um allt Ísland nema um Vestfjörðu frá Holti í Saurbæ. Í plágu þessarri dó Ingibjörg systir Guðríðar , erfðu hana skilgetnir synir hennar, sem síðan dóu einnig í plágu þessarri, þá erfði faðir þeirra Páll Brandsson og dó síðan. Launsonur Páls Grímur átti skilgetna syni Þorleif og Benedikt og erfðu þeir Pál föðurföður sinn, en út af þessu jarðargótzi sem Ingibjörg lét eftir sig, kom 20 ára þræta í milli Möðruvellinga og Hlíðarenda manna; vóru það Möðruvellir og miklar eignir aðrar. Upp á þessa erfð klagaði fyrst Guðríður Þorvarðsdóttir, systir Ingibjargar, kvinna Erlinds Erlindssonar, og þóttist lögerfingi að þeim eignum eftir réttarbót Hákonar Kóngs; þar sem faðir eður móðir erfðu fastaeign, er frá annari ætt væri komin eftir börn sín, þá skyldu ópul hverfa aftur til þeirrar ættar, er þau vóru í fyrstu komin, segir í Suðalauksdalsannál. Dæmdi Finnbogi Jónsson með tvennum tylftum Grími Pálssyni þessar eignir vegna sona sinna, en dómendur segja greinda réttarbót aldrei hafa hér í landi fyrir lög gengið og ei hingað í land gefna. Samþykkti dóminn hirðstjórinn Pétur Truels anno 1495. Item staðfestu 24 á alþingi 1500 þennan dóm undir útnefnd hriðstjórans Benedikt Hersten. Árið 1497 sigldu Erlendssynir, Vifús og Þorvarður, varð Vigfús hirðstjóri, enÞorvarður lögmaður. Gaf þá Christiian 2. bréf út sem skipar þessa réttarbót, kallaða Möðruvallarréttarbót fyrir lög hér ganga skuli. Árið 1498 Dæmt Grími Pálssyni undir óbótamál að sleppa öllum áðurnefndum eignum innan hálfs mánaðar frá dómsins og kóngsbréfsins heyrn hvað nær hann vildi ekki gjöra. Lýsti hirðstjórinn Grím og hans fylgjara óbótamenn. Varðs so Grímur að sleppa og sættast að ráðum Gottskálks biskups. Önnur sætt var gerð milli Vigfúsar lögmanns og Hólmfríðar systur hans við Grím með biskup Stefá og Gottskals og allra bestu manna tillögum á Alþingi. Fékk þá Grímur aftur Möðruvelli, Silfrastaði og alla peninga fyrir norðan, sem þau höfðu áður tekið og 5 jarðir syðra, en héldu 4 og þannig sefaðist 1515 Þessi langa þræta.
Faðir Erlends Erlendssonar var:
Erlendur Narfason
Fæddur um 1400, bóndi á Kolbeinsstöðum í Hnappadal,sýslumaður í Teigi. Hann var giftur Hallberu Sölmundardóttur um 1400. Þau eignuðust einn son:
- Erlendur um 1435.
Áður átti Erlendur Narfason einn son, þar sem móður er ekki getið: Einar um 1430-eftir 1495, hans er fyrst getið í skjölum 1466, er hann kaupir jörðina Oddgeirshóla að hálfu, mun einnig hafa keypt jarðirnar Miðfell í Hreppum og Brúsastaði, þá er þess getið í Bólstað að Einar hafi keypt Efri-Hamra um 1495.
Faðir Hallberu Sölmudardóttur konu Erlendar var Sölmundur Guðmundsson fæddur um 1370, bóndi í Teigi í Fljótshlíð, nefndur Tafsson í gömlum máldaga og faðir hans því verið nefndur Guðmundur “tafur” Þorgeirsson fæddur um 1340, bóndi á Teigi í Fljótshlíð, en ætt hans er ekki rakin lengra aftur og móður Hallberu er ekki getið í Ísl.bók, en aðrar heimildir segja hana hafa heitið Þuríði fædd um 1370
Faðir Erlends Narfasonar var:
Narfi Vigfússon
Fæddur um 1365. Bóndi á Kolbeinsstöðum, getið 1392. Þess hefur verið getið til í Sýsl.l14 að kona hans hafi verið af ætt Ketils Þorlákssonar, en það var leiðrét í Sysl.II.5. Hans kona var Þuríður um 1365, ætt hennar er ekki rakin lengra aftur í Ísl.bók. Þau áttu tvö börn:
- Halldóra um 1400, húsmóðir á Geirröðareyri
- Ketill um 1400, prestur á Kolbeinsstöðum í Hnappadal, Snæf. Frá því 1437
Narfi Vigfússon átti svo einn son enn en móður hans er ekki getið:
Erlendur um 1400.
Faðir Narfa Vigfússonar var:
Vigfús Flosason
Fæddur um 1340. Bóndi í Krossholti í Kolbeinsstaðahreppi 1392. Launsonur Flosa Jónssonar prests á Kolbeinsstöðum í Hnapp. og á Staðastað á Ölduhrygg. Vigfús hafði mögulega sýlsuvöld. Um Vigfús segir í ÍÆ:”Virðist hafa verið ofstopamaður, átti jafnvel illdeildur við son sinn”. Eiginkona Vigfúsar var Oddný Ketilsdóttur um 1320, hún ers sumstaðar ranglega sögð móðir Narfa Vigfússonar. Önnur kona Vigfúser var Ónefnd Einarsdóttir um 1340: Vigfús átti einn son með “Ónefndri”:
1. Narfi um 1365.
Faðir Vigfúsar Flosasonar var:
Flosi Jónsson
Fæddur um 1300. Látinn eftir 1368. Prestur á Kolbeinsstöðum í Hnappadal frá því fyrir 1339 fram undir 1350 og á Staðastað á Öldyuhrygg frá því fyrir 1350 og fram yfir 1368. Hann átti tvö börn, en móður þeirra er ekki getið:
- Þórður um 1325, sýslumaður í Snæfellssýslu
- Vigfús um 1340, launsonur Flosa.
Kona Flosa var Oddný Ketilsdóttir fædd 1320 en hún er ekki móðir sona Flosa skv.Íslendingabók.
Faðir Flosa Jónssonar var:
Jón Erlendsson
Fæddur um 1270. Bóndi á Ferjubakka í Borgarhreppi. Ekki eru haldbær rök fyrir öðrum börnum hans en Flosa. Þess hefur verið getið til að kona hans hafi verið Margrét Magnúsdóttir “agnars”, en engin haldbær rök eru fyrir því. Það eru þó þær heimildir, sem telja að Margrét Magnúsdóttir fædd um 1265 hafi verið kona Jóns og að hún hafi verið dóttir Magnúsar Agnars Andréssonar fæddur um 1230, sagt er að hann hafi verið einn fyrsti maður sem bar tvö nöfn. Samkvæmt þessu átti Jón einn son og móður hans er ekki getið með vissu í ísl.erfðagr. :
- Flosi um 1300.
Faðir Jóns Erlendssonar var:
Erlendur “sterki” Ólafsson
Fæddur um 1235. Látinn 1312. Lögmaður norðan og vestan. Bjó á Ferjubakka í Borgarfirði. Var lögmaður 1283-1289. Bjó einnig á Nesi við Selvog samkv. Ýmsum heimildum, sem nefndar verða hér síðar.
Kona hans var Jórunn fædd um 1240. Sumar heimildir segja Jórunni hafa verið Þórðardóttir, dóttir Þórðar Þorsteinssonar fæddur um 1210 og er ætt hans svo ekki rakin lengra aftur. Þeirra börn voru:
- Haukur um 1260-1334, riddari og lögmaður, lögmaður sunnan og austan 1294-1300, lögmaður í Osló 1302. Haukur var einnig bókagerðarmaður og er Hauksbók kennd við hann.
- Jón um 1270.
Seinni kona Erlendar var Járngerður Þórðardóttir um 1250, þau eignuðust eina dóttur:
1. Valgerður um 1280.
Hauksbók(Haukur sonur Erlends sterka), udgiven efter de Arnamagnæanske Håndskrifter no. 371,
544 og 675 4to samt forskellige papirshåndskrifter. 1892-96. Det kongelige nordiske oldskrift-selskab. Thieles bogtrykkeri, København. Útgefandi Finnur Jónsson.
Ætt Hauks Erlendssonar er rakin í Landnámugerð hans, móðurættin í kafla 101, föðurættin í kafla175,
einnig í 184, 187, 232, 315, 326 og 348:
Faðir hans Erlendur Ólafsson, kallaður hinn sterki, lögmaður fyrir á Norðvesturlandi, 1283-89, dáinn 1312. Velstöndugur maður þekktur fyrir deilumál
sín við kirkjuleg yfirvöld (Árna biskup í Skálholti) um yfirráð kirkjunnar. Kona hans var Járngerður, afkomandi Egils Skallagrímssonar en Haukur var ekki hennar son. Móðir hans hét
Jórunn og er annað tveggja að hún hefur verið síðari kona Erlends eða að Haukur hefur verið fæddur utan hjónabands. Jórunn var afkomandi Gests Þorleifssonar, hins þekkta spekings
(réði drauma Guðrúnar Ósvífursdóttur).
Í Selvogi virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli var mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Á 11. öld er vitað um kirkju á Nesi. Kirkjurnar, sem vitað er um, eru á öllum dýrustu jörðunum. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum. Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 og að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða.
Hér fyrir neðan er verið að tala um byggingu Strandakirkju
eða deilurnar í kringum það :
Á dögum Árna biskups Þorlákssonar.......... átti Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), Strönd, Nes, og sjálfsagt fleiri jarðir í Selvogi. Biskup og hann stóðu mjög öndverðir í staðamálum og eru lítil líkindi til að Erlendur hafi farið "með fulltingi" Árna biskups að reisa kirkju frá stofni á Strönd enda má sjá það á vitnisburði Þorbjarnar Högnasonar útgefnum á Strönd 13. maí 1367 að kirkja muni hafa verið sett þar fyrir löngu."
Það má raunar segja, að Erlendur lögmaður hafi verið höfuð andstæðingur Árna biskups í staðamálum. Honum nægði meira að segja ekki að berjast við biskup hér innan lands heldur lagði á sig ferð til Noregs til þess að geta á þinginu í Niðarósi 1282 greitt atkvæði með útlegðardómi yfir Jóni erkibiskupi - vígsluföður Árna
Faðir Erlends "sterki" Ólafssonar var:
Ólafur “tottur”
Fæddur 1210. Mágur Flosa prests. Nefndur í Sturlungu við árin 1238 og 1242. Af sumum talinn sonur Þormóðar skeiðagoða en engin haldbær rök eru fyrir því. Ólafur var giftur Valgerði Flosadóttur og héðan rekum við ættir hennar aftur föðurmegin. Valgerður og Ólafur “tottur” áttu aðeins einn son:
1. Erlendur “sterki” 1235
Valgerður Flosadóttir var eiginkona Ólafs "tottur" og móðir Erlends
"sterki". Faðir Valgerðar Flosadóttur var:
Flosi Bjarnason
Fæddur um 1162. Látinn 8. október 1235. Prestur og goðorðsmaður á Baugsstöðum. Gekk síðan í klaustur. “..var í frændsemi eða mæðgum við margt stórmenni” segir í Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi. Guðrún kona Benedikts og síðar Kolbeins er ranglega talin meðal barna Flosa í ÍÆ. Kona hans var RagnhildurBarkardóttir um 1170, er hún kominn af Hásteini Atlasyni, landnámsmanni í Ölfusi í beinan karllegg. Þau áttu sjö börn:
- Valgerður um 1200
- Þórdís um 1200 dó 15. júní en dánarár er óþekkt
- Einar um 1200-1244
- Bjarni um 1200, prestur, dáinn 26. desember en dánarár óþekkt
- Guðrún um 1200, dáin 21. mars en dánarár óþekkt
- Margrét um 1200, dáin 8. ágúst en dánarár óþekkt
- Halla um 1205, dáin 23. mars, en dánarár óþekkt.
Faðir Flosa Bjarnasonar var:
Bjarni Bjarnason
Fæddur um 1140. Látinn 29. júní 1181. Prestur. Hans kona var Halla Jörundardóttir 1120. Hún getur m.a. rakið ættir sínar til Ölvir Einarsson “barnakarl” 870 og til Ketill “þistill” 880, landnámsmaður í Þistilfirði. Bjarni og Halla eignuðust seks börn:
- Flosi um 1162
- Guðrún um 1165
- Einar “brúður” um 1170, var í Rauðsmálum 1196
- Helga um 1170
- Torfi um 1170, prestur og
Faðir Bjarna Bjarnasonar var:
Bjarni Flosason
Fæddur um 1110. Hann eignaðist einn son
1. Bjarna um 1140, en móður er ekki getið.
Faðir Bjarna Flosasonar var:
Flosi Kolbeinsson
Fæddur um 1060. Hans kona var Guðrún Þórisdóttir fædd um 1060. Þau eignuðust einn son:
- Bjarna um 1110.
Faðir Flosa Kolbeinssonar var:
Kolbeinn Flosason
Fæddur um 1015, lögsögumaður. Mun hafa verið skipaður lögsögumaður 1955. Grafinn í Fljótshverfi. Víða slegið saman við alnafna sinn. Hans kona var Guðríður fædd um 1025. Guðríður getur rakið ætt sína til m.a. Þorsteins “hvíta” Ölvissonar f. Um 876-956, hann var landnámsmaður og bjó að Hofi í Vopnafirði. Varð blindur. Frá honum eru Hofsverjar komnir. Faðir hans var Ölvir Öxna-Þórissonar á Ögðum í Noregi. Kolbeinn og Guðríður eignuðust tvö börn:
- Guðrún um 1060, húsfreyja í Odda er nefnd Þórunn í Flóamannasögu og
- Flosi um 1060.
Faðir Kolbeins Flosasonar var:
Flosi Valla-Brandsson.
Fæddur um 980 Flosi átti einn son:
1. Kolbeinn um 1015, móður erekki getið í ísl.erfðagr
Faðir Flosa Vallabrandssonar var:
Valla-Brandur Áskelsson
Fæddur um 930 bjó á Völlum á Landi . Maki Þuríður um 930. “Flosi hét maður, son Þorbjarnar hins gaulverska; hann drap þrjá sýslumenn Haralds konungs hárfagra og fór eftir það til Íslands; hann nam land fyrir austan Rangá, alla Rangárvöllu hina eystri. Hans dóttir var Ásný, móðir Þuríðar, er Valla-Brandur átti; son Valla-Brands var Flosi, faðir Kolbeins, föður Guðrúnar, er Sæmundur fróði átti.”
Valla-Brandur og Þuríður áttu tvo syni:
- Flosi um 980
- Eilífur um 990.
Faðir Valla-Brands Áskelssonar var:
Áskell Ormsson
Fæddur um 895, bjó í Húsagarði. Hans kona var Aldís Ófeigsdóttir fædd um 910, hún bjö á Völlum á Landi( ekki veit ég hvort að þau voru hjón en þau eignuðust einn son saman hj.) “ Vestar hét hinn fjórði son Hængs; hann átti Móeiði; þeirra dóttir var Ásný, er átti Ófeigur grettir. Þeirra börn voru þau Ásmundur skegglaus, Ásbjörn, Aldís móðir Valla-Brands og Ásvör móðir Helga hins svarta; Æsa hét ein” .
Áskell og Aldís áttu einn son :
1. Valla-Brandur 930.
Faðir Áskels Ormssonar var:
Ormur “auðgi” Úlfsson
Fæddur um 860, landnámsmaður í Húsagarði í Landsveit. Hann átti einn son:
1. Áskell 895. Móður er ekki getið.
“Ormur auðgi, son Úlfs hvassa, nam land með Rangá að ráði Ketils einhenda og bjó í Húsagarði og Áskell son hans eftir hann, en hans son reisti fyrst bæ á Völlum; frá honum eru Vallverjar komnir”:
Ég hef átt erfitt með að finna heimildir um ættir Úlfs hvassa og er hann sagður fæddur allt frá 814-830. Ein heimild skrifar hann þó: Úlfur “hvassi” Brandsson fæddur á um 814, en þessi heimild rekur ætt hans þó ekki lengra. Hann er á sama stað sagður fæddur á Húsagarði í Landsveit, landinu, sem sonur hans Ormur “auðgi” nam og sel ég þetta ekki dýrara en ég keypti það.
Hér með lýkur ættfærslu á ættum Helgu Magnúsdóttur, móður Margrétar Einarsdóttur, móður Hildar Jörundsdóttur.
Bjarnfríður Gunnarsdóttir (Benna)
Frábær síða en ég þekki mikið til í Rangárvalla og Árnessýslu og hafði mikið gaman af að fara yfir þetta.