Ættir Sveins í beinan kvenlegg

Meira um ættir Eyvindar "austmaður"

Meira um Eyvind “austmaður” og hans ætt.

Eyvindur “austmaður” var sonur Björns hins ágætasta frá Gautlandi, sem var sonur Hrólfs frá Ám, móðir Eyvindar “austmaður” var Hlíf dóttir Hrólfs Ingjaldssonar, Fróðasonar konungs. Björn faðir Eyvindar “austmaður” varð ósáttur um jörð við Sigfast, mág Sölvars Gautakonungs og brenndi Björn hann inni með þremur tigum manna. Fór Björn þá til Noregs með við tólfta mann og tók við honum Grímur hersir, sonur Kolbjarnar sneypis og var hann m eð honum einn vetur. Þá vildi Grímur drepa Björn til fjár, því fór Björn til Öndótts “kráku”, er bjó í Hvinisfirði á Ögðum og tók hann við honum. Björn var á sumrum í vesturvíking, en á vetrum með Öndótti, þar til er Hlíf kona hans andaðist á Gautlandi.

 

Þá kom Eyvindur sonur hans austan og tók við herskipum föður síns, en Björn fékk Helgu systur Öndótts “kráku” og var þeirra son Þrándur. Eyvindur fór þá í vestuvíking og hafði útgerðir fyrir Írland. Hann fékk Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs og staðfestist þar, því var hann kallaður Eyvindur “austmaður”.

 

Eyvindur og Rafarta áttu son er Helgi hét, hann var seldur til fósturs í Suðureyjar. En er þau komu þar út tveimur vetrum síðar, þá var hann svelltur svo þau kenndu hann eigi, þau höfðu hann á brott með sér og kölluðu hann Helga hinn magra. Hann var fæddur á Írlandi, en er hann var roskinn, gerðist hann virðingarmaður mikill. (Landnáma)

Hér með lýkur ættfærslu á móðurætt Sveins Jónssonar, föður Jörundar Sveinssonar, föður Hildar Jörundsdóttur.

Nú verður rakin föðurætt Sveins Jónssonar, föður Jörundar Sveinssonar, föður Hildar Jörundsdóttur, fyrst í beinan karllegg:

Faðir Sveins Jónssonar var:

Jón Eiríksson

Fæddur í Ásasókn í Skaftártungu, V-Skaft. 31. maí 1839. Látinn 1. október 1911. Bóndi í Hlíð Grafarsókn V-Skaft. 1910. Hann var giftur Guðnýju Jónsdóttur 1840-1929. Þau giftu sig 03.08 1867. Þau eignuðust fimm börn: Eiríkur 1869, bóndi í Óseyrarnesi hann virðist vera dáinn fyrir 1910, Steinunn 1875-1956, kaupakona í Reykjavík, Guðjón 1876-1915, húsmaður í Hlíð Grafarsókn “rekur landbúnað”, Sveinn 1880, Ólöf 1884-1938, var í Hlíð Grafarsókn, Skaft. 1910, húsfreyja á Skúmsstöðum, Akureyjarsókn, Rang. 1930.


Árið 1840 býr Jón þá 1 árs(manntal segir 2ára) með foreldrum sínum þeim Eiríki Jónssyni hreppstjóra og meðhjálpara og Sigríði Sveinsdóttur í Hlíð og einni yngri systur Þórunni fædd það ár. Á heimilinu eru tvær vinnukonur og einn niðursetningur 10 ára stúlka. Hlíð var tvíbýli og býr móðir Eiríks, Ragnhildur Gísladóttir yfirsetukona, á hinum helmingnum, en fyrir því búi stendur sonur hennar, 19 ára gamall og bróðir Eiríks, Sigurður að nafni. 1850 Býr Jón í foreldrahúsum í Hlíð og er nú 11 ára, systkini hans eru þá Þórunn 10 ára, Ragnhildur 8 ára og Sveinn 6 ára. Á heimilinu eru tvær vinnukonur, einn vinnumaður og barnfóstra. Ragnhildur gamla amma Jóns  býr enn á hinu búinu á Hlíð en nú er það sonur hennar Þorlákur Jónsson, sem stendur fyrir búinu.

Á heimili Ragnhildar eru tvö önnur börn hennar þau Ragnhildur 21 árs og Þorlákur 17 ára, einnig ein fósturdóttir hennar 5 ára, tvær vinnukonur, tökukarl og niðursetningur.

  Jón Eiríksson er nú eða árið 1870 giftur maður, Guðnýju Jónsdóttur , en þau giftu sig 3. Ágúst 1867 og eru búsett á Eystri-Ásum í Ásasókn. Guðný fæddist í Heiðarseli 18. Nóvember 1840. Þau eiga á þessum tíma einn son Eirík, sem er tveggja ára. Tvær vinnukonur, einn léttadrengur og einn niðursetningur er á heimilinu. Jón er nú orðinn hreppstjóri

Tuttugu árunum seinna er Jón bóndi í Hlíð og Guðný húsfreyja þar. 6 börn eiga þau nú og það eru þau Eiríkur 21 árs, Steinunn 15 ára, Guðjón 14 ára, Jón 11 ára, Sveinn afi 10 ár og Ólöf 6 ára. Sigríður móðir Jóns er einnig á heimilinu 75 ára gömul, Eiríkur maður hennar dó 31. Desember 1877. Einn vinnumaður og 3 vinnukonur, einn niðursetningur og 62 ára gamall maður, sem lifir á eigum sínum eru einnig á heimili Jóns og Guðnýjar.

Glefsa úr „Söguþættir landpóstanna “:“ ....Frá Skaftárdal fór ég að Hlíð í Skaftártungu, þar bjó þá Jón Eiríksson frændi minn. Þegar ég kom þangað, var hann hissa að sjá, að ég, svona lítill hnokki, skyldi hafa komist alla þessa leið yfir veglaus fjöll og vötn. Í viðurkenningaskyni fyrir þetta afrek mitt gaf hann mér gráa gimbur. Hafði hann gaman af að sjá til, hversu mér reiddi af með hana alla þá leið, sem ég átti fyrir höndum. Hafa víst fáar gjafir orðið mér til meiri fagnaðar en þessi gimbur.....“(Sögumaður er Gísli Gíslason f.1872 frá Rauðabergi í Fljótshverfi. Þessi ferð Gísla var farin 1883, þá 11 ára.)


Faðir Jóns Eiríkssonar var:


Eiríkur Jónsson

Fæddur á Geirlandi  á Síðu 27. nóvember 1808. Látinn 31. desember 1877. Bóndi og hreppstjóri í Hlíð í Skaftártungu. Eiríkur var giftur Sigríði Sveinsdóttur 1814-1895. Þau giftu sig 15.05 1835. Þau eignuðust 11 börn:

Jón 1839,

Þórunn 1840-1849,

Ragnhildur 1842-1868,

Sveinn 1844-1897,

Þuríður1845-1847

Bjarni 1848-1849,

Bjarni 1849-1849, 

Þuríður 1851-1928,

Steinunn 1853-1923,

Sigríður 1856-1858,

Björn 1861-1922.


  Eiríkur Jónsson var fæddur í Geirlandi á Síðu 27. Nóv 1808-31.des 1877. Árið 1835 er Eiríkur enn ógiftur maður og stendur fyrir búi móður sinnar, Ragnhildar Gísladóttur, í Hlíð og er fyrirvinna hennar, en Jón faðir Eiríks og eiginmaður Ragnhildar lést 8. Janúar þetta sama ár.  Á heimilinu eru auk Eiríks fimm af börnum Ragnhildar, Gísli 25 ára, Sigriður 22 ára, Ragnhildur 15 ára, Sigurður 13 ára og Þorlákur 11 ára. Einn vinnumaður og tvær vinnukonur eru á heimilinu svo og tökubarn 9 ára gömul stúlka og einn próventumaður(sá sem gefið hafði einhverjum  eignir sínar og bjó svo í umsjá viðkomandi) 95 ára gamall, Sigurður Hákonarson hét hann.

  Árið 1855 er Eiríkur Jónsson eini bóndinn í Hlíð og er með margt í heimili það er að sjálfsögðu kona hans Sigríður Sveinsdóttur og sonur þeirra Jón langafi, sem nú er 19 ára svo og börnin þeirra Þórunn 16 ára, Ragnhildur 14 ára, Sveinn 12 ára, Þuríður 5 ára, og Steinunn 2 ára. Einn vinnumaður og ein vinnukona, Ragnhildur, sem áður var titluð, sem barnfóstra, Halldór Björnsson trésmiður, einn tökukarl 80 ára gamall, eitt fósturbarn 8 ára stúlka að nafni Rannveig Sigurðardóttir og einn ótitlaður 18 ára maður. Ragnhildur gamla er nú í heimili hjá Eiríki og Sigríði   og er hún orðin 79 ára þegar þetta er. Fósturdóttirin Rannveig Sigurðardóttir var fædd 14, mars 1848 og var dóttir Sigurðar bróður Eiríks. Sigurður þessi er titlaður ekkill árið 1845 og býr þá í Hlíð, hann er þá aðeins 24 ára gamall. Sigurður deyr 30. Maí 1856 og dóttir hans Rannveig deyr 19. Janúar sama ár.
Árið 1860 er Eiríkur Jónsson skráður sem kvifjárræktarbóndi í Hlíð, hann er nú orðinn 52 ára og kona hans Sigríður er 45 ára. Jón langafi er enn í föðurhúsum 21 árs og systkini hans þau Sveinn 16 ára, Ragnhildur 18 ára, Þuríður 9 ára og Steinunn 7 ára. Ragnhildur gamla barnfóstran er á heimilinu og Halldór snikkari(28ára), þar að auki einn vinnumaður, einn sveitalimur Gunnsteinn gamli  orðinn 83 ára, vinnukona, Ragnhildur gamla Gísladóttir móðir Eiríks orðin 83 ára, 2ja ár drengur tökubarn, fósturstúlka 13 ára. Ragnhildur Eiríksdóttir þarna 18 ára stúlka á líka eina dóttur Sigríði Halldórsdóttur, sem einnig er á heimilinu. Sigríður þessi Halldórsdóttir fæddist 7. Febrúar 1860 og lést sama ár 23. Nóvember.

Eiríkur var þjóðhagasmiður bæði til járnsmíða og trésmíða og rennismiður góður.

Eiríkur Jónsson lést 31.desember 1877

Sigríður Sveinsdóttir kona hans lést 11. Október 1895


 

Andlátsfrétt í Þjóðólfi 24. janúar 1878

Síðasta dag f.árs andaðist Eiríkur bóndi Jónsson á Hlíð í Skaptártungum, rúmlega sjötugur, er lengi var talinn með helstu bændum í þeirri sýslu.



Faðir Eiríks Jónssonar var:

Jón Jónsson

Fæddur í Eystri-Dal 1775. Látin í Hlíð 8. janúar 1835 úr óþekktum sjúkdómi Bóndi á Arnardrangi, Kirkjubæjarklausturssókn, Skaft. 1801. Bóndi í Hlíð í Skaftártungu. Bóndi og hreppstjóri í Hlíð og í Geirlandi. Jón var giftur Ranghildi Gísladóttur 1778, hún lést í Hlíð í Skaftártungu 2. júní 1866, banamein hennar var kvefsótt. Vorið 1866 gekk eystra kvefsótt þung, og dóu þá mjög mörg gamalmenni(Ritað um 1880 af dr. Jóni Þorkelssyni) . Þau giftust 29.09 1800. Þau einguðust 14 börn: Rannveig 1801-1882, Jón 1802, Oddur 1804-1804, Þuríður 1805-1805, Þuríður 1807-1866, Eiríkur 1808-1877, bóndi og hreppstjóri í Hlíð, Gísli 1810-1848, Sigríður 1813-1878, Jón 1815-1889, Gísli 1817-1877, Ragnhildur 1820-1890, Sigurður 1822-1856, Oddur 1823-1829, Þorlákur 1824-1868.

Í grein eftir Gísla Brynjólfsson í Lesbók Morgunblaðsins, 48 tbl. 22. des 1970, 45. árg. bls.25 og 30(einnig með í samantekt Óskars Einarssonar) segir m.a. um Jón : “Jón var mektarmaður í sinni sveit, hreppstjóri og sáttasemjari og meðhjálpari, sem þá þóttu allt virðingarverðar trúnaðarstöður svo sem enn eru þær ef rétt er skoðað. Hitt var þó meira um vert hvílíkur mannkostamaður Jón var, gestrisinn, hjálpsamur og leysti hvers manns vandræði enda er kallaður valmenni og öðrum hrósyrðum í sálnaregistrum Ásapresta..... Tvö skáld sunnlenzkra sveita ortu eftir hann látinn, þeir séra Páll skáldi og Þorsteinn tól. Í eftirmælum séra Páls segir m.a.:

 Alla hans búrisnu ei má teikna

eins við hefðar og neyðarströnd

ef tæki ég upp að tína og reikna

til myndi þurfa í aðra hönd:

Margyrtan tóna ð mynda brag

Mikinn pappír og langan dag.


1.& 4. erindi úr eftirmælum Þorsteins tóls eftir Jón Jónsson í Hlíð :

Valinkunnur og víða frægur

virtur elskaður flestum af

sitt hefur endað síð nú dægur

sálina meðtók hann er gaf.

Líkið í jarðar lagt er þró

lifir minning hjá oss þó.

 

Trúfastur vinur tryggur öllum,

tilbjó ei neinum svik né vél,

dýrmætum skrýddur dyggðum snjöllum

daglega gjörði rétt og vel.

Frömuður sveita frægur var

frægðarinnar rigti víða bar.”

Jón og Bjarni bróðir hans voru giftir systrunum Ragnhildi og Sigríði Gísladætrum Þorsteinssonar  fæddur 1745, hreppsstjóra í Arnardranga og forlíkunarmaður(sáttargerðarmaður), hann lést í Arnardranga 10. ágúst 1825 og Rannveigar Þorgeirsdóttur fædd 1736, hún lést í Geirlandi 17. ágúst 1786, Gísli var seinni maður hennar. Fyrri maður Rannveigar var Salómon Þorsteinsson og áttu þau 5 börn saman, en Rannveig og Gísli áttu alls 5 börn.

 

Úr samantekt frá ýmsum heimildum eftir Óskar Einarsson (sonur Einars Sveinssonar, sonur Sveins Jónssonar, sonur Jóns Eiríkssonar, sonur Eiríks Jónssonar sonur Jóns Jónssonar f. 1775) segir m.a. um bræðurna Jón og Bjarna og þeirra konur Ragnhildi og Sigríði: “Báðar voru þær efnilegar, hraustlegar og heilsugóðar, greindar vel og þóttu hinir bestu kvenkostir. Menn þeirra voru og mikilmenni að ráði og dáði. Þeir byrjuðu búskap með litlum efnum, höfðu ekki hjú nema eina vinnukonu báðir, og í öllu höfðu þeir félagsskap.” (Úr Íslenskir sagnaþættir I- II, bls 53-55, eftir Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi).

 

Frá Geirlandi fluttu þeir bræður, vegna yfirnáttúrulegra atburða er áttu sér stað í Garnagili og þoldu konur þeirra ekki lengur við.

Bjarni fluttti að Þykkvabæjarklaustri og Jón í Hlíð í Skaftártungum og bjó þar til dauðadags. Jón varð ekki allgamall, en Ragnhildur bjó lengi í Hlíð, ekkja með börnum sínum. Enn fremur segir í sömu grein, að “Ragnhildur hafi verið sífellt geðveik, og var það á þann hátt að hún kveið stöðugt fyrir því, að missa sjónina, á hverju kvöldi taldi hún víst, að hún yrði blind að morgni. Hélt hún þó góðri sjón og vissi sjálf, að þessi hræðsla var eigi með felldu. En hún fékk eigi við henni gert. Kenndi hún því huldufólkinu í Garnagili” og enn segir um Ragnhildi: “Að öðru leyti var Ragnhildur gerðarkona, skörungur í búsýslu og hneigð til að annast skepnur. Vildi hún að hjá sér liði vel bæði fólki og fé, og var mjög örlát og hjálpsöm við fátæka. Voru og efni nóg.”


 

Í bókinni “Amma”  þjóðleg fræði og skemmtun , sem tekin var saman af Finnur Sigmundsson landsbókavörður, Steindór Steindórsson yfirkennari og Árni Bjarnarson bókarútgefandi, er liður, sem heitir Sagnir úr Skaftafellssýslu eftir dr. Jón Þorkelsson. Þar er frásögn af manni, sem nefndur var Gunnsteinn guli, Gunnsteinn Sigurðarson. Í kafla þessum er einnig nefnd ein ættmóðir okkar eða Ragnhildur Gísladóttir og fleira af Hlíðarfólkinu. Ég tek hér lítinn kafla úr sögu þessarri:

”Seinustu tólf ár æfi sinnar var hann(Gunnsteinn guli eða Guli-Gunnsteinn)hj)niðursetningur í Hlíð í Skaftártungu. Var þar farið vel með Gunnstein. þar man ég eftir Gunnsteini og var ég þá í æsku. ..............Þar var og á sama bænum,Hlíð, gömul kona, er Ragnhildur hét og var Gísladóttir. Hún var kona Jóns hreppstjóra frá Dal í Fljótshverfi. Jón í Hlíð var bróðir Bjarna á Þykkvabæjarklaustri í Veri. .....Ragnhildur Gísladóttir í Hlíð var kvenval mikið. Hún var þá komin yfir áttrætt. Var hún ung um Skaftáreld, en mundi þó eftir honum. Hún var móðir Eiríks bónda í Hlíð er dó 1877 og Þorláks er varð úti á Fjallabaki með þrem mönnum öðrum að haustnóttum 1868 og fleiri systkina. Eiríkur í Hlíð átti Sigríði Sveinsdóttur, læknis Pálssonar í Vík í Mýrdal, ágæta konu og skörung mikinn. Þeirra sonur er Sveinn prestur Eiríksson á Sandfelli í Öræfum. Eystra hefir það lengi verið venja, að menn hafa setið í fjósum, þó einkum á vetrum, og hafa fjósin verið nokkuð háræfruð og hefir loft verið í og oft allvel búið og þiljað umhverfis, en þó út af því verið brugðið. Tíðkaðist slíkt miklu meira fyrrum en nú, og er það nærri aflagt. Þótti gott hitans vegna, er lagði af kúnum, en stundum var á fjósloftinu eigi sem hreinast loft. Gamalmenni sátu þar einkum, því að þau þoldu kuldann lakast, en ofnar ótíðir í þá daga og enda enn. Höfðu gamlir menn oft aðsetur í fjósum bæði vetur og sumar. Fjósið í Hlíð var þannig byggt, að í því var setið. Þegar ég mundi eftir, þá voru þar eigi aðrir en Gunnsteinn gamli og Ragnhildur og vinnukona ein, sem hún hafði, því að hún bjó gegnt syni sínum og hafði nokkurn part af jörðinni, en var þó komin að miklu leyti í kör, en eigi alblind. Kom ég oft þangað til þeirra Gunnsteins og Ranghildar gömlu, og spjölluðu þau þá oft margt við mig og sögðu mér margt, enda þótti ég oft vera ærið spurull. Þótti Gunnsteini mjög vænt um það og leysti oft vel úr spurningum mínum og fræddi mig um margt. Gamla konan sagði mér og frá mörgu frá æskuárum sínum, enda var hún minnug. Hún mundi óljóst eftir eldgosinu og í barnsminnni var henni, að Reynistaðamenn komu austur þangað 1780. Kvað hún alla menn eystra hafa mjög tekið til sundurgerðar þeirra og oflátungsskapar, en þó einkum Bjarna, sonar þeirra Reynistaðahjóna, og sagði, að hann hefði eigi verið vel kynntur.

Gunnsteinn var allra manna óþverralegastur og sóðalegastur með sjálfan sig, og svo var hann grálúsugur, að ómögulegt var að hafa af honum varginn, hversu vel sem hann var hirtur. Hafði Ragnhildur gamla mjög mikla raun af karlinum fyrir þetta, en karlinn hændist að henni, því hún var honum mjög góð og lét oft hlynna að honum á ýmsan hátt, og svo voru þau mjög jafngömul og elzt lifandi manna þar í grennd. Vildi þá Gunnsteinn helzt vera þar í fjósinu hjá henni. Hún gaf og Gunnsteini gamla oft að eta, því að hann var matvandur mjög og þóttist eigi geta etið það, sem honum var ætlað frá hinu búinu, og var honum þó aldrei borið þaðan annað en góður matur. Á efri árum hans þegar hann var í Hlíð, man ég ekki eftir að hann yrði nokkurn tíma krankur og var þó kominn yfir nírætt. Vorið 1866 gekk eystra kvefsótt þung, og dóu þá mörg gamalmenni. Þá dó Ragnhildur gamla um hvítasunnuleytið. Féll Gunnsteini það þungt og var aldrei almennilega með hýrri há eftir það. Um sumarið á miðjum túnslætti tók hann sótt; lá hann hér um bil viku áður en hann andaðist; var hann þá nálægt hálftíræðu........Ég er svo óheppinn nú, að sá maður er nú dauður, sem ég vissi að kunni flestar sögur um Gunnstein en það var Gísli Jónsson, bróðir Eiríks í Hlíð, en sonur Jóns hreppstjóra í Hlíð og Ragnhildar. Gísli var gáfaður vel og þrekmenni og karlmenni mikið.”

 

“Sunnanfari” 1/11 1912

 

Bækur: Jón Trausti: Sögur frá Skaptáreldinum á seinni hluta átjándu aldar. Rvk. 1912

 

"...........Gunnsteinn Sigurðsson, kallaður hinn guli eða Guli-Gunnsteinn, ættaður úr Landbroti, var 8 vetra gamall í eldinum og Ragnhildur Gísladóttir frá Geirlandi var þá 5 ára. Þau önduðust bæði í Hlíð í Skaftártungu 1866. Þau heyrði ég segja mart frá Skaptáreldi, og á síra Jón Steingrímsson minntust þau opt og var hann þeim mjög minnisstæður; hafði hann fermt Gunnstein 1789, og Ragnhildur hafði “geingið til prestsins” hjá síra Jóni. Held ég að mér sé óhætt að fullyrða, að ég hafi tekið rétt eftir því – þó að ég væri þá ungur – að þau sögðu að hann hefði verið í minna meðallagi á vöxt. (JÞ)"

Söguglefsur af Gísla Jónssyni(trúlega sá þeirra sem fæddist 1817 og dó 1877, því hinn Gíslinn dó 1848) Úr bókinni „Amma“ þjóðleg fræði og skemmtun – tekið saman af Finnur Sigmundsson landsbókavörður, Steindór Steindórsson, yfirkennari og Árni Bjarnason bókaútgefandi. Kom út 1961.

Úr kaflanum „Sagnir úr Skaftafellssýslu“.(frá bls. 258-272):

Greinarhöfundur byrjar á því að harma að sá er flestar sögur kunni af Gunnsteini „gula“ sé nú dauður.

“... en það var Gísli Jónsson, bróðir Eiríks í Hlíð, en sonur Jóns hreppstjóra í Hlíð og Ragnhildar. Gísli var gáfaður vel og þrekmenni og karlmenni mikið. Hann átti Þórunni Sigurðardóttur, myndarkonu. ...Gísli bjó fyrst í Fljótsdal; síðar bjó hann í Ásum ytri í Skaftártungu og seinast á Bíaskerjum í Garði syðra, en brá búi og fluttist austur í Fljótshverfi og var þar síðast hjá börnum sínum og dó þar 1878.

Sem dæmi upp á þrek Gísla og karlmennsku má geta eins atviks. Það er venja frá þeim bæjum í Skaftártungu, sem liggja næst Eldvatni, að hafa sauðfé á vetrum í eldhrauninu fyrir handan Eldvatnið, því að hagbeit er þar góð, þó lítil snöp sé á landi, sem svo er kallað þar, í mótsetning við hraunið. Yfir Eldvatnið kemst enginn nema fuglinn fljúgandi, öðru vísi en á ferju, fyrri en allar götur inn hjá Skaftárdal....“

“Þegar Gísli bjó í Ytri-Ásum hafði hann sauðfé í hrauninu eins og títt var. Fénaður var og frá fleiri bæjum í Skaftártungu í hrauninu. Það var venja, að menn vitjuðu fjárins öðru hverju á vetrum. Það var vetur einn, er Gísli átti fé í hrauni, að hann gengur til þess, og voru í för með honum Þorlákur bróðir hans, e r síðar varð úti, og þá ungur og Sigurður Nikulásson (langalangafi okkar systkina/móðurafi ömmu Hildar Jónsdóttur), unglingsmaður, þá í Hemru. Móðir hans er Guðrún Sæmundsdóttir, prests í Útskálum...Frost var mikið um daginn og kuldi og um skammdegisskeið eða seint á jólaföstu. Fóru þeir Gísli á ferju suður yfir Eldvatn, sem hjá Ásum er oft í daglegu tali kallað Ásavatn. Gengu þeir því næst í hraunið og var farið að rökkva, þegar er þeir komu aftur upp að vatni. Þeir höfðu um morguninn látið flytja bátinn yfir um að því landi, er frá hrauninu vissi, svo að hann væri til taks, ef einhver þyrfti að fara suður yfir úr Tungunni og niður í Meðalland, því eigi var til á ferju staðnum nema einn bátur. Þeir kalla nú á ferju, en enginn treystist að komast yfir vantið, því að ísskrið mikið var komið í það og jókst eftir því sem frostið harðnaði. Gísli sá, að hér var nú ekki um gott að gera og ræðst um við þá félaga sína. „

Hér á milli kemur löng lýsing af af hverju það væri svo erfitt að komast yfir en við skellum okkur í þrekvirki Gísla.

„Skammt fyri rneðan Hvamm, sem áður er um getið, vissi Gísli að var örmjór hraunhryggur í Eldvatninu og braut sumstaðar dálitið á honum, þegar vatnið var sem allra minnst. En aldrei hafði þar nokkur maður farið yfir í manna minnum. Þangað snýr Gísli með félögum sínum með því hann sá, að þeir mundu drepast, hvort sem var. ..... Gísli var með broddstaf langan og sterkan í hendi, eins og venja er Skaftfellinga. Hann segir nú félögum sínum að vera hvorum á sinni öxl sér og halda saman höndum og láta höfuð sitt og háls koma milli handleggja þeirra, biður þá að sleppa eigi tökum, hvað sem á gangi. Síðan veður Gísli út í og kannar fyrir sér með staf sínum og þræðir hraunhrygginn, og brýtur þá vatn með ísskriðinu á öxlum hans. Fara ekki fleiri sögur af því, nema Gísi komst yfir um með félaga sína heila. Var Gísli þá allþrekapur og kaldur.“

„Gísli var drykkjumaður allmikill á yngri árum og var þá ærið svæsinn og vílaði ekki fyrir sér.  Kona er nefnd Guðrún. Hún var á Flögu. Hún hafði miklar mætur á hestum og var mjög hestsár. Hún átti sokkóttan hest, forkunnarfagran og góðan grip og léði hann ekki nema vildustu vinum sínum. Gísli var góður vin Guðrúnar, enda var Gísli vinsæll og hispurlaus var hann mjög. Eitt sinn reið Gísli um sumar niður til Meðallands og léði Guðrún honum þá Jarpsokka. Það var á sunnudag, er Gísli kom aftur, og um það leyti er úti var messa í Ásum. Þar var þá prestur Þorkell Eyjólfsson. Gísli var nokkuð ölvaður. Þegar hann kemur að vatninu þykir honum óþarfi að vera að biðja um ferju og helypir á Jarpsokka útí, en allir þoldu dauðans önn fyrir Gísla, og stóð kona hans með börnum sínum, og sjálf komin að falli, á bakkanum og horfði á aðfarirnar. Þar sem Gísli reið út í var hringstreymi í vatninu, en iða fyrir neðan, en afar hár bakki þeim megin, er hann átti að koma að, og landtaka því vond. En það er af Gísla að segja, að jafnskjótt sem hann er kominn út í vatnið lendir hann fyrst í hringstreyminu og hestinum slær flötum hvað eftir annað, en aldrei losnar Gísli við hann, og eru þeir þar að svamla þangað til hesturinn er dauður.

Þá sér Gísli, að eigi er til neins að vera að halda sér í hann og sleppir því öllum tökum. En bæði með því Gísli var ölvaður og ósyndur sekkur hann og hverfur, og hugðu nú allir, að þeir sæju hans hið siðasta. En fyrir honum voru ekki ennþá uppi dagarnir. Hann fann það, að þegar hann var orðinn laus við hestinn, togaði straumurinn hann niður allt til botns. Kvaðst Gísli þá hafa klórað sig fastan við botninn svo, að hann losnaði aldrei algerlega við hann, en eigi gat hann varnað þess að hann hrekti nokkuð. Veður var bjart og sólskin og kvaðst Gísli hafa séð talsverða skímu og eigi kvaðst hann áttavillur orðið hafa niðri í vatninu. En þess gat hann, að eftir því sem hann hefði borizt neðar, því hálli hefði botninn verið, þvi að þar hefði verið móberg sleipt. Óðarar þegar Gísli hvarf gengu menn niður með vatninu til þess að vita, hvort lík hans bæri einhvers staðar að landi. En þegar minnst varði sáu menn , hvar Gísli rétti sig upp úr vatninu allt í einu, skammt frá landi, og óð til lands....Alla rak náttúrlega í rogastanz, en allir urðu guðsfegnir. Að þessu eru margir áreiðanlegir menn sjónarvottar, og þessa sögu heyrði ég sem unglingur austur í Skaftártungu. Hvort tveggja þetta, sem hér er greint hefir verið nálægt 1850.

Faðir Jóns Jónssonar var:


Jón Jónsson

Fæddur 1730. Látinn í Arnardranga 10. febrúar 1795. Bóndi í  Eystri-Dal, á Syðri-Steinsmýri, á Hörgslandi og í Arnardranga. Hann var giftur Þuríði Jónsdóttur  fædd á Núupstað 1736 og látin á Skaftárdal 17. júní 1817, hún var á Arnardranga, Kirkjubæjarklausturssókn, Skaft 1801. Jón og Þuríður giftu sig 24.06 1766. Þau eignuðust þrjú börn: Guðlaug 1772-1846, Jón 1775, Bjarni 1781-1852, bóndi á Gerilandi og á Þykkvabæjarklaustri, umboðsmaður á Þykkvabæjarklaustri og bóndi í Skaftárdal, var á Arnardranga 1801, húsbóndi í Skaftárdal, Búlandssókn, V-Skaft. 1816, bóndi á Þykkvabæjarklaustri 1845.

 

Faðir Jóns Jónssonar(1730) var:

Jón Eyjólfsson

Fæddur 1689-1755. Hann var Umboðspiltur á Núpsstað, Kleifahreppi, V-Skaft. 1703. Bóndi í Eystri-Dal í Fljótshverfi. Hans kona var Guðrún Oddsdóttir 1685-1765, niðursetningur í Mörk í Kleifahreppi, V-Skaft. 1703, húsfreyja í Eystri-Dal (langalangalangafi hennar var Jón Þorvaldsson, sonur Þorvaldar Jónssonar, ríkisbónda í Skál á Síðu. Um þennan Jón segir Espólín: “Bóndi og sýslumaður í Skál á Síðu. Átti 15 börn skilgetin og 15 launbörn. Segja sumir af honum hafi orsakast Stóridómur”. Einnig getur Guðrún rekið ætt sína til Sæmundar “ríka” Eiríkssonar 1480 ,skipherra á duggu Skálholtsstaðar, síðar lögréttumaður í ási í Holtum) Jón og Guðrún áttu seks börn: Guðrún 1720, Ólafur um 1720, Þórhalli 1722, Oddur 1722, Guðrún 1725-fyrir 1797, Jón 1730.



Stóridómur er löggjöf, sem samþykkt var á Alþingi 1564 og staðfest af Danakonungi ári síðar. Stórididómur fjallaði um brot í siðferðismálum, þar sem miklu þyngri refsingar voru settar við slíkum brotum og fleiri atriði talin til brota en áður hafði verið. Í stað kirkjunnar sá umboðsmaður konungs nú um að innheimta sektir fyrir þessi brot og var það konungi allnokkur tekjulind.

Samkvæmt Stóradómi var refsað fyrir þrenns konar brot: Sifjaspell(kynmök ættingja og tengdra), hórdóm (framhjáhald hjóna) og frillulíf (lauslæti ógiftra). Refsingar voru flokkaðar nákvæmlega eftir eðli brota og gátu verið allt frá lágmarkssektum til aleigumissis. Einnig var tekin upp líflátsrefsing við alvarlegustu brotunum þar sem karlar voru hálshöggnir og konum drekkt í Drekkingarhyl á Þingvöllum. Hörð ákvæði Stóradóms leiddu m.a.a stundum til svonefndra dulsmála þar sem barnsfæðingum var leynt og barn jafnvel deytt.

 

Faðir Jóns Eyjólfssonar var:

Eyjólfur Jónsson

Fæddur 1650. Bóndi í V-Skaftafellssýslu, hann átti einn son Jón 1689, barnsmóður er ekki getið.

 

Faðir Eyjólfs Jónssonar var:

Jón Jónsson

Fæddur um 1620. Hann var bóndi á Þverá á Síðu. Hann var giftur Halldóru Eyjólfsdóttur fædd um 1620, húsfreyja á Þverá á Síðu. Ættir hennar eru ekki raktar lengra aftur í Ísl.bók. Jón og Halldóra eignuðust fimm börn: Eyjólfur um 1650, Jón 1655-fyrir 1735, bóndi á Núpstað, Kleifahreppi, V-Skaft. 1703, Halldóra 1658, húsfreyja í Holti Kleifahreppi 1703, Guðrún 1659, var á Núpstað Kleifahreppi V-Skaft. 1703, Ragnhildur 1662, húsfreyja á Skaftafelli, Hofshreppi, A

Skaft. 1703.

 

Faðir Jóns Jónssonar var:

Jón Pálsson

Fæddur um 1590. Bóndi á Efri-Steinsmýri. Hann átti einn son Jón um 1620 en barnsmóður er ekki getið í ísl. erfðagrein.

 

Hér lýkur ættartölu Jóns Eiríkssonar, föður Sveins Jónssonar, föður Jörundar Sveinssonar, föður Hildar Jörundsdóttur,  í beinan karllegg, en hér á eftir verður rakin ætt föðurömmu Sveins Jónssonar og eiginkonu Eiríks Jónssonar, Sigríðar Sveinsdóttur  í beinan kvenlegg.

Móðir Jóns Eiríkssonar(1839) var:

 

Sigríður Sveinsdóttir

Fædd í Vík í Mýrdal 23. ágúst 1814. Látin 11. október 1895. Húsfreyja í Hlíð. Var í Syðri-Vík, Reynissókn, V-Skaft. 1816. Hún var gift Eiríki Jónssyni 1808-1877, bóndi og hreppstjóri í Hlíð í Skaftártungu. Þau eignuðust 11 börn, þar á meðal Jón. Sjá nánar framar í skjali.

 

Móðir Sigríðar Sveinsdóttur var:

Þórunn Bjarnadóttir

Fædd í Seltjarnarnesi, Gull. 16 mars 1776. Látin í Reynissókn, V-Skaft. 11. apríl 1836. Þórunn var gift Sveini Pálssyni lækni í Vík í Mýrdal. Þau eignuðust 12 börn: Páll 1796, Guðmundur 1798, Steinunn 1799, Guðrún 1800-1879, Hallur 1802, Þórunn um 1805-1836, Benedikt 1805-1854, Björn 1811-1865, Ingibjörg 1812-1864m Sigríður 1814, Jón 1815-1890, Páll 1818-1874.



Faðir Þórunnar Bjarni Pálsson læknir

Fæddur að Upsum á Upsatrönd 17. maí 1719. Látinn á Nesi við Seltjörn 8. september 1779. Landlæknir í Nesi við Seltjörn, Kjós. Var skipaður landlæknir 1760, hinn fyrsti á Íslandi. Tengdasonur Bjarna var Sveinn Pálsson læknir og eru þeir í ýmsum ritum nefndir saman. Bjarni var giftur Rannveigu Skúladóttur 1742-1803. Þau eignuðust alls sjö börn, þar á meðal Þórunni 1776. Rannveig kona Bjarna var dóttir Skúla “landfógeta” í Viðey.


Bjarni fékk erindisbréf frá konungi og í því er að finna fyrirmæli, sem lúta að ljósmærafræðslu. Bjarni Pálsson lagði kapp á að fá lærða ljósmóður til að aðstoða sig við ljósmærafræðsluna og fékk til landsins danska ljósmóður Margrethe Katrine Magnussen að nafni. Formleg menntun ljósmæra hefst 1761 og fyrsta skráða embættispróf ljósmóður er til frá árinu 1766. Allt frá þeim tíma hafa ljósmæður útskrifast á Íslandi og ljósmæðramenntun verið skipulögð á einn eða annan hátt(Ljósmæðrafélagid.is)

 

Meira um Bjarna Pálsson og hans störf

 

Bjarni Pálsson 1719-1779, landlæknir:

 

Árið 1760 kom til Bessastaða nýútskrifaður læknir, Bjarni Pálsson, sem fyrsti landlæknir á Íslandi og eini lærði læknirinn á landinu. Hann bjó þar í þrjú ár, eða þar til reistur var yfir hann sérstakur bústaður að Nesi við Seltjörn. Fyrsti landlæknir landsins fæddist að Upsum. Hann varð landlæknri 1760  og kom upp fyrstu lyfjabúðinni að Nesi við Seltjörn . Fyrir hans tilstilli voru læknar settir í hvern fjórðung og ljósmóðir var fengin frá Danmörku. (NAT Norðurferðir).

 

 

 

Hinn 18. mars 1760 var með konungsúrskurði skipaður fysti landlæknirinn á Íslandi, Bjarni Pálsson fæddur 17. maí 1719 á Upsum við Eyjafjörð. Faðir hans var Páll Bjarnason, prestur á Upsum og kona hans var Sigríður Ásmundsdóttir. Bjarni var aðeins 11 ára þegar faðir hans lést og var þá sendur í fóstur að Stað í Hrútafirði til séra Guðmundar Pálssonar föðurbróður síns. Eftir stúdentspróf frá Hólaskóla árið 1745, lá leið hans til Kaupmannahafnar. Þar lagði hann stund á náttúrufræði og læknisfræði. Bjarni lauk prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 24. september 1759. Kona Bjarna var Rannveig Skúladóttir landfógeta Magnússonar. Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson fóur um Ísland sumarið 1750, þá aðallega í handritasöfnun. Á árunum 1752-1757 ferðuðust þeri félagar um landið til að safna fróðleik um náttúru þess og kom ferðabók þeirra út á dönsku árið 1772.

 

Bjarni hafði fyrst aðsetur á Bessastöðum eftir að hann var skipaður landlæknir, á meðan hann beið þess að byggt yrði yfir hann og starfseminga. Jörðin Nes á Seltjarnarnesi var valin fyrir bústað landlæknis, í sumum heimildum er talið að Bjarni Pálsson hafi valið staðinn sjálfur.

 

Þegar Bjarni Pálsson var skipaður landlæknir með erindisbréfi 19. maí 1760 var honum jafnframt gert skylt að reka lyfjabúð á heimili sínu gegn nokkurri þóknun. Bjarni bjó fyrstu þrjú árin á Bessastöðum á meðan frágangur við Nes stóð yfir og hélt þar úti lyfsölu. Því má segja að Reykjavíkur Apótek hafi verið stofnað á þeim tíma.

 

Í virðingu ( mat, það að meta til verðs ) frá 1767 er búið að setja innréttingar í apótekið og er þess getið að þar séu 60 hillur og 24 skúffur. Auðséð er að þeim sem virðinguna gerðu þykir mikið til um innréttinguna. Tekið er fram að hún sé máluð með ljósbláum grunnlit, en allir listar og veggbrúnir málað með himinblárri málningu. Frá því er skýrt að landlæknir hafi sjálfur valið litinn. Yfir tvennum dyrum hefur landlæknir látið gera tvær töflur með táknmyndum. Töflur þessar eru enn í Nesstofu en hafa verið gerðar upp.

 

Auk þess að stunda lækningar og lyfjagerð kenndi Bjarni Pálsson læknanemum. Hann hafði sjúkraskýli í torfbænum sem stóð fram til 1800.

 

Bjarni Pálsson landlæknir lést 1779 og var jarðsettur innan við kirkjudyrnar í Nesi. Kirkjan var lögð niður árið 1797 en fauk síðan tveimur árum síðar. Rannveig Skúladóttir lést árið 1803.

 

Glefsur úr Þjóðskjalasafni Íslands:

B 1 1 176 176

2  8 8  2  3 Bjarni Pálsson landlæknir skrifar rentukammerinu vegna fyrirframgreiðslu á launum, húsakynni á Bessastöðum, ljósmæður ofl. 3. september 1762. Fylgiskjöl: Bréf frá byggingarnefnd Kaupmannahafnar og frá Bjarna Pálssyni til konungs. Isl.Journ. B, nr. 1239 og 1367.

 

B 1 1 176 172

2 8 9 2     3    Bjarni Pálsson landlæknir þakkar fyrir að hafa fengið laun sín greidd fyrirfram og sækir um að fá fyrirframgreiðslu að nýju fyrir næsta ár. 20. okt.1762. Fylgiskjal: Bréf frá Bjarna.

 

B 1 2 176 176

2 8 0  2    3     Bjarni Pálsson sendir skýrslu yfir þær vörur, sem hann sendir út. 21. oktober 1762. Fylgiskjal: Vöruskráin.

 

B 1 1 17 17

2 4 9 61 62 Bjarni Pálsson þakkar fyrir að hafa fengið greidda 280 dali fyrirfram og skýrir frá störfum sínum og áformum í heilbrigðismálum og víkur að fleiru 13. oktober 1761.

 

B6 1 27 1775 1775 “Bjarni Pálsson landlæknir segist hafa reynt að lækna sjúkt sauðfé að ráði Thoroddi, án árangurs. En hins vegar hafi hann gert tilraunir með betri árangri og sent sýslumönnum, en það er að nota “Mercurial Salveen” . 2. júlí 1775. Með fylgir uppkast og vitnisburður frá Þorgrími Þorlákssini á Elliðavatni, sem annast fjárbúið.

 

Móðir Þórunnar Bjarnadóttur var:

Rannveig Skúladóttir

Fædd 1742. Látin í Hlíðarenda 7. ágúst 1803. Húsfreyja í Nesi við Seltjörn. Var á Klausturhólum Klausturhólasókn, Árn. 1801, hún var gift Bjarna Pálssyni 1719-1779, þau giftu sig 1. júlí 1763. Hann var landlæknir í Nesi við Seltjörn á Kjalarnesi, var skipaður landlæknir 1760, hinn fyrsti á Íslandi. Þau eignuðust sjö börn: Steinunn 1763-1828, Skúli 1765, Hallur 1766-1780, Guðmundur 1767-1767, Eggert 1771-1856, Sigríður 1771-1776, Þórunn 1776.

 

Móðir Rannveigar Skúladóttur var:

Steinunn Björnsdóttir Thorlacius

Fædd 1709. Látin í Reykjavík. Gull 19. apríl 1785, í Djáknaannálum segir:” Nálægt sumarmálum dó Steinunn í Viðey Björnsdóttir prests í Görðum á Álftanesi, Torlacii; yfir 70 ára, húsfreyja landfógetans Skúla Magnússonar”. Húsfreyja í Viðey. Laundóttir Björns. Nefnd Guðrún í ýmsum heimildum, svo sem ÍÆ. En það er rangt. Faðir hennar var Björn Thorlacius Jónsson 1680. Steinunn var gift Skúla Magnússyni 1711-1794, þau giftu sig þann 7. september 1738, hann var landfógeti í Viðey. Þau eignuðust sjö börn: Jón 1736-1789, Guðrún “eldri” 1740-1816, Björn 1741-1805, Rannveig 1742, Guðrún “yngri” 1743-1801, Oddný 1748-1806, Halldóra 1750-1821.

 

Móðir Steinunnar Björnsdóttur Thorlacius var:


Guðrún Björnsdóttir

Fædd 1680, var í Hörðsdal, Kleifahreppi, V-Skaft. 1703, hún eignaðist eina dóttur Steinunni 1709 með Birni Thorlacius 1680, “studiosus, nú utanlands” í manntali 1703. Bóndi og spítalahaldari á Hörgslandi í Skaftafellssýslu. Aðstoðarprestur á Breiðabólsstað í Fljótshlíð 1714-1720 og prestur í Görðum á Álftanesi frá 1720 til dauðadags. Prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi frá 1738 til dauðadags. “Var forneskjulegur”, segir Espólin. Steinunn var laundóttir hans.


 

Björn Thorlacius

í Hvammsannál segir þessa sögu af Birni: “ Kona nokkur að Hólakoti í Ytrahrepp þynnti skyr með vatni og át þar með ólyfjan í sig. Séra Björn í Görðum náði að vísu 4 vatnsköttum upp úr henni. Læknar segja,. þeir tímgist með mönnum, til þess þeir verði 7” (vatnskettir eru lirfur skordýrategundar er nefnist Brunklukka)

 

Móðir Guðrúnar Björnsdóttur var:

Steinunn Runólfsdóttir

Fædd 1643, bjó í Hörðsdal, Kleifahreppi, V-Skaft. 1703. Hennar maður var Björn fæddur um 1630 og látinn um 1703. Þau einguðust þrjú börn: Halldóra 1671-1751, var í Hörsdal 1793, Guðrún 1680, Runólfur 1684, var í Hörðsdal 1703.

 

Hér lýkur móðurætt Sigríðar Sveinsdóttur, móður Jóns Eiríkssonar, föður Sveins Jónssonar föður Jörundar Sveinssonar, föður Hildar Jörundsdóttur, í beinan kvenlegg, en nú verður rakin föðurætt Sigríðar Sveinsdóttur í beinan karllegg.

Teikning af Sveini Pálssyni eftir Sæmund Hólm



Faðir Sigríðar Sveinsdóttur(1814) var:


Sveinn Pálsson

Fæddur á Steinsstöðum í Tungusveit, Skagafirði 25, apríl 1762. Látinn 23. apríl 1840. Læknir í Vík í Mýrdal. Bjó í Kotmúla, Breiðabólstaðarsókn, Fljótshlíð, Rang 1801. Hann var giftur Þórunni Bjarnadóttur 1776 og eignuðust þau þrjú börn. Sjá nánar framar í Skali við Þórunni.

 

“Sveinn var tekinn í Hólaskóla 1777, stúdent úr heimaskóla frá Hálfdáni rektor Einarssyni 30. april 1782 með góðum vitnisburði. Nam lækningar hjá Jóni landlækni Sveinssyni í Nesi og fékk námsvottorð hjá honum. Las læknisfræði og náttúrufræði við Kaupmannahafnarháskóla 1788-1791, tók próf í náttúruvísindum 1. júní 1791. Feðraðist um Ísland á vegum Naturhistorie Selskab í fjögur sumur 1791-1794. Hann hélt dagbók á ferðum sínum og samdi auk þess tvö smærri rit, annað um jökla og hitt um Skaftárelda(Jöklarit og Eldrit). Sveinn var í hópi fyrstu jarðfræðinga, sem veitir því athygli að jökulís er seigfljótandi efni, sem leitar undan halla líkt og harpix eða bik og ef jöklaritið hefði komið út um 1800 hefði það um langa hríð skipað honum í öndvegi meðal jarðfræðinga. Varð læknir í austurhluta Suðurlands 4. okt. 1799, fékk lausn frá því embætti 20. nóv. 1833, settur landlæknir 25. apríl 1803-29. júli 1804. Setti bú að Skála undir Eyjafjöllum 1796, fluttist að Kornmúla í Fljótshlíð 1797 og að Vík í Mýrdal 1809, þar sem hann bjó til æviloka ”(Veðurstofa Íslands, úr greinargerð um ævistarf nokkurra Íslendinga, sem komu við sögu íslenskra veðurathugana fyrir 1872)

 

Sveinn Pálsson læknir bar langt yfir samtíðarmenn sína að andlegu og líkamlegu atgervi. Hann þjónaði í áratugi, sem héraðslæknir frá Selvogi austur á Skeiðarársand og fór í vitjanir allt austur á Djúpavog og vestur á Seltjarnarnes, því að slíkt orð fór af honum. Hafa svaðilfarir og barátta hans við jökulvötn Suðurlands orðið skáldum yrkisefni. Er það eitt undrunarefni að hann lifði af allar ferðir sínar á þeim slóðum. Í jöklaritinu lagði hann grunn að þeirri þekkingu sem gerði Íslendgum kleift að virkja jökulárnar og koma samgöngum í það horf sem nú er. (Hið íslenska bókmenntafélag).


Sveinn Pálsson (1762-1840) er dæmigerður vísindamaður upplýsingarinnar, enda helst æviskeið hans nokkurn veginn í hendur við það tímaskeið, sem kennt er við hana. Hann skrifaði sjálfsævisögu og af henni má ýmislegt ráða, s.s. um vaknandi sjálfsvitund mannsins á þessum tíma, og um skapgerð og bresti Sveins sjálfs.( Náttúruvísindi og heimsmynd Íslendinga 1700-1850 eftir Hlöðver Ellertsson)

 

 

Í “Mynjar og Menntir”, afmælisriti helgað Kristjáni Eldjárn skrifar Jón Steffensen m.a. um dagbækur Sveins Pálssonar:

Jón Steffensen segir m.a. um dagbækur Sveins: “Satt best að segja hafa dagbækurnar náð þeim tökum á mér, sem erfitt er að losa sig úr aftur, því önnur eins uppspretta staðreynda um menn og málefni mun torfundin, að ógleymdri þeirri seiðmagnan gátunnar, sem þær búa yfir. Það er ýkjulaust að fram til ársins 1800, sem er sá hluti þeirra sem ég hef farið nánast í mun fjöldi manna er þar koma við sögu losa 1000, en meðal þeirra eru að kalla allir forvígismenn í íslensku þjóðlífi á þeim árum og mörgum þeirra var Sveinn mjög handgenginn”.

 

Þegar Sveinn var 17 ára nemandi í Hólaskóla hefur hann ritun dagbókanna og þar til skömmu fyrir andlát sitt í Vík 23. apríl 1840. Það er eyða í dagbókunum á Hafnarárum Sveins 1788-1791 og aftur á árunum 1800-1805 er hann bjó í Kotmúla.


Úr sjálfsævisögu Sveins(sem hann ritaði sjálfur):

“Hann er fæddur í heim þennan ár 1762 þ. 24ða apríl mánaðar...rjett um dægramótin” á öðrum stað segir um tildrögin að læknanámi Sveins: “ Á næsta sumri 1783(hér ber dagbókum og sjálfsævisögu ekki saman um ártal, í dagbókum segir að þessi heimsókn Jóns Sveinssonar hafi átt sér stað 6. sept. 1780 og getur það staðist líti maður á næstu málsgrein hér fyrir neðan HJ), sem alment er kallað eldsumar, ferðaðist þá nýorðinn landshysicus Jón Sveinsson lögmanns Sölvasonar norður í Skaga- og Eyjafjörð, kom hann í ferð þeirri að Hólum og þaðan öllum á óvart að Steinsstöðum, var erindi hans þangað að fala Svein fyrir informandum, hvað og strax að ráði og vilja foreldranna var á stofn sett að verða skyldi sama haust. Gjörði þar og mikið til, að honum var á Hólum vísað á þennan pilt og ættinga sinn, sem ekki ólílegastan til hvers er við hafa skyldi(bls.10-11)”

 

Við þetta tækifæri er mögulegt að í tal hafi borist möguleikar á því að Sveinn hæfi læknanám að loknu stúdentsprófi, en um annað meira gat ekki verið að ræða. Jón Sveinsson landshysicus fékk ekki leyfi með konunglegum úrskurði fyrr en 12. maí 1783 til að taka nema. Það má vel vera að koma landlæknis (1780) hafi orðið til að beina huga Sveins að lækningum, því skömmu eftir hana, 19. des 1780, fer hann með föður sínum til Viðvíkur, sem þá var læknissetur og eftir það greina dagbækurnar oft frá viðskiptum Jóns fjórðungskirurgs Péturssonar við Svein og Steinsstaðaheimilið. En því má ekki gleyma að móðir Sveins var ljósmóðir svo snemma hefur hann átt þess kost að kynnast líknarstörfum.

 


Gríski stafurinn, sem ætti að vera inni í ferningunum í texta hér fyrir neðan




Í sjálfsævisögunni er þannig greint frá tilhugalífi Sveins  : “Sumarið þar eftir ferðaðist hann yfir Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslur, alt í Hornafjörð, og um haustið til baka að Hlíðarenda í Fljótshlíð, aðsetursstað sýslumanns í Rangárþingi, síðar kancellíráðs Vigfúsar Thórarensens, og þáði þar af honum boðna, kærkomna veturvist 1793 og 4”(bls.24).

 

Við þetta er gerð eftirfarandi athugasemd neðanmáls:

“Um vorið 1793, þegar Sveinn alfarinn skildi við landfógeta Skúla og hjet ferð sinni að Hlíðarenda í Rangárvallasýslu, bað landfógeti hann taka í ferð með sjer dótturdóttur sína Þórunni þá (eyða)ára gamla, sem í næstliðna tvo vetur hafði verið í þjónustu Sveins í Viðey, en nú vistuð hjá Kancellíráði V. Thorarensyni, ekki ólíkt að sá gamli hafi sjeð lengra fram í veginn en Sveinn ætlaði”.

 

Síðar segir:

“Komst og sýslumaður bráðum að því, að hugir þeirra myndu dragast saman Sveins og jómfrú Þórunnar, sem (með) honum kom úr Viðey vorið 1793 að Hlíðarenda. Rjeði hann Sveini til að hugsa af siglingu, og bauðst sem vinsamlegast til að styrkja hann á allan mögulegan hátt til að reisa bú, ljet Sveinn það sona vera, og var hvorki móti nje með þar til vonin brást um lektoratið”(bls.30)

 

Og loks:

“Nú var Sveini annað hvort að gjöra, hrökkva eða stokka með fyrirætlan sína framvegis. Úti var með lektoratið, sýslumaður rak á eftir með giftumálið, og komið var í orð að fá eða reyna til að fá stiftað nýt kirurgikat í austurparti suðuramtsins og ljet Sveinn leiðast til, alvanur að fel sig forlaganna herra”(bls32).

Það verður ekki sagt að sjálfsæfisagan lýsi ástarblossa, sem þeim vita er varði siglingu Sveins í hjónabandið, þar er nánast látið að því ligga að Vigfús sýslumaður hafi smeygt þeirri hnappheldu á Svein, að ógleymdu því örlagavaldi, sem tent er framsýni landfógeta.

 

Úr dagbók Sveins d. 31. júlí 1792  :

(hann fer til Reykjavíkur þennan dag með ýmis erindi en ég tek bara út hér eitt af þeim HJ) “1 holl(andsk) Ducat og 4 broting hring til tveggja með máli og nöfnum S.P. og Th.B. (Sveinn Pálsson og Þórunn Bjarndadóttir Pálssonar (innan sviga skýring sett af Jóni Steffensen)) með fl(eira). Þegar hér er komið sögu hafði Sveinn átt vetrarsetu á heimili Skúla landfógeta í Viðey þar sem Þórunn hafði átt heimili frá 1786, en 2. ágúst leggur Sveinn af stað frá Viðey í Norðurför sína.

 

1795 oktober d 18  de Messad her (á Hlíðarenda JS) Communic(eradiJS) vid  mín.

1795 oktoberd 19  de geck at eiga Jomfr Thórunni Bjarnad 31 conc(ent).

 

Þegar Sveinn talar um Þórunni Bjarnadóttur notar hann gríska stafinn þeta í leyndarskyni, þetta varð ljóst við athugun á Samskiptum Sveins við    sem hefjast eftir að Þorkell Ólafsson Bergmann hefur tekið að sér að láta smíða tryggðapantana úr brota gulli er Sveinn afhendir honum. Þau Þórunn og Sveinn hafa ekki þurft að vera samvistum nema vetrartíma í Viðey til þess að heitbindast, og bendir það ekki til neinna vangaveltna af hans hálfu, sem ætla má að hafi haft frumlkvæði þar sem hann var þrítugur en hún aðeins 16 ára frá mars 1792. Enda ekki að sjá að neitt hafi skort á funann hjá Sveini þar sem ekki líður nema sólarhringur frá því hann skilur við þá heittelskuðu þar til hann skrifar henni fyrsta bréfið, og aldrei er hann svo viðskila við hana um stundar sakir, að hann skrifi henni ekki. Dagbækurnar lýsa eðlilegum viðbrögðum ástfangins manns og gera skiljanlegt tilboð Vigfúsar sýslumanns um vetrarsetu Sveins á Hlíðarenda 1793/94, sem annars væri harla sérstæð ef um vandalausan mann væri að ræða.


Af læknisstarfi Sveins leiddi að mikið eru um dánar- og fæðingardaga í dagbókunum og eru það mikilvægar heimildir sérstaklega úr prestaköllu, þar sem kirkjubók vantar fyrir það tímabil sem dæmi má nefna:

 

“1793 Apríl d 25 de til Gufuness

                26 “  sál(adist) Valgerdr á Gufun(esi)

                  4 “  Begr(avelse) á Gufunesi”.

 

Einnig ef kirkjubækur eru rangt færðar dæmi um það er úr Reykjasókn í Lýtingsstaðahreppi þar sem skýrt er fra greftrun Guðrúnar Tómasdóttur þannig,

 

kirkjubók : “1782 16. juni grafen Gudrun Thomasdótter á Reikium 63 ára”.

 

Úr dagbók Sveins:  

“1782 Juni 16 de Mess(ad) á R(eikium) var þar æcon(omius) sál(adist) Gudrun Thomasdoter þar.

              17 de smídud Kistann etc.

              22 de Jördud Gudrún sál(uga) á Reikum”

Í dagbókunum er þess getið nokkrum sinnum að líkkistusmíði hafi farið fram á heimili Sveins svo sýnilega hefur Páll faðir hans verið smiður jafnt á tré sem góðmálm.

 

Séra Þórhallur Magnússon prestur á Breiðabólsstað var góðvinur Sveins sér í lagi eftir að Sveinn fluttist að Kotmúla, sem að var Breiðabólsst.kirkjujörð. Skrifar Sveinn m.a. í dagbók sína 1. nóbember 1797 “dæmdr Sr Þorh(alli) fra kjól og kalli fyrir Flángs í Dóra konu. Appellerar” Sveinn sér um að Siguður sýslumaður taki að sér mál Þórhalla en biskup hafði vikið Þórhalla úr embætti.

 

Í dagbók Sveins Pálssonar segir um kúr þann er hann setti Sigurð sýslumann Pétursson á: “1798 september d 6 de byriad á S(ýslu(m(anni) Petersen Sultekuren 4 lod(60g) K(iöd) og d do bröd 2g(an)g(e), 3 cicuta piller 2g(an)g(e) og 1 pot decot(decoct) daglig – samme”


Og orti sýslumaður um kúrinn “Þú soltna tíð”. Hér er svo ýjað að frá Jóni Steffenssen að Sveini hafi verið í mun að halda sýslumanni hraustum svo að hann gæti lokið við frágang dánarbús Bjarna landlæknis Pálssonar, sem var tengdafaðir Sveins. Það tókst og náði Sveinn að fara austur að halda jól með fjölskyldunni.

 

Í bólufaraldrinum 1786-1787 eru merkar upplýsingar fyrir þá sem rannsaka það efni þar stendur m.a. í ágústfréttum 1786: “in medio mensis med Hans (Scheving verslunarmaður) bólann ej kominn í Ejafiörd, 11 inoculerader af Chirurgo á Mödruvöllum ei spurt útfalled”.

(Skýr. Medio mensins=um miðjan mánuð, inoculerader af Chirurgo=bólusetning af lækni)

Dagbækur eða almanök Sveins eru mjög nákvæm og telur hann upp hvern þann hlut smáan og stóran sem skaffaður hefur verið til bússins, hvaðan hann kom og hvað hann kostaði. Einnig er hann með á sérstöku blaði allt það sem Þórunn kona hans vann í höndunum árið, sem að þau bjuggu á Ysta-Skála og einnig er getið um sængurgjafir er henni bárust, hvað og frá hverjum. Einnig kostnaður af brúðkaupi hans sem varð samtals : 25rd.37sk. þar eru í 8 pottar rom 4rd og 8 pottar brennivín 2rd, sem að telst vel veitt þar sem brúðkaupsgestir voru aðeins 31.

 

Sjá má af dagbókum Sveins að ekkert mannlegt hefur verið Sveini óviðkomandi og það ásamt því að í þær skráir hann aðeins viðburði hversdags án þess að leggja nokkurn dóm á þá orsakir þeirra eða afleiðingar, gerir heimildargildi þeirra alveg einstætt.


Hinir heitu hverir í Laugardalnum sendu öldum saman frá sér háa gufustróka, jafnframt því sem íbúar svæðisins nýttu sér heit avtnið ýmist til að þvo  af sér eða þvo sjálfum sér.

 

Lýsing Sveins ofl. Á þvottalaugunum í Laugardal og umhverfi

Uno von Troil sem síðar varð biskup í Uppsölum ferðaðist til Íslands árið 1772. Í bók um ferðalag þetta hélt von Troil því fram að íslenskir elskhugar færu gjarnan í heitt laugarbað með festarmeyjum sínum. Sveinn Pálsson landlæknir tekur þessi ummæli hins tilvonandi biskups óstinnt upp í Ferðabók sinni. Hann fullyrðir að ekkert lauslæti fari fram í baðferðunum-baðferðirnar væru ekki annað en saklausar smáskemmtanir. Sveinn lýsti nákvæmlega aðstæðum í Laugardal. Hann segir að skammt fyrir sunnan bæinn sé allstór mýri. Norðvestur af mýrinni segir hann að liggi allhár sandbakki sem sjórinn brýtur á (þar á hann við Kirkjusand). Uppi í mýrinni nálægt 1000 skrefum frá sjó er köld uppspretta sem Sveinn kveður hafa grafist í gegnum móinn, þar til botninn hækki skyndilega og dropasteinsklöpp gægist úr vatninu. Á þessum klapparhól stendur nú stytta Ásmundar Sveinssonar; Þvottakonan. Um 86 skrefum fyrir neðan er hver og 34 skrefum þar fyrir neðan komu upp litlar sjóðandi uppsprettur úr sléttri klöpp. Síðan breikkaði farvegurinn og þar skapaðist dálítil tjörn sem notuð var til að þvo í af almenningi, þar skammt frá var Laugarhóll. Svo þar fyrir neðan tók vatnið að kólna og miðja vegu milli Laugarhólsins og sjávar var vatnið mátulega heitt til að baða sig í því “enda taka allir, sem að lauginni koma, sér bað á þeim stað” segir Sveinn Pálsson (Ferlir.is).


Nokkrar glefsur úr frásögnum Sveins á ferðalögum :

Að morgni 3. ágúst 1792 er Sveinn staddur hjá Vilborgarkeldu, en hún er snertispöl fyrir austan þar sem Kjósarskarðsvegur mætir Þingvallavegi, austast á Mosfellssheiði. “Vegurinn er hvarvetna gersamlega óruddur”, segir Sveinn, “þó er hann allgóður sums staðar, en lengstum allt of grýttur og væri þó létt verk að bæta hann”.


Sveinn kom úr Viðey og lenti í Gufunesi en spítlalahaldarinn þar tók á móti honum og útvegaði ýmsar nauðsynjar. Frá Gufunesi fór hann upp eftir Mosfellssveitinn, en ekki er alveg hægt að sjá á samhenginu hvort hann hefur farið Stardalsleið eða Bringuveg. Sennilega er þó að hann hafi farið Bringuveg vegna þess, að hann minnist á útsýni til Heklu, sem sést hugsanlega ef farið er þar sem hæst ber á Mosfellsheiðinni.

 

Á Brúsastöðum hitti Sveinn bóndann, sem var mjög vel að sér í læknisfræði, segir Sveinn, efnafræði og húsagerð, skildi sæmilega bæði þýsku og dönsku en kunni auk þess margar kynjasögur. Annars var hangikjöt aðal áhugamál Sveins og segir hann hangikjötið í Þingvallasveit bera af öðru hangikjöti, vegna þess að það er reykt við hrís en ekki móreyk.

 

Talið er að a.m.k. 10 eldgos hafi orðið á þessu svæði á sögulegum tíma og gosið 1783 er einna þekktast. Þá myndaðist eyja, sem var nýkölluð Núey.

Sveinn var á vetrarvertíð frá Njarðvíku, þegar hann skrifar í dagbók sína frá 30. apríl 1783 “sást Eldr uppi framan Eldeiar” og er hann því fyrsta heimild um vitni að eldsumbrotunum. Hér er verið að tala um Eldey utan við Reykjanesskaga.

 

 

 

 

Úr Þjóðskjalsafni Íslands:

B12 23 45 1791 1791  Sveinn Pálsson biður um að sér verði greiddur styrkur, sem honum hefirverið veittur 7. júni 1791.

 

B12 24 31 1791 1791   Stjórn danska náttúrufræðifélagsins skýrir frá því, að Sveinn Pálsson fái 300 dala styrk fyrsta árið, sem hann ferðast um Ísland, en tvö síðari árin verði styrkurinn miðaður við þarfir, og gert ráð fyrir 250-300 dölum á ári. 28. september 1791. Með fylgja uppköst, vitnisburðir kennara um Svein Pálsson og bréf frá Sveini til rentukammersins Isl.Journ. 8, nr. 850, 1398 og 1872.

 

 

 

 

Dánargjöf:

Sjóðurinn er dánargjöf Sigurgeirs Einarssonar, sem fæddist 20. apríl 1871 en lést 11. apríl 1953. Sjóðurinn er rúmlega hálfrar aldar gamall. Sigurgeir var kaupsýslumaður og bjó að Vesturgötu 28 í Reykjavík. Hann ánafnaði Seltjarnarneshreppi öllum eigum sínum með arfleiðsluskrá dag. 11. ágúst 1952. Til úthlutunar kom samkvæmt skiftagjörð 30. mars 1954 kr. 1.036.930.oo

Tilgangur sjóðsins er:

1. Að reisa myndarlegt sjúkrahús á Seltjarnarnesi til minningar um læknana Bjarna Pálsson landlækni, sem bjó að Nesi við Seltjörn og tengdason hans Svein Pálssonhéraðslækni í austurhéraði suðuramtsins. Ósk gefanda var sú að sjúkrahúsið yrði reist á sandinum sunnan við heimreiðina að Nesi en var þó ekki skilyrði fyrir gjöfinni. Þessi ósk gefandans um að reisa sjúkrahús við Nesstofu hefur ekki rætst og mun fénu án efa verða varið í svipaða eða skylda framkvæmd í náinni framtíð. (Netblaðið Nes í mars 2006)

 

 

 

Í Landsbókasafni : er ÍB, 2-4, svo sem er eiginhandrit Sveins læknis Pálssonar af almanökum, með dagbókum, minnisgreinum og athugunum skráðum á árunum 1779-1840.

(Nb. Í sambandi við fleira af því sem að Sveinn hefur skrifað er Feðrabók Sveins Pálssonar 1945 afrituð af Haraldi Jónssyni hreppstjóra í Breiðavíkurhreppi. Afrit Haraldar eru geymd í stofnun Árna Magnússonar á Íslandi)einnig má finna “Æfisaga Sveins Pálssonar eftir sjálfan hann, Ársrit Fræðafjelagsins X, 1-56)

Faðir Sveins Pálssonar var:

Páll Sveinsson

Fæddur 1724. Látinn í Mælifellssókn, Skagafirði 31. mars 1804. Bóndi, silfursmiður og hreppstjóri á Steinsstöðum í Reykjasókn, Skagf.1801. Skrifari hjá Þorsteini sýslumanni á Víðivöllum. Páll eignaðist einn son fyrir hjónaband: Jón 1751-1839, barnsmóðir var Guðrún Högnadóttir 1730. Eiginkona Páls var Guðrún Jónsdóttir 1732-1791, þau giftu sig 24.09 1761, húsfreyja á Steinsstöðum og yfirsetukona. Þau eignuðust sjö börn: Sveinn 1762, Þorsteinn 1764-1834, Jón 1765, Eiríkur 1769-1825, Benedikt 1772-1825, Guðrún 1773-1806, Guðrún 1773-1773.


Sagt er um Guðrúnu konu Páls að hún hafi verið góð kona og gáfuð og einstök yfirsetukon á sinni tið. Guðrún var hagorð og batt einu sinni nafn sitt í bögu þessari:


Nema þú viljir nistils eir

nafnið hafa bundið;

einu sinni og aldrei meir,

er á steini fundið.

 

Faðir Páls Sveinssonar var:

Sveinn Pálsson

Fæddur 19. september 1688. Látinn 12 desember 1757. Prestur í Goðdölum í Vesturdal, Skag. Var í Brautarholti í Kjalarneshr.Kjós. 1703. Skólapiltur í Skálholti. Sveinn átti eina dóttur utan hjónabands Björg 1726-1768, barnsmóður er ekki getið. Eiginkona Sveins var Guðrún Þorsteinsdóttir fædd 4. mars 1693, látin 5. desember 1766. Þau giftu sig 24.11 1720, hún var á Hólum í Hjaltadal, Hólahreppi, Skag. 1703, prestfrú í Goðdölum. Þau eignuðust sjö börn: Jón 1723-1798, Páll 1724, Einar 1727-1799, Þorbjörg 1727-1795, Oddur 1729-1805, Guðrún um 1730, Krákru 1731-1805.

 

Faðir Sveins Pálssonar(1688) var:

Páll Sveinsson

Fæddur 1650. Látinn í júlí 1736. Prestur í Brautarholti á Kjalarnesi, Kjós. 1703, Prestur í Brautarholti 1681-1710, Prestur í Miðdalaþingum og bjó þá í Snjóksdal í Miðdölum, Dal. 1712-1713. Prestur í Goðdölum í Vesturdal Skag. Frá 1713 til dauðadags. “Stundum samviskuþungur”, segir Espólín , “Velgefinn en talinn nokkuð þrasgjarn enda þunglyndur og veill á geði”, segir í Dalamönnum. Var á Skrauthólum, Kjalarnesi, Kjós. 1681. Kona hans var Þorbjörg Oddsdóttir 1664, prestsfrú í Brautarholti, Kjalarnesi Kjós. 1703. Þau giftus sig 1682. Þau áttu sjö börn: Ingibjörg 1683, var í Brautarholti 1703, Björg 1684-1759, var í Brautarholti 1703, husfreyja á Skriðuklaustri og Viðivöllum, Múl., Sesselja 1685-1736, var í Brautarholti 1703, eftir að Sesselja átti seinni mann sinn “varð hún þegar brjáluð”, segir Einar prófastur, Sveinn 1688, Elísabet 1692-1736, húsfreyja á Hamarendum, var í Brautarholti 1703, barnlaus, Þorbjörg 1693, var í Brautarholti 1703, Jón 1696, var í Brautarholti 1703, dó í bólunni 1707(sbr.Setbergsannál IV 1 bls. 104). Páll fékk þing eftir Jón prest Oddsson Oddssonar að Skrauthólum á Kjalarnesi.

Þorbjörg kona Páls Sveinssonar var dóttir Odds Eiríkssonar, sem fæddur var á Fitjum í Skorradal um allraheilagramessuskeið  í mánaðamótin ot.-nóv. Hann var sonur Eiríks Oddssonar, sem sumir kölluðu “hinn heimska” af því hann þótti hjárænulegur í háttum og hjákátlegur í orðum og móðir Odds var síðari kona Eiríks, Þorbjörg Bjarnadóttir dóttir Bjarna Oddssonar sýslumanns á Burstafelli. Eiríkur þessi faðir Odds var sonur Odds biskups Einarssonar í Skálholti og eflaust skírður eftir Eiríki stúdent bróður Odds biskups, sem lést við háskólann.

Oddur tengdafaðir Páls Sveinssonar var settur til mennta í Skálholtsskóla árið 1651 11 ára gamall og var hann þar í níu ár. Fyrir skólavist Odss fékk Brynjólfur biskup frá Eiríki föður Odds 5 hndr til eigna í Sólheimum í Mýrdal. Virðirst Oddur hafa verið handgenginn biskupi á skólaárunum og er oft vottur við bréfagerðir í Skálholti á árunum 1658-60. Vitnisburðurinn, sem Oddur fær frá biskupi, er hann lauk skólagöngu sinni hljómar svo: “ að hann hafi verið 9 ár í skóla, hafi hann hegðað sér vel, bæði innan skóla og utan, og kveðst ekki vita annað, en að hann sé lastvar og lýtalaus maður”. Oddur fékk Fitjar af föður sínum og var hann bóndi þar, að því er virtist vel efnaður af fasteign. Sagt er um Odd þennan á Fitjum að hann hafi verið friðsamur mjög og óáleitinn, og lifað í fullkominni kyrrð við búskap og bókiðnir, varð ekki einu sinni lögréttumaður, sem þó var oft hlutskipti heldri bænda. Oddur var tví kvæntur og átti hann alls 24 börn, þar af munu 13 hafa komist uppi

Oddur Eiríksson var höfundur af Fitjaannál(heimild: Fitjaannáll).

 

Tengdasonur Páls Pétur Þorsteinsson sýslumaður á Ketilsstöðum á Völlum, giftur Björg dóttur Páls skrifaði Ketilsstaðaannál.

 

Faðir Páls Sveinssonar var:

Sveinn Jónsson

Fæddur í Lambanesi í Fljótum 26. nóvember 1603. Látinn 13. janúar 1687 á 84. aldursári, hann var prestur í nærri 48 ár og hélt Barðsstað hartnær 38 ár segir í Vallaannál. “einn með þeim lærðustu mönnum hér á landi” segir Kjósaannáll við dánarfregn hans. Prestur á Barði í Fljótum, hyllti konung á Torfulækjarþingi, Hún 1649. Hans kona var Björg Ólafsdóttir um 1617-1690. Prestsfrú á Barði í Fljótum. Þau eignuðust tíu börn: Jón “eldri” 1641-1725, prestur á Barði í Fljótahreppi, Skag. 1703, prestur á Barði frá 1687 til dauðadags, Guðmundur um 1645-1680, konrektor á Hólum, dó ókvæntur og barnlaus, Sigríður 1648-1723, ráðskoðna á Völlum, Svarfaðardalshreppi, Eyjaf.1703, ógift og barnlaus, Krákur 1649-eftir 1717, bóndi í Holti, Fljótahreppi, Skag. 1703, stúdent, “skólagenginn, vel gáfaður, varð blindur”, segir Espólín,Ólafur um 1650, dó ungur, Steinunn um 1650, ógift, Páll 1650, Jón “yngri” 165d2-1707, fljótaráðsmaður á Hraunum í Fljótum, bóndi í Tungu, Fljótahreppi, Skag.1703, “var mjög lengi veikur og karlægur”, segir Espólín, Steinvör 1658, húsfreyja á Þykkvabæjarklaustri,Leiðavallarhreppi, Skaft. 1703, barnlaus.

 

Faðir Jóns "í-guði" Guðmundssonar var:

Guðmundur Jónsson

Fæddur um 1550. Látinn eftir 1618. Bóndi á Siglunesi við Siglufjörð.Hann eignaðist einn son Jón “í-guði” 1572, barnsmóður

er ekki getið.

 

Siglunes við Siglufjör.

 

Siglunes er nyrzta nesið milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Nesnúpur (581m) rís hvass upp af nokkru láglendi en inn með firðinum eru hinar snarbröttu Nesskriður. Aðalbyggðin var fyrrum á Siglunesi með kirkju og prestsetri. Sagt er að 50 manns hafi farist í snjóflóði þar við tíðir í kirkjunni árið 1613. Næsta ár var sóknarkirkjan flutt til Hvanneyrar og útkirkja stóð á Siglunesi til 1765.

 

Úti fyrir nesinu eru hættulegar grynningar, sem heita Hellur. Sjór var sóttur frá Siglunesi víða að af landinu um langa hríð og mikið var veitt af hákarli. Siglunes er í eyði en austan þess er Rayðará við mynni Nesdals er í byggð. Á þessum

Faðir Sveins Jónssonar(1603) var:

Jón “í-guði” Guðmundsson

Fæddur 1572. Látinn um 1650. Bóndi á Siglunesi, Siglufirði. Hann var giftur Steinvöru Ólafsdóttur fædd um 1575, látin eftir 1634, húsfreyja á Siglunesi á Siglufirði. Þau áttu fimm börn: Þuríður um 1600, húsfreyja í Höfða, Sveinn 1603, Guðmundur um 1610-1664, bóndi á Siglunesi, Siglufirði, drukknaði, Guðmundur um 1610, bóndi á Þóroddsstöðum, Ólafsfirði, Ólafur um 1610, drukknaði nýkvæntur.

Siglunes er nyrzta nesið milli Siglufjarðar og Héðinsfjarðar. Nesnúpur (581m) rís hvass upp af nokkru láglendi en inn með firðinum eru hinar snarbröttu Nesskriður. Aðalbyggðin var fyrrum á Siglunesi með kirkju og prestsetri. Sagt er að 50 manns hafi farist í snjóflóði þar við tíðir í kirkjunni árið 1613. Næsta ár var sóknarkirkjan flutt til Hvanneyrar og útkirkja stóð á Siglunesi til 1765.

 

Úti fyrir nesinu eru hættulegar grynningar, sem heita Hellur. Sjór var sóttur frá Siglunesi víða að af landinu um langa hríð og mikið var veitt af hákarli. Siglunes er í eyði en austan þess er Rayðará við mynni Nesdals er í byggð. Á þessum

 

Faðir Guðmundar Jónssonar var:

Jón “prinni” Jónsson

Fæddur um 1525. Látinn 1609. Prestur á Bergsstöðum í Svartárdal, Hún. 1556-1563, Felli í Sléttuhlíð, Skag. 1576-1582 og á Siglunesi, Eyj. Frá 1582 til dauðadags. Drukknaði í Hraunaósi í Fljótum. Hann sagði hvar hann myndi liggja, Barðakirkju, þá hann reið út um þann sama dag. Óvíst er um uppruna Jóns en “talið hefur þó verið líklegt að hann hafi verið Húnvetningur, sonur Jóns Guðmundssonar bónda á Reykjum í Miðfirði Ólafssonar”, segir í Hvanneyrarhr. Espólín segir hann Guðmundsson. Hann átti fjögur börn, en móðir er óþekkt: Guðmundur um 1550, Vigfús um 1566-1586, lærði prentiðn, varð geðveikur og svipti sig lífi, hann hengdi sig hjá altari í Hóladómkirkju, Jón um 1570, bóndi í Lambanesi í Fljótum,síðar á Hróflsstöðum en síðast á Siglunesi við Siglufjörð, Sigríður um 1590, húsfreyja á Ysta-Móa í Flókadal.

 

prinni=teinn úr járni úr skyttu í vefstól

 

Um Vigfús bróður Guðmundar ættföður okkar segir m.a.

Sagt er að Vigfús hafi lært prentiðn og trúlega að Hólum í tíð  Guðbrands biskups Þorlákssonar. Líkurnar á því að Vigfús hafi lært prentiðn að Hólum dreg ég af því að að prentsmiðja sú er Jón Arason flutti inn var á Hólum í tíð Guðbrands biskups og hvu hann hafa prentað yfir 100 bókatitla ásamt þeirri staðreynd að Vigfús hengdi sig við altarið í Hóladómkirkju. 

 

Til gamans má geta þess að altaristaflan er frá tímum Jóns Arasonar f. 1484-d.1550.

 

Í Skarðsannál við árið 1586 segir m.a.:

“þennan vetur gerðist sá undarlegi tilburður á Hólum í Hjaltadal að einn uppvaxtarmaður, Vigfús að nafni, sonur séra Jóns. sem kallaður var prinni af Siglunesi, hver verið hafði í skóla, en þá skikkaður í prenthús, hengdi sig sjálfur í snæri í Hólakirkju hjá altarinu. Biskup herra Guðbrandur fann hann fyrstur manna, því hann hafði þar nærri sér í snöruna komið, sem biskup var vanur að gera sína bæn um kveld og morgun

 

Tíðarfar

Mikill harðindakafli gekk yfir landið 1694-1701. Hafís barst upp að landinu 1695 og um kringdi það frá Látrabjargi í vestri og austur þaðan og suður með Austurlandi, síðan vestur með suðurströndinni og allt að Hítarósi. Næsta ár var með eindæmum hart að sögn annála, fénaður féll af fóðurskorti og ekki varð á sjó róið vegna illviðra og lagnaðarísa. Þetta var annað harðindaárið í röð, en undir slíkum kringumstæðum varð oft bjúfjárfellir á fyrri öldum. Hart var í ári næsti ár. Mikill hafís var við landið 1699. Harðindakafla þessum slotaði 1702. Árferði var síðan bærilegt næstu hálfa öld, ef á heildina er litið. Sjötti áratugur 18.aldar var harður, venjulega teljast harðindi þessi hafa hafist 1751. Það sem af var aldarinnar skiptust á harðindakaflar og þolanlegt árferði.

Telja verður að landið hafi gengið úr sér á 18.öld, uppblástur aukist og ýmis landgæði minnkað. Talið er að landið hafi verið farið að ganga úr sér 1700 og hnignun haldið áfram alla öldina. Jöklar gengu fram á 18. öld. Eldgos og jarðskjálftar voru manneskju og landi erfið á 18.öld.

Hér með lýkur færslum á ættum Sveins Jónssonar, föður Jörundar Sveinssonar, föður Hildar Jörundsdóttur.